Þá er 4. umferð ensku úrvalsdeildarinnar lokið en okkar menn sigldu heim 3 stigum manni færri eftir vægast sagt skrautlegan leik. José Mourinho skellti Fellaini inn á miðjuna í staðinn fyrir Fred sem átti ekki sérstakan leik gegn Tottenham fyrr í vikunni. Sanchez og Linfelöf komu líka báðir inn en Mourinho stillti upp í frekar hefðbundið 4-3-3 á meðan Burnley stillti upp í 4-4-2.
Bekkurinn: Lee Grant, Eric Bailly, Marcus Rashford (rautt), Anthony Martial, Ashley Young, Ander Herrera og Fred.
United spiluðu í nýju bleiku búningunum, en það virðist ætla að vera ágætis lukka sem fylgir honum. Annars byrjaði leikurinn á mínútu þögn en strax og leikurinn hófst var greinilegt að okkar menn mættu með rétt hugarfar inn í þennan leik, nokkuð sem hefur skort undanfarið. Fyrsta færi United kom eftir langa sendingu bakvið Burnleyvörnina þar semLukaku náði að koma boltanum á Sanchez sem fann Lingard en skot hans rétt framhjá. Stuttu síðar á Luke Shaw skot eftir að hafa leikið á tvo varnarmenn en Joe Hart á ekki í neinum vandræðum með. Skemmtilega upphafsmínútur og greinilegt að menn ætluðu sér stóra hluti í þessum leik.
Á 8. mín kemst Valencia í kjörstöðu til að senda fyrir eftir mjög fallegt spil þar sem Lingard er enn og aftur maður sem á skotið en hittir boltann illa og Hart nær að slá hann frá. Innan við mínútu síðar á Lingard aftur skot en hann virtist vera allt í öllu hjá okkur í sókninni sem var ánægjulegt að sjá.
Örlítil ró færðist yfir leikinn og okkar menn fóru að reyna fleiri háa bolta inn fyrir vörn Burnley sem virtist ekki skila miklu. Fyrst á 17. mínútu náðu Burnley menn að halda boltanum í nokkurn tíma sem endaði með sókn sem skila þeim aukaspyrnu hægra megin við vítateiginn okkar eftir klunnalegt brot hjá Sanchez. Sem betur fer fyrir okkur var 18 ára táningu sem tók spyrnuna en hún var afleit og bæði yfir og framhjá markinu.
Eftir smávegis pressu hjá heimamönnum komst United í sókn, sem virkaði ansi óspennandi frá upphafi sem gékk mjög hægt fyrir sig. En á endanum kom Shaw boltanum á Sanchez sem tókst að koma háum bolta fyrir markið sem rataði beint á belgískan koll sem skallaði boltann framhjá varnarlausum Joe Hart í markinu. Virkilega gott að ná loksins fyrsta markinu enda hefur United undir stjórn José Mourinho frábært vinningshlutfall í þeim leikjum þar sem við skorum fyrst. Í síðustu 23 leikjum sem liðið hefur átt fyrsta markið hefur liðið fullt hús stiga.
http://gty.im/1026165078
Lítið markvisst gerðist í leiknum þangað til á 36. mínútu þegar allt leit út fyrir að United væri að fara bæta öðru markinu við, Sanchez, Lukaku og Lingard brunuðu í skyndisókn á tvo varnarmenn Burnley, þar sem Lukaku komst í gott skotfæri en Hart gerði virkilega vel í markinu, kom út og gerði sig stóran og varði skotið. Hinu megin á vellinum virkuðu Burnleymenn aldrei neitt sérstaklega líklegri til að jafna leikinn og höfðu ekki átt skot á rammann. Reyndar áttu þeir bara eina tilraun í fyrri hálfleik og hún rataði framhjá.
Leikurinn róaðist svolítið eftir þetta en rétt áður en flautað var til hálfleiks komst United í álitlega sókn, eftir fallegt spil endaði boltinn hjá Lukaku á vítateigspunktinum sem renndi honum enn og aftur á Lingard sem átti skot sem var varið en boltinn barst til Lukaku eftir að hafa viðkomu í tveimur varnarmönnum Burnley. Sá þakkaði pent fyrir sig og renndi boltanum snyrtilega framhjá Hart aftur. 0-2 í hálfleik og sóknarleikur liðsins virtist vera að hrökkva í gang.
Seinni hálfleikur
Síðari hálfleikur fór frekar rólega af stað þar til 52. mín þegar brotið var á Lingard á okkar vallarhelming og Smalling tók spyrnuna, setti háan bolta inn í teig Burnley þar sem Sanchez steindrap boltann en missti hann svo framhjá Hart og markinu. Marcus Rashford kom svo inná fyrir Sanchez á 60. mín og þá fór heldur betur að draga til tíðinda. Stuttu síðar átti Burnley fyrstu marktilraunina á rammann en de Gea átti svo sem ekki í neinum vandræðum með slakan skalla frá Sam Vokes.
Burnleymenn virtust fyllast eldmóði í kjölfarið og sóttu af krafti en voru enn bitlausir og virkuðu ekki líklegir. Næstu til að eiga færi var Luke nokkur Shaw eftir frábæran undirbúning frá Lukaku en Hart bjargaði í horn. Aftur komst United í sókn þar sem Lukaku setti boltann inn í boxið og Lingard reyndi bakfallsspyrnu en hitti ekki boltann. Rashford hins vegar fékk boltann en brotið var á honum og dæmd vítaspyrnu sem Pogba tók. Eftir tilgangslausa tilhlaupið fræga þá lét Pogba Hart verja frá sér og staðan því enn 0-2 en það sem gerðist næst átti eftir að hleypa lífi í leikinn.
Embed from Getty Images
Rashford komst á siglingu upp vinstri vænginn og kemst upp að endalínu en Phil Bardsley tæklaði hann og virtist svo sparka til hans. Sá ungi hljóp heldur betur á sig og setti ennið í höfuðið á téðum Bardsley en uppskar fyrir vikið rautt spjald meðan heimamaðurinn slapp með gult. Rashford búinn að vera inn á í rétt um 10 mínútur en spurning hvort þeir hefðu ekki báðir átt að fá rautt.
Í næstu sókn komst svo Lukaku enn og aftur inn fyrir vörn Burnley en Hart sá við honum og í raun var hann besti maður Burnley í dag. Á 79. mínútu fékk Lukaku ENN og AFTUR dauðafæri eftir frábæra sendingu frá Pogba þar sem hann skildi Ben Mee eftir og tók tvöföld skæri framhjá Joe Hart og virtist þrennan loksins steinliggja fyrir honum með opið mark en Mee tókst að trufla belgann nógu mikið til að hann náði ekki að skora. Það var eins og æðri máttarvald væri búið að segja „Nóg komið, Rom!“ því inn vildi boltinn ekki. Sama hvað hann reyndi.
Undir lok leiksins komst Lukaku inn fyrir Ben Mee rétt eina ferðina en Mee gerði sér lítið fyrir og greip boltann en í staðinn fyrir að dæma aukaspyrnu rétt fyrir utan teig fékk United innkast. Greinilega þrír markmenn inn á vellinum. Afskaplega skrýtið allt saman en greinilega ekki besti dagurinn hjá Ben Mee en ótrúlegt að hann hafi sloppið við spjald í þessum leik. Síðustu færi leiksins féllu svo reyndar til Burnleymanna sem fengu hornspyrnu og úr því komu tvær marktilraunir þar sem de Gea þurfti að vera á tánum í fyrsta sinn í leiknum.
Pælingar eftir leikinn
Liðið gerði nákvæmlega það sem búist var við af því. Menn mættu með rétt hugarfar og byrjuðu leikinn af krafti, náðu stjórn á leiknum, sköpuðu sér færi og gáfu nánast engin færi á sér. Lukaku hefði hæglega geta sett önnur tvö mörk en færanýting hans er örlítið áhyggjuefni. Hart sá við honum trek í trek þegar hann var kominn einn inn fyrir maður-á-mann. Engu að síður er hann langbesti framherjinn okkar enda með mark í öðrum hverjum leik (38 leikir og 19 mörk) og gríðarlega góð kaup. Fellaini kom inn á miðjuna og hjálpaði til við að ná stjórn á leiknum og sama hvaða álit fólk hefur á honum þá var hann gífurlega vinnusamur í gegnum leikinn og virkilega sterk innkoma hjá honum.
Vörnin okkar hélt hreinu í fyrsta sinn á tímabilinu, hvort Smalling og Lindelöf séu svarið við „bestu mögulegu miðvarðarsamsetningu“ okkar verður bara að koma í ljós en þeir virtust ekki stíga feilspor í þessum leik og Lindelöf var allt annar en í Tottenham leiknum. Það reyndi ekki á David de Gea fyrr en loksins í uppbótartíma sem verður að teljast viðunandi, allt fram að því voru æfingaboltar fyrir hann.
Luke Shaw heldur áfram að vera frábær og jafnvel svartsýnustu menn farnir að leyfa sér þann blauta draum að tímabilið í ár verði tímabilið þar sem hann mun loksins springa út. Hann var mjög flottur í dag, gríðarlega sókndjarfur og náði vel saman með Lingard og Sanchez á vinstri vængnum. Valencia var mun passívari í dag líklega til að gefa Shaw meira frelsi fram á við.
Paul Pogba átti ekki sérstakan dag en átti þó nokkrar heimsklassa sendingar sem sköpuðu mikla hættu, sá þarf heldur betur að fara að sýna sitt rétta andlit í United-treyjunni.
Alexis Sanchez var mjög góður í dag og átti fyllilega skilið að spila lengur en í klukkustund, sérstaklega í ljósi þess að skiptimaðurinn entist í tíu mínútur á vellinum. En þó Lukaku hafi sett tvö mörk í dag myndi ég segja að Jesse Lingard hafi verið maður leiksins, krafturinn í liðinu og spilamennska þess er bara mun öflugri og hnitmiðaðri með hann á vellinum. Hann óð í færum og virðist ná að tengja vel saman Pogba-Sanchez-Lukaku og verð ég hissa ef hann verður ekki í næsta byrjunarliði United en gaman að sjá hve mikið hann hefur vaxið og dafnað sem leikmaður undir Mourinho.
Sama verður ekki sagt um Rashford sem átti afleita innkomu. Fiskaði reyndar vítaspyrnu en lét svo henda sér í snemmbúna sturtu fyrir að láta skapið hlaupa með sig í gönur en ég ætla að leyfa mér að fullyrða að ef hann væri 3-4 árum eldri hefði hann ekki brugðist svona við en vonandi lærir hann af þessu.
Mikið hefur verið rætt um að þetta hafi verið ‘do-or-die’ leikurinn hans Jose Mourinho en hvað sem því líður er greinilegt að liðið hefur tekið fyrsta skrefið til að forðast krísuna sem hékk yfir liðinu eins og þrumuský undanfarna daga/vikur. Það er þó ekki slakur árangur að vera kominn með 24 sigurleiki í síðustu 24 leikjum þar sem liðið skorar á undan mótherjanum. Það er bara spurning hvort við þurfum ekki að leggja meira púður í sóknarleikinn strax frá upphafsmínútum leiksins og freista þess að skora fyrst?
En vonandi nær liðið að byggja ofan á þennan sigur og þá kannski fer fjölmiðlaumfjöllunin og almenn umræða um United að færast upp úr þessari bölvuðu neikvæðni og bjartari tímar taka við. Næsti leikur liðsins er útileikur við Watford sem er á virkilegu flugi þessa dagana og sigraði til að mynda Tottenham á sama tíma og við tókum Burnley. Þeir eru með fullt hús stiga og virðast til alls líklegir svo það verður töluvert erfiðari leikur en leikurinn í dag.
Karl Garðars says
Djöfuls brekka að hafa ekki hnoðað Fellaini í Fantasy liðið. Hann er að fara að setja eitt.
Auðunn says
Flottur fyrrihalfleikur hjá United og taktík liðsins að ganga upp.
Það er bara að halda áfram á þessari braut.
Veit samt ekki með þessa búninga 😪 eru ekki að skora hátt hjá mér.
Að sjá Fellaini í bleiku er líklega mesta turn off sem sést hefur knattspyrnuvelli so far 😃
Herbert says
Jonathan Moss á leiðinni í frí…… Dómgæslan brandari! Bardsley og Ben Mee ættu að vera farnir útaf.
Ingvar says
Mjög flottur fyrri hálfleikur, virkuðu ákveðnir og öruggir með leikinn í höndum sér. Kærulaus seinni hálfleikur finnst mér, vítið, rashford, færin hjá rom, og einhvernveginn ætluðu bara minnka tempó og láta tíman líða frekar en að klára leikinn. En 3 stig og allt á uppleið.
GGMU
Rúnar Þór says
Veit samt Lukaku ekki að það er hægt að vippa?
3 færi þar sem hann er 1 vs gk og getur bara vippað þegar Hart kemur á móti
Karl Garðars says
Góð 3 stig og hreint lak. Hrikalega sterkt að halda þetta út manni færri. Sammála Herbert. Þetta dómaratríó var að eiga afleitan leik.
Aulagangur hjá Rashford að missa hausinn svona. Það er um að gera að skammast aðeins og mögulega fara kassa í kassa ef menn eru albrjálaðir en ég skil ekki hvað menn þurfa alltaf að vera að setja hausinn á undan sér.
Mér fannst Fellaini mjög fínn í leiknum og hann ásamt Matic létu vörnina líta vel út. Ég er eins og venjulega alls ekki sammála þér Auðunn með Fellaini í bleiku. Þetta er þvílíkt kyntröll! :)
Luke Shaw var frábær og Alexis flottur. Lukaku er alveg að komast á skrið og ég spái 30+ mörkum frá honum í deildinni.
Fíllinn í herberginu. Hvað er málið með Pogba? Mér finnst hann vera eitthvað misplaced m.o.m alla leiki. Hann á síðan frábærar sendingar yfir völlinn þveran og endilangan og teygði ágætlega á spilinu á smá kafla þegar hann færði sig yfir á hægri. En þess á milli er hann staður og týndur. Ég ætla ekki að tala um þessa vítaspyrnu.
Hjöri says
Er ekki Pogba einn af þessum heimsklassaleikmönnum sem menn vilja kalla svo, en sést svo ekki tímunum saman í leikjum ja þvílíkur heimsklassi. Lukaku þarf að fara að æfa sig betur í einvígi við markmenn, klikkar of oft á því.
Cantona no 7 says
Góður sigur og nauðsynlegur.
Lið eins og Burnley eigum við alltaf að vinna.
En betur má ef duga skal leikmenn verða að sýna fyrir hvaða lið þeir spila
og verða að bæta sinn leik eins og t.d. Pogba sem virðist ekki nenna að leggja sig fram.
Við þurfum leikmenn sem leggja sig alltaf 100 % fram fyrir klúbbinn.
Þeir mega fara sem átta sig ekki á því að þeir spila fyrir stærsta klúbb í heimi.
G G M U
Halldór Marteins says
Hvílík innkoma hjá Fellaini í byrjunarliðið í dag. Var algjör klettur í þessum leik og tók sig að vanda vel út í United-treyjunni.
Sumir hafa auðvitað reynt að halda því fram að Fellaini sé lélegur í fótbolta, sem er augljóslega rangt. En aðrir hafa talað um að þeir einfaldlega fíli ekki fótboltann sem Manchester United spilar þegar Fellaini er inná vellinum. Ég get betur skilið þann punkt, þótt mér finnist hann ekki endilega alltaf eiga rétt á sér.
En þessi leikur er mjög skýrt dæmi um það hvernig innkoma Fellaini getur haft jákvæð áhrif á spilamennskuna. Hann kom þarna inn til að passa vel upp á miðvarðaparið hjá United, hann var eins og hálfgerður stóribróðir á skólalóðinni sem passar að litlu bræður sínir lendi ekki í neinu böggi frá skólabúllíinum. Smalling og Lindelöf gátu alltaf treyst á hann og lentu því sáralítið í veseni.
Að sama skapi gerði þetta bakvörðunum og Pogba kleift að fá meira frjálsræði fram á við, sérstaklega í fyrri hálfleik. Það hversu vel Fellaini sinnti sínu hlutverki átti því beinan þátt í að aðrir leikmenn gátu sinnt sóknarhlutverki sínu betur og því varð innkoma hans til þess að United spilaði betri sóknarbolta. Svo þegar þurfti að verja forskotið þá var Fellaini einmitt frábær í því líka og lykilmaður í því að Burnley skapaði nánast ekki neitt. Þetta var mjög öruggur sigur, að miklu leyti Fellaini að þakka.
Og svo átti Lingard líka flottan leik. Virkilega góður dagur fyrir okkur í #teamVanmetnir
Heiðar says
Nokkrir punktar í umræðuna.
– Flottur leikur hjá Lukaku. Varnarmenn Burnley voru eins og börn þegar þeir reyndu að halda honum. Hefði átt að fá annað víti þegar hann lék framhjá Hart og féll niður einn á móti marki. Hafandi sagt það þá er erfitt að vera eini strikerinn í United – því fylgja miklar kröfur. Hann verður að fara að nýta færin sín almennt betur. Það kostaði okkur ekki í dag en gerði það gegn Spurs og mun gera aftur.
– Ég hreyfst af Luke Shaw í sóknaruppbyggingu okkar manna. Mikið óskaplega munar um að hann sé kominn í stand og með sjálfstraustið í lagi. Það er líkt og við séum komnir með nýjan 80 milljón punda leikmann!
– Fellaini flottur í dag. Enn og aftur sýnir hann að það er engin tilviljun að nafn hans sé enn að finna í herbúðum Man.Utd.
Pillinn says
Loksins sigur sem var aldrei í hættu. Voru mikið betri allan leikinn en ekki má taka það af þessu Burnley liði að þeir voru mjög lélegir og hafa verið mjög slakir það sem af er. En við tökum öruggum sigri fagnandi.
Þeir sem stóðu uppúr fannst mér Shaw, Fellaini, Pogba, Lingard. Þá fannst mér Alexis flottur og Lukaku var góður en hann þarf svo svakalega að fara að bæta þessa færanýtingu. Þetta er algjört grín. Veður í færum en skorar bara í svona 30% tilfella.
Sá allra versti í þessum leik var svo Jonathan Moss. Enn og aftur sýnir hann að hann á ekki að sinna þessu dómarastarfi. Hann kemst ekki í gegnum leik án hrikalegra mistaka og nú raðaði hann mistökunum upp. Fannst mjög einkennilegt að Bardsley hafi haldist inná. Fannst hann vinna sér auðveldlega inn tvö spjöld í Rashford atvikinu. Að Mee skuli svo hafa klárað þennan leik er óskiljanlegt, tvisvar átti hann að fá beint rautt en fékk ekki einu sinni gult. Ég vona allavega að Moss dæmi ekki leik aftur hjá Utd á þessu tímabili. Ég er ekki að meina að hann sé eitthvað hlutdrægur, hann er bara svo arfa slakur.
En þetta leit allt mun betur út, leit reyndar svipað og móti Tottenham nema að við gerðum ekki þrjú einstaklingsmistök í þessum og nýttum tvö færi, þó við hefðum átt að nýta fleiri. Þannig að vona að sé bara gleði framundan hjá okkur :)