Frank Lampard mætir með lærisveina sína í Derby á Old Trafford annað kvöld í þriðju umferð enska deildabikarsins. José Mourinho og Lampard þekkjast vel enda lék sá síðarnefndi undir stjórn Portúgalans hjá Chelsea við góðan orðstír; þeir unnu svo þessa ágætu keppni saman í tvígang.
Eftir enn eitt svekkelsið gegn Úlfunum í úrvalsdeildinni um helgina er ekki við öðru að búast en að breytt lið hafi betur gegn B-deildarliði Derby, annað væri skellur. Liðið hefur farið ágætlega af stað undir stjórn Lampard sem tók við í sumar, situr í 6. sæti með fimm sigra í níu leikjum.
Í deildabikarnum hefur Derby spilað tvo leiki. Fyrst vannst 2:0-útisigur á D-deildarliði Oldham áður en gerð var góð ferð til Hull, sem leikur einnig í B-deild. Þar vannst 4-0-stórsigur. United mætti Derby í undanúrslitum keppninnar í janúar 2009. Þar töpuðu okkar menn 1-0-á Pride Park en unnu svo 4-2-í fjörugum leik á Old Trafford. Markaskorar þann daginn? Nani, John O’Shea, Carlos Tevez og Cristiano Ronaldo, góðir tímar. United vann svo Tottenham í úrslitaleiknum á Wembley eftir vítakeppni.
Að öllum líkindum verða einhverjar breytingar á liðinu á morgun. Mourinho hefur staðfest að Diogo Dalot leiki sinn annan leik fyrir félagið annað kvöld og þá hafa Phil Jones og Ander Herrera náð sér af meiðslum. Marcus Rashford tekur út þriðja og síðasta leikinn sinn í banni og Marcos Rojo er sá eini á sjúkralistanum.
Hjá Derby er gamli jálkurinn David Nugent gjarnan valinn sem fremsti maður og honum til stuðnings er hinn leifturhraði Jack Marriott. Margreyndi varnarmaðurinn Curtis Davies hefur verið á meiðlalistanum og er ólíklegur til að taka þátt annað kvöld. Þá keypti Derby sóknarmanninn Martyn Waghorn fyrir stórfé frá Ipswich í sumar. Hann hefur ekki enn fundið sitt besta form, aðeins skorað eitt mark til þessa, en Englendingurinn skoraði 16 mörk í B-deildinni í fyrra og reynist oft drjúgur þegar á reynir.
Sindri says
Cup set!
Það að Herrera sé orðinn heill eru bestu fréttir sem ég hef lesið það sem af er tímabili. Finnst Herrera-Matic-Pogba mynda okkar bestu mögulegu miðju. Annars væri líka allt í lagi að gefa Scott the Scot leik á kostnað Pereira eða Fred. Allavega í 30 mín eða svo.
Segi 2-1, Tony Martial og Juan Manuel með mörkin. Romero bjargar okkur svo í lokin eftir að einhver undir meðalgetu skilur Jones eftir í rykinu.
GGMU.
Björn Friðgeir says
Vil sjá Alexis í kvöld. Hann fer að renna út á tíma með að sanna sig og leikur gegn veikara liði gæti verið fyrsta skrefið