Nýafstaðin helgi er líklega einhver sú skrýtnasta sem ég man eftir sem stuðningsmaður Manchester United. Þegar um 10 mínútur voru liðnar af fyrri hálfleik í leiknum gegn Newcastle var eins og jarðarför stjóratíð José Mourinho hjá United væri hafin. Það hefði ekki komið manni á óvart ef hann hefði verið látinn fjúka í hálfleik.
Það hefði reyndar verið við hæfi, tilkynningin um jarðarförina barst nefnilega kvöldið áður þegar David McDonnell blaðamaður íþróttadeildar Mirror henti í það sem hefði verið skúbb aldarinnar. Jose Mourinho verður rekinn sama hvernig leikurinn gegn Newcastle endar í lauslegri þýðingu minni á fyrirsögn greinarinnar.
https://twitter.com/MirrorFootball/status/1048311099576242176
Það vill svo til að ég er starfandi fréttamaður. Sem slíkur heyrir maður ýmislegt. Sumt fær maður staðfest, annað ekki. Ekkert fer þó í loftið nema maður hafi fyrir því pottþéttar heimildir. Yfirleitt í fleirtölu. Þetta er hin gullna regla fréttamanna. Að vísu fara ekki allir eftir henni, en flestir þó. Önnur regla, ekki síður mikilvægari, er að því stærra sem skúbbið er, því pottþéttari þurfa heimildirnir að vera.
Það að henda þessari frétt sem DiscoMirror, eins og hann kallar sig á Twitter, í loftið á föstudegi fyrir leik er risastór ákvörðun fyrir fréttamann og ritstjórn að taka. Ef við yfirfærum þetta yfir á íslenskan veruleika er þetta svona sirka sambærilegt við það að ég myndi setja frétt í loftið á Vísi á föstudegi um að Bjarni Benediktsson yrði rekinn sem fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins um þá helgi. Það myndi ég hins vegar aldrei gera nema ég hefði 200% pottþéttar heimildir fyrir því. Starfsheiður minn og trúverðugleiki sem blaðamaður væri einfaldlega að veði. Og á tímum Fake News er trúverðugleiki líklega mikilvægasta auðlind fréttamannsins.
Það er nefnilega frekar vandræðalegt fyrir viðkomandi fréttamann þegar það sem þú segir að muni gerast, gerist svo ekki. Úlfur, úlfur og allt það. Því þykist ég vita fyrir víst, svona miðað við fyrri kynni mín af McDonnell, að hann hafi fengið þau tíðindi að Mourinho yrði sparkað frá aðila sem þekkir 100% til. Og ég held að við vitum öll hver sá aðili er. Meira um það síðar.
Nýtt upphaf eða bara frestun á hinu óumflýjanlega?
Og eins og ég segi, þá var jarðarförin hafin. Tvö mörk á tíu mínútum frá afskaplega ómerkilegu liði Newcastle sem er líklega það eina sem er verr rekið, knattspyrnulega séð, en United í deildinni. Það tók í það minnsta allan fyrri hálfleik fyrir leikmenn, stuðningsmenn og bara alla aðra sem tengjast félaginu að ná einhvers konar viðspyrnu. Botninum var náð, þetta gat ekki orðið mikið verra.
Satt best að segja hélt maður líka að það væri útilokað að United myndi rétta úr kútnum og ná einhverja úr leiknum. Í fyrsta lagi hefur gengið liðsins og spilamennska að undanförnu verið þannig að maður býst ekki við miklu. Í öðru lagi hefur samband ákveðinna leikmanna og stjórans verið þannig að maður heldur að þeir verði manna fegnastir þegar Mourinho lætur af störfum. Bætum svo fréttinni á föstudagskvöldið inn í uppskriftina. Tilfinningin eftir fyrri hálfleik var einfaldlega sú að leikmennirnir hafi lesið fréttina og hugsað með sér: „Þetta er tækifærið“.
En, eitthvað gerðist í seinni hálfleik og menn hafa svo sem deilt um það hverjum það sé að þakka. Það eru skiptar skoðanir um það hvort þarna hafi sést glitta í einhverja gamla Mourinho-töfra eða hvort leikmennirnir hafi bara skammast sín svo mikið að þeir hafi tekið málin í sínar hendir. Hvort sem var er niðurstaðan sú sama. Mourinho er enn þá stjóri Manchester United.
Ég hugsa að menn ættu þó að varast það að draga of stórar og miklar ályktanir af leiknum. Þetta er ekki eitthvað nýtt upphaf United undir stjórn Mourinho. Alltof oft höfum við séð liðið undir hans stjórn ná einhverri tímamóta frammistöðu til þess eins að tapa næsta leik og þunglyndisballið byrjar á ný. Vandamálin sem voru til staðar fyrir leik eru enn til staðar. Og prófin sem eru framundan eru af stærri gerðinni.
https://twitter.com/MiguelDelaney/status/1048642823917064194
Það var hins vegar eitt í leik liðsins í seinni hálfleik sem fannst vera til eftirbreytni og ég vona að hafi opnað augu Mourinho og þjálfarateymi hans. Það er mjög langt síðan maður hefur séð jafn snarpan sóknarleik og liðið sýndi í seinni hálfleik. Þetta var eitthvað allt annað en þessi hægagangur og framtaksleysi sem ríkt hefur að undanförnu. Leikmenn voru að taka hlaup án bolta, boltinn barst hratt upp völlinn með fáum snertingum manna á milli. Hljómar einfalt en svona sóknarleikur hefur sannarlega ekki verið fyrir hendi undanfarnar vikur og mánuði. Smám saman var Newcastle liðinu þrýst svo aftarlega á völlinn að sigurinn varð eiginlega óhjákvæmilegur. Þetta var fótboltinn sem við viljum sjá.
Þetta geta leikmennirnir og þetta verða þjálfarnir að ýta undir. Annars verða þeir atvinnulausir von bráðar.
En aftur að föstudagsfréttinni
Miðað við það sem ég sagði hér að ofan finnst mér nánast óhætt að slá því föstu að Ed Woodward, eða einhver í hans umboði, hafi hringt í McDonnell með fyrrgreind tíðindi. Okkar maður ætlaði örugglega bara aðeins að kanna hvernig landið liggur og hann hlýtur að hafa haldið að fréttin myndi fá jákvæð viðbrögð, svona að mestu.
Mér finnst hins vegar merkilegt að viðbrögðin voru þveröfug. Í stað þess að menn önduðu léttar yfir því að Mourinho væri líklega á förum (Sem margir gerðu örugglega, en í bara í hljóði) braust út reiði. Reiði í garð Woodward fyrir að leka þessum tíðindum, líkt og gert var afar ósmekklega áður en David Moyes og Louis van Gaal voru reknir. Hver ætli hafi verið að verki þar?
Reiðin beindist einnig að Woodward fyrir það hvernig hann hefur haldið á stjórnartaumunum í knattspyrnumálum og reiði í garð Glazerana fyrir alla þá fjármuni sem þeir hafa sogað út úr félaginu undanfarin áratug eða svo. Woodward starfar í þeirra umboði og meðan hann er enn í starfi má álykta sem svo að hann standi sig vel að þeirra mati.
Sem hann gerir að mörgu leyti, og þá sérstaklega fjármálalega séð. Mögulega halda Glazerarnir að Manchester keppi einungis í Deloitte-deildinni en þó það sé ágætt að vera efst á blaði þar skiptir það engu ef frammistaðan innan vallar bliknar í samanburð i við önnur lið.
Og þannig er staðan núna. Maður þarf bráðum að fá fleiri hendur til þess að vera með nógu marga fingur til þess að telja hversu mörg ensk lið standa United framar inn á vellinum. Og allt hefur þetta gerst á vaktinni hjá Woodward undir áhugalausri stjórn Glazeranna. Enginn er að neita því að þeir hafi heimilað mikla eyðslu undanfarin ár en sú eyðsla hefur ekki nýst sem skyldi.
Þrír mismunandi stjórar hafa keypt mismunandi leikmenn sem henta mismunandi leikstílum. Staðan virðist meira segja vera orðin þannig að Woodward sé farinn að ákveða hvaða leikmenn séu leyfilegir fyrir United að kaupa samanber eltingarleikinn við miðvörð í sumar. Ef miðað er við listann hans Woodward yfir leyfilega miðverði virðist vænlegasti eiginleiki þeirra vera hversu vel þeir nýtist þeim fjölmörgu styrktaraðilum sem Woodward hefur sankað að sér.
Sem er auðvitað aldrei vænlegt til árangurs, inni á vellinum í það minnsta. Það sem Glazerarnir og Woodward þurfa að átta sig á er að knattspyrnufélög græða pening vegna þess að þau eru til, þau er ekki til einungis til þess að græða pening.
https://twitter.com/DanielHarris/status/1030076295986794496
Manchester United varð það fjárhagslega stórveldi sem það er í dag vegna frammistöðu innan vallar, ekki öfugt. Ef menn missa sjónar af þessu molnar undan félaginu, tímabil eftir tímabil áður en að aðeins skugginn af fortíðinni stendur eftir.
Og hver er niðurstaða þessarar greinar? Ég veit það ekki. Líklega aðallega það að fólk með vit á knattspyrnu þarf að taka völdin á Old Trafford. Hið fyrsta.
Það er þetta sem Gary Neville var að reyna að segja á föstudagskvöldið, reiður inn að beini vegna fréttarinnar umræddu.
Ég hugsa að þar hafi hann talað fyrir hönd velflestra stuðningsmanna United, sama hvað þeim finnst um Mourinho. Þetta er skylduáhorf.
https://twitter.com/SkySportsPL/status/1048341096756068352
Sigurjón Arthur says
Frábær skrif Tryggvi Páll….takk fyrir þetta !
Cantona no 7 says
Gary Neville klikkar ekki frekar en fyrri daginn.
TonyD says
Flott grein og skemmtilegár pælingar. Það er sorglegt að það skuli vera að leka út úr klúbbnum svona upplýsingar og sérstaklega í ljósi þess að Móri virðist ekki njóta fulls trausts frá félaginu, sem er búið að vera að koma í ljós síðan í sumar. Það er auðvelt að benda á hann sem sökudólg og hann á mikið í vandamálunum sem við erum að glíma við. En þetta skrifast mikið á Glazeranna og Woodward líka og ég er sammála Gary að flestu leiti.
Til hvers að hafa manninn í vinnu ef honum er ekki treystandi fyrir liðinu og afhverju lá svona á að framlengja samninginn hjá honum?
Ingvar says
Flottur pistill.
Neville bjargaði starfinu hans Móra, svo einfallt er það. Var ekki séns fyrir Woodward að reka manninn eftir allt fjaðrafokið og reiðilesturinn frá Nevs.
Eitt sem er samt skrítið í þessu er að nú hópast menn að koma fram til að segja að Móri sé rétti maðurinn, hann eigi að fá meiri tíma og það væri glapræði að láta hann fara. Það er ekkert honum að kenna, spjótin beinast nær eingöngu að Woodward og Glazers. Þessir sömu menn hafa gagnrýnt Móra fyrir neikvæða nálgun á knattspyrnu yfir höfuð og tala nú ekki um alla neikvæðnina sem hann færir klúbbnum, fréttamönnum og stuðningsmönnum.
Þrátt fyrir þetta frækna comeback gegn stórliði Newcastle, þá hefur bara ekki rassgat breyst. Það fyrsta sem Móri gerði eftir leik var að væla og skæla og leika sig sem mesta fórnarlamb knattspyrnusögunar. Burt með hann svo við getum haldið áfram gakk.
TonyD says
Rétt er það að það er ekkert breyttist eftir sigurinn með Newcastle og Móri er að berjast fyrir starfinu sínu og er ekki rétti maðurinn í starfið til lengri tíma. Fáir myndu missa svefn ef hann færi og nýr stjóri ráðinn. Að því sögðu, leysist vandinn ekki alfarið við það að skipta um mann í brúnni og vandamál sem verður að horfast í augu við verður enn til staðar. Ed og eigendurnir verða ennþá og er eitthvað sem tryggir að nýr stjóri fái að gera það sem þarf til að koma liðinu á toppinn aftur?