Eftir vonbrigðin sem fylgdu því að missa unninn leik niður í jafntefli í blálokin á brúnni er komið að næsta leik. Meistaradeild Evrópu heldur áfram og það er ekkert smálið sem kemur í heimsókn á Old Trafford í þessari umferð. Margfaldir Ítalíu- og Evrópumeistarar Juventus frá Tórínó. Félag sem hefur verið eitt af stóru liðunum í Meistaradeildinni síðustu ár, lið sem þekkir það vel að ná langt í þessari keppni og hefur gert kaup sem sýna að það stefnir á að landa titlinum. Þetta verður erfitt en áhugavert.
Leikurinn hefst klukkan 19:00 annað kvöld, dómarinn í leiknum verður Milorad Mažić frá Serbíu.
Fyrri viðureignir liðanna
Manchester United og Juventus hafa mæst 12 sinnum áður og það er óhætt að segja að það sé jafnræði með liðunum eftir þær viðureignir. Hvort lið hefur unnið 5 leiki, 2 hafa endað með jafntefli og bæði lið hafa skorað 15 mörk í þessum leikjum.
Fyrsta viðureign liðanna kom tímabilið 1976-77. Þá voru bæði liðin í UEFA Cup. Manchester United hafði tímabilið á undan náð í 3. sætið á sínu fyrsta tímabili aftur í efstu deild eftir fall í 2. deildina. Juventus var í keppninni eftir að hafa endað í 2. sæti á eftir nágrönnum sínum og meisturunum í Torino árið á undan. Manchester United og Juventus mættust í 2. umferð UEFA Cup eftir að Juventus hafði slegið Manchester City út í 1. umferðinni og United vann þá Ajax.
Fyrri leikurinn var spilaður á Old Trafford 20. október 1976. Gordon Hill skoraði eina mark þess leiks á 32. mínútu og Manchester United hélt til Ítalíu með 1 marks forskot. Það forskot dugði þó ekki til því Juventus vann heimaleikinn 3-0, þar sem framherjinn eitraði Roberto Boninsegna skoraði tvö mörk og miðjumaðurinn Romeo Benetti skoraði það síðasta. Juventus vann svo bæði deildina heima fyrir og UEFA bikarinn þetta tímabil. Juventus vann Athletic Bilbao í úrslitaviðureigninni á útivallarmarkareglunni, eftir samanlögð 2-2 úrslit. Þetta voru merkileg úrslit að því leyti að þetta er í eina skipti sem ítalskt félagslið hefur unnið alþjóðlega keppni með lið eingöngu skipað ítölskum leikmönnum.
Næst mættust liðin í Evrópukeppni bikarhafa tímabilið 1983-84. Þá var komið fram í undanúrslit keppninnar. Manchester United hafði slegið út Dukla Prague, Spartak Varna og Barcelona á meðan Juventus hafði sigrað Lechia Gdańsk, PSG og Haka.
Aftur fór fyrri leikurinn fram á Old Trafford, þann 11. apríl 1984. Goðsögnin Paolo Rossi kom ítalska liðinu yfir á 14. mínútu en Walesverjinn Alan Davies, sem komið hafði inn á sem varamaður á 10. mínútu fyrir John Gidman, jafnaði leikinn á 35. mínútu. Þetta var eina mark Davies á stuttum ferli með Manchester United en hann náði aðeins að spila 10 leiki með félaginu. Jafnteflið dugði þó ekki til fyrir síðari leikinn. Pólverjinn Zbigniew Boniek kom Juventus yfir á 13. mínútu. Aftur var það varamaður sem jafnaði fyrir Manchester United, Norman Whiteside náði þá að skora 7 mínútum eftir að hann hafði komið inn á völlinn fyrir Frank Stapleton. Jöfnunarmarkið kom á 70. mínútu en það var svo Rossi sem tryggði Juventus sigurinn með marki á 89. mínútu. Juventus mætti svo Porto í úrslitaleik mótsins og hafði þar betur með tveimur mörkum gegn einu.
Það leið nokkur tími þar til félögin mættust næst og þá var það á stærsta Evrópusviðinu, liðin drógust saman í riðil í Meistaradeild Evrópu tímabilið 1996-97. Manchester United mætti inn í C-riðilinn sem Englandsmeistari á meðan Juventus var ríkjandi Evrópumeistari sem hafði þó endað í 2. sæti í Serie A á eftir AC Milan. Með þeim í riðlinum voru Fenerbahçe og Rapid Vienna.
Nú var fyrri leikur liðanna spilaður í Tórínó, þann 11. september 1996. Króatinn Alen Bokšić var þarna á sínu eina tímabili með Juventus, hafði komið þangað frá Lazio eftir að hafa tekið þátt í EM 1996 með Króatíu. Hann skoraði sigurmark leiksins fyrir Juventus, ekki hans síðasta mark í keppninni. Það hafði ekki verið vænlegt fyrir Manchester United að fara með 1-0 sigur í nesti í útileikinn en Juventus mætti á Old Trafford 20. nóvember 1996 og náði þar í annan sigur. Aftur var það 1-0 sigur en þarna var það hinn stórkostlegi Alessandro Del Pierro sem skoraði markið, úr vítaspyrnu.
Juventus vann riðilinn, með 16 stig eftir 6 leiki. Manchester United endaði í 2. sætinu, með 9 stig. Bæði lið fóru því áfram. Manchester United mætti Porto í 8-liða úrslitum og vann öruggan 4-0 sigur þar. Mótherjinn í undanúrslitum var Borussia Dortmund. Þýska liðið var sterkari aðilinn og vann báða leikina 1-0. Juventus vann Rosenborg í 8-liða úrslitum, sigraði Ajax svo í miklu markaeinvígi í undanúrslitum en tapaði svo fyrir Dortmund í úrslitaleiknum.
Það var mjög stutt bið í næstu leiki liðanna því félögin drógust aftur saman í riðil í Meistaradeildinni strax næsta tímabil á eftir. Þau lentu í B-riðli, ásamt Feyenoord og Košice. Fyrri leikurinn var spilaður 1. október á Old Trafford. Þetta var í 2. umferðinni en bæði lið höfðu unnið stóra sigra í fyrstu umferðinni og komu því heit inn í þennan leik. Del Pierro byrjaði manna best og skoraði strax á fyrstu mínútunni, góð byrjun hjá gestunum. Teddy Sheringham jafnaði hins vegar á 38. mínútu. Paul Scholes kom inn á sem varamaður fyrir Nicky Butt mínútu eftir markið og hann kom United yfir í seinni hálfleiknum. Undir lok leiksins skoruðu Ryan Giggs og Zinedine Zidane báðir og lokastaðan var 3-2 fyrir Manchester United. Fyrsti sigur Rauðu djöflanna frá því í fyrstu viðureign liðanna staðreynd.
Seinni leikur liðanna var svo í lokaumferðinni. Þá var Manchester United búið að tryggja sér sigur í riðlinum á meðan Juventus var í baráttu við Feyenoord um að komast upp úr riðlinum. Juventus vann leikinn með einu marki frá Pippo Inzaghi. Juventus fór því upp úr riðlinum. Liðið gerði reyndar gott betur en það því Juventus fór alla leið í úrslit mótsins, þriðja tímabilið í röð. Juventus vann Dynamo Kiev í 8-liða úrslitum, Mónakó (sem hafði slegið okkar menn út í 8-liða úrslitum) í undanúrslitum en tapaði svo fyrir Real Madrid í úrslitaleiknum.
Þá var komið að tímabilinu 1998-1999. Hvílíkt og annað eins tímabil! Besta tímabil sem enskt fótboltalið hefur átt, það er bara ekkert öðruvísi. Á leið sinni að því að vinna þrennuna frægu þurfti Manchester United að leggja Juventus að velli í undanúrslitum. Það var dramatísk viðureign. Fyrri leikurinn var á Old Trafford, miðvikudagskvöldið 7. apríl 1999. Antonio Conte kom Juventus yfir á 25. mínútu og það stefndi í að Juventus færi með dýrmætan útisigur með sér aftur til Ítalíu þegar Ryan Giggs jafnaði leikinn á 2. mínútu uppbótartímans.
Eftir 11 mínútur í seinni leiknum í Tórínó, miðvikudaginn 21. apríl 1999, var staðan orðin 2-0 fyrir Juventus eftir 2 mörk frá Pippo Inzaghi. Roy Keane sýndi þá einhverja stórkostlegustu fyrirliðaframmistöðu allra tíma, minnkaði muninn sjálfur á 24. mínútu og keyrði svo liðið sitt áfram til sigurs, jafnvel þótt hann sjálfur vissi vel áður en leik lyki að hann fengi ekki að taka þátt í úrslitaleiknum eftir að hafa fengið afdrifaríkt gult spjald. Yorke og Cole skoruðu mörkin sem komu United áfram og í úrslitaleikinn við Bayern Munchen. Við vitum svo öll hvernig sá leikur endaði.
Liðin hafa mæst einu sinni síðan þá. Tímabilið 2002-03 mættust þau í seinni riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Þau voru þá í D-riðli, ásamt Basel og Deportivo. Fyrri leikurinn fór fram á Old Trafford 19. febrúar 2003. Það byrjaði vel fyrir United, Wes Brown kom okkar mönnum yfir á 4. mínútu. Ruud van Nistelrooy bætti við marki á 85. mínútu áður en Pavel Nedved minnkaði muninn í uppbótartíma. United náði svo líka að vinna seinni leikinn, sem fram fór tæpri viku seinna, með 3 mörkum gegn engu. Ryan Giggs skoraði 2 mörk og Ruud van Nistelrooy eitt.
Úrslitaleikur Meistaradeildarinnar þetta tímabil fór fram á Old Trafford. Það hafði verið Manchester United sérstakt keppnismál að komast í þann úrslitaleik. Af því varð þó því miður ekki. United féll úr leik í stórskemmtilegri viðureign gegn Real Madrid, þar sem meistari Ronaldo fór á algjörum kostum í seinni leiknum á Old Trafford. Hann skoraði þar þrennu og fékk verðskuldað standandi lófatak hjá áhorfendum. Juventus fór hins vegar, eitt sinn sem oftar, alla leið í úrslitaleikinn. Juventus lagði Barcelona í 8-liða úrslitum, vann svo Real Madrid í undanúrslitum áður en það tapaði fyrir AC Milan í vítaspyrnukeppni á Old Trafford í úrslitaleiknum.
Svo það hefur yfirleitt verið passlega mikið gæfumerki fyrir Juventus að mæta Manchester United. Sex sinnum hafa liðin mæst í tveggja leikja viðureignum, í fimm af þeim skiptum hefur Juventus farið alla leið í úrslitaleikinn. Fyrstu tvö skiptin unnu þeir úrslitaleikinn en síðustu 3 skipti hafa þeir tapað.
Manchester United
Frammistaðan í seinni hálfleikjum síðustu tveggja leikja hefur verið fín hjá Manchester United. Hins vegar hefur gengið í byrjun tímabils verið sveiflukennt, spilamennskan oft ósannfærandi og úrslitin ekki nógu góð.
Það á líka við um fyrstu tvo leikina í Meistaradeildinni, eftir góðan útisigur gegn Young Boys í fyrsta leik kom slöpp og ósannfærandi frammistaða gegn Valencia á heimavelli í næsta leik. Jafntefli var niðurstaðan þar, í leik þar sem hvorugt lið gerði almennilega tilraun til þess að vinna leikinn. Gestirnir voru væntanlega sáttari en okkar menn með stigið í þeim leik.
Það er þó ekki vænlegt til árangurs að ætla sér að komast upp með álíka slaka frammistöðu í þessum leik og samt fá eitthvað út úr leiknum.
Það er eitthvað um meiðsli ennþá. Alexis Sanchez, Phil Jones, Diogo Dalot, Scott McTominay, Marouane Fellaini og Jesse Lingard voru allir fjarverandi á mánudagsæfingunni. Hins vegar voru þar leikmenn úr yngri liðunum, þeir Tahith Chong, Zak Dearnley og Tom Sang. Góð reynsla fyrir guttana, þótt maður búist ekki við því að þeir verði nálægt hópnum á leikdegi. Eftir frammistöður sínar síðustu misseri vonar maður þó að Tahith Chong fari að fá fleiri tækifæri til að allavega æfa með aðalliðinu, ef ekki meira.
“I have plans to make him train the most possible times with us," a look at what Jose Mournho has previously said about Tahith Chong #mufc https://t.co/ckvboeWxBa pic.twitter.com/LZ6XvZ58qb
— Man United News (@ManUtdMEN) October 22, 2018
Miðað við hóp þá er spurning hvort liðið verði ekki eitthvað í þessa áttina:
Það gæti þó vel verið að Mourinho hefði eitthvað annað í huga gegn þessum öflugu mótherjum. Hvernig mynduð þið vilja sjá byrjunarliðið í leiknum?
Juventus
Juventus hefur unnið ítölsku úrvalsdeildina síðustu 7 tímabil, þar af hefur liðið orðið tvöfaldur meistari síðustu 4 ár. Félagið hefur auk þess komist tvisvar sinnum í úrslitaleik Meistaradeildarinnar á síðustu 4 árum. Þetta er frábært lið, það er á hreinu.
Það hefur líka byrjað tímabilið eins og við mátti búast. 8 sigrar í fyrstu 8 umferðunum í Serie A og liðið er á toppi deildarinnar, með 4 stiga forskot á Napoli. Það kom smá hiksti í liðið í síðustu umferð, þegar það náði aðeins 1-1 jafntefli við Genoa. Mögulega hafa leikmenn þó verið komnir með hugann meira við þessa viðureign, vitandi það að þeir væru þegar búnir að byggja sér upp gott svigrúm í deildinni.
Juventus er sömuleiðis á toppi riðilsins í Meistaradeildinni, eftir 2 sigra í fyrstu 2 leikjunum. Það skipti litlu máli þótt þeir misstu einn besta leikmann heims af velli með rautt spjald gegn Valencia á útivelli í fyrsta leik, samt náðu þeir 2-0 sigri. Honum fylgdu þeir eftir með 3-0 heimasigri á Young Boys. Þeir hafa því ekki enn fengið á sig mark og eru með fullt hús stiga.
Juventus er með marga öfluga sóknarleikmenn í sínu liði. Cristiano Ronaldo hefur skorað 5 mörk í deildinni, Mario Mandzukic kemur þar á eftir með 4 mörk. Í Meistaradeildinni hefur Argentínumaðurinn Paolo Dybala skorað 3 og Miralem Pjanic 2. Fyrir utan að skora 5 þá hefur Ronaldo lagt upp 4 mörk í deildinni.
Juventus er með öfluga sóknarlínu, öfluga miðju og öfluga vörn. Liðið er með mikla aðlögunarhæfni og getur skipt á milli gjörólíkra leikstíla og uppstillinga eftir því sem hentar. Það sem af er hefur liðið verið mest að spila 4-3-3 en getur þó auðveldlega spilað einhverja útgáfu af þriggja miðvarða kerfi.
Það er eitthvað um meiðsli hjá þeim. Sami Khedira, Mario Mandzukic, Emre Can og Daniele Rugani eru allir meiddir. Það er því spurning hvort þeir stilli upp í 4-2-3-1 í þessum leik og spili með svona byrjunarlið:
Þetta gæti þó litið allt öðruvísi út þegar leikurinn byrjar. Hvernig teljið þið líklegast að Juventus stilli upp sínu byrjunarliði?
Staðan í riðlinum
Staðan í riðlinum eftir 2 umferðir er þannig að Juventus er í efsta sæti, Manchester United í 2. sætinu, Valencia í því þriðja og Young Boys er stigalaust í neðsta sæti. Í hinum leik þessarar umferðar mætast Valencia og Young Boys í Sviss. Sömu lið mætast svo aftur í næstu umferð. Þarna er því tækifæri fyrir Valencia að sækja 6 stig. Í ljósi úrslita fyrri leiks United gegn Valencia verða okkar menn eiginlega að gera eitthvað í þessum leikjum gegn Juventus, annars gæti Evrópudeildin farið að verða hættulega líklegur möguleiki eftir áramót. Og hver nennir því?
Bjarni Ellertsson says
Þrennt í stöðunni, merjum nauman sigur, steindautt jafntefli eða CR7 með sýningu.
Björn Friðgeir says
Tahith Chong var ekki með U-19 í góðum 4-1 sigri á Juve í dag. Fær hann séns á bekknum?