Enn einu sinni á Manchester United slakan fyrri hálfleik. Þrátt fyrir að bæta spilamennskuna í seinni hálfleik þá var það einfaldlega ekki nóg. Juventus vann verðskuldaðan sigur í þessum leik og siglir langefst á toppi H-riðils. Manchester United heldur 2. sætinu í bili, aðeins vegna þess að Young Boys og Valencia gerðu jafntefli í sínum leik í Sviss, 1-1.
Fyrir leik var ánægjulegt að sjá Mourinho gefa Tahith Chong verðlaun fyrir góðar frammistöður með yngri liðunum að undanförnu með sæti á bekknum. Byrjunarlið Manchester United var annars þannig skipað:
Varamenn: Romero, Bailly, Darmian, Fred, Pereira, Herrera, Chong.
Juventus hóf leik með þetta lið:
Varamenn: Perin, Barzagli, Sciglio, Benatia, Costa, Bernadeschi, Kean.
Leikurinn sjálfur
Það var nokkuð jafnræði með liðunum rétt til að byrja með, Manchester United vann aukaspyrnur á álitlegum stöðum á báðum köntum en náði ekkert að gera við það. Á meðan Juventus þreifaði fyrir sér og reyndi að ná tökum á leiknum. Það tókst þeim þó mjög snemma og höfðu mikla yfirburði á boltann, sér í lagi í fyrri hálfleik.
Á 17. mínútu sýndi Ronaldo gamla takta á Old Trafford þegar hann átti góðan sprett upp hægri kantinn og kom með góða fyrirgjöf fyrir markið. Cuadrado var þar í baráttunni við Smalling þegar hann tók hlaup á nærstöngina. Smalling náði að verjast marktilraun Kólumbíumannsins en Paolo Dybala var eini maðurinn nálægt þegar boltinn hrökk út í teig og kláraði færið með óverjandi skoti framhjá David de Gea. Smalling gerði vel þarna en það má alveg spyrja hvar aðrir leikmenn Manchester United voru þarna. Lindelöf hefði mögulega getað verið nær Dybala en sennilega á Matic mest í þessu marki.
Eftir þetta mark var ekkert um svör hjá Manchester United, ef eitthvað er var Juventus líklegra til að bæta við. Bakvörðurinn Cancelo átti einfalt samspil við Ronaldo við vítateig og svo fast skot sem David de Gea varði. Miðvörðurinn Bonucci var allt í einu orðinn hægri kantmaður og átti stórhættulegan sprett upp kantinn og öfluga fyrirgjöf sem Smalling gerði reyndar vel í að verjast. Þetta var alls ekki eina skiptið sem Bonucci gerði þetta, hann virðist hafa haft leyfi til að skeiða upp hægri kantinn þegar hann sá færi á því. Það hjálpar til þegar andstæðingurinn nær ekki upp álitlegum sóknarleik eða skyndisóknum.
Eftir hálftíma leik virtist eins og Manchester United ætlaði eitthvað aðeins að hressast, sóknarlega. Náðu loksins að halda boltanum aðeins og byggja upp smá pressu. En það eina sem liðið náði upp úr því var að vinna hornspyrnu. United var meira að segja heppið því þegar liðið missti svo boltann í þessari sókn náði Juventus mjög hættulegri skyndisókn sem Victor Lindelöf gerði mjög vel í að verjast.
Á 38. mínútu gaf Ashley Young glórulausa aukaspyrnu þegar hann straujaði Ronaldo niður á stað sem verður að teljast ákjósanlegt skotfæri fyrir Portúgalann. Ronaldo lét líka vaða, átti mjög fast skot með miklu flökti á boltanum í loftinu. David de Gea gerði vel í að slá þann bolta í burtu en náði ekki að stýra honum nema í átt að Cuadrado sem átti annað mjög fast skot. Aftur náði de Gea að verja vel. Vissulega voru bæði skotin nokkurn veginn beint á David de Gea en þau voru firnaföst og vörslurnar því góðar.
Þegar dómarinn flautaði til hálfleiks þá gat maður ekki annað en vonað að Manchester United fyndi neistann í seinni hálfleik. Juventus hafði verið 70% með boltann í fyrri hálfleik og virkuðu satt að segja oft fleiri á vellinum. Reyndar virðist það oft eiga við um andstæðinga Manchester United þessa dagana.
Seinni hálfleikurinn var vissulega skárri. Martial fékk stungu í byrjun seinni en Bonucci náði að bjarga því með frábærri tæklingu. Manchester United fór að halda boltanum meira. Meira en í fyrri hálfleik, það er, ekki meira en Juventus. Liðin voru svona ca. svipað mikið með boltann í seinni hálfleiknum.
Ronaldo minnti þó á sig á 52. mínútu þegar hann átti annað fast skot að marki United. Það stefndi í hornið uppi, rétt undir slána, þegar David de Gea náði að verja skotið á ótrúlegan máta. Hvar væri þetta lið ef við hefðum ekki David de Gea? Ef það er eitthvað vit í einhverjum þarna hjá félaginu þá verður farið í það að klára þennan nýja samning við Spánverjann ekki seinna en í gær.
Besta færi United kom þegar korter var eftir af leiknum. Juventus átti þá sjaldséða, kæruleysislega sendingu sem rataði ekki á réttan mann. Paul Pogba komst inn í sendinguna, sneri af sér Juventusmann og lét vaða með vinstri. Fast skot sem hafnaði í stönginni, aftan í Wojciech Szczesny og svo aftur fyrir endamörk. Szczesny var þarna stálheppinn.
Manchester United hélt boltanum meira seinnipart leiks en Juventus lenti þó ekki í miklum vandræðum með að verjast. Chiellini og Bonucci voru frábærir tveir, ekki dalaði varnarleikurinn við það að fá reynsluboltann Andrea Barzagli inn í þriggja miðvarða kerfi síðustu 10 mínútur plús klink. Miðvarðasveit Juventus á þeim tímapunkti var með 51 árs leikreynslu og yfir 1.750 leiki samanlagt á bakinu. Það sást líka alveg, þeir áttu ekki í miklum vandræðum með að sigla þessum sigri heim.
Pælingar eftir leik
Juventus er svakalega gott fótboltalið. Alveg rosalega gott. Það er flott jafnvægi á hópnum þeirra og þeir hafa mikil gæði í öllum stöðum. Þess utan hafa þeir meistarasjálfstraust og vita nákvæmlega hvað þeir geta. Ekki það, þeir þurftu ekkert að sýna nálægt því allt sem þeir geta til að landa þessum sigri. Manchester United á töluvert langt í land með að ná þeim stalli sem lið eins og Juventus eru á í Evrópu.
Miðað við leikmannahóp þá finnst manni samt að liðið ætti að vera nær en það virðist vera. Það vantar hins vegar mikið upp á að það sé gott jafnvægi í hópnum hjá Manchester United. Auðvitað má gagnrýna Mourinho líka fyrir að láta liðið ekki spila meiri og betri sóknarbolta, fyrir að nýta hópinn ekki betur (jafnvel þrátt fyrir að þó nokkrir hafi verið frá í kvöld vegna meiðsla). Hann stillti þó ekki upp varnarsinnuðu liði í kvöld, allavega ekki á blaði. En það gengur illa að ná upp spili, Lukaku virkar ólíkur sjálfum sér með Manchester United og ekki sá leikmaður sem við sjáum til dæmis með Belgíu.
Það hlýtur að þurfa að setja spurningamerki við æfingaplön liðsins þegar við horfum trekk í trekk upp á andstæðinga United virka ferskari, tilbúnari til að hlaupa meira og hraðar, jafnvel að þeir virki fleiri á vellinum. Hvað veldur því?
Það voru þó ekkert allir lélegir í kvöld, engan veginn. David de Gea er sá eini í hópnum sem er algjörlega óumdeilanlega í heimsklassa. Hann gat ekkert gert í markinu en átti flottar vörslur og kom í veg fyrir að Juventus skoraði fleiri mörk.
Ég var líka heilt yfir ánægður með Anthony Martial. Mér fannst hann sýna mjög gott hugarfar og hann var sífellt að reyna eitthvað. Vissulega gekk ekki allt upp en hann hélt áfram að reyna og mér fannst hann líka sýna meiri vinnusemi í varnarleik og baráttu en hann hefur oft gert áður, hann gerði meira en margir samherjar hans á vellinum og ég er ánægður með það.
Victor Lindelöf hefur átt sína bestu leiki með Manchester United í Evrópukeppnum. Sú keppni virðist eiga betur við hann en enska úrvalsdeildin. Hann virkaði nett áttavilltur í byrjun leiks en steig svo jafnt og þétt upp og var besti leikmaður liðsins. Yfirvegaður, bæði í varnarleik og á boltann, og las leikinn vel.
Þótt það væri ekki hægt að kvarta mikið yfir Smalling og Lindelöf þá sást samt svo vel í varnarlínunni hinum megin hvað það er mikill munur að hafa alvöru leiðtoga í vörninni. Að hugsa sér, Juventus bara eyddi fullt af pening til að fá inn 31 árs gamlan miðvörð. Eins og það megi bara!
Mourinho gerði enga skiptingu í leiknum. Það var sérstakt. Sér í lagi þegar ákveðnir leikmenn liðsins (helst Matic og Lukaku) virkuðu þreyttir. Eins gaman og það hefði verið að fá Chong inn á þá hefði það alltaf bara verið bónus. Hins vegar er áhyggjuefni ef stjórinn treystir ekki Pereira, Fred og jafnvel Herrera til að koma inn og fríska upp á þreytt miðjuspil.
Staðan og framhald
Úrslitin í hinum leik riðilsins voru heppileg fyrir okkar menn. Staðan í riðlinum er því svona:
H-riðill.
- Juventus – 9 stig
- Manchester United – 4 stig
- Valencia – 2 stig
- Young Boys – 1 stig
Næstu leikir verða miðvikudaginn 7. nóvember. Valencia fær þá Young Boys í heimsókn í leik sem hefst klukkan 17:55. Juventus tekur þá á móti okkar liði á sínum heimavelli í leik sem hefst klukkan 20:00.
Frábært gengi hjá U19
U19-lið Manchester United spilaði fyrr í dag í Youth-hluta Meistaradeildarinnar. Þar spila liðin í sömu riðlum og aðalliðin og leikirnir fylgjast sömuleiðis að, því var um að ræða heimaleik gegn Juventus í þetta skiptið. Juventus hafði unnið báða sína leiki til þessa, rétt eins og okkar strákar.
Strákarnir okkar létu það ekkert á sig fá þótt Tahith Chong væri ekki með þeim í leiknum heldur unnu góðan 4-1 sigur á ítalska liðinu. Josh Bohui, Mason Greenwood, James Garner og Dylan Levitt skoruðu mörkin. Manchester United er því í efsta sæti riðilsins, með fullt hús stiga, en í hinum leiknum gerðu Young Boys og Valencia 3-3 jafntefli.
Hér má sjá mörk United í leiknum:
https://twitter.com/FabioProd/status/1054765234186055680
Meðal þeirra sem fylgdust með leikinn var almenn ánægja með okkar lið. Nokkrir leikmenn í liðinu áttu flottan leik og þóttu Laird og Garner skara þar fram úr.
Runar says
Lukaku eini maðurinn fyrir ofan miðlínu, Pogba hálfa leið á eigin vallar helming að eigin marki og Tony Marshall í vinstri bakverði…?
Bjarni Ellertsson says
Líst illa á framhaldið en þetta var svo sem vitað fyrir fram. En samt gaman að sjá loksins fótbolta spilaðan á Old Trafford.
ggMU.
Bjarni Ellertsson says
Kennslubók 101 í sóknar og varnarleik fæst í hverri bókarbúð í Torinoborg. Yfirspil er í viðauka 1. Gamla konan lætur ekki að sér hæða.
Komum við út í seinni og spilum gung ho bolta einu sinni enn eða taka menn sturtuna strax. Ekki mikið um val.
ggMU
Hippo says
Ekki er ég stuðningsmaður svo það sé sagt, en þetta er enn ein hörmungarnálgun Morinhio á leik.
Það er eins og hann haldi að hann sé Yeowil að mæta Barcelona!
Bjarni Ellertsson says
Þetta er frekar tilviljunarkennd spilamennska hjá okkur á heimavelli og sýnir augljóslega hversu langt er í land að ná öðrum gæðaliðum. Verð að kyngja þeirri staðreynd. En það kemur alltaf annar leikur, annað tímabil þannig að lengi lifir vonin.
ggMU
Runar P says
Besti maður ManU
Victor Lindelöf’s game by numbers vs. Juventus:
86% pass accuracy
most clearances (5)
most blocks (5)
most interceptions (3)
only defender on the pitch to not commit a foul
Monster performance. 🇸🇪
toggi says
við erum aðeins búnir að vinna 5 leiki í öllum keppnum það er alveg ömurlegur árangur hjá eins stóru liði og United
Heiðar Halldórsson says
Lindelöf var mjög góður í gær. Ef hann vinnur sig upp í að sýna svona frammistöður oftar en ekki þá væri framtíðin björt. Hann getur hinsvegar verið jafn brothættur eins og hann var góður í gær.
De Gea frábær að vanda.
Það sem veldur mér vonbrigðum í þessum leik er sóknarleikurinn. Lukaku, Rashford og Martial fengu mörg tækifæri í skyndisóknum þar sem þeir voru 3 vs 3, 3 vs 4 o.s.frv. Skyndisóknirnar voru sérlega illa útfærðar og allt að því 100% tilviljunarkenndar. Menn hlupu beint á varnarmennina með boltann í staðinn fyrir að láta hann ganga og finna opnun. Sendingarnar voru svo lélegar og ég hef ekki tölu yfir fyrirgjafir sem fóru yfir allan pakkann og á hinn kantinn (af hverju mætir aldrei neinn á fjærstöngina???).
Vörnin er vissulega brothætt en við værum hreinlega að vinna fullt af leikjum ef að sóknin stæði sig betur. Að því sögðu held ég að Juve vinni meistaradeildina. Þeir hafa allt á sama tíma og FC Bayern, Real Madrid og Barca eru í lægð.
Helgi P says
hvernig getur Lukaku spilað leik eftir leik eins lélegur og hann er búinn að vera