Í dag fór fram viðureign Manchester United og Everton í skugga hræðilegs þyrluslyss fyrr í dag þar sem sex fórust, þar á meðal Vichai Srivaddhanaprabha, eigandi Leicester. Srivaddhanaprabha var vel liðinn meðal stuðningsmanna Leicester City, enda varð liðið enskur meistari 2016 og komst í meistaradeild Evrópu árið eftir. Í kjölfar slyssins hafa fjölmörg lið, stjórar og leikmenn á Englandi vottað aðstandendum samúð sína og í allan dag hefur fólk streymt að leikvangi Refanna í sama tilgangi. En gleðilegri fréttir eru þær að drengirnir tólf sem lokuðust inni í helli í norðurhluta Taílands fyrr á árinu voru mættir á völlinn til að horfa á United taka á móti Everton.
https://twitter.com/utdxtra/status/1056609206730665984
Leikurinn fór rólega af stað á meðan bæði lið þreifuðu fyrir sér en eftir um fimm mínútna leik fór að færast meiri hraði og spenna í leikinn. Victor Lindelöf gaf fyrsta hættulega færið með kjánagangi á eigin vallarhelming. Theo Walcott átti þá sendingu á Gylfa sem kom með fyrirgjöf sem Bernard náði ekki til. Fátt um fína drætti til að byrja með og ekkert nema hálffæri sem litu dagsins ljós. Þar til Everton fékk hornspyrnu þar sem Andre Gomes fékk dauðafrían skalla ekki ósvipað og Rudiger skoraði úr um síðustu helgi. Greinilegt að José Mourinho þarf að stoppa í ákveðin göt hvað varðar föst leikatriði.
Í kjölfarið fengu Everton meira sjálfstraust og pressuðu okkar menn af meiri krafti sem skapaði í mesta lagi smávægilegan skjálfta meðal varnarmannanna sem leystu það nokkuð vel. Á 19. mínútu fengum við aukaspyrnu á vallarhelmingi gestanna en Everton bægðu hættunni frá en ekki mjög langt. Anthony Martial fékk þá boltann á vinstri vængnum og fann lágvaxnasta manninn okkar í teignum og smellti boltanum á ennið á honum en Juan Mata átti lausan skalla í grasið og Jordan Pickford var ekki í neinum vandræðum.
Næst áttu Everton færi eftir enn eina snilldarsendinguna frá Gylfa en þeim mistókst að tengja síðustu sendinguna og færið rann út í sandinn. Í næstu sókn United átti svo Martial svo gott og fast skot en beint á Pickford sem sló boltann í horn.
Leikurinn tók smá dýfu eftir það þangað til Martial, sem var allt í öllu fyrir okkur í dag, fékk boltann á 26. mínútu og bar boltann upp vænginn vinstra meginn og inn í teig þar sem Idrissa Gana Gueye stakk út fætinum og felldi frakkann. Klárt víti og Pogba steig á punktinn. Enn og aftur sáum við þetta furðulega tilhlaup en Pickford varði frá honum. Sem betur fer fyrir heimsmeistarann datt boltinn fyrir hann og hann átti ekki í neinum vandræðum með að leggja boltann innanfótar í hitt hornið meðan Pickford var enn í grasinu.
Pogba var aftur á ferðinni á 30. mín en þá átti hann frábæra sendingu á landa sinn, Martial sem var áberandi líflegastur okkar manna í leiknum, sem lagði boltann aftur út á Pogba sem átti þokkalegt skot sem Pickford varði. Rashford tók frákastið og setti boltann í netið en var réttilega dæmdur rangstæður enda virtist sem hann væri að koma úr stúkunni fyrir aftan markið. Fleiri hættulegri færi komu í kjöfarið og virtust heimamenn vera að finna fjölina sína. Leikurinn varð fyrir vikið mun skemmtilegri.
Gylfi, sem er nú ansi vanur að skora eða leggja upp gegn United, fékk því næst fyrirgjöf og frían skalla sem honum tókst einungis að stýra beint á markið sem var ansi áreynslulítið fyrir besta markvörð heims. Rétt undir lok fyrri hálfleiks fengu Everton gott færi þegar fyrrum United-maðurinn Michael Keane átti góða sendingu á Walcott sem ákvað að fara í skot en de Gea varði í horn. Annars var lítið annað marktækt sem gerðist í þessum annars þokkalega fyrri hálfleik á Old Trafford. Miðað við síðustu leiki þá verður að segjast að þessar fyrstu 45 mínútur voru bara ágætar fyrir okkar menn.
Síðari hálfleikur
Everton átti fyrsta færi síðari hálfleiks eftir að þeir unnu boltann á okkar vallarhelming en de Gea varði frá Richarlison. United voru svo grimmari en nokkru sinni áður og unnu boltann trekk í trekk á vallarhelming gestanna og eftir einungis fjórar mínútur fékk Ashley Young boltann á hægri kantinum og átti sendingu sem Everton hreinsaði út fyrir D-bogann á vítategnum þar sem Pogba tók við honum og sendi hann á vinstri kantinn þar sem Martial tók hann viðstöðulaust og skrúfaði hann í óverjandi boga að fjærhorninu þar sem boltinn sleikti stöngina innanverða. 2-0 fyrir United og virkuðu okkar menn gífurlega tilbúnir í verkefnið.
Það voru enn nokkrir stuðningsmenn að fagna markinu þegar Gylfi vann boltann og fann Richarlison sem átti frábæra sendingu inn fyrir vörnina þar sem Bernard komst framhjá de Gea en sem betur fer setti hann boltann í hliðarnetið í stað þess að renna boltanum út á Theo Walcott sem var í kjörstöðu. United stálheppnir þarna en í næstu sókn átti Mata flotta sendingu á Rashford sem var kominn einn inn fyrir en sjálfstraustið hans er eitthvað að trufla hann þessa dagana og lét hann Jordan Pickford verja frá sér. Í raun hefði staðan átt að vera orðin 3-1 þarna en ekkert síðra að vera með 2-0.
Aftur átti Mata flotta sendingu að þessu sinni á Pogba sem var kominn í vænlega stöðu og setti boltann fast niðri við nærstöngina en Pickford varði meistaralega í horn en hann var án efa besti leikmaður Everton í dag. Lukaku kom svo inná fyrir Rashford sem hafði svo sem ekki skilað miklu í dag. Sá belgíski komst strax í hálffæri en enginn fylgdi honum og því varð ekkert úr því.
Gestirnir komust því næst í sókn sem endaði með lausum og lélegum skalla á markið og engin raunveruleg hætta skapaðist. Næsta færi United kom svo þegar Lukaku bjó til flugbraut fyrir Martial á vinstri vængnum sem bar boltann upp völlinn og renndi honum á Fred sem átti skot í varnarmann. Strax eftir hornspyrnuna komst Seamus Coleman inn fyrir vörnina hjá United en skot hans fór hátt yfir markið úr ágætis færi.
United virtist vera að ráða ferðinni og stýra leiknum þegar Pogba á vonda sendinu á Mata sem missir boltan og Everton menn bruna í sókn og Richarlison kemst einn inn fyrir en Smalling tekur enn verri tæklingu þar sem hann neglir hann niður og vítaspyrna dæmd. Það þarf engan að undra að Gylfi Þór Sigurðsson steig á punktinn og skoraði af miklu öryggi, sitt fjórða mark á Old Traffiord. Til að toppa alla vitleysuna þá meiddist Smalling við „tæklinguna“.
Þetta setti leikinn í annan gír, United var nánast með unnin leik en nú var aftur komin spenna í leikinn. Næst komumst við í dauðafæri þegar Pogba á fyrirgjöf inn í boxið þar sem Lukaku var einn og fékk nánast frían skalla en virtist stökkva of snemma upp. Þar af leiðandi varð skalli hans laflaus og ónákvæmur.
Everton virtist vera líklegra til að jafna frekar en United að bæta við á síðustu tíu mínútunum en á 94. mínútu komst martial einn inn fyrir eftir stungu frá Pogba og var kominn í kjörstöðu til að gera út um leikinn en í staðinn fyrir að klára færið setti hann boltann beint í Pickford, virkilega illa farið með frábært færi. Það reyndist síðasta hættulega færið í leiknum og 2-1 heimasigur gegn Everton staðreynd. Með sigrinum klifrað United upp fyrir Everton og Wolves og situr nú í 8. sæti með 17 stig eftir 10 umferðir.
Vangaveltur að leik loknum
Í fyrsta sinn á þessu tímabili byrjaði Romelu Lukaku ekki inn á, en þess í stað voru Martial, Rashford og Mata að leiða sóknina hjá okkur. Þetta breytti flæði sóknarleiksins og spilaði liðið á köflum mjög fallegan einnrar-snertingar-bolta sem hefur ekki sést oft áður. Juan Mata fékk frjálsara hlutverk og virtist spænski galdramaðurinn vera alls staðar á vellinum. Með þessa öskufljótu stráka, Anthony Martial og Marcus Rashford í kringum sig var mun meira um tækifæri fyrir Mata til að koma á mögulegar sendingar eins og honum einum er lagi en hann og Pogba voru virkilega duglegir í því í dag.
Paul Pogba átti mjög flottan leik en alltaf þarf hann samt að missa boltann á miðjunni að minnsta kosti 1-2 sinnum í leik sem skapar hættu, í þessa skiptið mark. Hann er of oft að taka eitthvað dúllerí á miðjum velli í stað þess að dreifa boltanum. Engu að síður var hann gríðarlega góður í leiknum, átti flest skot, flestar snertingar á boltanum á vallarhelming mótherjans og átti fjöldan allan af frábærum sendingum. Fred var mjög sprækur í leiknum og pressan og vinnuseminu frá honum skilaði sér í því að United vann boltann oft á miðjunni.
Anthony Martial átti frábæran leik, fiskaði víti og skoraði, en hefði átt að setja annað mark undir lok leiksins. Engu að síður gríðarlega mikilvægt að hann virðist vera kominn í gang að nýju og sér um að skora á meðan Lukaku gæti ekki skorað til að bjarga lífi sínu. Marcus Rashford náði engan veginn að setja mark sitt á leikinn en var þó stöðugt ógnandi en hreyfingar hans án bolta og staðsetningar er eitthvað sem er umhugsunarefni fyrir þjálfateymið. Hann er ekki nógu duglegur að koma sér í stöður og opin svæði þegar boltinn er kominn inn í vítateiginn.
Báðir bakverðirnir okkar skiluðu sínu varnarhlutverki vel í dag en voru ekki eins sóknarsinnaðir eins og þeir hafa oft verið áður en það kom ekki að sök í dag. Sömu sögu er ekki að segja um miðvarðarparið okkar. Viktor Lindelöf byrjaði leikinn ekki eins vel og virkaði pínu óöruggur en vann sig vel inn í leikinn og skilaði í lok hans ágætu verki. Hins vegar var Chris Smalling á hinni línunni, hann byrjaði betur og var ógnandi fram á við en endaði á að gefa aulalegt og tilgangslaust víti rétt í lokin til að gera leikinn spennandi.
Heilt yfir var frammistaða liðsins mjög góð. Auðvitað er alltaf hægt að finna ýmislegt sem betur hefði mátt fara en það sem mestu máli skiptir er að liðið skilaði 3 stigum í hús og lék skemmtilegan sóknarbolta og bjartsýnustu stuðningsmenn geta farið að vona að United liðið sé búið að finna leikgleðina sína aftur. Næsti leikur er síðan á laugardaginn 3. nóv gegn Bournemouth á útivelli.
Bjarni Ellertsson says
Nokkuð ljóst hvað verður að gera, Matic verður að líma sig á Gylfa og láta hann finna fyrir nærveru sinni allan leikinn.
GGMU
Maggi says
Kominn tími á að Lukaku fari á bekkinn. Fyrri markaskorar ManU. í hans stöðu klóra sér í skallanum.
Bjarni Ellertsson says
Fyrstu mínúturnar sýna að vörnin er söm við sig.
Runar says
Come on Tony….
Hjöri says
Enn skorar Martial, það er það sem vantaði að leifa drengnum að spila, þá kemur þetta, hef alltaf haft trú á honum.
Bjarni Ellertsson says
Aumingjaskapur. Dútl á miðjunni og heimska í Smalling, ekki við öðru að búast. Halda þeir virkilega að séu svona góðir að geta leyft sér þetta.
Turninn Pallister says
Hvað er að Pogba?
Dreg ekki hæfileika hans í efa, langt því frá. Hann er búinn að vera frábær í þessum leik.
En guð minn góður hvað hann er stíflaður í hausnum. Vorum 2-0 yfir og engin hætta í gangi. Svo kemur þetta kæruleysisbull og stælar. Djöfull vona ég að liðsfélagar hans taki hann fyrir eftir leik.
Þýðir víst ekkert fyrir Mourinho að segja neitt, því þá verða fjölmiðlar, umbafíflið og svo hópur klappstýra brjáluð.
Karl Garðars says
Svo sammála Pallister.
Og Smalling greyjið, er algjörlega búinn að fá nóg af blessuðum manninum í byrjunarliði.
Martial var frábær, Fred þarf tíma og sá sænski er heldur betur að koma til. Hann er búinn að vera magnaður í síðustu leikjum.
De Gea alltaf frábær. Young verður síðan að fá smá hrós fyrir baráttu og Shaw var ágætur.
Skemmtilegur leikur framan af en týpísk Pogba/Smalling heimska kosta okkur mark.
Þurfum enn dóminerandi öflugan miðvörð, framherja og hægri kant. Þangað til Gomes og Chong eru klárir.
Runar P says
Tony Marshall maður leiksins og Lindelöf #2
Atli says
Ég verð að segja það að mér fannst þetta besti leikur liðsins á tímabilinu. Bestu spilkaflar sem sést hafa. Mér finnst mikill munur að sjá Fred spila við hlið Pogba, þeir geta báðir haldið bolta og dreift honum á milli kanta, auk þess sem þeir geta spilað einnar snertinga bolta með hröðu spili. Liðið var búið að taka öll völd á vellinum og var að sundurspila Everton þegar Pogba datt í gamla kæruleysið og vippan leiddi til hálffæris sem Smalling gerði að dauðafæri með þessari lélegu tæklingu. Þetta var að mörgu leyti skemmtilegur leikur og margt flott í spilinu sem ekki hefur sést mikið af í vetur. Ég spyr mig hvort að uppspilið verði ekki miklu betra hjá liðinu þegar tröllið Lukaku er ekki frammi til að berjast um háa og langa bolta.
Pogba var frábær í dag, þrátt fyrir mistöku sem leiddu til marks. Hefði samt aldrei orðið neitt ef Smalling hefði sleppt tæklingunni og bara fylgt manninum. Mér fannst Fred líka mjög góður, Martial fræbær og mér finnst Lindelöf vera í mikilli framför. Shaw er orðinn frábær í sinni stöðu.
Vonandi að við förum að sjá meira sjálfstraust í liðinu og það fari að halda boltanum í leikjum og pressi framar á vellinum.
Eitt enn, ég vildi aldrei sjá Mourinho sem stjóra hjá okkur. Hann var alveg búinn að missa glóruna hjá Chelsea og bara það hvernig hann kom fram við liðslækninn þar sýndi að það er ekki allt í lagi með dómgreindina. Samt vil ég ekki að Manchester United verði lið sem sé alltaf í því að reka stjóra og alls ekki á miðju tímabili. En ég yrði ekki hissa þó svo færi ef næstu leikir fara illa.