Manchester United sýndi enn einu sinni gríðarlegan karakter og seiglu eftir að hafa lent undir. Í þetta skiptið var þetta gegn einu allra sterkasta liði Evrópu, liði sem þykir eitt það sigurstranglegasta í Meistaradeildinni. Liði sem hafði ekki tapað leik á tímabilinu, sem hafði ekki tapað heimaleik á þessu stigi keppninnar nema einu sinni á síðustu 15 árum. Frábær úrslit!
Byrjunarlið Manchester United í þessum leik var það sama og hafði verið spáð í upphituninni:
Varamenn: Romero, Bailly, Darmian, Fred, Fellaini, Mata, Rashford.
Byrjunarlið Juventus í leiknum var svona:
Varamenn:
Perin, Benatia, Barzagli, Rugani, Cancelo, Matuidi, Mandzukic.
Leikurinn sjálfur
Manchester United hóf þennan leik vel. Alexis Sánchez kom sterkur inn til að byrja með og það virtist henta honum vel að vera fremsti maðurinn í sókninni. Bakverðirnir studdu vel við sóknaruppbygginguna en það var þó áberandi hvað leikmenn United forðuðust fyrirgjafirnar þrátt fyrir að ná oft að komast í góðar stöður upp kantana. Það var líka eðlilegt því oftar en ekki var Alexis eini leikmaður United í teignum og hefði seint farið að vinna skallaeinvígi gegn Bonucci og Chiellini.
Manchester United var meira með boltann fyrsta korterið eða svo, eftir það fór Juventus að ná meiri tökum á leiknum. United reyndi þó áfram að spila boltanum þegar færi gafst og náði oft ljómandi lipru spili. Það vantaði samt oftast herslumuninn upp við teiginn. Martial var ekki að finna sig alveg jafn vel til að byrja með og hann hefur verið að gera í síðustu leikjum, munaði alveg um það. Þó munaði mestu um að Pogba var ekki alveg að finna sig heldur. Hann átti greinilega að vera fremsti maðurinn af miðjumönnunum en hann virtist stundum ekki alveg vita hvar hann ætti helst að vera. Eins hefði ég viljað sjá hann grimmari að taka spretti inn í teiginn. Það hefði munað miklu um það að fá inn einhverja skallaógn inn í teiginn þegar United var með boltann á öðrum hvorum kantinum. Þetta eru hlutir sem við höfum til dæmis séð Fellaini gera svo vel fyrir liðið. Pogba gæti lært ýmislegt af honum hvað þetta varðar.
Juventus náði á móti oft að ógna. Til að byrja með virkaði varnarlína Manchester United oft óörugg, sérstaklega þegar kom að Ronaldo. Menn voru þá ekki endilega að treysta rangstöðutaktíkinni. Fyrsta hættulega færið kom þó nkokuð óvænt, þá átti Cuadrado fyrirgjöf sem hrökk af Matic og breyttist í stórhættulega marktilraun sem afmælisbarnið David De Gea náði að verja virkilega vel. Herrera gerði vel í að vinna aukaspyrnu hinum megin þegar hann náði góðum spretti framhjá Pjanic. Sánchez tók aukaspyrnuna en hún var ekki nógu góð og fór beint í vegginn.
Stuttu síðar átti Juventus að komast yfir. Ronaldo var þá allt í öllu í spili Juventus. Skyndilega rykkti hann upp hægri kantinn og fékk sendingu þangað, náði stórgóðri fyrirgjöf á Khedira sem var aleinn í vítateignum. Khedira hitti þó illa í boltann sem endaði í fjærstönginni. De Gea náði ekki að hreyfa sig á línunni og hefði líklegast ekki náð þessum bolta þótt hann hefði verið innar. United var því stálheppið að fara inn í hálfleik með jafntefli. Að mörgu leyti fín frammistaða hjá þeim rauðklæddu en heimamenn virkuðu alltaf ákveðnari og betri í öllum sínum aðgerðum, hvort sem var í vörn eða sókn.
Seinni hálfleikur byrjaði mjög fjöruglega. Chris Smalling hafði betur í einvígi í teignum við Ronaldo. Miðvarðaparið varð öruggara með sig eftir því sem leið á leikinn. Ekki að þeir hafi endilega alltaf náð að stoppa Juventus í að skapa sér góð færi, þeir bara virkuðu ekki eins stressaðir og þeir höfðu gert í byrjun leiks.
Manchester United náði fínu spili eftir um 4 mínútna leik, kantanna á milli, sem endaði með góðum spretti frá Martial vinstra megin inn í teig þar sem hann lét vaða. Skotið var mjög Martial-legt, eins og við þekkjum frá síðustu leikjum, en fór í boga rétt framhjá markinu. Mínútu síðar átti Dybala svipað bogaskot hinum megin á vellinum, með vinstri fæti hægra megin í teignum, sem hafnaði í þverslánni. David De Gea gat ekkert annað gert en að fylgjast með þessum bolta þar sem hann sveif yfir hann og í slána. Fjör.
United fékk sína fyrstu hornspyrnu eftir klukkutíma leik. Það kom eftir frábært spil hjá Pogba og Sánchez inn í teiginn og skot af varnarmanni og aftur fyrir. Sánchez tók hornið, það olli smá usla en fór aftur af varnarmanni og aftur fyrir. Seinni hornspyrnan var þó slök og fór yfir alla leikmenn í teignum og aftur fyrir hinum megin.
Luke Shaw átti stórgóðan leik í kvöld. Hann var einn af þeim sem studdu hvað best við sóknarleikinn auk þess að verjast vel, fyrir utan einstaka minni háttar mistök. Á 62. mínútu átti Ronaldo flotta fyrirgjöf inn í teiginn, þá sýndi Luke Shaw mikið hugrekki þegar hann stakk sér fram fyrir Cuadrado og stangaði boltann í burtu þrátt fyrir að hann vissi að hann fengi Cuadrado á fullu inn í sig. Virkilega vel gert hjá honum.
En á 65. mínútu komst Juventus yfir. Þá var Bonucci að dútla með boltann í vörninni, leit upp og sá Ronaldo tilbúinn að taka sprettinn. Bonucci kom því með algjörlega frábæra háa sendingu yfir varnarlínu Manchester United, akkúrat af þeirri lengd að De Gea gat aldrei náð honum á undan Ronaldo. Ronaldo stakk sér inn fyrir Lindelöf og tók boltann þar á lofti og sendi hann í bláhornið framhjá De Gea með föstu skoti. Það er oft sagt um góða framherja að þeir viti alltaf hvar markið er, það átti svo sannarlega við um þetta skot.
Fljótlega eftir þetta fékk Pjanic gott skotfæri en sendi boltann framhjá. Þarna var líklegra að Juventus myndi bæta við marki en að Manchester United myndi gera eitthvað. Mourinho setti Marcus Rashford inn fyrir Jesse Lingard á 70. mínútu. Tæpum tíu mínútum síðar sendi hann svo Juan Mata og Marouane Fellaini inn á fyrir Herrera og Sánchez. Allegri svaraði með því að senda reynsluboltann Barzagli inn á, líkt og í fyrri leik liðanna.
Þessar skiptingar hjá Manchester United blésu hressilegu lífi í leik liðsins. Það munaði virkilega miklu um að fá Fellaini inn í barninginn og nærvera hans fram á við hjálpaði Manchester United mjög mikið. Martial var líka mun hressari í seinni hálfleik en í þeim fyrri og efldist til muna þessar síðustu mínútur, mjög gaman að sjá það.
Á 86. mínútu sást skýrt dæmi um muninn eftir að Fellaini kom inn á. Þá kom sending inn í teiginn þar sem Fellaini vann boltann, hélt honum svo þar til hann sá Pogba koma í D-bogann. Belginn gaf á Frakkann sem fékk leikmann Juventus í sig. Brot, aukaspyrna á hættulegum stað. Young og Mata stilltu sér upp við boltann. Young hljóp yfir boltann, Szczesny tók eitt skref sem var nóg fyrir Mata sem setti aukaspyrnuna yfir vegginn og í fjærhornið, óverjandi fyrir þann pólska í markinu. Flott mark og staðan orðin 1-1. Heldur óvænt, fannst manni, en vel þegið. Stig hefði skipt miklu á þessu stigi.
En þrjú stig skipta enn meiru! Á 89. mínútu átti Rashford mjög flottan sprett á vinstri kantinum þar sem hann skaut sér fram fyrir Barzagli og náði í brot og aukaspyrnu á kantinum. Young tók aukaspyrnuna og fann að sjálfsögðu vin sinn Fellaini í teignum. Fellaini var með þrjá Juventus leikmenn í sér en náði samt að flikka boltanum áfram þar sem Pogba kom hlaupandi að fjærstönginni. Þar endaði boltinn þó í öllum nema Pogba, heldur fór af Szczesny, Bonucci og loks Alex Sandro áður en hann endaði í markinu. Ekki fallegasta markið en dæmigert seiglumark fyrir þessa endurkomustemningu sem virðist vera í gangi hjá Manchester United þessa dagana.
Ef eitthvað var þá hefði United getað bætt við frekar en Juventus jafnað. United náði flottri skyndisókn í uppbótartíma þar sem Martial gerði vel í að finna Rashford með góðri stungusendingu. Rashford lét vaða, fast skot meðfram jörðinni sem Szczesny varði vel. Rashford hefði endilega mátt gera betur þar, innkoma hans var þó flott í leiknum eins og innkoma hinna varamannanna.
Stuttu síðar flautaði dómarinn leikinn af, leikmenn Manchester United fögnuðu gríðarlega og Mourinho púllaði Mourinho á þetta með því að setja hendur að eyra þegar verið var að baula á hann. Dásamlegt!
Pælingar eftir leik
Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Manchester United virkar næstbesta liðið á vellinum nánast allan leiktímann, aðeins til að koma til baka á síðustu 5 mínútunum, skora 2 mörk og breyta tapstöðu í sigur. Þetta er heldur ekki í fyrsta skiptið sem United lendir undir í Tórínó, bara til að snúa því sér í hag og sigra leikinn. Þetta verða þó að teljast töluvert óvæntari úrslit nú í kvöld en þá.
Það var þó mjög fínt að sjá hvernig liðið kom stemmt inn í þennan leik. Liðið átti í raun fínasta fyrri hálfleik, eitthvað sem hefur ekki alltaf verið hægt að segja.
Það var gaman að sjá Ander Herrera koma inn og gera það sem hann gerir best. Bæði átti hann fínasta leik á miðjunni og svo var hann að vanda mjög duglegur að fara í taugarnar á andstæðingnum. Vonandi sýnir hann meira af þessu.
Luke Shaw var flottur allan leikinn. Einn af mikilvægustu leikmönnunum fram á við og óhræddur bæði við að taka menn á og reyna að ná upp skemmtilegu spili.
Martial fór hægt af stað en varð betri og betri eftir því sem leið á leikinn. Átti sína bestu spretti undir lokin þegar liðið var að snúa leiknum.
Á móti byrjaði Alexis Sánchez leikinn mjög vel. Það virðist henta honum mun betur að spila upp miðjan völlinn frekar en að vera á vinstri kantinum.
Það var gaman að sjá Lingard aftur í liðinu. Þetta var þó ekki hans besti leikur. Skiljanlegt svosem, þar sem hann hefur ekki náð að spila mikið að undanförnu. Hann á eftir að koma til.
Mourinho gerði mjög vel með skiptingunum. Allir leikmennirnir sem komu inn á höfðu mikið að segja á lokamínútunum og áttu stóran þátt í að Manchester United vann þennan leik. Mjög gaman að sjá það.
https://twitter.com/StatmanDave/status/1060293982666870785
Staðan í riðlinum
Í hinum leik H-riðils náði Valencia að vinna Young Boys, lokastaðan þar var 3-1. Staðan í riðlinum eftir fjórar umferðir er því svona:
- Juventus – 9 stig, +5 í markatölu
- Manchester United – 7 stig, +3 í markatölu
- Valencia – 5 stig, 0 í markatölu
- Young Boys – 1 stig, -8 í markatölu
Í næstu umferð koma Young Boys í heimsókn á Old Trafford á meðan Juventus og Valencia mætast í Tórínó.
U19 liðið gerir jafntefli
Eins og vanalega spilaði u19-liðið við sama andstæðing og aðalliðið fyrr í dag. Juventus komst tvisvar yfir í leiknum en Manchester United náði tvisvar að jafna og enduðu leikar 2-2. Fyrra mark United var sjálfsmark frá varnarmanni Juventus eftir fyrirgjöf frá Chong. Seinna markið var víti hjá Barlow eftir að brotið hafði verið á Mason Greenwood. Manchester United er því með 10 stig eftir 4 leiki, taplausir og í efsta sæti riðilsins.
Mason Greenwood var að vanda áberandi í spili liðsins en Angel Gomes þótti skara fram úr.
https://twitter.com/MxZvGx_/status/1060237347122483202
Djöflavarp annað kvöld, spurningar?
Við munum taka upp podkast annað kvöld. Ef þið hafið einhverjar spurningar fyrir okkur þá getið þið komið með þær í kommenti hér fyrir neðan.
Karl Garðars says
Koma svo og láta gamla roðhænsnið hafa það óþvegið á heimavelli!
Bjarni Ellertsson says
Vörnin er og verður væntanlega hræðileg í kvöld, þannig að spurningin er, verður DeGea í stuði. Sóknin glímir svo við Chiallini og félaga þannig að þetta verður fróðlegt svo ekki sé meira sagt.
GGMU
Turninn Pallister says
Hvernig var þetta ekki gult spjald á Chellini þegar hann braut á Alexis?
Hélt að mannfýlan hefði dregið línu þegar hann spjaldaði Matic.
Karl Garðars says
Please farðu að taka þetta pogba apparat út af. Það er meira gagn af gömlum ullarsokk þarna.
Karl Garðars says
Horfi á björtu hliðarnar. Fellaini alveg að púlla Rudi Völler lookið
Turninn Pallister says
Sjá litla töframanninn okkar. Take a bow son!
Karl Garðars says
Jaaaaaaaaaaaaaaaaaaaaá!!!!!!!
Kom gamli ullarsokkkkurinnnn!!!!
Runar P says
Shit… eg ætlaði að pósta strax eftir að Ronaldo skoraði að við tækjum þetta 1-2 fuck og gleymdi pressa send!
Elska Alexis og Lindelöf
EgillG says
vorum heppnir í kvöld en það skiptir bara engu máli, sigur 3 stig er það telur. það er að verða skemmtilegt að horfa á united aftur!
Sindri says
What a result!
Fellaini effectið er rosalegt, krullaði (bókstaflega) boltann áfram á Pogba sem hefði verið á lista markaskorara í kvöld, ef Alex Sandro væri ekki svona afskaplega mikið fyrir sviðsljósið.
.
Hvað varðar CL þá þarf Valencia nauðsynlega að vinna feitu konuna í næstu umferð og þá er lag að setja 3-4 á móti ungmennunum frá Sviss.
.
Hvað varðar PL eigum við nægan séns á móti Kaupþing um helgina, að því gefnu að konungurinn í treyju 27 nái allavega 30 mínútum.
.
Glory Glory Juan Mata.
Sveinbjörn says
Quadrado mun naga neglurnar í alla nótt yfir klúðrinu sínu, og Dybala verður með skeifu út kvöldið eftir sláarskotið sitt.
Gríðarlega mikilvæg þrjú stig, ásamt stórri yfirlýsingu, sem þessi sigur gefur okkur. Young boys næst á heimavelli, og ef Juve vinnur Valencia á sama tíma á heimavelli erum við komnir áfram. Ef við hefðum tapað í kvöld væri brekkan eitthvað brattari.
Seinni hálfleikurinn var hálfleikurinn hans Jose. Gerir frábærar skiptingar, vinnur á síðustu mínútunum, og endar á að labba að miðju vallarins til að leggja hönd bakvið eyrað og gretta sig.. vil ekki missa þennan meistara frá klúbbnum.
City úti næstu helgi… úff, ég er aftur orðinn spenntur fyrir United leikjum.
Bjarni Ellertsson says
Það þarf vart að taka fram að heppnin var með okkur í liði en á meðan andstæðingurinn nýtir sér ekki yfirburðina og lætur kné fylgja kviði þá geta þeir fengið gömlu tuskuna í andlitið þegar síst varir. Við nýttum það vel að bugast ekki né bogna þegar hver stórsóknin skall á mark okkar, skiptingarnar höfðu jákvæð áhrif í lok leiksins þegar þurfti að herða tökin. Eitt núll er enginn munur í fótbolta þó andstæðingurinn hafi öll völd á vellinum því það að gefast ekki upp skilar oftast jákvæðri niðurstöðu. Höldum þessum leik áfram, tökum meiri völd á vellinum, verðum miskunarlausir fyrir framan markið og verjumst af djöfulmóð þá endar það á því að ég verð sáttur.
GGMU
Halldór Marteins says
Allegri eftir leik:
„In the first game, they didn’t have Fellaini and we used his absence to our advantage. Tonight, he played and his physical presence was immediately felt.“
Að hugsa sér að það séu ennþá til United-stuðningsmenn sem reyna að halda því fram að Fellaini sé lélegur 😂
Runólfur Trausti says
Frekar skondið að menn hafi gert grín að Mourinho þegar hann sagði að liðið hefði ekki haft Fellaini til að breyta fyrri leiknum (to be fair þá nefndi hann Sanchez sömuleiðis). Það var ótrúlegt að sjá hvernig ein öruggasta vörn síðari ára virtist einfaldlega fara á taugum þegar hárprúði Belginn kom inn af varamannabekknum.
Að sama skapi gaman að sjá litla töframanninn skora úr þriðju aukaspyrnunni sinni í vetur (og öll hafa skipt sköpum).
Það sem ég tek aðallega úr þessu er að Mourinho sé að finna „mojo-ið“ sitt aftur en enn og aftur sjá varamenn liðsins um að tryggja sigur. Sjálfsöruggari Mourinho ætti að þýða sjálfsöruggari leikmenn – Nú er bara að vona að leikmenn endurtaki leikinn gegn City um helgina.
Rauðhaus says
Rosalega gaman að sjá karakterinn í liðinu síðustu leiki. Ég hef verið gagnrýninn á Mourinho varðandi samband hans við leikmenn og var sannfærður um það um daginn að hann væri búinn að missa klefann. Mér skjátlaðist þar.
Mourinho undanfarna daga er sá Mourinho sem ég vil. Loksins er hann mættur, cocky as hell. Meira svoleiðis og minna af hinu takk.
Cantona no 7 says
Frábær sigur á virkilega erfiðum útivelli.
Það er komið meira öryggi hjá leikmönnum.
Ég held að leikmenn Juve hafi vanmetið okkar menn sem var fínt.
Núna vinna menn vonandi Man. City á sunnudaginn.
Móri góður.
G G M U