Á morgun fer fram fyrri orrustan um Manchesterborg en þá taka borgararnir í Manchester City á móti rauðu djöflunum í sannkölluðum nágrannastórslag á Etihad vellinum. Síðast þegar liðin mættust á þessum velli í deildinni var boðið upp á fótboltaveislu sem vert er að rifja upp en heimamenn í City komust í 2-0 á fyrsta hálftímanum með mörkum frá Vincent Kompany og Iker Gündogan og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Í þeim síðari fengum við að sjá allt annað United lið mæta úr klefanum og með mikilli baráttu og þrautseigju náðum við að snúa taflinu við á um 15 mínútna kafla með tveimur mörkum frá Paul Pogba og sigurmarki frá Chris Smalling. Þarna tapaði City í fyrsta sinn deildarleik í tíu ár eftir að hafa komist tveimur mörkum yfir. Það verður að segjast eins og er að það er óskhyggja að vonanst eftir því að við fáum að sjá sömu veisluna en eitt er víst að við eigum eflaust eftir að fá hörkuleik.
Man City
City hefur verið á siglingu í vetur og leiða deildina með 29 stig úr 11 leikjum og eru enn sem komið er taplausir. Chelsea og Liverpool eru sömuleiðis taplaus og einungis tveimur stigum á eftir City en munurinn á þessu liðum liggur þó í markaskoruninni. City hefur gersamlega gengið frá mótherjum sínum og hafa skorað 33 mörk eða 3 mörk að meðaltali í leik.
Þar að auki eiga þeir um 21 skot í leik og eru með boltann um 64% að meðaltali. Þessi tölfræði hjá lærisveinum Pep Guardiola er algjörlega út í hött og þarf enginn að velkjast í vafa með það að meistararnir eru bara betri en á síðasta tímabili ef eitthvað er. Breiddin er gífurleg og virðist Pep vera að ná því besta út úr leikmönnunum sínum auk þess sem læknateymið hjá þeim hefur aðgang að einhverjum galdramjöð því enginn er frá hjá þeim vegna meiðsla lengur en nokkrar vikur að því er virðist.
Liðið hefur skorað 35 mörk í síðustu 11 leikjum en einungis fengið á sig tvö mörk á meðan. Kapparnir hans Guardiola eru þar af leiðandi af mörgum taldir mun sigurstranglegri á sunnudaginn en United. Líklega má búast við því að þeir spili 4-3-3 þar sem Pep Guardiola mun stilla upp sínu sterkasta liði en svona gæti liðið litið út á morgun;
City hafa þó verið að breyta til og meðal annars verið að nota Stones í hægri bakverði en þó verður að teljast líklegt að Kyle Walker og Benjamin Mendy fái það hlutverk að taka á móti okkar funheita Martial. Þar að auki verður City verður án Kevin de Bruyne sem er að kljást við hnémeiðsli en þó belginn knái sé einn af betri miðjumönnum heims þá virðist þetta City-lið ekki sakna hans eins mikið og maður hefði vonast til.
United
Ef þessi leikur hefði verið fyrir fáeinum vikum síðan hefðu eflaust ekki margir verið til í að veðja á United sigur. Liðið átti í tómu basli í deildinni og virtist vera svo langt frá sínu besta að José Mourinho var orðinn líklegastur af öllum stjórunum í deildinni til að fara næstur og spilamennska liðsins virtist eiga heima í Championship deildinni í besta falli.
Stanslausar sögur um ósætti innan liðsins og hörmulegt gengi liðsins ásamt neikvæðum fréttum af öllu og öllum sem tengdust liðinu virtist vera til marks um upphafið að endinum.
Þar til kom að leiknum við Newcastle United en daginn fyrir leik barst það slúður í blöðin að Mourinho yrði rekinn sama hvernig sá leikur færi. Leikurinn byrjaði nákvæmlega eins og hér væri um að ræða aftöku stjórans, Newcastle komst yfir á upphafsmínútunum og staðan var 0-2 í hálfleik á Old Trafford!
En í hálfleik gerðist eitthvað sem varð til þess að leikmennirnir ákváðu að spila úr sér lífið og lungun til þess að bjarga annað hvort eigin orðspori eða stjóranum frá yfirvofandi atvinnuleysi (hreinlega er mér sama hvor ástæðan varð til þess) og leikurinn vannst að lokum 3-2.
Þarna í hálfleik gerðist eitthvað sem bæði stjórinn og liðið í heild virðist hafa gripið föstum tökum og ekki ætla að sleppa fyrir sitt litla líf. Liðið var óheppið að sigra ekki Chelsea á Brúnni í næsta leik og baráttusigrar gegn Everton, Bournemouth og síðast Juventus hafa gefið stuðningsmönnum von um að liðið sé loksins að rétta úr kútnum.
Enda kominn tími til, því liðið situr í 7. sætinu með 20 stig og eitt mark í plús eftir fyrstu 11 umferðirnar. Þessi leikur gegn óumdeilanlega sterkasta liði deildarinnar verður því mikil prófraun og áhugavert að sjá hvort Mourinho nái að draga það besta fram úr okkar mönnum í heilar 90 mínútur að þessu sinni en leikmenn United hafa átt í stökustu vandræðum með að leggja sig 100% fram í heilan leik.
Liðið hefur verið í vandræðum með vörnina, sem er ótrúlegt miðað við að í fyrra fékk liðið á sig einungis 28 mörk á sig en hefur nú þegar þurft að sækja boltann 18 sinnum í eigið net. Engu að síðar að þegar við lítum á hugsanlegt byrjunarlið fyrir nágrannaslaginn má gera fastlega ráð fyrir því að spænski kötturinn byrji á milli stanganna með Chris Smalling og Victor Lindelöf fyrir framan sig. Þá verða líklegast Luke Shaw og Ashley Young sitthvoru meginn við þá.
Það verður þó aðeins meira spennandi að velta fyrir sér hvernig miðjan og framlínan mun líta út. Ander Herrera átti frábæran leik gegn Juventus og hefur verið að finna fyrra form en að sama skapi hefur Nemanja Matic dalað gífurlega frá síðustu leiktíð. Reyndar stóð hann sig vel gegn Juventus í síðari leiknum en það er spurning hvort það sé komin tími á að hvíla serbann og gefa öðrum sénsinn. Það kann að vera að Manchesterslagurinn sé of stór leikur til að gera svo áhrifamiklar breytingar að skipta út fastamönnum eins og Matic. Marouane Fellaini hefur líka staðið sig mjög vel upp á síðkastið og gæti vel verið að Mourinho noti hann ekki bara sem plan B í þessum leik heldur fái hann stærra hlutverk.
Paul Pogba verður þó að teljast líklegur enda var hann maður leiksins í 2-3 endurkomu sigrinum á síðustu leiktíð og hefur verið einn besti leikmaður liðsins undanfarið. Hann var þó arfaslakur gegn Juventus og virtist ekki vilja gera sínum gömlu félögum það að kroppa af þeim stig í Meistaradeildinni.
Anthony Martial VERÐUR í byrjunarliðinu, svo einfalt er það. Ef Mourinho ætlar að sækja í leiknum verður fótafimi frakkinn á vinstri kantinum en strákurinn er búinn að vera sóðandi heitur í undanförnum leikjum og virðist vera upp á sitt allra besta. Þar að auki hefur hann magnaða tölfræði gegn Manchester City svo það væri algjörlega óafsakanlegt að geyma hann ef hann verður heill.
Marcus Rashford fór illa með kjörið tækifærið til að gera út um leikinn gegn Juventus en Jesse Lingard var svo sem ekki að gera neitt sérstakt heldur svo hugsanlega verður Juan Mata í byrjunarliðinu á kostnað þeirra á sunnudaginn. Það ber þó að nefna það að Sanchez, Pogba og Lukaku gætu allir verið frá í leiknum á morgun vegna meiðsla en það verður að koma í ljós hvort þessir leikmenn verða tilbúnir í slaginn. Antonio Valencia er byrjaður að æfa aftur en Diogo Dalot er enn frá vegna meiðsla en aðrir leikmenn ættu að vera klárir. Því mun byrjunarliðið fara mikið eftir því hvort þessir leikmenn treysti sér, annars spái ég liðinu;
Manchester City hefur einungis unnið 2 af síðustu 8 viðureignum þessara liða en þar áður unnu þeir 4 í röð. Með sigri í leiknum getur City haldið sér í toppsætinu á meðan okkar menn vonast til þess að draga 3 stig heim með sér og eiga þá möguleika á að komast í 6. sætið og þokast nær toppbaráttunni. Dómari í leiknum verður Anthony Taylor en leikurinn fer fram á sunnudaginn kl 16:30.
Enn hangir möguleikinn á leikbanni yfir Mourinho eftir að varalesari var fenginn til að finna út hvað Mourinho sagði að loknum 3-2 leiknum gegn Newcastle. Það er því vel við hæfi að enda þetta á svari Mourinho þegar hann var spurður út í það sem hann gerði að leik loknum í Meistaradeildinni núna á miðvikudaginn á Ítalíu.
https://twitter.com/mundialmag/status/1060306133586468864?s=21
Nafnlaus says
Miðað við þær áakanir sem komið hafa fram á hendur Manchester City og alla þá fjármálaspillingu og hið skipulagða svindl sem tengist liðinu. Þá er það mín skoðun að þessi leikur ætti ekki að fara fram.
Karl Garðars says
Það var einmitt það já… vann ekki Leicester þessa deild með dugnaði, samheldni og pizzapartíum?
Ef City jarðar deildina næstu 5-8 ár í röð þá mun ég persónulega skoða að fara í fýlu yfir þessum ásökunum.
Enska deildin þurfti að bæta sig til að halda í við hin stórliðin.
Blue moon says
FFP var tekið fram þegar United urðu hræddir um að aðrir klúbbar færu framúr þeim. ÞeiR reyndu að nota UEFA til að stoppa eigendur nýju klúbbana, en finnst í lagi að eigendur sjúgi peninga úr klúbbunum sínum. Veit þetta er sárt fyrir ykkur, en þið vinnið ekki PL næstu árin.