Leikurinn gegn Arsenal er mikill tímamótaleikur. Í fyrsta skipti í 23 ár, síðan 20. mars 1995 kemur Arsenal án Arsène Wenger, og í fyrsta skipti síðan 25. ágúst 1985 er hvorki að finna Sir Alex Ferguson eða Wenger á hliðarlínunni.
Það er óhætt að segja að stuðningsmenn Arsenal hafi verið orðnir langeygir eftir að Wenger ákvæði að leggja svefnpokann á hilluna og leyfa öðrum að spreyta sig. Gengi félagsins hafði farið versnandi og Wenger bikarinn endaði á Anfield í fyrra.
Undirbúningurinn fyrir stjóraskiptin hafði þó verið nokkur, í fyrra var ráðinn var yfirmaður knattspyrnumála og Sven Mislintat kom frá Borussia Dortmund og stjórnar leikmannakaupum. Í sumar var svo Unai Emery ráðinn framkvæmdastjóri og það er óhætt að segja að Arsenal hafi staðið sig vel. Tímabilið byrjaði á töpum gegn Manchester City og Chelsea en síðan hefur liðið ekki tapað leik og situr í 4. sæti, í því sem virðist ætla að vera barátta um 4. sætið milli Lundúnaliðanna. Síðasti leikur Arsenal var einmitt sannfærandi sigur á Tottenham í Lundúnaslagnum á sunnudaginn, sem var meira fjör á 90. mínútum en þó öllum fjörlegum atvikum United í leikjum í vetur hefði verið safnað saman. Í þeirri orrahríð sem nú stendur á José Mourinho þá er þetta ekki síst það sem nýtt er, leikur United er næsta leiðinlegur og það bjargar litlu að benda á að leikur liðsins undir stjórn Louis van Gaal hafi verið enn leiðinlegri.
Velgegni Arsenal er einna mest Pierre-Emerick Aubameyang að þakka en hann er nú þegar kominn með tíu mörk í deild og er markahæstur þar. Henrikh Mkhitaryan þekkjum við vel og hann hefur staðið sig betur en hjá United, og betur en Alexis Sánchez síðan við skiptum við Arsenal á þeim félögumm. Það vill reyndar til að ekki er mjög erfitt að standast þessa samanburði, frammistaða hans hjá Arsenal hefur í besta falli verið þokkaleg.
Annars er Emery að láta Arsenal spila hápressubolta með eltingarleikjum og það hefur leitt til þess að Mesut Özil hefur ekki alltaf verið í náðinni hjá honum. Granit Xhaka er reyndar í banni á morgun, þannig liðið á morgun verður einhvern veginn svona:
Staðan hjá United
Það er óhætt að segja að staðan sé ekki góð hjá United. Liðið situr í sjötta sæti, átta stigum frá Meistaradeildarsæti. Jafnteflið við Southampton á laugardaginn var skelfilegt, ekki síst vegna marggagnrýndrar uppstillingar þar sem Nemanja Matic og Scott McTominay léku í miðvarðarstöðum. Varnarvandræðin munu að öllum líkindum halda áfram, Ashley Young er í banni á morgun, Victor Lindelöf verður frá fram að jólum í það minnsta og Luke Shaw, Eric Bailly, Chris Smalling Antonio Valencia og Matteo Darmian eru allir eitthvað meiddir og óvíst til eða frá hvort þeir verði frá á morgun. Phil Jones er hugsanlega í þessum hópi líka en er eitthvað líklegri. Að auki kom Marcus Rashford meiddur af velli á laugardaginn, en Mourinho segir líklegt hann verði með
Ég býst því við að Diogo Dalot verði hent í djúpu laugina og byrji sinn fyrsta deildarleik. Marcos Rojo er víst enn til, og aldrei að vita nema hann þurfi að leysa af vinstra megin. Það kæmi síðan ekkert á óvart ef Mourinho færi enn í varfærnisgírinn með sömu þrjá miðverðina og gegn Southampton. United hefur ekki tapað í deildinni á Old Trafford gegn Arsenal síðan í september 2006. Mourinho mun reyna að hindra að það breytist.
Engin bjartsýni
Ég segi það alveg eins og er að ég er alveg laus við bjartsýni fyrir leikinn á morgun. Það virðist sama hvað hver reynir, liðið er fast í einhverju öngstræti. Það fara ófáir dálksentimetrar í þetta í fótboltafréttum internetsins og það er ljóst að það að finna einn sökudólg er ómögulegt. En það eru gömul sannindi í knattspyrnunni að það er auðveldara að reka einn framkvæmdastjóra heldur en 12, nú eða 24 leikmenn og starf José Mourinho er í stórhættu. Það sem er verst við þetta að þetta gæti verið þriðja tímabilið á sex árum þar sem ljóst er að brottrekstur framkvæmdastjórans er yfirvofandi mestan hluta tímabilsins en stjórn félagsins getur ekki tekið þá ákvörðun fyrr en fjórða sætið er orðið stærðfræðilegur ómöguleiki og þar með bótagreiðslurnar lægri en sem því nemur. Í staðinn þurfum við að verða vitni að langri þrautagöngu þar sem engin gleði er í leik liðsins, og þaðan af síður fjör og frískleiki.
Það hefur enginn velkst í vafa um þá skoðun mín að stjórn klúbbsins sé í molum, og eigendur, Edward Woodward og José Mourinho eiga þar allir sína sneið af sökinni. Fyrsta skrefið í að bæta ástandið er að reka José Mourinho. Það er þó fjarri því nóg. Það sýna klúbbar eins og Manchester City, Liverpool og Arsenal þar sem reistar hafa verið styrkar stoðir og markvisst unnið að uppbyggingu sem treystir ekki einugis á einum knattspyrnustjóra.
En aðdáun Edward Woodward á stórum nöfnum hefur ekki einskorðast við leikmenn, stjóraráðingar hans hafa líka einkennst af því. Það er kominn tími til að eigendurnir taki til. Kannske að sú staðreynd hreyfi við þeim að nú í eftirmiðdaginn voru enn til miðar á leikinn á morgun fyrir stuðningsmenn, frekar en þeir væru löngu uppseldir og þyrfti að veita þá í happdrætti.
Ég skil við ykkur með þessari sturluðu staðreynd og því að leikurinn hefst klukkan átta á morgun.
Halli are says
Ef Manchester United vinnur ekki þennan leik þá ætti fyrsta frétt morgundagsins að vera sú að búið væri að reka Mourinho.
Það að það sé ódýrara að reka hann ef liðið kemst ekki í meistaradeildina eru engin rök fyrir stjórn klúbbsins því að liðið haldi áfram á sömu braut, spili sama fótbolta og endar tímabilið í rjúkandi rúst verður hræðilegt fyrir klúbbinn til margra ára.
Það eru þegar farin að sjást merki þess að fólk sé hætt að nenna að mæta á völlinn og horfa á liðið.
Með sama áframhaldandi verður liðið algjört meðalmennsku lið til margra ára með hræðilegum afleiðingum fyrir klúbbinn.
Það verður að bregðast við strax og reyna að bjarga því sem hægt er að bjarga áður en það verður of seint.