Ole Gunnar Solskjær kann að gleðja stuðningsfólk Manchester United. Hann hefur mikla og góða reynslu af því og virðist ætla að halda því áfram sem knattspyrnustjóri. Fyrsti leikur liðsins undir hans stjórn var einhver skemmtilegasti og besti leikur sem liðið hefur spilað frá því að besti knattspyrnustjóri allra tíma hætti störfum. Megi þessi skemmtun halda áfram sem lengst.
Næsti leikur liðsins er á vinsælasta fótboltadegi Bretlands, öðrum degi jóla. Því sem Bretinn kallar Boxing Day. Það er alls ekki oft sem það gerist að ensk úrvalsdeildarlið eigi ekki leik á þessum frábæra degi. Í þetta skiptið á Manchester United heimaleik gegn Huddersfield Town og hefst leikurinn klukkan 15:00. Dómarinn í leiknum verður Jonathan Moss.
Jóli Gunnar Solskjær
Solskjær eyddi 11 góðum árum hjá Manchester United, frá 1996 til 2007. Á þeim tíma spilaði hann fullt af leikjum, skoraði helling af mörkum og vann slatta af titlum. Af þeim 366 leikjum sem Solskjær spilaði fyrir Manchester United þá voru 8 þeirra á öðrum degi jóla. Hann hefði raunar getað spilað 11 leiki á öðrum degi jóla ef hann hefði ekki misst af leikjunum 2003-2005 vegna meiðsla.
Liðinu gekk almennt vel á þessum degi á meðan Solskjær var hjá félaginu. Fyrsti leikurinn var 1996, á útivelli gegn Nottingham Forest. David Beckham og Nicky Butt skoruðu í fyrri hálfleik áður en Ole Gunnar Solskjær og Andy Cole kláruðu dæmið í seinni hálfleik. Þetta var ekki síðasta markið sem Solskjær skoraði á öðrum degi jóla fyrir United.
Árið 2000 átti United aftur útileik, í þetta skiptið gegn Aston Villa. Í millitíðinni hafði United spilað 3 leiki á öðrum degi jóla, alla á heimavelli og allt sigurleiki. Árið 1997 var það 2-0 sigur á Everton, árið 1998 3-0 sigur á Nottingham Forest og árið 1999 var það 4-0 sigur á Bradford City. Solskjær hafði tekið þátt í öllum þessum leikjum en ekki náð að skora í þeim. Í þessum leik gegn Villa árið 2000 náði hann hins vegar að skora eina mark leiksins og tryggja United 3 stig. Á þeim tíma var hann í miklu stuði og hafði t.a.m. skorað bæði mörkin í 2-0 Þorláksmessusigri á Ipswich Town.
United spilaði svo gegn Everton á útivelli árið 2001 og vann 0-2 sigur áður en liðið tapaði gegn Middlesbrough á öðrum degi jóla árið 2002. Ryan Giggs skoraði þá eina mark United í leiknum en Middlesbrough skoraði hins vegar þrjú mörk og vann leikinn. Eftir það missti Solskjær, eins og áður sagði, af þremur annarsdagsjólaleikjum í röð vegna meiðsla. Hann átti hins vegar eftir að spila einn leik í viðbót á þessum degi áður en hann hætti að spila.
Þann 26. desember 2006 spilaði Manchester United gegn Wigan Athletic á Old Trafford. United var í efsta sæti deildarinnar fyrir þann leik en í hálfleik var staðan markalaus. Þá skellti Fergie í skiptingu og setti Cristiano Ronaldo inn á fyrir Darren Fletcher. Ronaldo kom inn á með látum og skoraði 2 mörk á fyrstu 6 mínútum síðari hálfleiks. Á 59. mínútu bætti okkar eigin Solskjær svo við marki og tryggði sigurinn endanlega. Það breytti litlu þótt Leighton Baines skoraði úr víti á 90. mínútu. United vann leikinn og endaði á að vinna deildartitilinn á síðasta tímabili Ole Gunnar Solskjær hjá United. Sem leikmanns, það er.
Nú er Solskjær kominn aftur til félagsins og stýrir aðallinu nú í sínum fyrsta leik á öðrum degi jóla. Mögulega verða jólaleikirnir ekki fleiri hjá honum en þá er um að gera að nýta þennan leik extra vel. Það væri frábært að sjá liðið byggja ofan á skemmtilega spilamennsku í síðasta leik.
Huddersfield Town
Huddersfield Town er nú á sínu öðru tímabili í röð í efstu deildinni. Liðið komst upp í úrvalsdeildina fyrir síðasta tímabil með því að vinna umspilið um þriðja lausa sætið í úrvalsdeildinni, eftir að hafa endað í 5. sæti deildarinnar. Síðasta tímabil var fyrsta tímabil Huddersfield í efstu deild síðan veturinn 1971-72. Liðið byrjaði glimrandi vel, vann tvo fyrstu leikina og var í efsta sæti deildarinnar eftir þær umferðir. Gengið dalaði eitthvað eftir það en góð byrjun og fínn endasprettur skilaði því að nýliðarnir í Huddersfield eyddu aðeins einni umferð í fallsæti á öllu tímabilinu. Að lokum varð 16. sætið niðurstaðan. Huddersfield náði reyndar ekki þeim 40 stigum sem oftast þykir viðmiðunartalan fyrir félög sem virða forðast fall en 37 stig (9 sigrar, 10 jafntefli, 19 töp) var meira en nóg til að halda sér í deild þeirra bestu.
Einn þessara 9 sigurleikja var heimasigur gegn Manchester United þann 21. október. Þá fékk Svíinn okkar hann Lindelöf ansi veglega úrvalsdeildareldskírn. Aaron Mooy og Laurent Depoitre skoruðu í fyrri hálfleik og þótt Rashford næði að minnka muninn í seinni hálfleik þá var sigur Huddersfield aldrei í alvöru hættu í þessum leik. Lindelöf var þarna að spila sinn annan leik í deildinni eftir að hafa þurft að koma inn á sem varamaður fyrir meiddan Phil Jones á 23. mínútu. Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá þessum leik og hefur Lindelöf verið að spila mun betur upp á síðkastið en hann gerði þarna í þessum fyrstu leikjum sínum með Manchester United. Hann mun án efa vilja stimpla sig rækilega inn í þessum leik og sýna hversu mikið betri hann er í raun og veru en hann sýndi í þessum leik á sínum tíma.
http://gty.im/919653058
Gengi liðsins á þessu tímabili hefur ekki verið nærri því eins gott og í byrjun síðasta tímabils. Eftir 18 leiki á síðasta tímabili var liðið í 11. sæti deildarinnar með 21 stig eftir 6 sigra, 3 jafntefli og 9 tapleiki. Eftir jafnmarga leiki á þessu tímabili er Huddersfield nú í 19. sætinu með 10 stig eftir 2 sigra, 4 jafntefli og 12 tapleiki.
Huddersfield hefur aðeins náð að skora 11 mörk í þessum 18 leikjum sem er það langminnsta í deildinni. Liðið hefur líka fengið á sig 31 mark, sem þýðir að það er eitt af 5 liðum í deildinni sem hefur fengið á sig fleiri mörk en Manchester United (30). Sem er rugluð staðreynd.
Þrír leikmenn Huddersfield eru markahæstir í deildinni hjá liðinu, þeir hafa allir skorað 2 mörk. Aaron Mooy hefur tekið þátt í 13 deildarleikjum en hann skoraði bæði mörk sín í sama leiknum, 2-1 sigri á Wolves í lok nóvember. Annar af þeim sem hefur skorað 2 mörk fyrir Huddersfield er danski miðvörðurinn Mathias Jørgensen, betur þekktur undir gælunafninu Zanka. Zanka skoraði sín mörk í 3-1 tapi gegn Leicester í september og 1-2 tapi gegn Brighton á fullveldisdeginum okkar. Svo er það annar Dani, miðjumaðurinn Philip Billing. Sá er aðeins 22 ára gamall og spilar oftast í hlutverki varnarsinnaða miðjumannsins en hefur þó staðið sig einna best leikmanna Huddersfield það sem af er tímabili. Hann hefur tekið þátt í 17 af 18 deildarleikjum Huddersfield og skoraði annars vegar í 1-1 jafntefli gegn Everton, í Liverpool, þann 1. september og hins vegar í síðasta leik liðsins, í 1-3 tapi gegn Southampton þann 22. desember.
Það segir sitt að þótt Huddersfield hafi tapað 1-3 á heimavelli þá var varnarsinnaði miðjumaðurinn Billing valinn maður leiksins af tölfræðisíðunni WhoScored. Ekki nóg með það heldur er Billing í 22. sæti yfir leikmenn úrvalsdeildarinnar þegar kemur að meðaleinkunnargjöf WhoScored. Það er aðeins einn varnarsinnaður miðjumaður í deildinni fyrir ofan hann í þessari einkunnargjöf, það er Fernandinho hjá Manchester City. Þrátt fyrir úrslit og gengi Huddersfield þá hefur Philip Billing verið að standa fyrir sínu. Þetta er verulega athyglisverður, ungur leikmaður og það verður áhugavert að fylgjast með hvernig hans ferill verður í framhaldinu.
Af þessum þremur sem eru markahæstir hjá Huddersfield þá er Aaron Mooy meiddur og mun ekki taka þátt í þessum leik. Bæði Zanka og Billing ættu hins vegar að geta tekið þátt í leiknum og það má fastlega reikna með að þeir verði á sínum stað í byrjunarliðinu, nema eitthvað komi upp á.
Eins og gjarnan á við um lið í vandræðum hefur Huddersfield verið að gera tilraunir með mismunandi uppstillingu og leikkerfi. Oftar en ekki hefur liðinu þó verið stillt upp með einhverja útgáfu af þriggja miðvarða kerfi á þessu tímabili og það má reikna með að það sama verði upp á teningnum í þessum leik gegn okkar mönnum.
Helst hefur liðið verið að nota 3-5-1-1 eða 3-4-1-2. Ef við segjum að liðið noti seinni útgáfuna þá má reikna með að byrjunarlið gestanna verði á þessa leið:
Rúnar P. says
Ég byrja á því að segja „höldum okkur á jörðinni“ eftir að hafa unndið örugan sigur í síðasta leik, en ætla samt að leyfa mér að spá 4-1 sigri aftur í þessum leik, því ég er hreinlega á þeirri skoðun að þetta lið á frekar að sækja en verjast þegar kemur að því að sigra lítið lið eins og Huddersfield
Auðunn says
Held að United haldi áfram á sömu braut og í síðasta leik.
Ole mun gera nokkrar breytingar á liðinu samt ekki of margar enda engin ástæða til þess.
Þegar hann var stjóri hjá Cardiff á sínum tíma var hann mjög gagnrýndur fyrir að vera alltaf að hræra í byrjunarliðinu með því að breyta því of oft og mikið milli leikja og vita aldrei sítt besta lið.
Vonum að hann hafi lært af því, engin ástæða til að breyta sigurliði ef menn eru heilir.
En það er stutt á milli leikja á þessum árstíma og því nauðsynlegt að nýta hópinn, svo vill hann klárlega skoða alla leikmenn liðsins.
Líklega munum við sjá Mata koma inn ásamt 1-2 öðrum, það góða er að það vilja allir spila og sanna sig fyrir nýjum stjóra því á ég von á flottum leik að hálfu United.
Spái 3-0, ef Fellaini verður í liðinu sem ég vona að sjálfsögðu ekki þá verður þetta erfiðara.
Sigurður Ásgeirsson says
Er einhver að sýna leikinn í beinni ?