Nýja árið byrjaði á fínum útisigri gegn Newcastle er lærisveinar Ole Gunnar Solskjær unnu sinn fjórða leik í röð! Norðmaðurinn er þar með fyrsti stjóri United til að vinna fyrstu fjóra leiki sína síðan Sir Matt Busby náði því árið 1946. Ágæt byrjun. Okkar menn stilltu sér upp svona:
Varamenn: Romero (M), Darmian, Young, Fred, Lingard, Sánchez og Lukaku.
Byrjunarlið Newcastle: Dúbravka (M), Yedlin, Schar, Lascelles, Dummett, Ritchie, Diamé, Hayden, Atsu, Pérez og Rondón.
Varamenn: Woodman (M), Manquillo, Lejeune, Shelvey, Kenedy, Muto og Joselu.
Leikurinn
Það var vitað að leikurinn í kvöld á St. James Park yrði erfiðasta verkefni Solskjær til þessa. United tapaði á þessum velli á síðustu leiktíð og vann þar síðast árið 2015 en undir Norðmanninum virðist fátt fara úrskeiðis þessa stundina. Þetta var einn ein frammistaðan sem var full af orku og sóknarleik síðan Solskjær tók við og sérstakt fagnaðarefni var að halda markinu loks hreinu. Fullkomin var frammistaðan þó auðvitað ekki.
Í fyrsta sinn í þessum fjórum leikjum tókst United ekki að skora í fyrri hálfleik og voru fyrstu 45 mínúturnar í raun nokkuð losaralegar. Christian Atsu reyndist varnarmönnum United erfiður framan af leik og tókst kantmanninum í tvígang að komast inn fyrir vörnina en, sem betur fer, án árangurs. Tvisvar varði David de Gea skot frá honum áður en hann skaut framhjá en öll þrjú færin fékk hann í fyrri hálfleik. Þá klobbaði hann Paul Pogba við háværasta fögnuð heimamanna allt kvöldið. Okkar mönnum gekk illa að skapa afgerandi færi framan af og kannski skásta tilraunin fyrir hlé var þegar Anthony Martial setti fast skot í hliðarnetið eftir stuttan sprett frá vinstri kantinum.
Eftir hlé var þó ljóst að United var að komast á skrið. Marcus Rashford, sem hefur leikið á als oddi undanfarið, skaut naumlega framhjá úr ágætu færi snemma í síðari hálfleiknum áður en skiptingar Solskjær riðu baggamuninn. Romelu Lukaku og Alexis Sánchez komu inn á 63. mínútu og biðin eftir marki var stutt eftir það. Rashford þrumaði boltanum fast í hanska Martin Dúbravka í marki Newcastle beint úr aukaspyrnu og Slóvakinn missti boltann frá sér. Lukaku þakkaði fyrir sig og stakk knettinum undir markvörðinn og í netið með sinni allra fyrstu snertingu, einum 40 sekúndum eftir að hann kom inn á.
Rashford skoraði svo verðskuldað mark til að endanlega gera út um einvígið á 80. mínútu eftir frábæra skyndisókn. Lukaku kom þá boltanum á Sánchez við vítateigsbogann sem setti boltann á hárréttum tíma á Englendinginn unga sem, einn og óvaldaður, sneri boltann af yfirvegun framhjá Dúbravka. Skömmu áður hafði Jonjo Shelvey sett takkana af krafti aftan í lærið á Paul Pogba, forljót tækling sem verðskuldaði rautt spjald en Shelvey komst upp með ódæðið.
Að lokum var sigrinum siglt heim og hefur Manchester United unnið fjóra leiki í röð í fyrsta sinn á tímabilinu og loks haldið hreinu í fyrsta sinn í átta deildarleikjum. Þá er Marcus Rashford búinn að eiga þátt í tíu mörkum í síðustu níu leikjum (fimm mörk, fimm stoðsendingar); er hann loks að springa út? Það verður líka að hrósa Victor Lindelöf, sem átti erfitt uppdráttar í rauðum litum United lengi. Það er töggur í Svíanum og hann er alls ekki svo slæmur á boltanum heldur. Verri var þó frammistaða Antonio Valencia í kvöld. Ekvadorinn var alltof nálægt hliðarlínunni og teygði óþarflega á vörn liðsins en hann var að spila sinn fyrsta leik eftir nokkurra vikna fjarveru.
Góður sigur er allavega að baki. Flest lið eru erfið heim að sækja í ensku úrvalsdeildinni og væri fráleitt að kvarta yfir þremur stigum og hreinu marki í kvöld. Frammistaðan var þó ekki flekklaus, það er í raun ekki erfitt að sjá hvers vegna United heldur sjaldan markinu hreinu og í kvöld var getuleysi heimamanna við markið helst að þakka. Newcastle hefur aðeins skorað 15 deildarmörk á tímabilinu en liðið átti 14 skot að marki United í kvöld, án árangurs.
Um helgina tekur við enska bikarkeppnin en United mætir B-deildarliði Reading á Old Trafford. Þar má búast við þó nokkrum breytingum á liðinu en stóra prófið bíður eftir það. Tottenham á Wembley þann 13. janúar næstkomandi og þá mun reyna á.
Bjarni Ellertsson says
Allt með kyrrum kjörum á austur vígstöðvum. Enginn sérstaklega að stíga upp, ferskir menn á bekknum koma fljótlega inná.
Karl Garðars says
Ég vil klassíska bakvarðaskiptingu, Young inn fyrir Tony V. Það er núll að frétta hjá honum fram á við.
Lindelof er búinn að vera frábær.
egillG says
flott að fá iðnaðarsigur, verðum að kunna það líka.
GGMU
Turninn Pallister says
Því miður er Valencia bara kominn á síðustu dropana sem vængbakvörður. Það hjálpar ekki þar sem að okkur skortir ógn sóknarlega hægramegin. Fínn leikur annars á móti drullugrófum Newcastle mönnum. Ótrúlegt að þeir skyldu hanga 11 inná.
Munaði reyndar miklu að nautið Diame þurfti að fara útaf fyrir Newcastle, en sá var búinn að vera okkur erfiður á miðjunni.
Maður leiksins hjá okkur Rashford, Ole hefur heldur en betur vakið strákinn.
egillG says
Fyrir mér var Lindelöf maður leiksins, steig ekki feilspor í leiknum. alveg rosalega gaman að sjá hvað hann er búinn að stíga upp síðust mánuði.
Karl Garðars says
Ég var orðinn örlítið hræddur um að Rashford myndi tapa hausnum í fyrri hálfleik en hann beit það heldur betur af sér.
Að mínu mati þá voru Lindelof og Herrara menn leiksins ásamt Rashford.
Shaw var líka mjög góður, Pogba fínn en litlu munaði að Phil Jones púllaði “Phil með allt í skrúfunni Jones” snemma leiks. Tæklingin hans var síðan frábær en ég hefði ekki lagt krónu undir fyrirfram að hann tæki ekki manninn fyrst.
Innkoma Lukaku og Alexis var alveg hreint ágæt en þá vantar mínútur. Gott að sjá Lukaku grimman.
Iðnaðarsigur er fullkomið réttnefni og hreint lak í þokkabót. Veislan heldur því áfram og markatalan er að rétta úr kútnum.
Síðan skeit Chelsea aðeins og vonandi ræpa púðlurnar upp á hnakka á morgun, því það er orðið allt allt of langt síðan maður fékk umferð úr efstu hillu :-D
Heiðar says
Flottur sigur gegn norðanmönnunum sem voru heldur betur fastir fyrir. Þetta var mjög sanngjarnt og synd að við nýttum ekki upphlaupin í restina til að setja 1-2 mörk í viðbót í grímuna á þeim.
Gaman að sjá frískan Alexis koma inn á og vera viljugan að fá boltann. Gerði mjög vel í seinna markinu. Lukaku verðmætur í frákastinu, braut upp leikinn með þessu marki. Hann heldur hinsvegar áfram að eiga skelfilegar snertingar og móttökur hans úti á vellinum voru mjög slæmar.
Glæsileg byrjun hjá Ole Gunnar Solskjær. Alslemma í fyrstu fjórum leikjunum og manni hlakkar ávallt til næsta leiks!
Rúnar P. says
Benitez kom inn í þennan like með sama móti og Móri hefði farið inn í hann, og við það var ég pínu hræddur en strákarnir hans Ole fengu að spila eins og þeim hentar best og uppskáru fyrir vikið verðskuldaðan sigur.
Ég get ekki annað en brosaða í hvert einasta skipti sem Lindelöf þarf að hreinsa til, því það er rétt um ár síðan ég þurfti að hlusta á ykkur alla tuða yfir því hvernig í anskotanum þessi drengur gæti verið í ManU
I Told You All! ;)
TonyD says
Flottur sigur hjá liðinu og geggjað að þetta hafi verið fjórði sigurinn í röð. Þvílíkur munur eftir að Óli tók við og hvað menn hafa stigið mikið upp. Lindelöf heldur áfram að bæta sig, Rashford frábær og Matic og Herrera þéttir með Pogba. Flestir flottir en sammála með Valencia, hann átti sannarlega ekki sinn besta leik í rauðu treyjunni og kom lítið frá honum sóknarlega í dag.
Loksins, loksins er búrinu haldið hreinu og vonandi halda menn áfram að gefa í og minnka bilið í topp liðin.
Það er farið að minna á gamla tíma á leikhúsi draumana og geggjað að hlakka aftur til þess að fylgjast með okkar mönnum.
Georg says
Gaman að sjá þegar skiptingar virka.
Lukaku ekki sá glæsilegasti en nóg til að brjóta leikinn upp í endann. Sanchez ekki góður þó hann hafi náð stoðsendingu..
Rashford úff segi það enn og aftur úff..
United sótti upp vinstri nánast allan leikinn. Líklega var skipun dagsins að Valencia færi ekki lengra en að miðju því NC sóttu líka upp sinn vinstri kant..
Hreint lak er frábært þó maður svitnaði á góðum stundum t.d. þegar Jones leiddist og rétti Rondon boltann svo hann gæti registerað lykiltæklingu í leiknum :)
Cantona no 7 says
Það er gaman að sjá okkar menn spila vel aftur.
En betur má ef duga skal þ.s. við verðum að spila svona það
sem eftir er af tímabilinu.
Liðið á enn möguleika á topp fjórum og vonandi tekst það.
Vonandi vinnum við Tottenham 13. jan.
G G M U