Eftir frábær úrslit og þrælskemmtilegan leik síðasta sunnudag gegn Tottenham er komið að því að taka á móti Brighton en þetta verður sjötti deildarleikurinn undir stjórn Ole Gunnar Solskjær.
Fyrstu fjóra leikina unnu United nokkuð sannfærandi en fyrsta virkilega prófraunin var leikurinn gegn Tottenham þar sem Ole (ásamt þjálfaraliði hans) sýndi klókindi sín sem þjálfari en markið sem Marcus Rashford skoraði var greinilega eitthvað sem liðið hefur unnið að út í Dubai á dögunum.
En þá að leiknum framundan. Eins og minnugir menn muna eflaust nokkuð vel þá heftur Chris Hughton og menn hans í Brighton and Hove Albion tekist það óþolandi vel að stríða okkur en síðustu tvær viðureignir liðanna hafa endað með sigri Mávanna (e. Seagulls).
Síðasta leik unnu þeir 3-2 í leik sem eflaust flestir stuðningsmenn hafa reynt að gleyma og það kæmi mér virkilega á óvart ef að leikmenn United mættu ekki hungraðir og hefndarhug út á völlinn gegn gestunum.
Brighton
Þó að Brighton hafi einungis unnið einn af síðustu sjö leikjum sínum í deildinni þá verða þeir langt því frá auðveld áskorun fyrir okkar menn, enda hafa þeir staðið vel í stóru liðunum, gerðu jafntefli við Arsenal, eins marks tap gegn Chelsea, Tottenham og Liverpool en toppliðið þurfti á vítaspyrnu að halda til að tryggja stigin þrjú.
Chris Hughton og hans menn hafa staðið sig þokkalega á þessari leiktíð en þeir sitja sem stendur í 13. sæti deildarinnar og eru 8 stigum frá fallsæti þegar 22 umferðum er lokið og er það að miklu leyti Glenn Murray að þakka en þessi 35 ára gamli framherji þeirra hefur skorað 8 mörk fyrir þá og virðist hreinlega ætla að eldast eins og gott rauðvín. Hann skoraði til að mynda frábært mark í fyrri leiknum gegn okkur.
Chris Hughton sagði þó í viðtali á dögunum að hann teldi að leikurinn í dag yrði mjög ólíkur fyrri leik liðanna á leiktíðinni þar sem hann hefði verið á leiknum gegn Tottenham og séð að leikstíll United væri allur annar. Þó má búast við því að Hughton stilli upp frekar hefðbundnu 4-4-1-1 liði:
United
Eftir frábæra byrjun Ole Gunnar Solskjær hefur United gjörsamlega geislað á flestum sviðum, innan sem utan vallar. Liðið hefur unnið alla leikina sína (fimm í deild og einn í bikar) og leikmennirnir virðast ekki geta hætt að brosa og skemmta sér, stuðningsmenn eru farnir að hlakka til að horfa á næsta leik liðsins og allt í kringum liðið virðist einnig vera á réttri braut.
Þegar kemur að Ole Gunnar Solskjær og því hvernig hann talar um liðið, samstarfsfólkið, klúbbinn, andstæðingana, í raun allt sem viðkemur starfinu hans fær maður á tilfinninguna að hér sé á ferðinni maður sem hefur United í erfðamenginu sínu. Virðingin, gleðin, hógværðin og þakklætið gerir það að verkum að erfitt er að ímynda sér að nokkrum manni geti líkað illa við Ole.
Tim Sherwood sagði í spjallþætti, um það leyti þegar Solskjær tók við United, að starfið hans Ole væri auðvelt því að eina sem hann þyrfti að gera væri að gefa liðinu frelsi og leyfa leikmönnunum að spila sinn leik. Það hefði verið gífurlega auðvelt fyrir hann þegar hann tók við Tottenham á sínum tíma en ég leyfi mér stórlega að efast um að sá norski hafi tekið starfinu sem slíkri léttúð.
Þó svo að Ole Gunnar hafi gefið mörgum leikmönnum tækifæri frá því að hann tók við hugsa ég að hann komi ekki til með að breyta byrjunarliðinu sínu mikið frá leiknum gegn Tottenham í síðustu viku. Paul Pogba, Nemanja Matic og Ander Herrera verða líklegast allir á sínum stað fyrir aftan hina öskufljótu Anthony Martial og Marcus Rashford með léttleikandi Jesse Lingard í frjálsara hlutverki með þeim fram á við.
Takist United að skora þrjú mörk í þessum leik verður það í fyrsta sinn sem United tekst að skora þrjú mörk eða fleiri á heimavelli, í fjórum leikjum í röð. Það er því greinilegt að liðið er búið að taka miklu stakkaskiptum á síðustu vikum og Ole virðist vera að ná því allra besta fram úr sóknarlínu liðsins. Það skín vel í gegn að liðinu er stjórnað af fyrrum sóknarmanni því nú spilar United fótbolta eins og Pogba vill meina að liðið eigi að spila: Attack-Attack-ATTACK!
Leikurinn fer fram eins og fyrr segir á Old Trafford og verður flautað til leiks klukkan 15:00.
Skildu eftir svar