Síðast þegar Manchester United fór í sextán liða úrslit Meistaradeildarinnar þá endaði það ekkert sérstaklega vel. United byrjaði á því að fara til Sevilla og gera þar markalaust jafntefli áður en liðið tók svo upp á því að tapa seinni leiknum á Old Trafford þegar Frakkinn Ben Yedder skoraði bæði mörk gestanna í 1-2 sigri. Það var alls, alls ekki gott.
Það sem þessir leikir áttu sameiginlegt var að Paul Pogba byrjaði á bekknum í báðum leikjum. Sömuleiðis Anthony Martial. Í fyrri leiknum voru Rashford og Lingard einnig á bekknum. Þessir fjórir leikmenn hafa hvað mest borið ábyrgð á endurnýjaðri sóknargleði í spilamennsku Manchester United síðan Solskjær tók við af Mourinho og það má búast við því að þeir verði allir í byrjunarliðinu í þetta skiptið svo framarlega sem líkamlegt ástand leyfi það.
Þegar dregið var í 16-liða úrslitin og ljóst að mótherjinn yrði PSG þá hafa líklega ekki margir stuðningsmenn Manchester United verið alltof bjartsýnir. En daginn eftir var Mourinho látinn fara, Solskjær kom svo inn og hefur náð að gjörbreyta spilamennsku liðsins. Nú bíðum við spennt eftir þessari viðureign. Og m.a.s. mátulega bjartsýn líka!
Leikurinn hefst klukkan 20:00 annað kvöld. Dómarinn í leiknum verður Daniele Orsato frá Ítalíu.
Manchester United
Manchester United, og stuðningsfólk félagsins, geta þakkað einum manni umfram flestum öðrum fyrir það að liðið sé núna komið í 16-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu. Það er ekki Ole Gunnar Solskjær, enda tók hann ekki við liðinu fyrr en eftir að dregið var í 16-liða úrslit, eins og minnst er á hér að ofan. Nei, það er góðvinur síðunnar, hinn baráttuglaði, gagnlegi, hárprúði og syndsamlega vanmetni Belgi, Marouane Fellaini. Eftir fyrstu þrjár umferðirnar í riðlakeppninni var staðan ekkert alltof góð fyrir Manchester United. En Big Game Fellaini þurfti ekki nema 11 mínútur til að snúa leiknum í Tórínó algjörlega við þegar United náði í gríðarlega öflugan útivallarsigur á Juventus, eitthvað sem Juventus lendir svo sannarlega ekki í á hverjum degi. Enda þurfa þeir, líklega sem betur fer ef þið spyrjið leikmenn liðsins, ekki að eiga við Fellaini á hverjum degi. Fellaini var svo aftur mættur í næstu umferð þar sem hann skoraði seiglusigurmark gegn Young Boys á Old Trafford og tryggði Manchester United áfram upp úr riðlinum. Takk fyrir allt, Fellaini!
En nú er Fellaini farinn í ævintýraferð til Kína. Eitthvað sem hann ætlaði að gera síðasta sumar en þá náði Mourinho að sannfæra hann um að vera aðeins lengur í Manchester. Hann skilaði sínu líkt og vanalega og megi hann njóta lífsins í Kína.
Solskjær tók hins vegar við og síðan þá hefur liðið haft mun fleiri valmöguleika í vopnabúrinu þegar kemur að sóknarleiknum, okkur öllum til mikillar gleði. Liðið skoraði ekki mikið í riðlakeppninni, aðeins 7 mörk í 6 leikjum. Þar af komu 3 þeirra í fyrsta leiknum, gegn botnliði Young Boys. Í tveimur leikjum náði liðið ekki að skora, þeir leikir voru í þokkabót á Old Trafford.
Þegar Solskjær tók við liðinu hafði það skorað 29 mörk í 17 leikjum í deildinni. Sömuleiðis fengið á sig 29 mörk. Í þessum 11 leikjum sem Solskjær hefur stýrt liðinu hefur það skorað 28 mörk og fengið á sig 7. Það er aldeilis skemmtilegur viðsnúningur. Liðið hefur farið úr því að vera 11 stigum frá Meistaradeildarsæti yfir í að vera komið í Meistaradeildarsæti á aðeins 9 umferðum í deildinni. Það er virkilega vel gert.
Það var bæði vandamál í sóknarleik liðsins og varnarleik áður en Solskjær tók við. Liðið virkaði á löngum köflum eins og það vissi ekki hvað það ætti að gera eða ætti að vera að gera, það vantaði samheldni og áræðni. Eitthvað sem við sjáum varla í dag, nú er liðið miklu meira að spila eins og liðsheild bæði í sókn og vörn. Á meðan við fengum oftar en ekki á tilfinninguna áður að stjórinn vissi ekki sitt besta byrjunarlið þá höfum við mjög skýra mynd núna af því hvað Solskjær telur vera sitt besta mögulega byrjunarlið.
Sem væri þá um það bil svona:
Það eru alls ekki mörg spurningamerki þarna, þau væru þá helst um líkamlegt ástand leikmanna. Eða einhverjar taktískar tilfæringar. Verður Smalling eða Jones treyst frekar en Bailly? Mun Lingard detta inn í falska níu eins og í leikjunum gegn Arsenal og Tottenham? Verður Lukaku jafnvel notaður sem hálfgerður hægri kantmaður eins og gegn Arsenal með góðum árangri? Væri hægt að finna betri mann í hægri bakvörðinn en Ashley Young?
Það verður mjög áhugavert að sjá hvernig þjálfarateymið kýs að stilla liðinu upp. En við getum þó verið viss um að það verða skýr markmið þegar kemur að sóknarleiknum og það verður lagt upp með að sigra leikinn, frekar en að einblína á að tapa honum ekki.
Paris Saint-Germain
PSG hefur á síðustu árum verið eitt af stóru liðunum í Evrópu án þess þó að ná almennilega að gera atlögu að Meistaradeildartitlinum. Félagið hefur mikið peningaveldi á bak við sig og hefur fjárfest mikið í gæðaleikmönnum en samt hefur alltaf vantað eitthvað upp á. Hvort það komi á endanum er erfitt að segja til um en við vonum allavega að þetta verði ekki þeirra ár heldur.
Liðið er efst í frönsku úrvalsdeildinni, með 10 stiga forskot eftir 22 leiki og á 2 leiki inni á næstu lið. Það er ekki beint óvænt, PSG hefur unnið frönsku deildina 5 sinnum á síðustu 6 árum. Það er með rúmlega 3 mörk að meðaltali í leik, aðeins fengið á sig 13 mörk og aðeins tapað einum leik. Liðið féll reyndar óvænt úr leik í deildarbikarnum um daginn (gegn liði sem það vann svo 9-0 í deildinni 10 dögum síðar) en er komið í fjórðungsúrslit franska bikarsins án þess að hafa fengið á sig mark í þeirri keppni (en skorað 9 í þremur leikjum).
PSG dróst í ansi erfiðan riðil í Meistaradeildinni, var þar í C-riðli ásamt Liverpool, Napólí og Rauðu stjörnunni frá Belgrad. Franska liðið tapaði fyrsta leiknum, á Anfield, með 3 mörkum gegn 2, en liðið vann svo 3 og gerði 2 jafntefli af rest og endaði á toppi riðilsins með 11 stig og langbestu markatöluna. PSG skoraði 17 mörk í riðlinum sem var meira en bæði Liverpool og Napólí skoruðu samanlagt.
Hins vegar var liðið að fá á sig slatta af mörkum, fengu samtals á sig 9 mörk í þessum 6 leikjum. Fyrir utan neðstu lið riðlanna þá voru aðeins 4 lið sem fengu á sig fleiri mörk en það. Af þessum 9 mörkum komu 5 þeirra í 3 útileikjum.
Markahæsti leikmaður liðsins í Meistaradeildinni er Neymar, sem skoraði 5 af þessum 17 mörkum. Hann nær hins vegar hvorugum leiknum gegn Manchester United vegna meiðsla. Sá næstmarkahæsti er Kylian Mbappé með 3 mörk. Mbappé er sömuleiðis markahæsti leikmaður liðsins í frönsku deildinni, hefur þar skorað 18 mörk. Það sem er merkilegast við þá tölfræði er að Mbappé hefur aðeins byrjað inn á í 13 deildarleikjum og komið inn á sem varamaður í 4 til viðbótar.
http://gty.im/1071865584
Mbappé er stoðsendingahæstur hjá PSG í Meistaradeildinni, með 3 stoðsendingar. Neymar kemur þar á eftir með 2. Ángel Di María er hins vegar með flestar stoðsendinar í hópnum þegar kemur að deildinni, er þar með 8 stoðsendinar.
Neymar er hins vegar ekki sá eini sem missir af þessum leik. Framherjinn eitraði Edinson Cavani meiddist fyrir stuttu og mun ekki ná leiknum. Þá verður hægri bakvörðurinn Thomas Meunier líka frá vegna meiðsla. Marco Verratti er að auki nýkominn til baka eftir snúin meiðsli. Hann er farinn að spila aftur en það er möguleiki að leikformið sé ekki komið alveg í 100% hjá honum.
Sérfræðingar telja líklegt að þessi meiðsli þýði að Mbappé verði færður af hægri kantinum og í framherjastöðuna á meðan hinn gamalreyndi Dani Alves standi vaktina á hægri kantinum í staðinn. Hann hefur alltaf verið sóknarsinnaður svo það ætti ekki að vera mikið mál fyrir hann að taka kantstöðuna frekar en bakvörðinn.
Það má því reikna með að PSG stilli upp einhverju í þessa áttina:
Þetta verður eitthvað!
Hvernig haldið þið svo að leikurinn fari? Er bjartsýni í lesendum síðunnar fyrir leiknum?
Addi says
4-2 sigur!
Konni says
Held að United vinni 2-0 Martial og Lingard
Robbi Mich says
Já alltaf bjartsýni núna fyrir leiki, og spenna, skemmtileg tilbreyting frá síðustu tímabilum (og hvað þá frá síðustu mánuðum Mourinho) þegar það var alltaf kvíði og áhugaleysi fyrir leikjum.
Þetta verður stórskemmtilegur markaleikur, segi 3-2. Annars er mér „sama“ hvernig hann fer, ég vil bara að Man Utd sýni baráttu og leikgleði og þó að það sé tap í þessum tveimur leikjum að þá gangi leikmenn stoltir af velli.
Björn Friðgeir says
Síðustu fimm árin hefur Meistardeildin verið spennandi í nákvæmlega 22 sekúndur… frá því þetta mark kom
https://www.youtube.com/watch?v=X9mJzowg7Lo
og þangað til Bayern jafnaði.
En núna? Núna er ég spenntur! Svo spenntur! KOOOOOOOOOOOMA SVOOOOOOOOOOOOOOO
Einar says
Þetta verður drulluerfitt. Það verða mörk og maður vonar bara að PSG skori ekki mikið af þeim (gildir ekki útivallareglan ennþá annars?). Þetta er rosalega sterkt lið hjá þeim, sama hvað óvinir United reyna að tala niður þetta PSG lið því það vanti Neymar og Cavani. Lykilatriði verður að halda Mbappe í skefjum. Mig hreinilega hryllir við tilhugsunin að sjá Jones eða Youngs (með fullri virðingu fyrir þeim) reyna takast á við þessa eldingu.
Get ekki sagt annað en að maður sé stressaður núna, helvíti stressaður en líka ógeðslega SPENNTUR. Þvílík breyting á móralnum að horfa á þetta lið núna eftir að Solskjær kom, ef Mourinho væri þarna þá væri maður bara á leið að fela sig í skotgröfunum.
Heilinn segi rosalegur 2-2 háspennuleikur, hjartað segir 2-1 sigur. Mig megum ekki tapa, bara ekki tapa.
BRING IT ON!