Vængbrotið lið Manchester United heimsækir Crystal Palace í 28. umferð ensku úrvalsdeildarinnar annað kvöld og heldur þar áfram jöfn barátta um Meistaradeildarsætið sem við misstum í hendur Arsenal um helgina. Með sigri nælir United í sinn áttunda útisigur í röð í öllum keppnum, sem væri félagsmet.
United gerði markalaust jafntefli við gamla óvininn í Liverpool á sunnudaginn og gekk það ekki áfallalaust fyrir sig. Fyrir leik meiddist Nemanja Matic og fyrir hálfleik meiddust þeir Ander Herrera, Juan Mata, Jesse Lingard og Marcus Rashford til viðbótar! Ólíklegt er að nokkur þeirra taki þátt á morgun en fyrir voru þeir Matteo Darmian, Antonio Valencia, Anthony Martial og Phil Jones á meiðslalistanum. Þá eru orðrómar þess efnis í dag að Paul Pogba hafi meiðst á æfingu og verði ekki heldur með! Hjálpi okkur, kannski var óþarfi að selja Marouane Fellaini?
Það verður því erfið heimsókn á ruggand Selhurst Park á morgun, velli sem m.a. Englandsmeistarar Manchester City máttu þola ósigur.
Crystal Palace
Heimamenn eru í 13. sæti deildarinnar og hafa heldur betur tekið við sér eftir erfiða byrjun á haustinu. Þeir hafa ekki tapað í síðustu fjórum deildarleikjum sínum, unnið tvo, nú síðast 4:1 gegn Leicester um síðustu helgi. Liðið virtist ansi líklegt til að falla í byrjun tímabils eftir agalegt gengi en elsti knattspyrnustjóri deildarinnar, hinn 71 árs gamli Roy Hodgson, hefur snúið genginu lið. Palace hefur þá unnið nokkur stórliðin nýlega; liðið sló út Tottenham í enska bikarnum í byrjun árs og skellti Manchester City á heimavelli um jólin.
Varnarmaðurinn Mamadou Sakho fór meiddur af velli í sigrinum gegn Leicester og verður hugsanlega ekki með, rétt eins og bakvörðurinn Aaron Wan-Bissaka. Þá eru þeir Martin Kelly, Connor Wickham og Pape Souare allir á meiðslalistanum.
Liðin sættust á markalaust jafntefli á Old Trafford í nóvember og eftir leik lét José Mourinho lærisveina sína heyra það, óvænt það! Leikurinn okkar á Selhurst Park á síðasta tímabili var þó heldur eftirminnilegri. Palace komst í 2:0 forystu, Chris Smalling og Romelu Lukaku skoruðu til að jafna metin áður en Nemanja Matic vann leikinn með dúndurskoti utan teigs í uppbótartíma! Meira af því, takk.
Manchester United
Ole Gunnar Solskjær lofaði 11 leikmönnum í Manchester United treyjum á morgun og þó hann ljúgi því ekki, gæti orðið erfitt að finna þá. Það eru allir meiddir, eða allavega 11 meiddir! Marcos Rojo gæti verið með og þá hafa þrír akademíu snáðar verið nefndir til sögunnar, þeir Tahith Chong, James Garner og Angel Gomes. Þríeykið unga er „klárt í slaginn“ að mati Norðmannsins og gæti verið þörf á.
Ég held að það sé ekki nokkur spurning að þessi leikur er bananahýði. Palace er öflugt lið og þeir Wilfried Zaha og Andros Townsend hafa skorað 14 mörk sín á milli í vetur. Þá eru okkar menn ansi vængbrotnir, annað kvöld mun reyna á. Stigin yrðu þó dyrmæt, komi þau í hús. Arsenal fær Bournemouth í heimsókn á meðan Chelsea og Tottenham mætast í Lundúnaslag sama kvöld.
https://twitter.com/sistoney66/status/1100456467172339712?s=21
Skildu eftir svar