Manchester United setti félagsmet í kvöld með því að vinna sinn áttunda útileik í röð í öllum keppnum er Crystal Palace var lagt að velli á Selhurst Park, 3:1. Það var býsna vængbrotið United lið sem steig á stokk í kvöld en margir eru frá vegna meiðsla. Þeir sem fengu að spila sýndu hins vegar dugnað og kjark á erfiðum útivelli og sóttu mikilvæg stig í baráttunni um Meistaradeildarsæti. Okkar menn stilltu sér upp svona:
Varamenn: Romero (M), Bailly, Rojo, Pereira, Garner, Chong, Rashford.
Byrjunarlið Crystal Palace: Guaita (M), Ward, Tomkins, Kelly, Aanholt, McArthur, Milivojevic, Schlupp, Townsend, Batshuayi, Zaha.
Varamenn: Hennessey (M), Dann, Riedewald, Kouyaté, Meyer, Ayew, Benteke.
Leikurinn
Eftir að fjögur meiðsli í jafnteflinu gegn Liverpool um síðustu helgi bættu við nú þegar langan meiðslalista þurfti að hrófla aðeins við skipulaginu í kvöld. Brasilíumaðurinn Fred fékk langþráð tækifæri á miðjunni og Diogo Dalot spilað á hægri kantinum í nokkuð breyttu liði þar sem Alexis Sánchez fékk tækifærið vinstra megin er Romelu Lukaku spilaði upp á topp.
Þrátt fyrir að vera án átta leikmanna er United nú ósigrað í 11 deildarleikjum undir stjórn Ole Gunnar Solskjær. Leikurinn fór nokkuð rólega af stað en United hefði þó átt að taka forystuna strax snemma leiks er Lukaku stýrði boltanum rétt yfir markið er hann var einn og óvaldaður í vítateignum eftir hornspyrnu. Það var þó Belginn sem braut að lokum ísinn á 33. mínútu eftir frábæran sprett Luke Shaw. Bakvörðurinn, sem eflist með hverjum leiknum, stakk sér milli nokkurra leikmanna Palace áður en hann tíaði Lukaku upp í skot og Belginn sneri boltann snyrtilega í fjærhornið með hægri! framhjá varnarmönnum Palace sem byrgðu Vicente Guaita sjón í markinu.
Snemma í síðari hálfleik var staðan svo orðin 2:0. Aftur fékk United hornspyrnu og að þessu sinni vann liðið fyrstu tvo boltana sem leiddi til þess að Lukaku fékk tækifæri til að bæta við á fjærstönginni. Hann sýndi fyrst styrk sinn til að ryðja varnarmanni frá sér áður en hann sneri boltann í markið úr þröngu færi með loftfimleika-töktum!
Heimamenn blésu spennu í leikinn á 66. mínútu þökk sé vandræðagangi í vörn United. Jeffrey Schlupp nýtti sér það, gaf boltann fyrir markið og Joel Ward stangaði í hornið. Við tóku erfiðar mínútur þar sem Palace-menn, studdir af háværum Selhurst Park, settu góða pressu á gestina en sem betur fer tókst okkar mönnum að refsa úr skyndisókn og gera út um einvígið. Paul Pogba fann þá Ashley Young í góðu hlaupi upp hægri kantinn. Hann keyrði inn í teig og létt fast skot ríða af sem Guaita og varnarmenn Palace náðu ekki að stöðva. Staðan 3:1 og þar við sat, öflugur útisigur í hús.
Leikurinn í kvöld var vissulega bananahýði þegar litið er til bæði meiðslanna og þeirrar staðreyndar að Palace er erfitt heim að sækja. Solskjær gat þó stillt upp nokkuð sterku liði og fékk Fred m.a. tækifærið í kvöld. Brasilíumaðurinn var slakur í upphafi leiks, sparkaði boltanum nokkrum sinnum beint út af en hann færði sig upp á skaftið eftir því sem leið á kvöldið. Aðeins Victor Lindelöf var með fleiri heppnaðar sendingar en Fred í lok leiks og verður áhugavert að sjá hvort fleiri tækifæri bíða hans þegar þeir Ander Herrera og Nemanja Matic snúa aftur úr meiðslum.
Annar leikmaður sem stuðningsmenn United bíða eftir að blómstri, Alexis Sánchez, átti enn eitt erfiða kvöldið. Það vantar ekki vinnusemina í Sílemanninn en fátt virðist ganga upp hjá honum og gekk hann að lokum nokkuð pirraður af velli, um stundarfjórðungi fyrir leikslok. Luke Shaw, sem var frábær gegn Liverpool um helgina, hélt uppteknum hætti. Bjó auðvitað til fyrsta markið og var að öðru leyti gríðarlega traustur í bakverðinum. Undirritaður var tilbúinn að gefast upp á Shaw síðasta sumar og sjá hann skipta um félag, ég borða þann hatt glaður í dag.
Crystal Palace hefur áfram aldrei unnið Manchester United í úrvalsdeildinni en liðin hafa mæst 20 sinnum síðustu 26 árin eða svo. United heldur áfram pressunni á Arsenal í fjórða sætinu og er nú aðeins fimm stigum frá Tottenham í þriðja sæti, sá munur var 13 stig þegar Solskjær tók við liðinu í desember.
Runar P. says
Get ekki alveg sagt að þetta sé vængbrotið lið..? Allir þarna eru landsliðsmenn nema Smalling, þannig að þetta er ekkert það slæmt lið
Karl Garðars says
Drykkjuleikur fyrir bindindisfólk. Staup í hvert skipti sem Fred hittir á samherja.
Simmi says
Fred er ekkert eðlilega lélegur. Hvernig gat þessi maður kostað 50 milljón pund????
Rúnar P. says
Munið bara þegar þið sögðuð þetta um Lindelöf í fyrra? Fred á bara eftir að koma til.
guðmundur Helgi says
flottur leikur og goður sigur a erfiðum utivelli,menn verða að gefa mönnum sma aðlögunartima.Viss um að norska undrið mun rifa Fred upp likt og aðra leikmenn liðsins.
Auðunn says
Fannst Fred vaxa þegar leið á leikinn.
Held að það sé nokkuð eðlilegt að hann hafi verið ryðgaður til að byrja með enda í litlu sem engu leikformi, hef alveg trú á að hann komi til.
Þetta var fínn leikur og mikilvægur sigur. Vorum kannski í smá vandræðum eftir að hafa fengið á okkur mark en sem betur fer náði Young að skora eftir að hafa enn og aftur misst hausinn þegar hann kostaði okkur mark. Mikið á ég stundum erfitt með mig þegar að honum kemur.
Gerir svo oft alveg heilalaus mistök og tekur ótrúlega furðulegar ákvarðanir sem meika engan sense.
Ég held að það sé alveg kominn tími á að gefa Daliot hægri bakvarðarstöðuna, treysti honum betur og hann var virkilega flottur í þessum leik.
Karl Garðars says
Virkilega sterkur sigur á mjög erfiðu liði. Freddi karlinn óx vissulega inn í leikinn. Ég er samt ekki að sjá hvernig hann passar inn í púslið með þeim leikmönnum sem fyrir eru og væri allan daginn til í að sjá einhverja unga pjakka frekar. Vonandi stígur hann upp en það verður að koma í ljós.
McT var mjög flottur. Gott að sjá Lukaku setja tvö og að vörnin stóð sig vel.
Lindelof búinn að vera frábær síðan Ole tók við og Smalling mjög góður.
Ég er samt ansi hræddur um að Smalling fari að kosta okkur með þessu peysutogi. Hann er búinn að dansa töluvert á línunni í síðustu leikjum.
Halldór says
Shaw bestur, Lukaku góður lík, sem og miðverðirnir báðir. Young koataði mark, en bætti það upp og mjög gott að hafa svona reyndan leikmann sem getur bæði varist og sótt. McTominay fínn. Dalot og Fred ekki góðir framanaf leiknum en náðu sér á strik. Sanchez á langt í land og Pogba var mistækur eins og svo oft áður.
Cantona no 7 says
Frábær sigur á erfiðum útivelli.
Lukaku að sýna hvað hann getur og heldur vonandi svona áfram.
Liðið verður helst að vinna rest t.þ.a. enda í meistaradeildarsæti.
Tottenham er að gefa mikið eftir .
Ole er einfaldlega snillingur.
G G M U
MSD says
…og alltaf bíður maður eftir að Sanchez springi út.
Sigm. says
Nani gat ekkert fyrsta árið, Chicarito annað dæmi, tala nú ekki um DeGea
Þetta kemur allt saman hjá Fredda. In Solskær we trust!
Björn Friðgeir says
Lítur út fyrir að Valencia fái ekki framlengingu… enda ekkert virði þar til að vernda!