Það vakti strax mikla athygli þegar leikmenn Manchester United stigu út úr liðsrútunni fyrir þennan leik að hvergi var hægt að finna Rashford og Herrera meðal leikmanna. Einhverjir blaðamenn komu með þær fréttir að Rashford væri veikur en fjarvera Herrera var óútskýrð lengi framan af. Seinna breyttist þó ástæðan fyrir fjarveru Rashford úr veikinum í meiðsli. Solskjær staðfesti það svo stuttu fyrir leik að báðir leikmenn væru meiddir. Rashford er víst meiddur á ökkla. Hann hefur verið að glíma við ökklameiðsli en þetta eru víst glæný meiðsli á hinum ökklanum. Ekki góðar fréttir. Samsæriskenningar um að Herrera væri frá vegna háværs slúðurs um að hann væri að heimta of há laun og vildi heldur fara frítt til PSG í sumar en þiggja það sem United væri tilbúið að borga honum virtust þá ekki vera réttar. En það er vonandi að meiðsli þessara leikmanna séu ekki alvarleg.
Okkar menn stilltu upp þessu byrjunarliði í leiknum:
Varamenn: Romero, Rojo, Matic, Jones, Pereira, Martial, Mata.
Fyrst í stað var ekki alveg á hreinu hvernig Solskjær ætlaði að stilla þessu byrjunarliði upp, hvort það yrði jafnvel 4-3-3 með Lingard og Dalot á köntunum sitt hvoru megin við Lukaku. En það kom í ljós að hann ætlaði að spegla heimamenn og nota Ashley Young sem einn af þremur miðvörðum.
Á meðan stilltu heimamenn upp þessu byrjunarliði:
Varamenn: Saïss, Cavaleiro, Costa, Jonny, Traoré, Ruddy, Gibbs-White.
Dómari leiksins var Mike Dean.
Leikurinn sjálfur
Jesse Lingard var ákveðinn í að tryggja að United byrjaði þennan leik af krafti, hann fékk boltann eftir miðju og lagði um leið af stað í átt að marki heimamanna. Hann lét varnarmenn Wolves hafa takmörkuð áhrif á sig heldur hljóp framhjá þeim og lét vaða á markið. Skotið var ekki nógu gott til að trufla Patrício neitt mikið en það var þó jákvætt að fá fyrstu marktilraun United eftir aðeins u.þ.b. 10 sekúndna leik.
Diogo Dalot byrjaði einnig hressilega og átti virkilega flottan sprett upp hægri vænginn á 5. mínútu. Eftir að hafa skærað sig framhjá varnarmönnum Wolves kom hann með frábæra fyrirgjöf fyrir markið, beint á kollinn á Lukaku. Lukaku gnæfði yfir varnarmenn Wolves en setti því miður skallann beint á Patrício.
United hélt þó áfram að sækja og á 13. mínútu kom fyrsta markið. Scott McTominay fékk þá boltann vel fyrir utan teig hægra megin við miðju. Hann tók skref, stillti boltanum upp fyrir sig og lét vaða. Skotið var gott og hnitmiðað og boltinn söng í netinu niðri í fjærhorninu. Glæsilegt mark hjá Skotanum.
Stuttu síðar hefði United átt að skora annað mark. Í það skipti var komið að Lukaku að gefa flotta fyrirgjöf þar sem hann var vinstra megin fyrir utan teig og gaf boltann á frían Jesse Lingard inní miðjum vítateig. Lingard hafði tíma til að miða og ætlaði að setja boltann vinstra megin við markvarð séð frá sér, í hornið sem boltinn var að koma frá. Skallinn var ágætur en hefði getað verið miklu betri og Patrício varði enn.
Það kom svo í bakið á United að hafa ekki náð að nýta nema eitt af þessum færum (og það langslakasta af þremur) þegar Diogo Jota jafnaði metin á 24. mínútu. Fred fékk þá sendingu frá de Gea og virtist nokkuð pressulaus. Hann náði þó samt að missa boltann of langt frá sér og tapaði honum til Wolves sem keyrðu á United vörnina. Jiménez kom með flotta stungusendingu á hárréttum tíma og Diogo Jota var einn í gegn og slúttaði vel. Synd miðað við færin sem United fékk í fyrri hálfleiknum.
http://gty.im/1134520842
Raunar var ekki allt búið enn. Lukaku fékk fínasta færi í lok fyrri hálfleiks þegar boltinn kom til hans hægra megin í vítateignum en hann setti boltann hárfínt framhjá fjærstönginni. 1-1 í hálfleik þar sem United byrjaði mun betur en Wolves sneri leiknum við með jöfnunarmarkinu og hafði jafnvel nokkra yfirburði úti á vellinum um tíma. Auk þess náði Luke Shaw sér í gult spjald sem þýðir að hann verður í leikbanni í næstu tveimur leikjum út af uppsöfnuðum gulum spjöldum. Ekki besta leiðin til að halda upp á það að hafa verið kosinn leikmaður marsmánaðar af stuðningsmönnum Manchester United.
Manchester United byrjaði síðari hálfleik sem sterkari aðilinn og hélt boltanum mun meira. Á 55. mínútu var Lukaku aftur mættur á vinstri kantinn. Þar tók hann nokkur skæri og bjó sér til pláss til að koma með fyrirgjöf. Fyrirgjöfin var mjög flott, sigldi yfir varnar- og sóknarmenn alla leið á fjær þar sem Scott McTominay var allt í einu kominn og átti hörkuskalla en enn varði Patrício í markinu. Í þetta skipti var lítið hægt að setja út á skallann, þetta var einfaldlega virkilega vel varið.
Stuttu seinna versnaði staðan hjá United þegar Ashley Young fékk sitt annað gula spjald á 5 mínútum og þar með rautt. Young hafði ekki verið neitt sérstaklega öflugur í leiknum og kórónaði dapran leik þarna með þessum tveimur gulu spjöldum, sem ekkert var hægt að setja út á. Mike Dean var þarna að gefa leikmanni rautt spjald í 100. skipti á ferlinum. Við óskum honum mátulega mikið til hamingju með þann áfanga…
Wolves gekk á lagið næstu mínúturnar á eftir og náði ákveðnum yfirtökum á leiknum. Varnarleikur United varð óöruggur og það tók sig m.a.s. upp gamalt úthlaupsóöryggi hjá de Gea sem þorði illa út í bolta og missti hann frá sér en sem betur fer varð ekkert úr því hjá Wolves. Á 65. mínútu gerði Solskjær svo skiptingu þegar hann tók Fred af velli og setti Phil Jones inná í hans stað. Þannig gat liðið haldið þriggja miðvarða uppstillingunni og spilaði þá eins konar 3-1-4-1 kerfi.
Það var hægt yfir leiknum mínúturnar á eftir, besta færið á þeim kafla var skalli frá Scott McTominay eftir hornspyrnu. Á 73. mínútu gerðu báðir stjórar breytingu. Anthony Martial kom þá inná fyrir Romelu Lukaku en hjá heimamönnum kom Ivan Cavaleiro inn fyrir markaskorarann Diogo Jota. Stuttu eftir það kom svo Jonny Castro inn fyrir Rúben Vinagre.
Fljótlega eftir því komust heimamenn svo yfir og það var virkilega klaufalegt mark. Moutinho kom reyndar með verulega góða fyrirgjöf en þar voru þeir Smalling og Jones alls ekki sannfærandi, vægast sagt. Jones náði ekki að hreinsa, de Gea kom með ósannfærandi úthlaup og á endanum setti Chris Smalling boltann í eigið mark. Glatað mark í alla staði.
United svaraði þessu alls ekki af krafti næstu mínúturnar heldur voru daufir og virtust jafnvel halda að leikurinn væri búinn. Andreas Pereira kom inn á fyrir Dalot á 84. mínútu og þá kviknaði smá líf í gestunum. Það var þó enn of einfalt fyrir Wolves að verjast þessu, það var eins og þeir gulklæddu ættu meiri orku eftir.
Pogba og Martial náði upp smá spili á 89. mínútu sem endaði með langskoti frá Pogba en það var bæði laust og allan tímann á leiðinni framhjá. Stuttu eftir það var Smalling næstum búinn að skora annað sjálfsmark þegar hann renndi sér í fyrirgjöf en de Gea náði að skutla sér í hornið og verja frá samherja sínum. Wolves fékk svo hættulegri tækifæri en United í uppbótartíma, áttu þar á meðal skot í þverslá. United fékk aukaspyrnu þegar komið var fram að síðustu mínútu uppbótartímans en það var hættulítið og sömuleiðis hornspyrnan sem United fékk í kjölfarið. Einfaldlega of lítið og kraftlaust. Dean flautaði leikinn svo af stuttu síðar og United áfram í 5. sætinu en getur fallið niður í 6. sætið annað kvöld. Ekki gott.
Pælingar eftir leik
Þetta var ekki nógu gott. Hið jákvæða var þó að United skoraði mjög gott mark og skapaði sér færi til að skora 3-5 mörk í heildina.
Hið neikvæða var þó að missa forskotið niður. Klaufagangur í varnarleiknum og það þarf að nýta þessi færi, sérstaklega gegn sterku liði eins og Wolves. Hvað þá á þeirra heimavelli.
Það þarf öflugan miðvörð inn í sumar við hlið Lindelöf, það er ljóst.
David de Gea var að tækla úthlaupin í þessum leik eins og hann væri aftur orðinn litli, hræddi 2011-de-Gea. Við megum alls ekki við því.
Fór þetta tímabil, sem hófst með ráðningu Solskjær og kláraðist með kraftaverkinu í París, algjörlega með allt bensín á tanki leikmanna? Eða er þetta vandamál annars eðlis?
Nú reynir á Solskjær og félaga. Bæði þurfa þeir að finna lausnir á þessu andleysi einn, tveir og prontó. Annars endar mjög illa gegn Barcelona í næstu viku. En líka þurfa þeir að teikna upp öfluga strategíu fyrir sumargluggann því það þarf bæði að kaupa vel inn og grisja rétt í þessum leikmannahópi.
Það eru 8 dagar í næsta leik. Frí um helgina og svo 8-liða úrslit Meistaradeildarinnar á miðvikudag í næstu viku.
Halldór Marteins says
Fyrstu fréttir af fjarveru Rashford sögðu veikindi, nú segja fréttamenn hins vegar að þetta séu ökklameiðsli hjá Rashford. Ekki þau sömu og hann hefur verið að glíma við heldur á hinum ökklanum. Vonum að það sé ekkert alvarlegt.
Halldór Marteins says
Solskjær var spurður út í Herrera og svaraði að Spánverjinn væri „not fit“.
Theodór says
Geggjað byrjunarlið, fremstu 6 fersk og spennandi samsetning.
Dóri says
Þá er það endanlega staðfest.
Young er heimskasti leikmaður Manchester United frá upphafi.
Sindri says
Þvílíkur aumingjaskapur að tapa fyrir þeim aftur.
Menn voru hverjir öðrum verri og þessi hópur á ekki skilið að enda í 4 sæti. Vorum einu marki undir í uppbótartíma samt var Wolves í stórsókn??? De Gea búinn að smitast verulega af klaufaveirunni sem myndaðist í frumum Young og Smalling haustið 2013. Það var bara tímaspursmál hvenær þeir smituðu þá bestu.
Erum komnir í bullið aftur eftir skemmtilega mánuði, því miður.
Auðunn says
Það verður afskaplega erfitt fyrir Ola og félaga að byggja þetta andlausa og hugmyndalausa lið upp verandi ekki í meistaradeildinni á næsta tímabili.
Nái liðið ekki að komast þangað eins og útlit er fyrir þá kæmi mér alls ekki á óvart að Pogba fari ásamt De Gea og eflaust fleiri sterkum leikmönnum.
Dýrðin í kringum Ola Gunnar er að hverfa eins og dögg fyrir sólu á jafn skömmum tíma og hún reis.
Liðið er í tómu messi og ekkert sem bendir til að Eyjólfur sé að hressast.
Ég sagði það áður og segi það aftur að þessi raðning var merki um fljótfærni.
Hún gæti heldur betur komið í bakið á mönnum.
Audunn says
Og hversu léleg management er það að spila Young leik eftir leik eftir leik eftir leik.
Maður sem er búinn að vera heilt yfir skelfilegur á þessu tímabili.
Líklega einn lélegasti hægri bakvörður í þessari deild og þó víðar væri leitað.
Og hann er ennþá fyrirliði liðsins.
Gjörsamlega galið í alla staði og algjör bilun að það sé ekki hægt að spila einhverjum öðrum en honum.
Lið er aldrei betra en veikasti hlekkurinn.
Young og Smalling eru okkar veikustu hlekkir og ótrúlegt að það sé ekki reynt að gera breytingar.
Bjarni Ellertsson says
Blaðran sprakk eftir PSG leikinn og ekki hefur náðst að virkja sama kraftinn og var fram að þeim leik. Nú erum við upp við vegg varðandi 4 sætið, náum því varla með þessari spilamennsku og það verður þá bara að hafa það. Sumir leikmenn greinilega að hugsa sér til hreyfings, það er ljóst, og því miður erum við með afdankaða varnarmenn í okkar hóp sem skemmta stöðugt skrattanum. Svona verður þetta fram á vor, dettum út gegn Barca (rasskelltir) og ná um 50% af þeim stigum sem eftir eru. Það mun ekki duga til útflutnings en það verður einmitt fróðlegt að sjá leikmannakaup sumarsins.
gummi says
Afhverju að bíða ekki með þessa ráðningu eftir tímabilið hvað ætlar stjórnin að gera ef við förum tapa 5 til 6 leikjum í röð sem ég sé alveg gerast með svona marga pappakassa í liðinu
Halldór Marteins says
Held það hafi nú ekki verið nein fljótfærni að ráða Solskjær. Hann var búinn að gera nógu mikið til að sýna fram á að hann ætti svo sannarlega skilið að fá að spreyta sig í þessu starfi.
Það var löngu vitað að það þyrfti að taka til í þessum leikmannahópi og styrkja hann betur en hefur verið gert. Vonandi er verið að vinna í því að fá inn DoF fyrir sumarið.
Vonandi fær síðan Diogo Dalot að spila meira, það er skemmtileg ára yfir honum. Hann er kjarkaður leikmaður og áræðinn, verður vonandi meira úr honum hjá United.
Ingvar says
Henda Pogba strax til Madridar í kvöld, er frábær fótboltamaður ef hann nennir því en er algjörlega rotið epli í þessu liði, á að heita okkar besti maður en er engan veginn hægt að treysta á hann.
Ótrúlegt hvað þetta lið getur verið eins og íslenskt veðurfar á þessum 90 mínútum sem leikirnir eru, góðir fyrstu 20, hörmung næstu 25. Svo voru 7 veðurafbrygði í seinni.
6 sætið í vor..
Heidar says
Sammála þér Auðunn – það lá nákvæmlega ekkert á að klára þessi stjóramál fyrr en í sumar. Þegar lið fara í gegnum svona hörmungartímabil andlega séð eins og raunin var þegar Móri var að missa klefann er mjög algengt að eftirmaðurinn rífi upp gleði og stemningu sem skilar sér í frábærum árangri – tímabundið. Nú er klukkan farin að ganga þrjú á ballinu og liðið orðið slompað líkt og áður fyrr á leiktíðinni. Það er orðið býsna langt síðan að liðið vann leik á þægilegan hátt og eins og er er skemmtanagildið ekki mikið meira en hjá United liðið Mourinho.
Hjöri says
Held að þessi leikur hafi gert útslagið með það að Utd nái ekki meistaradeildarsæti í vor, og þá spyr maður sig hvaða leikmenn vilja koma til liðsins, því er það ekki mottóið hjá leikmönnum að spila í meistaradeild?
Jonas says
Er LFC mður, en þið látið eins og himinn og jörð hafi hrunið. Oli gaf ykkur von, þegar aðeins á móti blæs þá rakkið hann niður. Hvað áttuð þið von á , kraftaverki. Þið eruð bæði búnir að halda í og sanka að ykkur tómum vesalingum áður en Oli kom, svo þarf hann að spila þá upp, og í hvað?
Ég er með það á hreinu, það hefðu fáir ef engir náð að koma Manu í þá stöðu að vera þó í baráttu um meistaradeildarsæti. En verandi með vesalinga eins og Pogba ofl. og öll hin uppsöfnuðu vandamáalin, þá sendið ekki slæmar hugsanir á Ola.
Tómas says
Verð að taka undir með Liverpool manninum. Hvað er að fólki hérna!? Hefur ekkert með Ole að gera þessi úrslit.
Leikmennirnir nýttu ekki færin…þar tapaðist leikurinn.
Turninn Pallister says
Í leiknum í gær krystallaðist vandamál liðsins. Ég er hræddur um að stærsta verkefni Ola verði að endurbyggja hópinn. Út frá því ætti að dæma hann en ekki út frá þessum úrslitum.
Ég er kominn á þá skoðun að það þurfi í meiri naflaskoðun heldur en bara að kaupa miðvörð og hægri vængmann og bakvörð. Það þarf hreinlega að fá nýjan kjarna til að byggja liðið utan um. Það að röfla um að þetta geti orðið svo hræðilegt að sterkir leikmenn á borð við Pogba og De Gea gætu farið… Bíddu fyrirgefðu en hvað hafa þessir sterku leikmenn verið að sýna okkur að undanförnu? Er það ekki þeirra að koma liðinu á þann stall sem það á að vera á? Mér hryllir við því að það eigi að verðlauna menn með ofur samningum eftir svona drullu tímabil. Frekar á bara að selja eða að leyfa mönnum að fara. Það eru til aðrir markmenn heldur en De Gea (eigum meira að segja fínan varamarkmann sem gæti alveg haldið byrjunarliðssæti i flestum EPL liðum). Pogba er heldur alls ekki ómissandi (sbr. leikinn í París).
Roy says
„Þú skapar þína eigin heppni“ á vel við núna. Ótrúlegt að þeir skyldu tapa þessum leik. Uppleggið var fínt en færanýting okkar manna er því miður að koma í bakið á mönnum. Wolves var ekki einu sinni búið að reyna að skora þegar staðan var orðin 1-1, gæðaleysi hjá Fred í gær var algjört. Margoft var 1 snertingin að svíkja hann. Young má fá miklar skammir fyrir þessa heimskulegu tæklingu, á gulu spjaldi og fara í þessa tæklingu er fráleitt, hann veit það líklega best sjálfur. Svo þetta sigurmark, það zúmmar bara upp vandamálið hjá liðinu, það vantar alvöru miðvörð, sá miðvörður hefði einfaldlega tekið sér stöðu og skallað þennan bolta í burtu. Niðurstaðan 2-1 tap þar sem okkar menn græjuðu öll mörkin,
Bjarni Ellertsson says
Daginn, eru menn hættir í podköstum? Nú væri ráð að ræða hlutina hvað mönnum finnst um næstu þrjú árin, er framtíðin björt?, Solskjær fékk ráðningu, Phelan hikar við ráðningu, PP, RL, DDG og fleiri orðaðir burt, óvissa með stuðninginn við leikmannakaup, ogsvfrv. Eða bara þessi eina spurning, hvað í andskotanum er í gangi hjá félaginu? Eru engar jákvæðar fréttir um liðið.
GGMU
Audunn says
Hef persónulega töluverðar áhyggjur af Manchester United næstu árin.
Við gætum verið að horfa upp á mjög erfiða tíma næstu ár og jafnvel eitthvað lengur.
Því miður hef ég ásamt fleirum haft rétt fyrir mér með mjög margar ákvarðanir sem teknar hafa verið síðan sir Alex hætti.
Sú fyrsta var að sjálfsögðu raðning David Moyes og allt sem hann gerði innan sem utan vallar.
Kaupin hans, ákvarðanir um að skipta um þjálfarateymi osfrv.
Ráðning Van Gaal var hinsvegar ákvörðun sem mér fannst góð.
En mörg kaup hans voru mistök eins og á Darmian, Rojo ofl.
En ákvörðun um að reka hann og ráða Mourinho voru aftur gífurleg mistök hjá klúbbnum.
Mourinho fittaði aldrei inn í prófíl Manchester United sem sást svo mjög fljótlega.
Og núna aftur eru menn alltof fljótir á sér.
Það er mikil spenna og óvissa í herbúðum liðsins.
Staða margra leikmanna í mikilli óvissu og lélegar ákvarðanir í leikmanna málum að koma í bakið á mönnum núna.
Kaupin á Alexis var aftur hræðileg ákvörðun sem hefur sett launamál liðsins upp í loft.
Ef Ole Gunnar er rétti maðurinn í jobbið þá mun það taka hann mörg ár að vinda ofan af þessum leikmannahópi.
Of margir miðlungsleikmenn og framtíð bestu leikmanna liðsins í uppnámi.
Það sem mun svo gera þetta margfalt erfiðara fyrir hann og klúbbinn er sú staðreynd að liðið mun ekki vinna neinn titil né ná meistaradeildarsæti.
Meistaradeildarsæti myndi gera hlutina aðeins auðveldari varðandi fjármagn og ná að lokka mjög góða leikmenn til liðsins.
Staða liðsins í dag er ekki góð og það er greinilega eitthvað um að vera á bakvið tjöldin sem er ástæða þess að maður eins og Mike Phelan er hikandi við að skrifa undir hjá klúbbnum.
Turninn Pallister says
Já þú hefur nokkuð til þíns máls Auðunn. Það hefur einfaldlega verið haldið afleitlega á málum eftir að Ferguson tímanum lauk. Reyndar er ég hræddur um að vitleysan í leikmannakaupum hafi verið byrjuð áður en að Sör-inn kvaddi okkur, málið var bara að karlinn var ótrúlega lunkinn að setja saman lið úr litlum efnivið. Woodward og co. virðast bara aldrei hafa haft almennileg plön í leikmannamálum og enga sérstaka stefnu þegar kemur að uppbyggingu liðsins (aðra þá en fjárhagslega). Moyes átti aldrei séns, enda var augljóst að engin alvöru plön höfðu verið gerð á leikmannamarkaðnum sumarið sem hann tók við. Van Gaal virðist svo hafa lent í því að þurfa að byggja upp nýtt lið í samstarfi við Woodward sem að gaf af sér nokkur stórskrítin leikmannakaup (sbr. Di María kaupin sem voru óskiljanleg þar sem að Van Gaal var ekki að nota vængmenn í sínu aðal kerfi). Van Gaal lét liðið reyndar aldrei spila sérstaklega skemmtilegan fótbolta, en maður sá samt hvað var verið að reyna að gera þar. Heimskuleg kaup í leikmönnum eins og Schneiderlin, Marcos Rojo, Memphis Depay, Darmian og Daley Blind skyggir á góð kaup í Martial, Romero, Luke Shaw og Herrera. Þá fengum við líka til okkar fína leikmenn sem virtust bara því miður ekki vera í neinu líkamlegu standi, annað hvort vegna meiðsla (Falcao) eða aldurs (Schweinsteiger). Á sama tíma brunnu upp nokkrir máttarstólpar, munaði þar mikið um Rooney (sem hefði átt að fara sumarið sem Ferguson hætti) og Van Persie.
Nú heyrir maður orðróm um að hreinsa eigi mikið til í sumar og að Solskjær eigi að fá um 200 milljónir til leikmannakaupa fyrir utan þann pening sem fæst fyrir þá leikmenn sem hverfa á braut. Þá heyrist einnig að hann og Woodward séu strax komnir upp á kant þegar kemur að leikmannakaupum, þar sem Solskjær vilji fremur einbeita sér að ungum og efnilegum leikmönnum á meðan að Woody vill fá eldri ofurstjörnur til að auka auglýsingatekjur og treyjusölu. Því miður virðist klúbburinn vera runninn á rassgatið með að ráða DOF fyrir næsta leikmannaglugga, enda eru flest lið fyrir löngu komin á fullt við að ganga frá leikmannakaupum næsta sumars. Spennandi tímar frammundan og spurning hvort við fáum önnur 5 ár af rússibana eða hvort Solskjær tekst vel til að byggja upp hópinn. Hvað svo sem verður, þá finnst mér að úr því hann var ráðinn þá eigi hann líka að fá tíma til þess að byggja upp. Á móti kemur að við gætum þurft að sætta okkur við erfið ár frammundan.