Það er risaslagur á morgun. Eitt af þremur bestu liðum Evrópu síðustu tíu árin kemur í heimsókn. Besti leikmaður í heimi leikur á móti besta miðverði í heimi, af þeim miðvörðum sem heita Chris Smalling.
Já það er örlítið öðruvísi stemming en oft áður þegar United og Barcelona mætast. Síðustu tvö skipti var það í úrslitaleik Meistaradeildarinnar, 2009 þegar brugðið hefði getað til beggja vona, en Barcelona vann og svo 2011 þegar Barcelona sýndi mátt sinn og megin og vann auðveldlega. Þar á undan var það auðvitað Paul Scholes sem smellti United í úrslitaleikinn 2008, sællar minningar. Það er ekki hægt annað en að mæla með grein Rob Smyth um fyrri viðureignir liðanna, þar er margt konfektið!
Síðan þá hafa reyndar Barcelona aðeins unnið Meistaradeildina einu sinni , þó liðið hafi verið áskrifandi að spænska titlinum hafa þeir staðið í skugga erkiféndanna í Real Madrid í Evrópukeppninni. Tíminn fer að renna út fyrir Messi að bæta í þetta titlasafn. Liðið er hörkusterkt og því sem næst búið að tryggja sér spænska meistaratitilinn.
Stemmingin í kringum United hefur hins vegar snarbreytst síðasta mánuðinn. Eftir gleðina sem fyrstu mánuðir Ole færðu okkur og þá gargandi (bókstaflega) snilld sem sigurinn í París var, hafa hlutirnir snúist á verri veg. Frá kvöldinu góða í París hafa þrír leikir tapast, þar af tveir gegn Wolves, og sigurinn gegn Watford var síður en svo sannfærandi. Engu að síður er nú Ole Gunnar Solskjær þjálfari liðsins til næstu þriggja ára og ljóst að hans bíður risastórt verkefni að taka til í hópnum, enda hefur slúðrinu rignt síðustu vikur.
En á morgun þarf Ole að vinna með það sem er til og það er ekki flókið að það verður ekki spilaður blússandi sóknarbolti, nema þá til þess að tapa. Enda sagði stjórinn í dag að United þyrfti að sýna kænsku og læra af PSG leiknum sem tapaðist 0-2. Það er enn eitthvað um meiðsli og helst vonast til að Nemanja Matic komi til greina. Spáum liðinu:
Það er til marks um það hvernig stjórnin á United hefur verið undanfarin ár að þrátt fyrir heljarinnar innkaup þá erum við enn að sjá leyfar af stjóratíð Ferguson sem ættu að vera horfnar, risainnkaup sem ekki hafa skilað sínu, og einn launahæsta leikmann heims sem flest eru eiginlega ánægð með að sé ekki að þvælast fyrir inni á vellinum. Og það er fjarri því að þessi lið mætist sem jafningjar. En það verður að vona, er það ekki? Leikmenn eins og Rashford, Martial og Pogba eru engir aumingjar? Og ef það einhver sem á skilið sæti í liðinu út á vinnusemi er það ekki Big Game Lingard?
En svo sjáum við Ashley Young í bakverðinum og þetta lið
Ef það er einhver von hjá United þá er það sú að Barcelona fær á sig óvenju mörg mörk þennan veturinn, heil 31 í deild í 31 leik. Vonin dofnar þegar hinn dálkurinn er skoðaður. Barcelona hefur skorað 81 mark í þessum leikjum. Philippe Coutinho hefur almennt staðið sig illa í vetur er sagt, og því reynir slúðrið eðlilega að selja hann til United. Coutinho hefur þó haldið sæti sínu fram fyrir önnur risakaup, Ousmané Dembéle hefur vægast sagt verið vonbrigði. Um Luis Suárez og Lionel Messi er óþarfi að hafa fleiri orð, en eitt nafn sem kann að koma á óvart er Arthur Melo, sem hefur átt fast sæti í liði Barcelona undanfarið og hefur kominn inn sem sendingameistari liðsins og fyllir þar skarð Xavi og Iniesta. Ivan Rakitić og Sergio Busquets þekkjum við öll.
Ef leikurinn gegn PSG var erfiður á pappír með Ole bjartsýni fyrirfram, þá er leikurinn á morgun mun erfiðari á pappírnum og nú er stemmingin önnur en fyrir rúmum mánuði.
En það er alltaf þannig að það er núllnúll þegar leikurinn byrjar, og nú er stundin og staðurinn fyrir þá leikmenn United sem þykjast eiga sess á toppi knattspyrnupýramídans að sýna það.
Skildu eftir svar