Hvernig fannst þér tímabilið?
Frikki
Tímabilið verður að teljast vonbrigði svona heilt yfir. Við losnuðum okkur við José Mourinho og upplifðum stjóraskiptaskriðþungann fyrstu leikina eftir að Ole Gunnar tók við. Sá kom á óvart en eftir að hann var ráðinn virðist allt hafa fallið í sama farið en það kristallar kannski enn betur fyrir okkur stuðningusmönnum að vandinn lá ekki hjá Mourinho einungis eigendum félagsins og Ed Woodward. Þeir gerðu enn ein mistökin með því að gefa Solskjær samning áður en tímabilinu lauk. Liðið spilaði samt engu að síður mun skemmtilegri bolta eftir stjóraskiptin en endirinn á tímabilinu var nóg til að vera svartsýnn fram að næsta tímabili hið minnsta.
Runólfur
Mikil vonbrigði. Eftir 2. sæti í fyrra hélt maður að liðið myndi bæta við sig leikmönnum og reyna gera atlögu að City. Í staðinn horfir maður á steingelda leikmenn sem virðast ekki vita hvað er hægri og hvað er vinstri skíta upp á bak trekk í trekk á meðan Liverpool gerðir atlögu að City.
Halldór
11 æðislegar vikur frá 19. desember til 6. mars en þess utan algjört þrot. Knattspyrnu- og karakterlegt hrun liðsins í lok tímabils varð enn verra þegar samanburðurinn var spilamennska og seigla Liverpool og Manchester City á sama tímabili. Tilfinningin þegar tímabilið klárast er vonleysi, manni finnst United langt á eftir toppliðunum á Englandi og í Evrópu. Auðvitað geta stórir klúbbar verið fljótir að rífa sig upp ef það er almennilegur vilji til að gera það sem þarf að gera, ég er bara ekki endilega viss um að eigendurnir séu á þeim stað
Bjössi
Hugsanlega eitt það versta frá fallárinu 1973-4. Höfum lent neðar en rússibaninn sem þetta var, fyrst vonleysið með José, umbreytingin með Ole, og svo hrunið algera síðustu tvo mánuðina eftir sigurinn frækna á PSG.
Liðið er komið á algera endastöð og það er alveg réttmætt að spyrja sig hvort Solskjær sé maðurinn til að breyta því. Hann fær þó sumarið og sigurhrinan hans bendir til þess að hann vilji spila góðan fótbolta, og það þarf að nýta þetta sumar til að hreinsa til í hópnum og ekki síður að koma leikmönnum í það líkamlega ástand sem þarf til að spila hátempó fótbolta.
Maggi
Þetta tímabil fór úr því að vera skelfing yfir í að vera spennandi og um tíma var gaman að horfa á United spila fótbolta eftir að Solskjær tók við. Eftir PSG útileikinn var augljóst að leikmenn voru margir orðnir bensínlausir og um leið hrundu gæði spilamennskunnar og úrslitin voru svo eftir því. Ole talaði um að margir leikmenn myndu ekki eiga framtíð hjá liðinu og ég hlakka til að sjá nokkra þarna fara og því miður ekki margir sem ég myndi sakna.
Einkunn José Mourinho
Frikki
Mourinho fær ekki falleinkunn, aðallega fyrir það að skila liðinu inn í Meistaradeildina tvö tímabil í röð, vinna Evrópukeppnina og ná 2. sætinu í deildinni. Hins vegar er ég mjög feginn að vera laus við neikvæðnina sem gegnsýrði liðið á meðan hann var við stjórnvöllinn, sérstaklega á þessu „klassíska þriðja tímabili“ hans. Þá var hugmyndaflugið og leikstíll liðsins leiðinlegri en elstu menn muna og ekki bætti úr skák að leikir sem áttu að vinnast voru ekki að falla með okkur. Hann þurfti að fara, en hann var ekki stærsta vandamálið sem United á við.
Einkunn: 6
Runólfur
4
Halldór
3.
Fékk ekki allan þann stuðning sem hann hefði þurft til að bæta liðið en brást heldur ekki vel við því. Reyndi að hrista upp í hlutum fyrir ofan sig en þegar það gekk ekki nógu vel þá skemmdi hann of mikið út frá sér inn í liðið.
Bjössi
3.
Algert vonleysi, en eftiráaðhyggja er líklega rétt hjá honum að það að koma þessum hóp í annað sætið í fyrra sé hans mesta afrek á ferlinum. Að kaupa síðan bara einn leikmann í fyrra sumar, sem svo varð ein verstu kaup allra tíma, á eftir leikmanninum keyptum í janúar, gat engan veginn lagað það.
Tryggvi Páll
Ég held að það sé óhætt að gefa Mourinho einkunn á bilinu 1-2 fyrir þetta tímabil. Það er ótrúlegt að hugsa til þess hversu mörg skref liðið tók aftur á bak á milli tímabila. Auðvitað áttum við ekki séns í City á síðasta tímabili þegar uppi var staðið en engu að síður var liðið það næstbesta á Englandi.
Maggi
3
Einkunn Ole Gunnar Solskjær
Frikki
Ole Gunnar Solskjær gerði nákvæmlega það sem fólk bjóst við að hann myndi gera, létta andrúmsloftið og ná aftur upp leikgleði leikmanna, en það sem kannski færri bjuggust við var að hann náði líka í úrslit og átti góð taktísk svör við ýmsum hindrunum. Þá vann hann mörg af stóru liðunum á stuttum tíma, lagði PSG í ótrúlegri endurkomu í Meistaradeildinni og virtist vera að gera alla hluti rétt. Þar til félagið tilkynnti að hann hefði skrifað undir samning við félagið til þriggja ára. Solskjær þar að sýna það í sumarglugganum að honum sé alvara að ætla sér að vera framtíðarstjóri liðsins og það verður merkilegt að fylgjast með framvindu mála á leikmannamarkaðnum. Einkunn: 8,5
Runólfur
6
Halldór
5
Kom með ferskasta innblástur inn í liðið sem við höfum séð frá tímum Fergie, lét liðið spila glimrandi skemmtilegan fótbolta í byrjun og leiddi liðið til stærsta sigurs sem það hefur náð í þó nokkur ár þegar hann kortlagði kraftaverkið í París. Hann hefur þó virkað algjörlega ráðalaus í hruninu eftir þann leik. Þótt ég sé sammála ákvörðuninni um að fastráða hann þá þýðir þessi vondi endasprettur að hann byrjar næsta tímabil á gulu spjaldi, sem er ekki gott.
Bjössi
6
Gleðin yfir sigurhrinunni hvarf eins og dögg fyrir sólu. Þetta gæti orðið erfitt sumar fyrir hann.
Tryggvi Páll
Solskjær verðskuldar 6,5 í einkunn fyrir þetta tímabil. Í raun er ótrúlegt að liðið hafi aðeins verið fimm stigum og líklega grátlegu jafntefli gegn Chelsea og tapi gegn Arsenal þar sem við vorum klárlega betri aðilinn, frá því að komast í Meistaradeildina. Slíkt var óhugsandi þegar hann tók við og liðið var í ruglinu.
Í byrjun sýndi hann að það er ýmislegt í hann spunnið sem þjálfari þó að gengið undir lok tímabilsins vekji upp spurningar. Er hann nógu góður til að skáka Pep, Klopp og Poch til lengri tíma litið? Augljósa svarið er nei en það var margt jákvætt í spilamennsku liðsins í upphafi sem gefur manni ágæta von um að það séu örlítið betri tímar framundan.
Ef til vill má skrifa þetta hrottalega gengi undir lok tímabilsins á það að liðið var sprungið eftir mikil hlaup og miklar kröfur frá þjálfarateyminu. Hópurinn var jú auðvitað þunnskipaður vegna meiðsla og eftir á að hyggja var ekki rétt að láta Fellaini fara í janúar, það hefði alveg mátt bíða til júlí. Það hafði sín áhrif. Að mörgu leyti var líklega ágætt að liðinu gekk svona illa undir restina, það er jú auðvitað í mótlæti sem hinn sanni karakter leikmanna sprettur fram og þessir síðustu mánuðir ættu að hafa gefið þjálfarateyminu góðar upplýsingar um hvaða leikmenn hafi andlegu getu til að vera leikmenn United, eitthvað sem hefur sárlega vantað í leikmannakaup United að undanförnu.
Maggi
7
Leikmaður ársins: Paul Pogba
Frikki
- Paul Pogba
- Luke Shaw
- Marcus Rashford
Runólfur
- Mason Greenwood (enginn í aðalliðinu sem á það skilið).
Halldór
- Paul Pogba. Heimsmeistarinn í liðinu átti gloppótt tímabil eins og allir aðrir en hann endaði tímabilið þó markahæstur og stoðsendingahæstur. Sýndi rækilega hvað hann getur á góða kaflanum þótt það vanti upp á að hann geti stigið almennilega upp þegar á móti blæs, allavega þegar hann klæðist treyju Manchester United.
- Victor Lindelöf. Hann spilaði mest af miðvörðum liðsins, tók þátt í 40 leikjum af þeim 53 sem United spilaði á þessu tímabili. Alls ekki fullkomið tímabil en virðist vera að sanna sig sem besti miðvörður liðsins. Væri frábært að fá einhvern toppklassa miðvörð við hlið hans sem getur hjálpað Svíanum að taka næsta skref upp á við með United.
- Marouane Fellaini. Hinn hárprúði og vanmetni Fellaini kvaddi okkur um mitt tímabil og fljótlega eftir það fór allt í hundana aftur. Varla tilviljun. Ef aðeins fleiri leikmenn í hópnum hefðu hugarfarið sem Belginn sýndi alla sína tíð hjá United, þá væri liðið í annarri stöðu. Fellaini átti til dæmis öll mörkin sem United skoraði á heimavelli í Meistaradeildinni þetta tímabil. Helsti gallinn fyrir liðið var að það var bara eitt mark. En mikilvægt var það! Markið sem tryggði United áfram upp úr riðlinum. Fellaini kom líka inn á gegn Juventus í Tórínó og gjörbreytti þeim leik þegar United sneri tapstöðu í sigur. Hann er enn við sama heygarðshornið, þann 8. maí skoraði hann markið sem tryggði Shandong Luneng 2-1 sigur á Gyeongnam FC og þar með sigur í E-riðli Meistaradeildar Asíu og miða í 16-liða úrslitin. Fellaini kallinn alltaf öflugur og hans verður saknað hjá United, það er alveg á hreinu.
Bjössi
- Enginn
- Enginn
- Scott McTominay
Þeir mega allir skammast sín, nema helst McTominay. Hann verður þó aldrei annað en góður í hóp.
Embed from Getty Images
Tryggvi Páll
- Paul Pogba. Blóraböggull fyrir marga en þetta er sá leikmaður sem leiðir alla helstu tölfræðiþætti liðsins á tímabilinu. Ótrúlega pirrandi á köflum en algjörlega stórkostlegur á öðrum. Sýndi á tímabilinu að það er hægt að virkja þessa miklu hæfileika sem búa innra með honum til góðs. Er líklega á förum en þetta var hans besta tímabil til þessa hjá United.
- Luke Shaw – Eins og ég sagði hér áðan, líklega jafnbesti leikmaður liðsins á tímabilinu og örugglega sá stöðugasti. En það segir kannski margt um tímabilið hjá United að hann sé ofarlega á þessum lista því að hann átti alls ekki eitthvað frábært tímabil.
- Enginn annar nær á þennan lista
Maggi
- Victor Lindelöf
- Paul Pogba
- Scott McTominay
Mestu framfarirnar: Scott McTominay. Aftur
Frikki
Scott McTominay. Það er ekki hægt að neita því að leikmaðurinn gjörsamlega borðaði miðjuna hjá PSG upp til agna í 1-3 sigrinum í Frakklandi og eftir það hefur hann verið gríðarlega öflugur fyrir okkur. Ekki langt síðan ég hélt að hann ætti bara heima í Championship deildinni en ég hef sjaldan verið jafnglaður að hafa haft rangt fyrir mér. Strákurinn gæti orðið lykilleikmaður haldi hann áfram að þróast eins og hann hefur verið að gera. Ekki skemmir fyrir að hann er kominn beint upp úr akademíunni og er rauður í húð og hár.
Runólfur
- Scott McTominay,
- Victor Lindelöf
- Luke Shaw
Halldór
Hmm, erfitt að segja. Kannski bara Scott McTominay. Verður fróðlegt að sjá hvort hann nái að byggja ofan á það sem hann gerði jákvætt á þessu tímabili, sérstaklega þar sem það mun verða stokkað upp í miðjumannahópi liðsins fyrir næsta tímabil. Það ætti að gefa honum tækifæri til að sýna meira hvað í hann er spunnið.
Andreas Pereira gegn Southampton fyrir fegurð, vítið hjá Rashford í París fyrir gleði.
Bjössi
Enginn.
Tryggvi Páll
- Viktor Lindelöf – Sýndi á þessu tímabili að þarna er mögulega kominn miðvörður sem hægt er að treysta á. Átti auðvitað ekki stórkostlegt tímabil frekar en einhver annar leikmaður en það glitti í gæðaleikmann þarna.
- Luke Shaw – Þetta hefur verið erfiður tími hjá Shaw undir stjórn Mourinho en hann sýndi af sér karakter að höndla mótmælið og vinna sig aftur inn í liðið. Var líklega jafnbesti leikmaður United á tímabilinu, þó að hann hafi ekki átt eitthvað súper-tímabil. Á köflum sá maður leikmanninn sem hann var fyrir fótbrotið hræðilega.
- Scott McTominay. Líklega eini leikmaður liðsins sem virtist vilja vera inni á vellinum þegar liðinu fór aftur að ganga illa. Var frábær gegn PSG og var besti maður liðsins í leikjunum gegn Barcelona. Klárlega leikmaður sem not er fyrir í hópnum.
Maggi
Victor Lindelöf & Scott McTominay
Mark ársins:
Frikki
Marcus Rashford á mark ársins, í leiknum á móti Brighton þar sem hann var búinn að missa allt jafnvægi en tókst á einhvern óskiljanlegan máta að koma boltanum í vinkilinn úr mjög erfiðu færi.
https://www.youtube.com/watch?v=ZBQjrnB-H1E
Runólfur
- Marcus Rashford (vítið) vs. PSG
- Andreas Pereira vs Southampton.
- Anthony Martial vs. Cardiff City.
Halldór
Andreas Pereira gegn Southampton fyrir fegurð, vítið hjá Rashford í París fyrir gleði.
https://www.youtube.com/watch?v=7W5sPVsFcVc
Bjössi
Anthony Martial gegn Cardiff.
https://www.youtube.com/watch?v=dvhTd91umsw
Tryggvi Páll
Anthony Martial úti gegn Fulham. Minnti mann á hvað hann getur ef hann nennir þessu.
https://www.youtube.com/watch?v=Gnmrz4Gt8fc
Maggi
Andreas Pereira gegn Southampton og Anthony Martial gegn Fulham
Leikur ársins
Frikki
Hér er raunar um nokkra leiki að velja, endurkoman í leiknum gegn Newcastle var mögnuð, útisigurinn á Juventus í Meistaradeildinni var líka gríðarlega sterkur en ég hugsa að tilfinningarússíbaninn gegn PSG hafi samt verið sá sem framkallaði bestu gæsahúðina með frábærum minningum úr leik sem hélt manni límdum við imbann.
Runólfur
Manchester United 0 – 0 Liverpool
Halldór
Kraftaverkið í París.
Bjössi
PSG. Þvílík gleði, en síðan hefur mér ekki stokkið bros á vör
Tryggvi Páll
3-1 sigurinn á PSG í 16-liða. Nema hvað. Maður hafði ekkert allt of mikla trú á því að United kæmi til baka í viðureigninni eftir 2-0 tap á Old Trafford. Solskjær var samt duglegur að minna mann á að allt væri hægt og þegar Lukaku skoraði strax var þetta galopið. Það sem gerir þetta auðvitað enn ótrúlegra er að liðið var algjörlega vængbrotið með fjölmörg meiðsli og bönn á bakinu.
Solskjær stýrði leiknum meistaralega, ekki síst þegar hann breytti uppstillingunni þegar það var svona hálftími eftir. Þá lagðist United til baka, sparaði orkuna fyrir eina lokasókn áður en hann skipti Mason Greenwood inn á. Það þrýsti PSG til baka og maður vissi alltaf að United fengi einn séns, sem við svo auðvitað fengum. Þetta minnti mann á gömlu góðu tímana. Sigurinn reyndist þó dýrkeyptur enda vann liðið varla leik eftir þetta út tímabilið. En mikið rosalega var gaman að horfa á þennan leik.
Maggi
PSG 1:3 Man Utd
Vonbrigði ársins
Frikki
Vonbrigði ársins eru margþætt. Fyrir það fyrsta verður að nefna það að missa af Meistaradeildinni þó að Arsenal, Chelsea og meira að segja Tottenham hafi gert eins og þau gátu til að gera okkur það kleyft að komast fram fyrir þau í röðina á lokasprettinum. Þá er Alexis Sanchez, leikmaður sem á að geta breytt leikjum upp á sitt einsdæmi, gjörsamlega skugginn af sjálfum sér. Þá eru viss vonbrigði að sjá hve mikil áhrif þessi stjörnusamningur hans hefur haft á samninga við aðra leikmenn liðsins en samningar við leikmenn eins og Mata, Martial, de Gea og Pogba hafa gengið mjög erfiðlega. Þessu þarf að breyta áður en að við verðum að enn meira aðhlátursefni en nú þegar með mann með 1,2 milljónir punda á mánuði fyrir að verma tréverkið.
Runólfur
1. Kaup sumarsins. 2. Framlína liðsins og 3. David De Gea
Halldór
Hrunið eftir sigurinn á PSG.
Bjössi
Allt. Mourinho, Sánchez. David de Gea, það er hrikalegt að sjá þetta hjá honum og aðeins einn leikur í klúbbmet í leikjum án þess að fá á sig mark.
Það var ömurlegt þegar allt hrundi eftir PSG.
Tryggvi Páll
Hvar byrjar maður? Deilur Mourinho og stjórnar í upphafi tímabils, afleitt gengi félagsins í upphafi tímabils, frammistaða David de Gea, markaleysi Romelu Lukaku, letin í Anthony Martial, ömurlegheitin í öllu sem tengist Alexis Sanchez, tapið gegn Arsenal og jafnteflið gegn Chelsea. Listinn er langur og nánast ótæmandi.
Maggi
Úthald og hugarfar hjá lykilmönnum. Skelfileg frammistaða De Gea undir lok tímabilsins.
Hvað viljið þið sjá gerast í leikmannamálum núna í sumar?
Frikki
Ritstjórnin hefur margtuggið sömu stöður á vellinum sem þarf að bæta. Miðvörður er það sem er númer eitt, tvö og þrjú. Hvort sem það væri Koulibaly eða de Ligt þá yrði ég ánægður. Það þarf einhvern með stjórnunarhæfileika við hliðina á Lindelöf sem getur líka haldið Bailly í skefjum og mokað upp skítinn eftir hann þegar honum verða á mistök. Þá verðum við að fá hægri kantmann. Lingard og Mata eru ekki nægilega ógnandi þegar þeir eru settir á hægri vænginn og við þurfum leikmann eins og Jadon Sancho eða svipaðan leikmann sem keyrir upp hraðann og er stanslaus ógn hægra meginn. Þá þurfum við líka hægri bakvörð sem getur komið í overlap með hægri kantmanninum. Aaron Wan-Bissaka kemur fyrstur upp í hugann enda líkamlega sterkur og frábær fram á við og ætti að vera raunhæfur möguleiki. Þá þurfum við einnig leikmann til að taka við af Nemanja Matic og myndi ég helst vilja sjá Ruben Neves frá Wolves taka við keflinu af serbanum. Þá þurfum við annan sóknarsinnaðan leikmann en bjartsýnustu menn gætu leyft sér að dreyma um að fá Christian Eriksen frá Tottenham eða Joao Felix frá Benfica en báðir þessir leikmenn eru fjarrænn draumur.
Burt með : Alexis Sanchez, Romelu Lukaku, Marcos Rojo, Valencia (er að fara), Phil Jones og Matteo Darmian.
Runólfur
Að liðið fjárfesti í ungum og efnilegum leikmönnum sem eru tilbúnir að koma félaginu á þann stall sem það á að vera. Menn eins og Declan Rice, Jadon Sancho og fleiri koma til greina.
Halldór
Heilmikið! Ein af ástæðunum fyrir því að ég er ánægður með að Solskjær sé þarna er að ég held hann hafi góðar hugmyndir um hvaða eiginleika leikmaður þurfi að hafa til að spila fyrir Manchester United. En það er vissulega ekki nóg, hann þarf líka að fá stuðning til að kaupa þá leikmenn sem hann vill sjá koma inn í liðið. Fyrri stjórar fengu ekki nægilega mikinn stuðning að því leyti, þótt vissulega hafi peningum verið eytt. Hlusta á Solskjær, takk. Og já, fá Director of Football inn í félagið sem fyrst, eitthvað sem ætti að vera búið að ganga frá.
Það er reyndar það mikilvægasta. Ég er að vissu leyti ánægður með að United sé ekki að taka inn stjóra eins og Pochettino, Allegri eða aðra spennandi stjóra á meðan það vantar enn mikilvægt púsl í stjórnunarmálin með Director of Football.
Bjössi
Ráðning á yfirmanni knattspyrnumála, reyndum manni sem kanna að velja og kaupa leikmenn.
Svo þarf að hreinsa og þeir menn sem þarf að losa sig við eru Darmina, Rojo, Bailly, Young, Alexis og Andreas. Lukaku má fara fyrir þokkalegan pening og svo Pogba og De Geta fyrir réttan pening, óþarfi að heimta allt of mikið.
Í þessum kafla uppgjörsins í fyrra bað ég um „Reyndan miðvörð, tvo sterka bakverði, tvo miðjumenn og hægri kant í toppklassa.“ Það kom augljóslega enginn af þessum þannig þetta er ennþá krafan. Án þessa náum við ekki árangri.
Tryggvi Páll
Svo margt. Varnarlega þarf liðið að finna einn nýjan miðvörð og hægri bakvörð svo ekki þurfi lengur að treysta á tríói-ið Smalling, Jones og Ashley Young. Á miðjunni þarf helst 3 og allavega tvo nýja miðjumenn miðað við það að enginn annar en Herrera fari. Liðið hefur ekki keypt hægri kantmann í að verða milljón ár núna og við þurfum nýjan framherja. Ég myndi svo hreint ekki slá hendinni á móti nýjum markmanni ef eitthvað gott PSG-tilboð kemur í David de Gea.
Okkur vantar gæði og magn, sem er afleit aðstaða til að vera í en svona hefur staðan svo sem verið í langan tíma. Oft sætta lið sig við annað hvort en undanfarin ár höfum við hvorki fengið gæði né magn.
Það þarf að losa leikmenn sem gera ekkert í hópnum, leikmenn á borð við Rojo og Darmian. Það þarf að losa leikmenn sem virðast pirra búningsklefann, leikmennn á borð við Sanchez og Bailly. Og mögulega þarf að losa Pogba og Lukaku ef þeir hafa ekki áhuga að vera áfram. Og fyrir alla þessa leikmenn þarf að kaupa nýja leikmenn, og það þarf að bæta við um fram það.
Bottom-line: Það þarf að gera helvítis helling í leikmannahópnum. Ég vona að Solskjær fái pening og traust hjá stjórninni til þess að gera það sem þarf en fyrst og fremst vona ég að Solskjær hafi hæfileikanna til þess að þekkja og leggja mat á hvaða leikmenn þarf að fá til að bæta leikmannahópinn. Annars verðum við bara föst í sama hjólfarinu um ókomin ár.
Maggi
Fyrir utan Antonio Valencia og Ander Herrera sem eru farnir þá mega eftirtaldir sigla á önnur mið: Juan Mata, Romelu Lukaku, Marcos Rojo og Alexis Sánchez.
Svo vil ég fá: Jaden Sancho, Matthijs de Ligt, Aaron Wan-Bissaka og tvo flotta miðjumenn.
Spár og kröfur fyrir næsta ár
Frikki
Þetta er gríðarlega flókið mál af því að það fer algjörlega eftir sumarglugganum. Við erum með „lið“ sem getur ekki haldið hreinu og ef við fáum ekki mannskap til að stoppa upp í þennan götótta svissneska ost sem við köllum vörn verðum við að öllum líkindum í evrópudeildarbaráttu við Wolves og Everton á næsta tímabili. Ef við gefum okkur hins vegar að glugginn reynist okkur góður þá eigum við alveg möguleika á Meistaradeildarsæti. Þessi lið sem veittu okkur samkeppni um slíkt sæti sýndu það öll að þau eru brothætt. Chelsea er að öllum líkindum ekki að fara halda Hazard og er komið í félagaskiptabann, Arsenal eiga í basli á útivöllum og Tottenham gæti misst Pocchetino í sumar. En ég held að það fari gríðarlega mikið eftir því hvernig leikmannakaupin fara hjá okkur og hvort Solskjær tekst að breyta hugarfari liðsins fyrir næstkomandi keppnistímabil. Ég spái því að við endum í fjórða til fimmta sæti en kröfurnar eru að við gerum mun betur og verðum ekki meira en 15 stigum frá efsta sætinu og verðum í meistaradeildinni tímabilið á eftir.
Runólfur
Eina krafan er að menn spili fyrir merkið framan á treyjunni frekar en nafninu aftan á henni. Spái því að United nái ekki top 4 næsta vetur en með ungt lið ætti framtíðin að vera björt svo lengi sem framtíðarplanið er augljóst
Halldór
Það þarf að róta í mörgu hjá hópnum í sumar svo næsta tímabil gæti orðið rysjótt líka. Vonandi þó að það verði fleiri bjartir kaflar en dimmir. Ég á erfitt með að setja niður spá og kröfur því það fer allt eftir því hvað þessir eigendur vilja gera. Það gæti hrist við þeim að United verði ekki í Meistaradeildinni eða að United er ekki lengur talið verðmætasta félag Englands. Ef þeir ákveða að vilja gera hlutina almennilega þá getur liðið náð blússandi siglingu upp á við á mjög skömmum tíma. Ef þeir sætta sig við að berjast um Meistaradeildarsæti og græða fullt af pening þá gæti þetta orðið meira af því sama og síðustu 6 ár.
Bjössi
Fjórða sætið.
En ef sumarið fer ekki eins og að ofan er lýst þá gæti sjötta orðið markmiðið. Ég þori hreinlega ekki að svara þessu núna.
Tryggvi Páll
Að við sjáum áþreifanlegar framfarir á spilamennsku liðsins og einhver merki um að Solskjær hafi burði til þess að byggja upp lið á næstu árum til að keppa við liðin sem hafa tekið fram úr okkur. Ég bið ekki um meira en það
Maggi
Krafan ætti alltaf amk að vera Meistaradeildarsæti. Ég vil að ungir leikmenn verði í stóru hlutverki og fái lykilhlutverk í Evrópudeildinni. Ef að þessi sumargluggi heppnast illa
þá er ég ekki einu sinni bjartsýnn um að enda í topp sex.
Óskar G Óskarsson says
Mer finnst rosa erfitt að dæma mourinho eftir þetta tímabil.
Auðvitað var hann i fýlu allt seinasta sumar og fýlan rann ekki af honum fyrr en hann var rekinn.
Mer finnst einhver þurfa að svara fyrir það afhverju fred var bara keyptur seinasta sumar og hver tók àkvörðun um að kaupa hann?
Eg er ekki sannfærður um að mourinho hafi keypt hann þótt hann hafi kannski neitað honum.
Àstæðan fyrir að mourinho var í fýlu allt seinasta sumar er útaf hann var með alveg bundnar hendur og fékk ekkert að gera à meðan vandamàlin öskruðu à alla nema þà sem stýra klúbbnum greinilega.
Eg var alltaf mourinho maður, en var kominn a mourinho out vagninn undir lokin einungis utaf eg var orðinn dauðþreyttur a stanslausum hnífabardögum við menn sem vildu kenna mourinho um allt
Óskar G Óskarsson says
Og einnig, hvað er að frétta af director of football? Var ekkert a bakvið það, að það væri forgangsatriði? Lítur allt utfyrir að woodward se að fara að sjà um kaupin en eitt sumarið
Bjarni Ellertsson says
Schmeichel (mad dog), Stam (beast), Kean (psycho), Cole (black leopard) voru hryggjarstykkið, svo kallað DNA, í Utd99 sem gátu unnið leiki eftir pöntun og skorað af vild. Með þeim voru í vörninni iðnaðarmenn, Irwin, Berg og Nevill, til hægri og vinstri sem þóttust ekki vera betri en þeir voru. Miðjan skipuð hraða, tækni og útsjónarsemi í Giggs, nálarstungu sendingar og yfirferð í Beckham og Scholes svo ekki sé minnst á klókindi í þeim síðast nefnda. Frammi með Cole, var Yorke (Black Mamba), baneitraðir andskotar sem útvötnuðu varnarmenn andstæðinganna þannig að bekkurinn okkar (Ole, Sheringham) áttu auðvelt með að stýra boltanum í rétta í markið. Hæfileikar á hverju strái sem unnu saman sem ein heild. Unnu sem lið og töpuðu sem lið. Vona að þeir sem munu bætast við liðið í dag hafi snefil af hæfileikum þessara manna en ekki bara til að selja treyjur þá munum við ná áttum fyrr en við gerum okkur grein fyrir.
GGMU