United tók á móti refunum úr Leicester City í fimmtu umferð ensku Úrvalsdeildarinnar í dag en byrjun United á tímabilinu hefur verið sú versa í sögu hennar. United mistókst að fylgja eftir sterkum 4-0 heimasigri á Chelsea en jafntefli gegn Southampton og Wolves ásamt tapi gegn Crystal Palace sá til þess að liðið var einungis með 5 stig úr fjórum leikjum.
Leicester á hinn bóginn höfðu ekki tapað leik og sátu í þriðja sæti deildarinnar með 8 stig. Þá var Ole Gunnar Solskjær líka í miklum vandræðum hvað varðar meiðsli leikmanna en Paul Pogba, Luke Shaw og Anthony Martial ásamt fleirum voru fjarri góðu gamni.
Leikurinn fór skemmtilega af stað en United komst í álitlega sókn sem endaði með því að við fengum aukaspyrnu við vinstra vítateigshornið en Andrea Pereira tók spyrnuna en Kasper Schmeichel varði vel alveg upp við samskeytin. Strax í kjölfarið komust gestirnir í góða sókn eftir furðulegan varnarleik hjá United.
Harry Maguire lét boltann skoppa yfir sig og Victor Lindelöf reyndi að halda boltanum frá James Maddison sem heppnaðist ekki betur en svo að sá enski komst utan um þann sænska og náði fínu skoti á markið sem David de Gea gerði mjög vel í að koma í horn.
Eftir einungis sjö mínútna leik komst United inn í vítateig gestanna og þegar boltinn datt inn á dautt svæði hægra meginn í teignum var Marcus Rashford fljótastur allra að átta sig og vann kapphlaupið við Çaglar Söyüncü sem braut á enska framherjanum og réttilega bent á vítapunktinn, í fjórða sinn í fimm leikjum.
Rashford tók vítið af öryggi og beið eftir að Schmeichel kastaði sér og setti boltann í öfugt horn. 1-0 á innan við tíu mínútum í leik sem margir hverjir spáðu að Leicester væri mun líklegri aðilinn sökum meiðslavandræða rauðu djöflanna.
Leicester menn komust í álitlegt færi eftir um hálftíma leik þegar þeir fengu hornspyrnu sem Maguire skallaði út úr teignum en beint á Ben Chilwell fyrir utan d-bogann sem átti stórhættulegt utanfótarskot sem de Gea mátti hafa sig allan við að blaka yfir markið. Rétt fyrir lok síðari hálfleiks átti Hamza Choudhury gott skot fyrir utan vítateig með vinstri fæti en de Gea sá við því.
Bæði lið áttu góðar rispur í fyrri hálfleik en voru ekki mjög hættuleg. Daniel James og Rashford voru hættulegustu leikmenn heimamanna en Maddison var allt í öllu fyrir gestina í fyrri hálfleik.
Síðari hálfleikur fór hressilega af stað en Pereira, James og Juan Mata áttu allir marktækifæri en ekkert varð úr þeim. Leicester virtust vakna aðeins til lífsins þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik en þá kræktu þeir í aukaspyrnu þegar Scott McTominay braut á Youri Tielemans beint fyrir utan teiginn. Aukaspyrna frá Maddison var hársbreidd frá því að enda í netinu en sem betur fer endaði boltinn réttu megin við stöngina.
Á 67. mínútu kom fyrsta skipting Solskjær þegar Fred kom inn á fyrir Nemanja Matic sem var búinn að eiga afleitan dag á miðjunni en serbinn var virkilega duglegur að tapa boltanum fyrir okkur og gerði í raun ekkert til að réttlæta sæti í næsta byrjunarliði United.
Þremur mínútum síðar kom svo Tahith Chong inn fyrir Mata sem hafði þá lent í einhverju hnjaski en þessar tvær skiptingar hresstu ágætlega upp á lífleikann í United liðinu sem virtist fyrir þetta vera komið ofan í skotgrafirnar.
United áttu nokkra góða spretti en eins og gestirnir þá virtist þeim ekki takast að klára sóknirnar með skotum og þau skot sem litu dagsins ljós voru ekki mjög hættuleg. Það var ekki fyrr en á 83. mínútu að United fékk aukaspyrnu fyrir utan teig sem Rashford tók. Sá ungi hamraði boltann í hornið á rammanum og verður að teljast óheppinn en skotið engu að síður mjög gott og eflaust hafa einhverjir áhorfendur á vellinum haldið að þessi stefndi inn.
Næstu mínútur einkenndust af mikilli baráttu og þó nokkrum brotum á báða bóga en þá tók Solskjær upp á því að skipta Alex Tuanzebe inn fyrir Daniel James, bæði til að styrkja miðjuna og þétta vörnina. Það dugði þvi United fór með 1-0 sigur af hólmi og þótt frammistaðan hafi ekki verið neitt til að hrópa húrra yfir þá færði sigurinn okkur upp í 4. sætið í deildinni a.m.k. tímabundið.
David de Gea fagnaði nýjum samning með því að vera einn af ef ekki besti leikmaðurinn okkar í dag og vonandi að hann sé að finna sitt fyrra form. Sigur þýðir að við förum í 8 stig, jafnir Tottenham, Leicester og Chelsea eftir fimm umferðir. Sigrar í þeim leikjum sem margir hefðu talið verið erfiðastir á blaði, Chelsea og Leicester en tap í leik sem við hefðum helst búist við að vinna af þessum fimm leikjum.
Þetta gæti verið upphafið á tímabili sem býður upp á miklar hæðir og lægðir ef svo fer fram sem horfir en næsti leikur er í Evrópudeildinni gegn FC Astana á fimmtudaginn kemur.
Leander says
Úff
Bjarni Ellertsson says
Vörnin solid, þunnildi á miðjunni og framlínan eins og við var að búast. Spurningarmerki við eftirfarandi: mun
DeGea eiga stórleik,
Lindelöf vinna skallaeinvígi,
Young fá spjald og láta svo reka sig útaf í seinni,
Maguire vera yfirstressaður gegn gömlu félögunum,
Bissaka út um allan völl.
McT skoppa um eins og hýena á miðjunni,
Matic hringsnúast um sjálfan sig,
Mata skapa eitthvað af viti,
James skora enn eitt gullmarkið sem telur lítið þegar upp er staðið,
Rashford sýna yfirvegun fyrir framan markið, sérstaklega í vítinu sem við fáum,
Pereira missa boltann frá sér trekk í trekk eða láti ýta sér upp í stúku.
Vonandi ná menn hrollinum úr sér í göngunum og mæti dýrvitlausir til leiks.
GGMU
Ingvar says
Shit hvað þetta er óspennandi lið sem er stillt upp í dag… þessi Pereira brandari er orðinn lúinn
Verðum 10 stigum frá fyrsta sætinu eftir leiki dagsins
Zorro says
Skelfilega lélegt miðlungslið þetta united lið
Sindri says
Verðskuldaður sigur gegn hype liði Leicester.
Maguire kóngur í dag!
Erlingur says
Þetta voru dýrmæt 3-stig. Enginn meistarabragur á okkur, enda langt í land með liðið ennþá. Það jákvæða við þetta í dag er að við höldum hreinu og nú er bara að byggja ofan á þetta. Vonandi verða leikmenn orðnir heilir fyrir útileikinn gegn West Ham sem verður án efa erfiður.
Áfram Gakk.
Bjarni Ellertsson says
Rétt mat með Matic, arfaslakur og hægur, reynir alltaf áð hægja á öllu spili fyrir utan það að vera algjörlega einfættur. Svona týpa af leikmanni heillar mig ekki en því miður þarf að notast við hópinn þegar meiðsli koma upp á. Ekkert meira um þennan leik að segja annað en við fengum 3 stig þrátt fyrir engan glansleik. En betur má ef duga skal.
GGMU
Cosak says
Sá leikinn. Var heilt yfir nokkuð sáttur. Matic á ekki að vera þarna hann var bara ekkert með í leiknum. Ef við ætlum að nota perreira þá skulum við hafa hann í holunni, finnst hann of hægur til að vera á kantinum. De gea með solid leik líkt og vörnin. Tomahawk er rosalegur fannst hann nánast óaðfinnanlegur í dag. Framherjar voru solid en hefðum alveg mat halda bolta heldur betur í dag. Fannst máta lengi að komast í leikinn, var með mikið af fail sendingum í fyrri hálfleik.
En 3. Stig með nokkra menn frá vegna meiðsla. Fannst þetta bara vera í lagi. Ekki verra að halda markinu þurru.
Eitt að lokum. Fannst fred bara standa sig fínt. Myndi velja hann eða jamse á undan Matic næst.
Karl Garðars says
Sáttur með þrjá punkta í dag.
Gríðarlega sterkt að vinna erfitt lið sem var á ágætis spretti.
Fegurðin kemur seinna ásamt stöðugleikanum sem mætti koma mikið fyrr en seinna.
Cantona no 7 says
Góður sigur á erfiðum andstæðing.
Það er alltaf gott að halda markinu hreinu.
Markmiðið í vetur er að enda í fjórum efstu sætunum.
Það verður erfitt en vonandi tekst Ole það.
G G M U
MSD says
Mikilvæg stig í hús þau þetta hafi ekki verið neitt til að hrópa húrra fyrir og Solskjær var sammála því eftir leik. En Norwich sýndu okkur það líka í gær gegn City að það er ekki til neitt sem eru sjálfsögð 3 stig í ensku úrvalsdeildinni.
Ég held að við hljótum að fara að sjá Fred komast fram fyrir Matic í goggunarröðinni. Finnst hann bara eins og sprunginn blaðra, eins frábær og hann var fyrsta seasonið hjá okkur. Ég hef líka á tilfinningunni að hann sé með eitthvað grudge út í Solskjær. Fannst undarlegt þetta blaðaviðtal við hann þar sem hann talaði um að United vantaði reynslu (mögulega til að réttlæta veru sína í byrjunarliði) og ef þeir myndu ekki vinna neitt þá skrifaðist það á stjórann. Ég er ekki viss um að samningurinn við hann verði framlengdur næsta sumar. Held það sé option í hans samningi um að United getur framlengt sjálfkrafa um 1 viðbótarár næsta sumar. Þeir myndu þá væntanlega bara gera það til að geta losað hann annað fyrir eitthvað smá klink.
Ég get hinsvegar alveg séð United nota leikmann eins og Maddison. Stöðug ógn af honum og virðist vera allt í öllu í sóknarleik Leicester.
Audunn says
David de Gea fagnaði nýjum samning ???
Er hann búinn að skrifa undir? Það hefur þá alveg farið framhjá mér.
EN hvað leikinn varðar þá fagna ég 3 stigum, fannst margt jákvætt sem hægt er að taka úr þessum leik.
Björn Friðgeir says
Auðunn: Menn sem ættu ekki að vera að fara með fleipur eru að segja hann hafi skrifað undir og ætti að vera tilkynnt í dag eða á morgun.
Vonum það.
Halldór Marteins says
Það voru greinilega engar fleipur, búið að tilkynna það. Þetta var greinilega klárt fyrir leik en beðið með að keyra partýið í gang þangað til eftir leik. Fínar fréttir á þessum lægðarlega mánudegi :)
Stundum borgar sig að fylgjast með traustu heimildunum á Twitter ;)