Ný vika – Ný áskorun
Eftir hreint út sagt hroðalega frammistöðu um síðustu helgi í deildinni er komið að fyrsta leik Manchester United í Carabao bikarnum. Deildarbikarnum fylgja yfirleitt óvænt úrslit og mikil dramatík en keppnin er gjarnan nýtt af stóru liðunum til að leyfa ungu og efnilegu pjökkunum að spreyta sig á erfiðari andstæðingum en þeir eru vanir.
United hefur hins vegar flesta sína ungu og efnilegu leikmenn í hópnum nú þegar og þeir byrja ekki inn á í leikjum, verma þeir bekkinn. Hópurinn er einfaldlega það þunnur að við megu ekki við því að fá fleiri á meiðslalistann og ungu leikmennirnir þurfa að vera klárir í deildarleiki.
Í ofan á lag er keppnin ekki nokkurt forgangsatriði hjá stjórninni svo ólíklegt er að miklu púðri verði varið í hana að þessu sinni.
Þetta fær mig til að vera hóflega bjartsýnn, jafnvel þó United hafi verið tiltölulega heppið með drátt en fyrir þá sem ekki vita þá mætum við nágrönnum okkar úr Rochdale.
Rochdale A.F.C.
Um aldarmótin sat liðið í ensku 3. deildinni (Football League Third Division) en deildirnar fengu nýtt nafn árið 2004 og hefur deildin síðan þá borið nafnið Football League Two. Liðið barðist við að komast upp um deild mörg ár í röð, tapaði meðal annars í úrslitum umspilsins 2008-2009.
Árið 2010 tókst þeim loksins að komast upp um deild og endaðu í 9. sæti fyrsta tímabilið sitt í League One. Reyndar var um að ræða mikið afrek hjá liðinu því að ekkert lið hafði setið í neðstu deild á Englandi jafnlengi og Rochdale en liðið spilaði 36 leiktímabil í röð (1974-2010) í þeirri deild.
Sú dvöl reyndist ekki löng því árið eftir kolféll liðið eftir að hafa endað í neðsta sæti. Það tók hins vegar liðið einungis tvær tilraunir að komast upp aftur og síðan 2014 eftir að liðið fór upp um deild hefur þeim tekist að halda sér þar.
Liðið hefur ekki farið ýkja vel af stað í deildinni en 2 sigrar og 4 jafntefli skilja liðið eftir í 17. sæti eftir níu umferðir. Þá hefur liðið heldur ekki riðið feitum hesti frá deildarbikarnum undanfarin ár en síðustu sjö ár hefur liðinu mistekist að vinna meira en einn leik í keppninni.
Í ár hafa þeir hins vegar farið betur af stað og nú þegar slegið út Bolton Wanderers og Carlisle. Það skal þó taka það fram að Carlisle eru deild neðar og Bolton eru í miklum vandræðum með -11 stig í League One eftir að hafa fallið með stæl úr Championship deildinni og eru með -22 í markatölu eftir einungis átta leiki.
Samsetning liðsins er eins bresk og hugsast getur, en allir leikmenn í hóp liðsins koma frá Bretlandseyjum að undanskildum spánverjanum Robert Sánchez sem er á láni frá Brighton.
Ian Henderson er þeirra hættulegasti maður og sá sem hefur skorað flest mörk fyrir þá undanfarin fimm ár en sá enski verður 35 ára gamall í janúar og því farið að síga á seinni hluta ferlisins.
Þó fáir kunni að kannast við leikmenn liðsins í dag þá hafa í gegnum tíðina nokkrir leikmenn spilað fyrir liðið sem glöggir lesendur kannast við á borð við Adam le Fondre, Rickie Lambert og Grant Holt.
Stjóri liðsins er Brian Barry-Murphy sem lék með liðinu á árinum 2010-2018 sem varnarsinnaður miðjumaður en Barry-Murphy tók við sem bráðabirgðastjóri liðsins í mars á þessu ári eftir að stjórn liðsins rak Keith Hill eftir 6 ára starf hans þar sem hann kom þeim tvisvar sinnum upp um deild. Mánuði síðar var Barry-Murphy ráðinn stjóri liðsins til næstu tveggja ára.
Barry-Murphy hefur verið að fikta með leikkerfin hjá Rochdale en í þessum 9 deildarleikjum sem liðið hefur spilað hefur hann brúkað fjögur mismunandi kerfi, 4-2-3-1 sem hann hefur oftast notað en liðinu hefur ekki gengið nægilega vel með, 4-1-3-2 sem virðist henta ágætlega, 4-3-3 og 4-5-1 sem virðast henta mun betur. Þó ætla ég að skjóta á að þeir muni spila 4-5-1, freisti þess að verjast skipulega og beita skyndisóknum.
Þá virðist hann ná því besta út úr sínum öflugasta leikmanni, Callum Camps (23), þegar sóknarsinnaði miðjumaðurinn er fremst á vellinum. Það verður því verðugt verkefni fyrir Tuanzebe og félaga í vörninni að loka á þennan strák og halda aftur af reynsluboltanum Ian Hendersons.
United
Það er óþarfi að fara leynt með það, tímabilið hefur byrjað mun verr en margir áttu von á, liðinu tekst ekki að skora meira en eitt mark í leik, jafnvel gegn mun minni liðum og á í bölvuðum vandræðum á miðsvæðinu sem gerir það að verkum að framlínan fær miklu minni þjónustu en hún þarf.
Fyrir leikinn á sunnudaginn var voru þeir Luke Shaw, Eric Bailly, Paul Pogba, Anthony Martial, Daniel James og Timothy Fosu-Mensah allir á listanum yfir leikmenn sem glíma við meiðsl og er ástandið farið á minna óneitanlega á það þegar talað var um hækjuliðið þegar þriðji hver leikmaður United var kominn á hækjur á sama tíma og við spiluðum úrslitaleik Evrópudeildarinnar við Ajax.
Daniel James náði þó síðasta leik og verður vonandi leikfær fyrir deildarbikarinn. Þá var Mason Greenwood frá vegna hálskirtlabólgu en ætti samkvæmt Ole Gunnar Solskjær að vera leikfær fyrir morgundaginn.
En á sama tíma og James var orðinn leikfær fékk liðið annan skell þegar Rashford meiddist í leiknum gegn West Ham og má búast við að hann verði frá í einhverjar vikur.
Liðið var því um stund framherjalaust en Solskjær hughreysti stuðningsmenn með því að Greenwood og Martial yrðu klárir í slaginn næstu helgi og að minnsta kosti annar þeirra á morgun.
Það skal enginn taka leiknum gegn Rochdale sem gefnum. Skemmst er að minnast þess þegar liðið fór illa að ráði sínu gegn MK dons úr sömu deild og þá munu áhrifin og adrenalínið sem leikmenn Rochdale fá við komuna í leikhús draumanna eflaust lyfta öllu liðinu á hærra plan.
Þeir eru harðir í horn að taka, sumir myndu jafnvel segja grófir, svo það þýðir lítt að ætla að taka þennan leik á einhverju 60% tempói eins og leikinn gegn FC Astana í Evrópudeildinni.
Það má fastlega gera ráð fyrir því að leikmenn eins og Maguire, de Gea og McTominay verði hvíldir en ég vona innilega að Solskjær geri ekki sömu mistök og í þeim leik og byrji með hægt og þunglamalegt lið.
Því myndi ég vilja sjá liðið svona en það kann að vera að ég og Solskjær höfum ekki sömu sín á hlutina:
Brandon Williams tel ég reyndar mjög ólíklegt að fái pláss í liðinu, framyfir Young (fyrirliða) en vonandi lendum við ekki í því aftur að sjá Matic, McTominay og Mata alla saman aftur í liðinu og spilamennska liðsins verði álíka spennandi og að horfa á málningu þorna.
cosak says
Hjartanlega sammála kommentinu um að mata matic og tomahaw geta ekki verið 3 saman á miðjunni. Það þarf hraða og meira skemmtanagildi framm á við. vill ekki sjá það heldur að við verðum með tvo sitjandi miðju menn. hafa bara tomahaw aftast og tvo fyrir framan hann.