Viðureignir Manchester United og Arsenal eru svo sannarlega ekki eins og þær voru hérna í kringum aldamótin. Það var mánudagsleg stemning hjá liðunum í kvöld þegar þau gerðu jafntefli. Enn vantar upp á hressleikann fram á við hjá United og það er ekkert skrýtið við það að United-fréttir gærkvöldsins og dagsins í dag snerust helst um hvaða sóknarmenn United ætla að reyna að fá í janúarglugganum.
Dómari leiksins í kvöld var Kevin Friend.
Manchester United stillti upp þessu byrjunarliði:
Varamenn: Romero, Rojo, Williams, Fred (74′), Mata, Matic, Greenwood (74′).
Á meðan stilltu gestirnir frá London upp þessu byrjunarliði:
Varamenn: Martínez, Holding, Maitland-Niles, Ceballos (58′), Willock (80′), Nelson (74′), Martinelli.
Leikurinn sjálfur
Manchester United tók yfirhöndina í leiknum strax, í það minnsta hvað boltameðferð varðaði. Fyrsta korterið var United 70% með boltann og reyndi að skapa sér eitthvað á meðan Arsenal lá til baka og vildi greinilega ekki gefa nein færi á sér til að byrja með.
Flestir áttu von á að Tuanzebe yrði í hægri bakverðinum og Young í þeim vinstri en það var þó öfugt og fór Tuanzebe vel af stað í leiknum. Hann tengdi vel við Daniel James fyrir framan sig og var öflugur í varnarleiknum sömuleiðis. Til að byrja með gekk United nokkuð vel í því að keyra á Chambers upp vinstri kantinn, svo vel að Arsenalmaðurinn var kominn með gult eftir 10 mínútna leik. Þar var þó því miður ekki kné látið fylgja kviði og dofnaði yfir sóknarleiknum þeim megin. Þess í stað var meira farið út í að reyna fyrirgjafir hægra megin á vellinum, með yfirleitt döprum árangri.
Eftir um hálftíma leik kom fyrsta marktilraun leiksins. Andreas Pereira fékk þá boltann á miðjum vellinum, brunaði upp völlinn og náði við vítateigslínuna að búa sér til pláss fyrir skot. Skotið var ágætt, meðfram jörðinni og ekki laust en hefði mátt vera fastara. Leno náði að skutla sér niður og verja það. Stuttu síðar átti Pépé fyrstu tilraun Arsenal en það var skot sem fór hátt, hátt yfir.
Marcus Rashford hefur verið að glíma við meiðsli og virkaði ekki alveg 100% í þessum leik. Eftir um 40 mínútna leik skiptu Daniel James og Marcus Rashford um stöður. Stuttu síðar vann Pogba boltann glæsilega á miðjunni og gaf flotta stungu á Rashford sem brunaði að marki Arsenal. Rashford náði þó ekki að nýta það, lét varnarmann Arsenal hlaupa sig uppi og flæktist svo í boltanum þegar hann ætlaði að reyna að ná skoti. Illa farið með flott færi og kannski merki um að Rashford hefði ekki átt að byrja þennan leik.
Þegar fyrri hálfleikurinn var að klárast fékk Arsenal góða skyndisókn. Pereira var þá á sprettinum að reyna að ná Pépé en rann svo Pépé komst í gegn. Lindelöf gerði vel í að mæta honum en Pépé náði samt skoti sem De Gea varði vel. Hann sló boltann til hliðar og náði svo að stökkva á fætur nógu snögglega til að verja frá Guendouzi líka.
Strax í kjölfarið fékk Arsenal horn en United vann boltann og brunaði fram. James átti fyrirgjöf sem fór af varnarmanni og sigldi framhjá Rashford. Færið virtist ætla að fjara út þegar boltinn barst út í D-bogann þar sem Scott McTominay átti bylmingsskot sem endaði í skeytinu. Stórglæsilegt mark hjá Skotanum.
Sanngjörn forysta í leikhlé. United búið að vera tæplega 60% með boltann og eiga fleiri tilraunir en Arsenal átti að vísu fleiri tilraunir sem hittu á rammann. Engu að síður verðskulduð forysta.
Arsenal byrjaði seinni hálfleikinn af krafti og ætlaði sér að jafna. United sat dýpra og varðist en biðu færis til að sækja hratt.
Á 53. mínútu vildu margir United-menn sjá VAR notað til að dæma víti þegar boltinn fór í handlegginn á varnamanni Arsenal. Ekkert var dæmt þótt líklega hafi nú myndbandsdómarinn kíkt á atvikið. Þegar það var svo endursýnt í sjónvarpi mátti sjá að boltinn fór vissulega í handlegginn en það var erfitt að segja að um viljaverk væri að ræða. Það er því allavega mitt mat að þar hafi verið rétt að sleppa vítinu, þótt aðrir gætu verið ósammála mér í því.
De Gea sýndi flotta takta þegar 10 mínútur voru liðnar af síðari hálfleik, þegar hann hirti fyrirgjöf létt og átti svo stórkostlega bombu fram á Pereira. Pereira náði að koma sér í fyrirgjafastöðu og átti fína fyrirgjöf en rétt áður en Rashford náði að skalla boltann þá kom Guendouzi og skallaði yfir.
Þegar um klukkutími var liðinn af leiknum var United með boltann í vörninni og leitaði leiða til að koma honum framar á völlinn. Axel Tuanzebe fékk boltann aftarlega, vinstra megin. Hann hafði verið virkilega flottur í þessum leik en þarna varð honum á dýrkeypt mistök þegar hann átti lélega sendingu inn völlinn sem hitti ekki á samherja heldur endaði hjá Bukayo Saka. Saka og Aubameyang voru fljótir að hugsa, spiluðu sig í gegnum gisna vörn United og sá síðarnefndi skoraði mark. Aðstoðardómarinn hafði reyndar lyft upp rangstöðuflagginu en Aubameyang skoraði engu að síður. Sem reyndist fín ákvörðun fyrir hann því myndbandsdómgæsla sýndi að hann var langt frá því að vera rangstæður. Harry Maguire hafði verið aftarlega á vellinum til að bjóða sig fyrir Tuanzebe og þótt hann hafi verið helvíti snöggur fram þegar hann sá í hvað stefndi þá var hann ekki nógu snöggur og því var rangstöðudómnum snúið við. Réttur dómur og staðan orðin 1-1.
Paul Pogba var í kvöld að spila sinn 100. deildarleik á Englandi. Hann stóð sig heilt yfir vel í leiknum en var því miður bundinn í varnarsinnaðri stöðu en við hefðum viljað. Hann var manna duglegastur á vellinum að vinna boltann til baka en það vantaði upp á að hann hefði getað verið framar á vellinum til að skapa eitthvað sóknarlega. Hann átti þó fínt skot eftir 65 mínútna leik sem sigldi rétt framhjá fjærstönginni. 5 mínútum síðar kom frábært horn frá United, aldrei þessu vant, þegar Scott McTominay fékk frían skalla í markteignum en setti boltann yfir markið. Þar hefði hann átt að gera betur.
Solskjær gerði skiptingu á 74. mínútu þegar Fred og Mason Greenwood komu inn fyrir Pereira og Lingard. Daniel James hélt áfram að minna á sig með flottum töktum en það vantaði herslumuninn upp á að ná að reka smiðshöggið á það.
United var seinni part leiks líklegra til að gera eitthvað til að vinna leikinn, Arsenal virtist af liðunum frekar vera til í að sætta sig við stigið. En okkar menn gerðu ekki nóg. McTominay vann aukaspyrnu á hættulegum stað þegar leiktíminn var að renna út. Rashford tók spyrnuna, setti fastan bolta í markmannshornið en Leno varði vel. Þurfti að hafa sterkan úlnlið en boltinn var í fínni hæð fyrir hann. Svo var flautað af og 1 stig niðurstaðan.
Pælingar eftir leik
Það var svekkjandi að sjá Tuanzebe gera þessi mistök því hann átti heilt yfir mjög fínan leik. Varnarleikurinn var í rauninni að mestu fínn, Arsenal náði að skapa sér eitt mjög gott færi fyrir utan markið en komust þess utan lítið. En á meðan það gengur svona brösuglega að skapa fær, og enn verr að nýta þau, þá verða hver einstök varnarmistök enn dýrari. Vonandi heldur Tuanzebe þó áfram á þessari braut.
Scott McTominay átti fínan dag, svona fyrir utan að ná ekki að nýta skallann í dauðafærinu. Frábært mark og góð vakt.
Scott McTominay for Man Utd vs. Arsenal:
• Most duels contested (18)
• Most fouls won (5)
• Most tackles (4)And his first goal at Old Trafford. 👏 pic.twitter.com/z3yWSTjHzh
— Squawka (@Squawka) September 30, 2019
Dómarinn Kevin Friend átti ekkert sérstaklega góðan dag, að mínu mati. Hann var oft með skrýtna línu í gangi, eða linuleysi jafnvel. Flautaði á skringilegum stöðum, sleppti mönnum með eitt en flautaði eða spjaldaði á ekki neitt. Hafandi sagt það þá átti hann ekki sök á þessu jafntefli. Að mínu mati átti United ekki að fá víti og markið hjá Aubameyang átti alltaf að standa. Það má vissulega ræða það hvers vegna í ósköpunum aðstoðardómarinn flaggaði svona fljótt (eða bara yfir höfuð en það er annað mál) frekar en að leyfa sókninni að klárast. En liðunum var sagt fyrir tímabilið að þau þyrftu að spila sóknir til loka í svona atvikum, menn eiga aldrei að hætta eða gera ráð fyrir hlutum.
Það má áfram reikna með að fréttir næstu vikna snúist um það hvaða framherja United ætlar að kaupa í janúar. Það er vonandi að eitthvað gerist í þeim efnum, helst strax á nýársdag!
Rúnar Þór says
Ole HÆTTU ÞESSU. Ég HATA þetta spila Pereira á kantinum hann er ekki kantmaður! og Pogba að spila sem CDM. Spilaðu Fred og settu Pogba framar!!! Hættu þessu andskotans bulli!!
Og flýta Rashford í stað að spila Greenwood, þýðir væntanlega að hann verði meira meiddur!!
Bjarni Ellertsson says
Líst illa á leikinn nema menn sem hafi spilað undir getu stigi loksins upp. Mikilvægt að ná í úrslit, tap er ekki í boði, sætti mig við allt annað.
GGMU
Bjarni Ellertsson says
Erum við 9 á móti 11, Rashford og Pereira ekki með, nú var Rashford neð glórulausa tæklingu. Hausinn léttskrúfaður á.
Bjarni Ellertsson says
Þokkalegur fyrri hálfleikur, fullt af sóknarmöguleikum sem nýttust ekki, flott mark, góð sókn, mættu vera fleiri sóknir. Miðjan M og PP yfirburða en sóknin léleg, greinilegt að Rashford gengur ekki heill til skógar. Við getum ekki leyft okkur að vera með farþega, heila eða hálfa, gengur ekki til lengdar. Nú er að halda uppteknum hætti í seinni og þá vinnum við þennan leik, ef ekki þá getum við alveg eins tapað honum ef hinir fá tækifæri að komast inn í leikinn.
Turninn Pallister says
Djöfulsins klúður að fá á sig þetta mark.
Þar á undan hefði LiVARpool nú sennilegast fengið víti, en auðvitað ekki við. :/
Vindurinn ekki með okkar mönnum núna…
Bjarni Ellertsson says
Þegar menn geta ekki sent stutta sendingu á næsta mann þá er ekki von á góðu. Aumingjaskapur á háu stigi og eyðileggur vonandi ekki leikinn.
Turninn Pallister says
Finnst þetta vera svekkjandi þar sem að í endursýningunni virðist DeGea vera búinn að sjá að flaggið sé uppi og virðist því ekki reyna að fullu við boltann. En rétt hjá þér Bjarni, menn mega ekki missa einbeitinguna þarna. Sorglegt fyrir Tuanz þar sem að hann var nokkuð solid fram að þessu.
Helgi P says
Djöfull er Rashford orðinn ömurlegur getur ekkert neitt lengur
Rúnar Þór says
Þetta er með ólíkindum! Við fáum ótrúlega fá færi á okkur en samt höldum við ekki hreinu, týpískt klúður
Og hvað er málið??? Mason Greenwood er aukaspyrnusérfræðingur, hefur skorað fullt af mergjuðum aukaspyrnumörkum með yngri liðunum með báðum fótum. Samt hefur hann ALDREI verið í mynd þegar við fáum aukaspyrnur en alltaf Rashford. Greenwood er miklu miklu betri í aukaspyrnum, það er ekki bara mín skoðun, heldur facts!
Bjarni Ellertsson says
Sammála Rúnari, Rashford þykist vera eitthvað annað en hann er. Mögulegar fjarar hratt undan honum ef hann rífur sig ekki í gang. Er engin nía og mun einungis geta rifið varnarmenn í sig á kantinum. Það var þó klaufaskapur og aulaháttur í vörninni sem gaf markið og hefði getað gefið eitt í viðbót. En ef sóknin er ekki að gera sig þá mun þetta verða niðurstaðan í vetur. Við erum því miður ekki komnir langt af stað í uppbyggingunni og þurfum að horfa upp á svona ströggl, enn eitt árið. Því meiri gæði sem bætist við hópinn næstu misserin því fyrr náum við áttum.
MSD says
Ég myndi bara vilja sjá Rashford á kantinum, Lingard á bekkinn og Greenwood á toppnum. Finnst koma meira út úr Rashford á kantinum en á toppnum.
Heilt yfir ekki svo slæmur leikur af okkar hálfu en hrikalega ódýrt mark sem við gefum. Línuvörðurinn líka með allt niðrum sig að flagga. Þeir eiga að halda flagginu niðri nema þeir séu 100% og þetta var way off hjá honum. Það er mun verra að þeir séu að flagga og trufla þannig leikinn frekar þó menn eigi auðvitað bara að halda áfram. Sá að De Gea og Young voru þarna að veifa höndunum horfandi á línuvörðinn, þá sérstaklega Young. Minnti mann á þegar Barthez kallaði á taxa í miðjum leik hér í gamla daga (leitið að Taxi for Barthez á youtube ef þið viljið skoða).
Við þurftum samt þessi 3 stig nauðsynlega. Arsenal fannst mér meira vera að sætta sig við 1 stig miðað við að þeir voru farnir að taka sér tíma í aukaspyrnur þegar lítið var eftir á klukkunni.
Áfram gakk. Væntingarnar í ár eru 4.sætið, getum engan veginn ætlast til meira með þennan hóp, því miður. Það eru 3 stig í það og tækifæri til að rífa sig í gang gegn lánlausum Newcastle mönnum í næstu umferð.
Tómas says
Skemmtilegur leikur. Klaufa mark, Tuanzebe er náttúrulega enginn vinstri bakvörður. Held að Shaw verði aldrei bakvörður sem fari tilltölulega heill gegnum heila leiktíð án meiðsla. Er of þungur ofan á það að vera viðkvæmur í skrokknum.
Þarf að kaupa í vinstri bakvörðinn.
Sömu vandræðinn með að klára færinn frammi.
Menn eru að gagnrýna Peirera en fannst hann með betri mönnum.
halli says
Ég horfi ekki á fleiri leiki ef young spilar.. takk og bæ
Turninn Pallister says
Er fullkomlega sammála skýrslunni, þó svo að ég hafi verið að agnúast út í dómgæsluna í jöfnunarmarkinu. Ekkert að markinu fyrir utan augljósan klaufagang hjá vörn og línuverði. Auðvitað eiga leikmenn að klára færsluna og svo að hugsa um rangstöðu eða annað.
Hvað mögulegt víti varðar, þá var það sennilegast bara gremjan að tala hjá mér þarna. Það hefði verið strangur dómur að dæma víti á þetta, þó svo að boltinn fari vissulega í hönd.
Áfram veginn, greinileg framför frá West Ham drullunni um daginn, vonandi verður hægt að byggja á þetta.
Afglapi says
Þar á undan hefði LiVARpool nú sennilegast fengið víti, en auðvitað ekki við. :/
Hvernig rökstyðuru þetta? Liverpool hafa hingað til fengið 1 víti og verið sniðgengnir um amk 3. United hafa fengið 4 víti, fleiri en öll önnur lið.
Í fyrra fengu Liverpool 7 víti en Man Utd 12. Flest allra liða.
Óskar G Óskarsson says
Rashford er ekki striker, hann er vængmaður ! ef hann fer ekki að rífa sig i gang þá má hann fara, sá er buinn að vera skítlélegur !
hvenær hættir þetta lingard grín ?
pereira er þvi miður á west ham caliber!
fer ekki young að detta a eftirlaun ?
Hvenær mætir Pogba úr sumarfríi ?
það er bara sömu vonbrigðin helgi eftir helgi !
Turninn Pallister says
Sæll Afglapi!
Eins og ég sagði áðan, þá var gremjan í hita leiksins að tala. Liverpool er bara augljóst target þar sem að erkifjendunum gengur allt í haginn þessa dagana. Hugsa að ég þurfi ekkert að rökstyðja það frekar, enda hefur nú örugglega eitthvað álíka flogið á kop.is í gegnum árin.
Tómas says
@Afglapi óháð því hvort United hafi fengið flest víti. Þá segir það ekkert um réttmæti dóma. Þá dettur mér strax í hug 2 atvik þar sem United átti að fá víti en fengu ekki. Önnur 3 atvik þar sem vel hefði verið hægt að dæma víti og VAR tekur ekki afstöðu eða gerir það og vill ekki fara gegn dómaranum. Allt voru þetta atvik, þar sem ef hefði verið dæmt. Þá hefðu þau staðið… að mínu mati.
Þannig að ég skil pirring Pallister. Þó vissulega var óþarfi að blanda Liverpool inn í þetta.
ingo Magg says
Mér fannst margt jákvætt við leikinn í gær. Með smá heppni hefðum við getað stolið þessu undir lokinn. Það sem mér svíður engu að síður mest er hvað við erum laaaaangt á eftir City og hvað þá Liverpool. Bæði hvað varðar getu og hvað þá stigum! Við erum núna 12 stigum á eftir Topp liðinu þegar bara 7 umferðir eru búnar, sem er rosalegt! Vonandi munu þessi liði misstíga sig þó að það er ekki líklegt. Þetta svíður inn að beini satt að segja!!
Láruslall says
Sælir félagar. Ég er sammála því að með smá heppni hefðum við getað tekið öll stigin. En það datt ekki með okkur útaf mistökum sem hafa kostað okkur full mikið af stigum að undanförnu. Hvað sem því líður sækjir maður smá huggun í að annað lið í Manchester hefur verið sjá til þess að erki fjendur okkar hinum megin við M62 séu ekki að taka deildina hvað eftir annað. En það er sorglegt engu að síður að við United menn skulum eingöngu hafa það að markmiði að komast í Meistaradeildina, sem ALGJÖR SKYLDA FYRIR SVONA KLÚBB. Við erum heilt yfir slakir og glottið á þeim yfir M62 er ólíðandi. Ég veit ekki afhverju þetta fer svona í taugarnar á mér en sjálfsagt útaf því ég er vinna með mörgum stuðningsmönnum þeirra. Ole er ekki rétti maðurinn, Ed Woodward er aumingi, Glazer fjölskyldan rotin, leikmannahópurinn rándýri er drasl og leiðinlegur fótbolti sem verið að bjóða manni uppá. 11 stigum frá toppliðinu sem við allir hötum er of mikið fyrir mig. There i said it.
gummi says
Við eigum að ráða Allegri því hann getur náð því besta úr Pogba
MSD says
Væri ekki frekar nær að selja Pogba og fá inn leikmenn sem vilja vera hjá okkur? Þannig getum við þá sloppið við enn einn nýja stjórann sem fær 1 tímabil, kaupir hina og þessa í sitt kerfi og við endum uppi í sömu stöðu eftir árið?
gummi says
Við verðum fyrst og fremst að vera með topp stjóra Solkjær er ekki að fara gera neitt með þetta lið því miður
MSD says
Það væri enginn að fara að gera neitt af viti með þennan hóp eins og hann er í dag, því miður. Það vantar inn bakvörð, miðjumann, sóknarsinnaðan miðjumann og framherja.
gummi says
Þessi hópur á samt að vera nógu sterkur til að vinna lið eins og west ham og crystal palace á heimavelli
MSD says
Er það samt? Hópurinn hjá City á líka að vera nógu sterkur til að vinna Norwich…