Þá er komið að þriðja leik United í Evrópudeildinni en liðið situr í öðru sæti í riðli L. Í fyrstu umferðinni var heimaleikur gegn FC Astana frá Kazakstan en honum lauk með 1-0 sigri United.
Sigurinn virtist kannski ekki í mikilli hættu en eins marks sigur á heimavelli verður að teljast döpur frammistaða, sérstaklega í ljósi þess að United réð lögum og lofum allan leikinn.
Það sama verður ekki sagt um síðari leikinn þar sem United rétt slefaði í markalaust jafntefli en liðið var mikið gagnrýnt fyrir að eiga ekki skot á rammann gegn AZ Alkmaar í Hollandi og heilt yfir mjög slaka frammistöðu.
Því er liðið með 4 stig eftir fyrstu tvo leikina rétt eins og mótherji morgundagsins. Toppsæti riðilsins er því undir í þessum leik og það ætti að vera deginum ljósara að United á heima þar og því gífurlega mikilvægur leikur framundan.
Mótherjinn
Fyrir þá sem ekki þekkja mótherjana þá er FK Partizan (Fudbalski klub Partizan) atvinnumannafélag frá Belgrad í Serbíu. Félagið var stofnað í október 1945 í gömlu Júgóslavíu en liðið spilaði fyrsta leikinn í Evrópukeppninni sem síðar varð Meistaradeildin þar sem liðið mætti Sporting CP í 3-3 jafntefli árið 1955.
Ellefu árum síðar tókst þeim að komast alla leið í úrslitaleikinn þar sem þeir töpuðu fyrir Real Madrid en á leið sinni þangað mættu þeir einmitt United og höfðu betur í þeirri viðureign.
Liðið á langa og áhugaverða sögu í Evrópukeppnum og meðal annars unnið Mitropa Cup árið 1978 en heimavið hefur liðið verið í hatrammri baráttu við Rauðu Stjörnuna (Red Star Belgrad) þar sem liðin hafa skipst á að sigra deildina gegnum árin.
Partizan hefur unnið Serbnesku Ofurdeildina í átta skipti á meðan Rauða Stjarnan hefur unnið hana fimm sinnum en þessi lið hafa eldast saman grátt silfur í fjölmörg ár.
Þjálfari liðsins, Savo Milosevic, tók við liðinu á þessu ári en spilaði sem framherji á tíma sínum með Partizan og er óhætt að segja að liðið er vant að spila blússandi sóknarbolta. Það má því segja með nokkurri vissu að í ljósi þess og þeirrar staðreyndar að United á í vandræðum þessar vikurnar að Partizan mun mæta á völlinn til þess að heimta öll stigin og ekkert minna.
Það var enginn annar en sir Alex Ferguson sem hvatti Savo Milosevic til að gerast knattspyrnustjóri en von er á Ferguson á völlinn og sagði Savo að vel yrði tekið á móti Skotanum.
Athygli vekur að Partizan er búið að leika báða sína leiki í Evrópudeildinni fyrir luktum dyrum sökum kynþáttaníðs en munu spila leikinn fyrir framan áhorfendur sína á morgun. Það verður því áhugavert að sjá hvort það muni ekki gera gæfumuninn en leikurinn fer fram á Partizan Stadium sem rúmar um 32.000 áhorfendur en Evrópuleikir sem fram fara í Serbíu eru þekktir fyrir að vera sérlega erfiðir eins og Liverpool fékk að kynnast á síðasta ári.
United
Eftir þolanlegt 1-1 jafntefli um síðustu helgi gegn Liverpool í leik þar sem Fred þótti loksins sýna einhver merki þess að United hefði ekki greitt 49,9 milljónum punda of mikið fyrir leikmanninn og Rashford var valinn maður leiksins, þá eru eflaust einhverjir stuðningsmenn liðsins sem leyfa sér að búast við „skyldusigri“ í viðureigninni á morgun.
Þeir verða fljótt slegnir niður því þetta verður eflaust erfiðasti leikurinn í þessum riðli. Ofan á það verður liðið án Paul Pogba og markvarðarins David de Gea, sem kannski verður ekki eins sárt saknað þar sem Sergi Romero er vanur að gæta búrsins í Evrópudeildinni með miklum sóma.
De Gea verður að öllum líkindum orðinn tilbúinn fyrir Norwich leikinn um helgina en Solskjær vildi ekki taka hann með í hópinn til Serbíu og þess vegna fær Matej Kovac (17 ára) pláss í hópnum en verður þó líklegast á eftir Lee Grant og Romero í goggunarröðinni.
Solskjær staðfesti líka að Luke Shaw og Nemanja Matic væru enn tæpir og verða ekki með en Jesse Lingard er búinn að ná sér og má gera ráð fyrir að hann fái einhverjar mínútur í það minnsta á morgun.
Annars spái ég liðinu svona:
Leikurinn hefst 16:55 að íslenskum tíma. Glory, glory!
Skildu eftir svar