Í dag fór fram þriðja umferðin í okkar riðli (Riðill L) í Evrópudeildinni en leikið var á Partizan Stadium í Belgrad. Mikill hiti var í Belgrad þegar leikurinn hófst og ekki síður í stuðningsmönnum en gríðarlega góð stemning var á leiknum og en þeir sungu og hoppuðu með þvílíkum látum í upphafi leiks að flestir jarðskjálftamælar í Serbíu hafa líklega numið það.
Ole Gunnar Solskjær stillti upp í 3 manna miðvarðar línu með Brandon Williams og Aaron Wan-Bissaka sem vængbakverði og þétta miðju með Anthony Martial fyrir framan þá.
Varamenn: Grant, Lindelöf, Andreas, Fred, James (’60), Greenwood og Rashford (’60).
Fyrir þennan leik hafði United ekki unnið í 11 útileikjum í röð á meðan Partizan hafði ekki tapað á heimavelli í Evrópukeppni í jafnmörgum leikjum. Útlitið var því ekki gott fyrir okkar menn sem virðast í augnablikinu ekki með nokkru móti geta skorað meira en 1 mark í leik né unnið á útivelli.
Fyrri hálfleikur
Leikurinn fór rólega af stað en United fékk aukaspyrnu eftir að brotið var á Anthony Martial. Úr henni kom hættuleg sending inn fyrir frá Juan Mata þar sem Scott McTominay skallaði knöttinn einn og óvaldaður en boltinn endaði í hliðarnetið.
Á 22. mínútu fékk skotinn svo gott skotfæri við d-bogann eftir sendingu frá Lingard en skotið máttlaus og hættulítið.
Heimamenn sköpuðu sér ekki mikið af færum framan af en í hvert sinn sem þeim tókst að vinna boltann og ætluðu að sækja hratt virtist þeim bregðast bogalistin og þeir misstu boltann áður en nokkur raunveruleg hætta skapaðist.
Á 30. mínútu fengu heimamenn aukaspyrnu eftir brot Harry Maguire en McTominay hreinsaði út úr teignum og Partizan virtist eiga í stökustu vandræðum með að halda boltanum og byggja upp sóknir.
United réði ferðinni fyrsta fjórðung leiksins en eftir það fóru gestirnir að bæta í og ná betri stjórn á leiknum.
Þegar um 35 mínútur voru liðnar á leiknum tókst United að snúa við taflinu aftur og áttu flotta sókn sem endaði með klafsi og slakri hreinsun og tókst Aaron Wan-Bissaka að tækla boltann af varnarmanni Partizan og renndi honum á Jesse Lingard sem setti boltann í stöngina og út en McTominay var hársbreidd frá því að ná frákastinu.
Heimamenn tiltölulega heppnir en einungis örfáum sekúndum síðar fengu þeir sókn sem endaði með skoti frá Sadiq. Þar bjargaði Sergio Romero og hiti færðist í leikinn.
Aftur fengu heimamenn gott skot en Takuma Asano setti boltann framhjá. Meiri spenna og hærra tempó komst í leikinn.
Í næstu sókn geystist Brandon Williams upp kantinn og leið og hann var kominn inn í vítateiginn var hann tekinn niður af Nemanja Miletic og víti réttilega dæmt.
Anthony Martial tók boltann og gerði sig líklegan til að taka vítið í fjarveru Pogba og Rashford en sá franski setti boltann örugglega í vinstra hornið framhjá Vladimir Stojkovic. Stuttu síðar, raunar áður en 45 mínútur voru liðnar, flautaði dómarinn til hálfleiks. 0-1 eftir fyrri hálfleikinn.
Síðari hálfleikur
Eftir einunis hálfa mínútu af síðari hálfleik tókst Sadiq að krækja í aukaspyrnu eftir að labba í gegnum vörn United en Phil Jones virtist ná fyrst til boltans en tók manninn vissulega með í leiðinni. Sem betur fer fyrir okkar menn var skotið úr spyrnunni lang framhjá og leikmenn gátu andað léttar enda virtust þeir enn vera að átta sig á að leikurinn væri hafinn á ný.
Pressan frá heimamönnum hélt áfram og eftir nokkur hálffæri vildu þeir fá dæmda vítaspyrnu þegar Seydouba Souma féll við í vítateignum eftir baráttu við Jones en dómari leiksins veifaði honum að standa í lappirnar.
United litu ekki vel út þessar fyrstu mínútur og Harry Maguire, fyrirliði liðsins í kvöld, leit ekki vel út og lét Soumah til að mynda fífla sig upp úr skónum í næstu sókn Partizan. Souma tók eina einfalda gagnhreyfingu en hefði allt eins geta keypt farmiðann heim fyrir dýrasta varnarmann heims, svo illa fór hann með hann.
Áfram héldu heimamenn að pressa og United virtist illa ráða við spræka heimamenn með heila herdeild á pöllunum að hvetja sig til dáða.
Því tók Solskjær upp á því á 60. mínútu að taka Martial og wan-Bissaka útaf og setja inn á Marcus Rashford og Daniel James. Seint hægt að segja að þetta hafi verið varnarsinnaðar skiptingar en við þetta virtist United fara í 4 manna varnarlínu þar sem Jones fór í hægri bakvörðinn.
Þeir voru ekki lengi að komast inn í leikinn og í næstu sókn United komst Rashford inn fyrir vörn Partizan eftir gott samspil við Lingard, sendi hælsendingu á Juan Mata sem þurfti að teygja sig í boltann og náði þar af leiðandi ekki eins góðri sendingu fyrir markið og varnarmenn heimamanna hreinsuðu í burtu.
Aftur vildu heimamenn fá vítaspyrnu þegar boltinn fór í höndina á James þegar þeir hugðust senda boltann fyrir markið en ekkert dæmt og fyrir mótmælin uppskar Miletic gult spjald.
Ekki mínútu síðar kom fyrirgjöf fyrir mark United og Williams fór upp í skallabolta við en sá síðarnefndi skallaði boltann í höndina á Williams og gjörsamlega trompaðist þegar dómarinn gaf merki um að hann myndi ekki dæma á þetta heldur. Uppskar einnig gult og pirringur kominn í leikmenn Partizan.
Á 78. mínútu fékk Asano gott færi en Phil Jones réttur maður á réttum stað í markmannsteignum og kom boltanum aftur fyrir endalínu í horn. Jones átti flottan leik utan við ein mistök undir lok leiksog var ásamt Brandon Williams besti leikmaður United.
Síðasta skipting United kom á 81. mínútu þegar James Garner fór útaf og Andreas Pereira kom inn á í hans stað. Ekki besti leikur hans Garners en taka verður inn í reikninginn að um gríðarlega erfiðan Evrópuleik í Serbíu var um að ræða en ferðalög stóru liðanna úr Evrópu hingað hafa ekki alltaf verið gjöfular.
Á sömu mínútu fengu heimamenn hornspyrnu og Asano fékk frábæran skalla en Sergi Romero var vel á verðinum og varði vel. Stuttu síðar átti Romero aðra vörslu þegar hann sló fyrirgjöf frá hægri vængnum hátt í loftið.
United fékk tækifæri til að tvöfalda forystuna rétt fyrir leikslok þegar Mata fékk sendingu frá James eftir að sá velski komst inn fyrir vörn Partizan en sending hans fór undir löppina á þeim spænska. Leiknum lauk svo með 0-1 sigri United.
Virkilega sterkur sigur á erfiðum útivelli og með þessu tekur United fyrsta sæti riðilsins en á sama tíma vann AZ Alkmaar 6-0 sigur á FC Astana í Hollandi. United er því með 7 stig, AZ Alkmaar með 5 stig, Partizan með 4 stig og FC Astana með 0. Í næstu umferð mætir Partizan á Old Trafford og AZ ferðast til Kazakstan og eftir þá umferð ættu línurnar í riðlinum að vera farnar að skýrast nokkuð betur.
Næsti leikur United er hins vegar við nýliðana í Norwich en kanarífuglarnir hafa átt nokkuð brösugt gengi í deildinni en tókst þó að sigra meistarana í City 3-1 en töpuðu svo fyrir Burnley og Crystal Palace áður en þeir steinlágu 5-1 á heimavelli gegn Aston Villa.
Það verður því eflaust fjörugur leikur um helgina en leikurinn er 16:30 á sunnudaginn.
Glory, glory!
Auðunn says
Eitt skot á markið í tveimur útileikjum í þessari keppni er hrikaleg tölfræði.
En 100% aukning milli leikja er jákvætt og fyrsti útisigur síðan í Mars er líka jákvætt.
Annars var þetta heilt yfir mjög slakt en góð reynsla fyrir stráklingana sem fengu séns.
Heiðar says
Mér fannst Brandon Williams gjörsamlega magnaður. Fiskaði vítið og át kantmenn Paritzan hvað eftir annað. Var óhræddur að leita fram á við einnig.
Turninn Pallister says
Guð hvað ég vildi að við hefðum hent 30-40 mills á borðið og keypt Tielemans í sumar…
Lítur helv. vel út hjá Leicester
Bjarni Ellertsson says
Spurningin er frekar Turn á hvaða lyfjum hafa menn verið síðustu. Erum bara staddir nákvæmlega þar sem til var sáð í upphafi fyrir nokkrum árum síðan. Flestir leikmenn getulausir, tæknilega vanhæfir og á stundum arfaslakir að það þarf ekki nánari útskýringar við, horfa þarf bara aftur á síðustu leiki. Botninum er ekki náð enn og sama hvað með reyna að dásama liðið þá eru menn ekki að sjá það augljósa, leikmenn eru bara ekki nægilega góðir til að klæðast treyjunni, sýna kassann og berja sig á brjóst. Þeir mega samt eiga það að þeir reyna að bæta sig leik eftir leik en flestir munu ekki bæta sig um ókomna framtíð og verðum við því að horfa upp á þessa hörmungar spilamennsku meira og minna í vetur .
GGMU
Turninn Pallister says
Satt vinur, er bara hræddur um að sálin hafi verið seld. Of mikil áhersla á markaðshliðina og of lítil áhersla á það sem fram átti að fara á vellinum. Jújú, sumir af þessum strákum eru að reyna og hæfileikana vantar svosem ekki. En eitthvað virðist samt vera illa brotið hjá okkar mönnum og stemmningin er ofboðslega þung.
Ég sagði alltaf að Solskjær væri gott val (safe choice) á þeim tímapunkti sem hann var ráðinn, en var þá kannski meira að hugsa um hann sem tímabundna ráðningu. Mér líst samt að mörgu leiti vel á það hvað hann er að hugsa og þá með tilliti til framtíðar uppbyggingu liðsins. Kaupin í sumar hafa komið vel út, þrátt fyrir að ég hefði verið til í að við splæstum í miðjumann (jafnvel 2-3 ef við hefðum selt PP). Mögulega hefði Solskjær verið betri kostur sem tímabundið starfandi stjóri sem gengi svo inn í DOF jobbið þegar alvöru stjóri væri ráðinn *Hóst Allegri*Hóst, Hóst.
En eins og maðurinn sagði, ef og hefði og jól í október…