Sextán liða úrslit deildarbikarsins, Carabaodrykkjardollunnar, hófust í gærkvöldi. Þá tryggðu Leicester City, Colchester United, Everton, Manchester City og Oxford United sér áfram í 8-liða úrslit. Í kvöld bættust svo þrjú lið við í þann hóp. Aston Villa vann Úlfana 2-1 í venjulegum leiktíma en Liverpool þurfti víti til að vinna Arsenal eftir að staðan var 5-5 að loknum 90 mínútum. Að lokum var það svo Manchester United sem var síðasta liðið til að tryggja sig inn í fjórðungsúrslitin með verulega sætum 2-1 sigri á lærisveinum Franks Lampard í London.
Dómari í þessum leik var Paul Tierney.
Byrjunarlið Manchester United í þessum leik var svona:
Varamenn: Grant, Jones, Young (80′), Andreas (66′), Garner, Mata, Martial (66′).
Heimamenn stilltu upp þessu byrjunarliði:
Varamenn: Cumming, Azpilicueta, Lamptey, Mount, Pedro, Abraham, Giroud.
Leikurinn sjálfur
Chelsea kom sterkara inn í þennan leik og var sprækara fyrstu 10 mínúturnar eða svo. Þeir bláklæddu voru töluvrt meira með boltann og áttu fyrstu tvö marktækifæri leiksins. Pulisic og Batshuayi reyndu sig þá en hvorugur hitti á rammann. United kom sér þó inn í leikinn og á 12. mínútu átti liðið fínustu hornspyrnu, ein af þessum sem talað er um að komi beint af æfingasvæðinu. James gaf þá fastan bolta meðfram jörðinni út í teiginn þar sem Scott McTominay kom með hlaup út á móti öllum hinum samherjum sínum sem hlupu inn að markinu. Þannig skapaðist smá pláss fyrir Skotann og hann náði föstu skoti en það fór í hliðarnetið utanvert, framhjá nærstönginni. Gaman að sjá þetta, liðið mætti sannarlega gera meira af þessu í fjölbreyttari útfærslum. Daniel James átti svo sjálfur tilraun og rauðklæddu gestirnir voru líflegir á þessum kafla.
Svo jafnaðist leikurinn og áfram var um taktíska baráttu að ræða þar sem 3-4-1-2 kerfi Solskjær glímdi við 4-3-3 kerfi Lampard. Scott McTominay kom sér meira í miðjubaráttuna og það virtist lyfta baráttuanda liðsfélaga hans. Scott fékk þó gult spjald á 11. mínútu fyrir heldur harkalega tæklingu og þurfti því að passa sig eftir það þegar kom að tæklingunum. Hann hélt þó áfram að láta finna fyrir sér og taka til sín, er að vaxa mikið sem leikmaður þessar vikurnar.
Á 25. mínútu braut McTominay einmitt á bak aftur sókn Chelsea, United brunaði þess í stað í sókn upp hægra megin og Daniel James kom á ferðinni inn í teiginn. Þar reyndi Marcos Alonso að taka boltann af honum en tókst ekki betur en svo að dómarinn dæmdi réttilega vítaspyrnu á Spánverjann glannalega. Marcus Rashford fór aftur á vítapunktinn, með vítapressu United á herðunum, og lét vaða. Hann skaut boltanum í sama horn og síðast, aðeins utar og aðeins fastar, og það dugði í þetta skiptið. 1-0 fyrir United.
Eftir það hélt baráttan áfram en United var þó með meiri tök á leiknum, sama hvort liðið var með boltann. Chelsea fékk að halda honum en gerði lítið við hann og United átti einu marktilraun fyrri hálfleiks eftir vítaspyrnuna, þegar Jesse Lingard átti tilraun á 37. mínútu en þótt það hitti á rammann þá var það ekki líklegt til árangurs. United fór svo með 1 marks forystu inn í leikhlé.
Brandon Williams varð 19 ára í byrjun síðasta mánaðar og var þarna mættur í byrjunarliðið en það var ekki að sjá að hann væri óreyndur, hann tók virkan þátt í leik liðsins, var duglegur að keyra fram völlinn til að hjálpa til í sókninni og lét finna fyrir sér þegar á þurfti. Þannig var seinni hálfleikurinn ekki gamall þegar Williams bókstaflega henti Hudson-Odoi langleiðina upp í stúku. Stuttu síðar var hann kominn fram til að hjálpa til við sókn United og síðan brunaði hann aftur og stöðvaði skyndisókn hjá Chelsea. Mjög gaman að fylgjast með stráknum.
Chelsea reyndi að ná jöfnunarmarki og United reyndi að nýta tækifærin til að sækja hratt, fyrstu mínúturnar í seinni hálfleiknum voru hressar. Á 57. mínútu náði Hudson-Odoi að koma sér aðeins framfyrir Williams, fékk sendingu yfir vörnina og lét vaða á lofti af vítateigslínunni en boltinn fór bæði yfir Romero og vel yfir markið.
Á 60. mínútu náði Chelsea að jafna metin. United hafði þá náð góðri pressu á Chelsea og þvingaði Caballero til að gefa langan bolta fram úr markinu. Þar lenti fyrirliðinn Harry Maguire í skallaeinvígi við Michy Batshuayi. Boltinn fór upp í loftið og Maguire missti af honum. Batshuayi nýtti tækifærið og brunaði upp hálfan völlinn og skoraði með góðu skoti fyrir utan teig. Ekki nógu vel gert hjá Maguire þarna og ekki nógu vel gert heldur hjá liðsfélögum hans í vörninni, einhver þeirra hefði átt að stöðva þetta áður en Batshuayi náði skotinu. 1-1 og hálftími eftir af leiknum.
Solskjær svaraði þessu með þvi að gera tvöfalda skiptingu á 66. mínútu. Af velli fóru Victor Lindelöf og Jesse Lingard, inn á í þeirra stað komu Anthony Martial og Andreas Pereira. Við það breyttist uppstilling Manchester United úr 3-4-1-2 í 4-2-3-1.
Lampard svaraði þessari skiptingu 5 mínútum síðar með því að taka Billy Gilmour og Christian Pulisic af velli fyrir Mason Mount og Pedro. Það hafði lifnað vel yfir United eftir skiptinguna frá Solskjær en bæði liðin virtust ætla að keyra þetta í gang forðast það að fara með þennan leik í vítaspyrnukeppni.
Á 73. mínútu fékk United aukaspyrnu á miðjum vallerhelmingi Chelsea. Marcus Rashford stillti sér upp við boltann og lét svo vaða með bylmingsskoti sem datt svo niður rétt undir slána og í markið hjá Caballero. Svifið á boltanum minnti á ódauðlega aukaspyrnu Cristiano Ronaldo gegn Portsmouth hérna um árið, þó af heldur lengra færi. Þvílíkt glæsimark!
https://twitter.com/Iwan21i/status/1189658846828154881?s=20
Lampard beið í fimm mínútur en gerði svo síðustu skiptingu sína þegar hann setti Tammy Abraham inn á fyrir markaskorarann Batshuayi. Solskjær svaraði þeirri skiptingu með því að taka tvöfalda markaskorarann Rashford af velli og setja Ashley Young inn á í staðinn fyrir hann. Rashford virtist haltra eitthvað þegar hann kom út af, vonandi að það sé ekkert alvarlegt.
Chelsea reyndi svo að setja meiri pressu á United á þeim mínútum sem voru eftir. United varðist vel og reyndi svo að nýta tækifærin til að sækja hratt. James átti sprett en var þreyttur. Martial átti lúmskt skot sem var ekki langt framhjá skeytinu fjær, Williams átti flottan sprett og fiskaði gult á Kovasic.
Pælingar eftir leik
Marcus Rashford var að skora 2 mörk gegn Chelsea í annað skipti í vetur. Hann er kominn með 52 mörk fyrir Manchester United á ferlinum. Hann hefur verið að skora eða leggja upp í síðustu leikjum bæði fyrir Manchester United og England, hann er á fínasta skriði þrátt fyrir að hafa brennt af vítaspyrnu í síðasta leik. Vonandi heldur þetta skrið hans áfram.
Scott McTominay er að vaxa gríðarlega sem leikmaður og karakter í þessu liði. Þurfti að passa sig frá 11. mínútu af því hann var á gulu en hann gerði það með prýði og lét það ekki koma í veg fyrir að hann gæfi allan kraft í öll návígi. Yfirveguð og flott frammistaða hjá honum.
Brandon Williams er hrár að sumu leyti en það sem hann er skemmtilegur að mörgu öðru leyti. Vonandi sjáum við hann spila sem mest í sem flestum keppnum í vetur, kid got guts.
Ég er mikill Harry Maguire maður og það gladdi mig mikið að sjá minn mann með fyrirliðabandið í annað skiptið á einni viku. Hann leit klaufalega út í markinu hjá Chelsea og var ekki alltaf að hitta með löngu sendingunum sínum til að byrja með en hann átti samt flottan leik heilt yfir, sérstaklega eftir að United komst aftur yfir. Þá var Chelsea aldrei líklegt til að jafna.
Megi hann bera fyrirliðabandið sem oftast!
Það verður dregið í 8-liða úrslit í fyrramálið og það verður fróðlegt að vita hvort við fáum annan stórleik þá eða kannski skemmtilega viðureign gegn liði úr neðri deild.
Karl Garðars says
Fínasti leikur. Smá stress á köflum síðasta hálftímann en nokkuð fín frammistaða.
McTominay var alveg rosalegur þrátt fyrir að hafa verið á gulu og Fred var þrælfínn líka.
Góð liðsheild og þessi aukaspyrna var með þeim fallegri.
Heiðar says
Virkilega ánægjulegur sigur. Það er ekki oft sem lið sækja sigur á Brúnni, alveg sama hvernig Chelsea stilla upp.
Mikið óskaplega geta hlutirnir breyst fljótt í boltanum. Manchester United sem ekki var búið að vinna útileik síðan í mars er nú búið að vinna þrjá útileiki á innan við 1 viku!! Þessi þunnskipaði hópur er farinn að spila meira sem lið og það án hr. Paul Pogba. McTominay er að stimpla sig rækilega inn og innkoma Marital virðist hafa verið sem vítamínsprauta fyrir Rashford. Af því sögðu finnst mér frammistaða Martial síðan hann kom til baka ekki hafa verið brilliant heilt yfir þrátt fyrir góða spretti inn á milli.
Brandon Williams er að sýna ótrúlegar frammistöður í vinstri bakverði. Nú er allt í einu komin upp sú staða að kannski væri best að fjárfesta alls ekki í vinstri bakverði, heldur leyfa Williams, Shaw og Young að bítast um þetta. Manni sýnist Shaw þurfa að rífa sig allhressilega í gang til þess að hinn 19 ára Brandon slái hann ekki út úr liðinu (þ.e.a.s. þegar að Shaw kemur til baka úr meiðslum).
Það eru tveir mánuðir í janúargluggann. Vonandi verður liðið ekki fyrir fleiri meiðslum fram að því. Það er útilokað annað en að einhver viðbót við hópinn komi í glugganum. Hver veit, þetta gæti orðið áhugavert tímabil eftir því sem líður á….
Cantona no 7 says
Frábær sigur á erfiðum útivelli.
Gengi okkar manna fínt í síðustu leikjum .
Ole þarf samt að styrkja liðið mikið og það tekur tíma.
Góður dráttur hjá okkur í átta liða úrslitum.
G G M U
Silli says
Geggjaður leikur!
Eins og Gary Neville talaði um í lýsingunni, þá er þetta 3ja hafsenta kerfi að virka mjög vel og gefur okkar öskufljótu bakvörðum og kant/sóknarmönnum svo miklu betri möguleika á að sækja hratt og fast, með varnar stuðningi (í þessu tilfelli Rojo og Lindelöf) þegar á þarf að halda.
Mér fannst miðjan mjög fín og ákaflega gleðilegt að sjá hve McTominay/Fred eru að vaxa… Mjög hratt!
McTominay er magnaður og á eftir að verða svakalegur með þessu áframhaldi. Framtíðar fyrirliði!
Daniel James er líklega frá Kenía, .. Það sem drengurinn getur hlaupið!
Svona mætti lengi telja.. Já og Brandon Williams!
Eins og ég hef svo oft imprað á áður; Þá finnst mér OGS og félagar vera með plan sem er að byrja að virka – Fá inn unga og graða stráka sem vilja spila fótbolta fyrir klúbbinn. Ekki útrunna Arsenal menn (t.d.) sem eru búnir að missa áhugann á fótbolta.
Sáu þið hvernig liðið fagnaði mörkunum?
Að lokum:
Mikið gladdi það mig þegar OGS brást við með breytingum á leikkerfi!
Uppbyggingin tekur tíma og við fáum örugglega einhver slæm úrslit í viðbót, en Manchester United er að mínu mati á hárrettri leið.
GGMU!
Audunn says
Virkilega góður og sterkur sigur á erfiðum útivelli sem hefur ávallt reynst okkar mönnum erfiður.
United er svoddan rússíbana lið að maður veit aldrei á hverju maður á von á.
Um leið og maður verður mjög bjartsýnn þá gerir liðið upp á bak og þegar maður er orðinn svartsýnn og farinn að efast stórlega um Ola Gunnar þá vinna þeir flotta sigra og spila vel.
Það voru margir sem áttu góðan leik og eiginlega bara Lingard sem átti frekar slæman leik. Þurfum meiri gæði í hans stöðu.
Ef United tekst að gera tvö góð kaup í janúar þá getur ýmislegt gerst.
En liðið þarf að halda áfram á þessari braut. Það er varla pláss fyrir annað.
Það er meira sjálfstraust í liðinu og innkoma Martial hefur góð áhrif á aðra leikmenn liðsins.