Liðið sem Ole Gunnar stillti upp var mjög sterkt, aðeins Mason Greenwood af unglingunum var í byrjunarliði. Staðan í riðlinum var enda þannig að sigur myndi tryggja United áfram þar sem innbyrðisviðureignir við Partizan gilda ef liðin verða jöfn að stigum.
Varamenn: Grant, Jones, Williams, Pereira, Garner, James, Lingard
Lið Partizan leit svona út:
Það var hasar fyrstu mínúturnar, á annarri mínútu setti Martial boltann í netið eftir frábæran undirbúning Marcus Rashford en Martial var illa rangstæður. Tveimur mínútum síðar kom stunga hinu megin á Natcho sem vippaði frábærlega yfir Sergio Romero, en hann var líka rangstæður, vel sloppið þar. Tveimur mínútum eftir ÞAÐ kom United í sókn, fyrirgjöf Wan-Bissaka fór í varnarmann og út á Rashford sem skaut framhjá! Hefði átt að gera betur þar.
Hvað haldið það hafi verið stutt í næsta færi?
Tvær mínútur!
Klukkan sýndi 08:20 þegar Juan Mata kom vel upp vinstra megin, renndi á Martial sem var aleinn á móti markmanni, og það á markteig, en skaut beint á markvörðinn. Fimmta færið í þessari -færi á tveggja mínútna fresti- syrpu var síðan langskot Fred sem var frekar slakt en uppskar þó horn.
Aðeins róaðist þetta en síðan kom Marcus Rashford með skot úr teignum himinhátt yfir. Góð fyrirgjöf Wan-Bissaka samt.
Partizan sótti þó nokkuð sem skýrði líka þessi færi sem United var að fá, Partizan voru ekki nógu passasamir til baka og sérstaklega virtust þeir opnir fyrir hægri væng United.
En það var hvorki Martial né Rashford sem skoruðu heldur auðvitað Mason Greenwood. Sóknin kom upp vinstra megin, Rashford lék upp að teig. Martial var kominn langt inn fyrir í miðjum teignum og Rashford gaf sendingu fyrir aftan hann, út á Greenwood hægra megin, aðeins einn varnarmaður þar og Greenwood lék boltanum til hliðar, opnaði skotfærið á vinstri og í staðinn fyrir augljósa skotið á fjær, lagði hann boltann á nær, óverjandi. Staðan 1-0 á 22. mínútu.
Þetta hélt áfram að vera opinn og skemmtilegur leikur, ekki síður vegna þess að Partizan gat enn síður sett í vörnina eftir að hafa lent undir.
United refsaði síðan vörn Partizan fyrir að vera ekki nægilega þétt. Á 33. mínútu voru varnarmenn þeirra í vandræðum við teiginn, einn reyndi að hreinsa, boltinn í annan varnarmann og á Martial sem stakk sér inn á teiginn, lék fram hjá tveimur varnarmönnum og tókst að halda jafnvæginu í erfiðri stöðu og smella boltanum í netið.
https://twitter.com/PeoplesPerson_/status/1192541621713350656
Rétt á eftir var hann síðan enn kominn inn fyrir en skotið í þetta sinn hátt yfir. United hélt áfram sóknum, og færin komu í bunum. Rashford komst inn fyrir, en markvörðurinn kom vel út á móti og Rashford gerði ekki nógu vel og skaut beint á hann. Young reyndi skot sem fór rétt framhjá, og tvær sóknir í viðbótartíma hefðu getað endað með skotum en það bjargaðist hjá Partizan
Sem sé, fjörugur fyrr hálfleikur, United lék vel en vörn Partizan var ekki beinlínis sem múrveggur. Það tók enda United innan við fjórar mínútur að skora þriðja markið og loka leiknum. Löng sending milli kanta, Young var inni í teig og lagði bara boltann nett fyrir Rashford sem gerði engin mistök í þetta skiptið og þrumaði í netið, frábært mark.
Þá var kominn tími á unglinga, því miður bara tveir á bekknum, James Garner kom inná á 63. mínútu fyrir Fred. Rétt á eftir kom síðan Andreas Pereira inná fyrir Rashford.
Leikurinn rúllaði áfram frekar áreynslulaust, lítið að gerast. Þegar kortér var eftir meiddist Scott McTominay eitthvað, virtist ekki mikið en engin ástæða að taka sénsa og Jesse Lingard kom inná.
Það breyttist ekkert leikurinn við það, United menn dútluðu með boltann og þetta var eins og létt eftir-leiks slökun að mestu leyti, sem var auðvitað fínt, enda stutt í næsta leik.
Það gekk því upp fyrir Solskjær að stilla upp sterkasta liði, framundan eru tveir leikir sem skipta litlu máli og vonandi sjáum við fleiri unglinga móti Astana á Old Trafford eftir þrjár vikur.
Bjarni Ellertsson says
Verður seint sagt um Rashford að hann sé skynsamur og yfirvegaður leikmaður, meira svona gung ho. En hann þó reynir.
Sindri says
Flott að vinna svona sannfærandi í skyldusigri. Drápseðlið farið að gera vart við sig af og til.
Vinnum um helgina, svo breytist Lingard í jólaJesse fljótlega.
Áfram veginn, ekkert uppstopp.
Audunn says
Áttum mjög fína spretti inn á milli í þessum leik sem gladdi augað.
En samt má maður ekki missa sig úr spenningi því andstæðingurinn er varla nógu sterkur til að spila í Ensku úrvalsdeildinni.
Það er deildin sem skiptir United öllu máli núna og nú er kominn krafa á Ole Gunnar að liðið komist almennilega í gang þar.
Það verður reyndar alveg drullu erfitt með leikmenn eins og Fred, Young, Lingard og Pereira innanborðs.
Cantona no 7 says
Skyldusigur.
Er sammálla að nú verða menn að spila almennilega t.þ.a. koma liðinu ofar
í deildinni.
Ole verður að kaupa 2-3 menn í jan og styrkja liðið almennilega og svo aftur í sumar.
Fred og Rojo eru að koma til og allt liðið verður að spila eins og Manschester United
á að gera.
Ole þarf að hreinsa aðeins til í sumar og fá alvöru menn inn í staðinn.
G G M U