Það fer að líða að jólum og eins og alltaf er góð törn í ensku knattspyrnunni þá og hefst á morgun þegar botnlið Watford kemur í heimsókn á Old Trafford tekur á móti okkar mönnum. Eins og svo oft áður kom slæmur leikur í kjölfar góðra og jafnteflið gegn Everton þýddi að liði er ekki eins nálægt fjórða sætinu og ella. Á morgun mætast Tottenham og Chelsea þannig að sigur United á Watford kemur liðinu algjörlega í baráttuna, ekki síst ef Chelsea vinnur ekki
En það er orðið langt síðan að við fórum inn í leik gegn botnliðinu á Old Trafford algerlega fullviss um að sigurinn væri formsatriði. United á að vinna þennan leik á morgun en það er stórhættulegt að gera ráð fyrir að sú verði raunin
Watford
Liðið er á sínum þriðja framkvæmdastjóra í vetur. Eftir eitt og hálft ár í starfi og þrjú töp og eitt jafntefli í fyrstu fjórum leikjunum var Javi Gracia rekinn í byrjun september. Við tók Quique Sánchez Florez, sem hafði stjórnað liðinu veturinn 2015-16, en hans tíð endaði daginn eftir 2-1 tap gegn Southampton. Undir stjórn hans náði liðið reyndar að vinna einn leik, gegn félögunum í fallbaráttunni, Norwich og gerði jafntefli við Arsenal úti og Spurs heima, en það nægir engan veginn. Nýr stjóri er gamla brýnið Nigel Pearson og síðan þá hefur liðið gert jafntefli við Crystal Palace og tapað 2-0 á Anfield. Watford átti að sögn ágætan leik þar og klúðraði nokkrum dauðafærum áður en Liverpool gekk frá leiknum
Lið Watford styrktist lítið í sumar. Ismaïla Sarr voru einu stórkaupin, hægri kantur sem kom fyrir 25 milljónir punda frá Stade Rennais. Sarr er reyndar næst markahæstur í liðinu í vetur, hefur ásamt nokkrum öðrum skorað eitt mark. Gerard Deulofeu er eini sem skorað hefur fleiri, heil tvö og Watford hefur aðeins skorað níu mörk í 17 deildarleikjum. Einhver gæti þá verið að vona að hrina United af 12 deildarleikjum án þess að halda markinu hreinu, en það er sýnd veiði en ekki gefin, sér í lagi ef leikmönnum verðar betur lagðir fætur en gegn Liverpool
Annar leikmaður sem gekk til liðs við Watford í sumar var Danny okkar Welbeck. Eftir erfið meiðsli í fyrra hjá Arsenal fékk hann frjálsa sölu en náði aðeins að leika fjóra leiki áður en hann tognaði í læri og verður frá í þó nokkurn tíma enn. Annar leikmaður sem sama gildir um er Tom Cleverley þannig að þessir gömlu United leikmenn missa af heimsókninni á Old Trafford á morgun. Ben Foster verður þó á sínum stað í markinu
Gegn Liverpool stillti Pearson upp í 4-5-1 og má búast við sama á morgun.
Manchester United
Hvað skal segja? Flottir sigrar gegn City og Spurs, vinnusigur, þó stór væri, gegn AZ, og svo agalega slakt jafntefli gegn Everton.
Leikurinn gegn Colchester í vikunni er helst marktækur fyrir hverjir léku, Ole byrjaði með sterkt lið en hvíldi loks þegar sigur var í höfn. Liðið á morgun verður svona
Það er alveg kominn tími á að Mason Greenwood fái tækifæri í framlínunni en Anthony Martial er enn að gera um það bil nógu mikið til að halda sætinu. Að öðru leyti veljast sterkustu leikmenn sem völ er á. Hvort Brandon Williams á að fá að spreyta sig á móti Ismaïla Sarr er ég ekki viss um en með það fyrir auugum að nú eru fjórir leikir í deildinni á 11 dögum þá hlýtur að þurfa einhverjar breytingar á liðinu. United leikur gegn Newcastle heima á annan í jólum og gegn Burnley tveimur dögum síðar og álagið verður mikið.
En þetta lið á að vinna Wotford. Hvort af því verður þora fáir að spá þegar horft er til þeirra liða sem hafa lagt stein í götu síðustu mánuði.
Leikurinn á morgun hefst kl tvö.
Audunn says
Leikurinn er reyndar ekki á Old Trafford heldur á heimavelli Watford.
Það yrði mjög ánægjulegt að sigra þennan leik sérstaklega í ljósi þess að liðin fyrir ofan okkur spila innbyrðis.
City vs Leicester og Spurs vs Chelsea.
En ég er bara því miður ekkert sérstaklega bjartsýnn…
Í fyrsta lagi vegna þess að útileikja árangur Manchester United er skelfilegur, árangur United gegn þessum „minni“ liðum er til skammar og ég er ekki að sjá að nein merki þess að þetta sé eitthvað að fara að breytast.
Ég er því neikvæðar fyrir þennan leik og spái United tapi 2-1. Gætum mögulega náð jafntefli.
Björn Friðgeir says
Fæ ég þessi mistök afskrifuð svona í tilefni jólanna??
MSD says
Við erum á Íslandi Björn, til að fá eitthvað afskrifað þarftu að gera miklu miklu stærri mistök :D
En varðandi leikinn þá er maður orðinn stressaðari fyrir þessum liðum heldur en stóru liðunum. Ég á von á ströggli gegn Watford.
Hjöri says
Það er náttúrlega enginn leikur unnin fyrirfram, og liðin í efri hlutanum hafa verið í ströggli með neðri hluta liðin sum hver.