Á morgun er síðasti möguleikinn á tímabilinu til að stöðva Liverpool í að fara taplaust í gegnum tímabilið, því ef United gerir það ekki, hver á þá að taka það að sér!
Fyrri leikurinn á Old Trafford er eini leikuinn sem Liverpool hefur ekki unnið í deildinni í vetur og við því öll búin að óska þeim og stuðningsmönnum þeirra til hamingju með titilinn, enda um að gera að byrja snemma á því. Ef svo ólíklega vill til að það klúðrist þá verður það bara skemmtilegra hins vegar.
Liverpool
Þau sem hafa horft reglulega á Liverpool í vetur segja mér að þetta sé skemmtilegasta og besta lið í heimi í dag og ég verð að taka það trúanlegt svo langt sem það nær. Hitt er óumdeilanlegt að liðið hefur ekki tapað nema þremur leikjum í vetur, gegn City í Samfélagsskildinum, með unnglingaliðinu gegn Aston Villa í deildarbikar og á San Paolo í Napoli í Meistaradeildinni.
Liðið hefur staðið af sér smá meiðslahrinu og á morgun verða það bara Naby Keita og James Milner verða fjarri. Fabinho verður í hóp eftir a hafa verið frá síðan í nóvember en ólíklegt hann verði í byrjunarliði. Sama á við um Joel Matip sem er að koma til baka eftir meiðsli.
Fréttir um að Martial, Rashford og Greenwood hafi skorað meira en Mané, Salah og Firmino eru skemmtilegar en hafa afskaplega lítið að segja þegar litið er þess að Liverpool hefur skorað 14 mörkum fleira en United í deildinni og fengið á sig níu færri. Það er það sem máli skiptir.
Manchester United
En á morgun verður ekki spurt um deildarformið, eða hvað einstakir leikmenn hafa skorað, á morgun er þetta bara Liverpool – Manchester United og oftar en ekki fer deildarformið út um gluggann. Ef það er eitthvað sem Ole Gunnar Solskjær hefur gert vel sem stjóri þá er það að hafa gott tak á bestu liðunum. Til að það endurtaki sig á morgun þarf allt að ganga upp.
Meiðsli Scott McTominay hafa veikt miðjuna verulega og stóra spurningamerkið er hvort að Marcus Rashford verði með. Ef svo er þá á United alla möguleika til að gera Liverpool gramt í geði, enda hefur Jürgen Klopp oftar en ekki haft sérstakar gætur á Rashford og þá opnast aðrir möguleikar
Ashley Young er farinn til Inter og fylgja honum góðar óskir hér af síðunni. Hann kom sem kantmaður og skilaði sínu ágætlega sem slíkur. Eins og Antonio Valencia þurfti hann síðan að færa sig aftar á völlinn og sem slíkur var hann prýðilegur bakvörður. Það er ekki hönum að kenna að hann þurfti að leysa af báðar bakvarðarstöður of lengi vegna þess að ýmist voru ekki keyptir nógu góðir menn, eða þeir sem áttu að vera nógu góðir hafa ekki skilað sínu.
https://twitter.com/ManUtd/status/1218247797167853568
Þetta verður þvi fyrsti leikur Harry Maguire sem fyrirliða af fullum krafti og ansi langt síðan fyrirliði liðsins var leikmaður sem lék alla leiki. Englendingar leggja meiri áherslu á fyrirliðastöðuna en flestir og fínt að fá þarna leikmann inn semkemur með smá stöðugleika í það. Nú þarf Maguire bara að bæta sig aðeins í leiknum og þá verður þetta flott. Leikurinn á morgun verður ágætis prófsteinn á vörn sem hefur verið of brothætt, og það er vonandi að annað hvort hysji Lindelöf upp um sig buxurnar eða að Axel Tuanzebe fari að standa undir væntingum.
Fred og Pereira hafa verið að spila betur undanfarið en flest hafa búist við af þeim, aftur verður fróðlegt að sjá hvernig þeir verða á móti meistaraefnunum. Hvort Matić hefur kraft í að spila aftur þetta fljótt eftir Wolves leikinn er spurning, en hann var skárri í þeim leik en hann var í langan tíma fyrir meiðslin.
Síðast en ekki síst nefni ég Brandon Williams sem hlýtur að spila á morgun. Þetta verður erfitt verkefni fyrir ungan dreng en hann hefur kraftinn, skapið og spilamennskuna í þetta og ekki síður United hjartað og mun án efa skilja allt eftir inni á vellinum.
Við höfum oft kallað þennan leik „Baráttuna um Ísland“. Það á enn við. Þau sem sigra mæta hressari í vinnuna á mánudaginn. Ef það verða okkar menn þá verður það smá sárabót fyrir það sem sýnist óumflýjanlegt. Það þarf að koma að því að þessi leikur skipti meira máli en svo og það mun gerast. Þangað til er þetta einn leikur í einu, og sá leikur er á morgun kl 16:30
Hjöri says
Þessi skrif min hér koma svona óbeint þessum leik við. Það sem ég hef verið að velta fyrir mér hvernig í andskotanum Utd gangi svona illa að semja við nýja leikmenn, er það einhverjir smápeningar sem verið er að þrefa um? Þetta er ekki í fyrsta skipti, og leikmenn hafa tapast vegna þessa. En svo hefur liðið látið leikmenn fara frítt frá félaginu trekk oní trekk. Óþolandi.
Björn Friðgeir says
Ég held að þetta sé ekki alslæmt. Að borga alltaf uppsett verð er ekki besta samningsaðferð allra tíma. Ef Fernandes er ekki takmark nr 1 ( og í tengslum við þetta er talað um að Maddison og Sancho séu það) þá er þetta díllinn til að hætta við og geta þá haft sterkari samningsstöðu næst.
Tómas says
Sammála Birni að borga 43 mill. punda + bónusa er meira en nòg. Endar þó líklega í einhverju hærra. Utd hefur haft það orðspor að yfirborga, en það verður að standa á sínu.
Þó að þessi leikmaður hafi brillerað í Portúgal er engin trygging að það gerist í ensku eins og við þekkjum. Best væri að semja sem mest um árángurs tengdar greiðslur fyrir hann ef þeir geta.
Ingo Magg says
Já! 3 comment en ekkert af þeim að tala um leikinn.. Erum við komnir þangað að við þorum ekki að tala um Liverpool!? Hvað haldið þið að líkurnar hjá okkur að vinna leikinn án Rashford? Verðum við bara lömb á leið til slátrunar eða er um við að fara gera eitthvað á móti þessu Liverpool liði á Anfield!?
gummi says
Þetta fer 4 _ 0 fyrir Liverpool þeir eru bara með langbesta liðið í dag og besta Stjóran
Audunn says
Það skemmtilega við fótbolta er að engir leikir eru unnir fyrirfram.
Auðvitað er LiVARpool miklu líklegra til að vinna þennan leik.. allt annað væri áfall fyrir þá og þeirra stuðningsmenn en ef United mætir inn í þennan leik með alvöru plan og leikmenn eru tilbúnir að leggja sig 110% fram og trúa á verkefnið þá getur allt gerst.
Sigurjon Arthur says
Ég ætla að leyfa mér að fara aftur í félagsskiptin ! Af hverju erum við að semja um kaup á leikmanni (sem okkur lífsnauðsynlega vantar og jafnvel fleiri en einn) núna 19.01.2020. Svarið er ósköp einfalt Wúdú er upptekinn við að gera fleiri sponsorsamninga, einfaldlega vegna þess að tekjurnar eru verulega að minnka og þá FYRST fer Jöklunum (eigendunum) að líða illa. Allur hin svokallaði góði bissnes árangur Wúdú og co byggist 100 % á gamalli frægð, flottum fótbolta og mönnum eins og SAF og Busby. Hættum allri meðvirkni og viðurkennum í eitt skipti fyrir öll að Wúdú og co eru EKKERT annað en blóðsugur á hinu stórkostlega félagi Manchester United. Það eru engir nema við….við sem elskum þetta lið sem getum stoppað þessar hamfarir, með því að láta í okkur heyra !
Áfram Manchester United….alltaf …..Wúdú og co mega fara á sorpu.