Þá er komið að því að Manchester United hefji Evrópukeppni á nýju ári þegar liðið heldur til Belgíu þar sem heimamenn í Club Brugge taka á móti okkur.
Um er að ræða fyrri viðureign liðanna í 32 liða úrlitum en eins og mörgum íslendingum er kunnugt lék Eiður Smári Guðjohnsen með liðinu í eitt og hálft tímabil 2013-2014.
Club Brugge KV er eitt allra stærsta liðið í Belgíu en sem stendur er liðið á toppi deildarinnar þar sem liðið siglir lygnan sjó með níu stiga forskot á liðið í öðru sæti. Liðið hefur einungis tapað einum deildarleik á tímabilinu og virðist allt stefna í að liðið verði meistari þrátt fyrir að hafa gert þrjú jafntefli í síðustu sex deildarleikjum.
Í Meistaradeildinni var liðið í riðli með Real Madrid, Paris Saint-Germain og Galatasaray. Stóru liðin í riðlinum áttu ekki í teljandi vandræðum með að komast upp enda gerði belgíska liðið tvö jafntefli við það tyrkneska og því dugði glæsilegt 2-2 jafntefli á útivelli gegn stórstjörnuliði Real Madrid skammt. Sá leikur hins vegar tryggði liðið inn í Evrópudeildina á endanum og þangað sem það er komið í dag.
Sá sem stýrir liðinu er hinn líttþekkti belgi Philippe Clement sem var á árum áður varnarmaður hjá Brugge en hefur síðan þá unnið sem njósnari, bráðabirgðastjóri og aðstoðarþjálfari hjá liðinu. Hann tók svo við liðinu eftir síðustu leiktíð þar sem liðið lenti í öðru sæti á eftir Genk.
Þegar kemur að uppstillingu liðsins hefur Clement verið duglegur að prófa nýja hluti sem að hugsanlega hefur verið að valda öðrum liðum vandræðum. Hann hefur notast við 3-5-2, 4-1-4-1, 4-1-3-2, 4-3-3 og 4-2-3-1 en mikil aðlögunarhæfni einkennir liðið sem auðveldar sífelldar breytingar á liðsuppstillingu.
Það verður að teljast líklegt að Clement blási til sóknar með 3-5-2 í þessari fyrri viðureign enda eiga þeir erfitt ferðalag fyrir höndum ef þeir ætla að koma á Old Trafford og sækja úrslit. Því má búast við að liðið verði á þá leið:
Eins og sjá má er ekki mikið um nöfn innan raða liðsins sem hinn almenni fótboltaáhugamaður ætti að þekkja að undanskildum Simon Mignolet. Miðvörðurinn Matej Mitrovic hefur verið einn sterkasti leikmaður liðsins á þessu tímabili en hættulegastur þeirra er án efa heimamaðurinn Hans Vanaken sem spilar á miðjunni og er sá sem lætur hlutina gerast fyrir Club Brugge. Því þrátt fyrir að liðið sé búið að skora flest mörk í deildinni heimafyrir þá er enginn leikmaður liðsins búinn að skora fleiri en 9 mörk (Vanaken og Okereke).
Annar lykilleikmaður liðsins er Ruud Vormer sem ber fyrirliðabandið oftar en ekki og er gríðarlega sterkur karakter fyrir liðið, bæði innan vallar sem utan. Belginn er með 12 stoðsendingar það sem af er og hefur komið að meira en fjórðung markanna sem liðið hefur skorað.
Liðið er þekkt fyrir að vera mikið með boltann (að meðaltali 61% í leik) og tekst vel að halda boltanum. Það eitt og sér ætti að koma sér vel fyrir lið eins og United sem gengur betur að vera minna með boltann.
United
Eftir að liðið sótt gríðarlega mikilvæg þrjú stig á Stamford Bridge í síðustu umferð ensku Úrvalsdeildarinnar ætti mórallinn að vera ágætis meðbyr inn í Evrópudeildina. Odion Ighalo fékk örfáar mínútur undir lokin og Bruno Fernandes átti stórgóðan leik sem hann kórónaði með glæsilegri stoðsendingu á Harry Maguire sem hugsaði eflaust með sér að þetta væri einmitt það sem hann hefði verið að bíða eftir.
Hins vegar verður Ole Gunnar Solskjær að átta sig á mikilvægi næstu viðureignar. Manchester United hefur átt gríðarlega erfitt með leiki eftir Evrópuleiki en við megum einfaldlega ekki við því að misstíga okkur gegn Watford á heimavelli næsta sunnudag. Baráttan um þetta margrómaða fjórða sæti er gjörsamlega galopin eftir að United lagði Chelsea og minnkaði bilið niður í þrjú stig. Þá eigast liðin í þriðja og fjórða sætinu við í hádegisleiknum á laugardaginn og því öruggt að liðin sem eru næst fyrir ofan okkur muni verða af stigum.
Bæði þessi lið, Chelsea og Tottenham, eru í talsverðu ströggli þessa stundina og nú berast þær fréttir að Heung-Min Son verði frá í dágóðan tíma en án hans og Harry Kane er búið að draga ansi stórar vígtennur úr framlínu liðsins.
Spútniklið Sheffield United er einu stigi á undan okkur með mun verri markatölu en þeir eiga leiki við Brighton, Norwich og Newcastle á næstu dögum. Þó þessir leikir virðast kannski á blaði vera auðveldir þá er þarna um að ræða lið sem eru að róa lífróður á síðustu metrum deildarinnar og gera eflaust hvað sem er í sínu valdi til að spyrna við og ná í stig.
En það má ekki gleyma því að Evrópudeildin gefur líka sæti í Meistaradeildinni og því ætti United ekki að hunsa þann möguleika. Club Brugge er hentugur dráttur fyrir liðið, ekki of langt ferðalag (að minnsta kosti ekki alla leið til Afganistan) og þá er liðið einnig að endurheimta nokkra leikmenn úr meiðslum.
Eric Bailly kom með látum inn í liðið gegn Chelsea, var í um korter að hrissta af sér rykið en eignaði sér svo vítateiginn að mestu leyti. Gríðarlega mikilvægt að fá inn hafsent sem getur veitt Lindelöf og Maguire hvíld en eftir frammistöðu fílabeinsstrendingsins má hæglega búast við því að við sjáum meira af honum.
Scott McTominay er loksins byrjaður að æfa á nýjan leik en með endurkomu hans fær Nemanja Matic kærkomna hvíld því einsog við flest gerum okkur grein fyrir er serbinn kominn af léttasta skeiðinu og er enginn leikmaður í meira en 1 leik á viku. En Rashford, Pogba, Tuanzebe og Fosu-Mensah eru allir á meiðslalistanum sem fyrr.
Óvíst er hvort Lindelöf verði orðinn sprækur en hann hefur verið að glíma við veikindi en Mason Greenwood og Scott McTominay urðu báðir eftir í Manchester eins og kom fram á fréttamannafundinum fyrir leikinn. Þá er líklegt að Ighalo fái sinn fyrsta byrjunarliðsleik en Solskjær sagði að búast mætti við þó nokkrum hrókeringum í liðsvalinu.
Liðið sem ég vil sjá á morgun gegn Club Brugge:
Solskjær þarf að nota leikinn til að hvíla einhverja af leikmönnum liðsins, einfaldlega vegna álags. Chelsea leikurinn var á mánudaginn, þessi leikur er á fimmtudag og svo er leikur á sunnudaginn aftur.
Leikurinn fer fram í NV Belgíu á Jan Breydel vellinum sem tekur 29.042 manns í sæti. Blásið verður til leiks 17:55 en á flautunni verður Hvítrússinn Aleksei Kulbakov. Síðari viðureign liðanna fer fram á Old Trafford þann 27. febrúar kl. 20:00.
SHS says
Vissi ekki að við hefðum náð að plata William með upp í rútu eftir síðasta leik, flott mál!