Eftir jafnteflið við Everton um síðustu helgi kemur önnur og meiri prófraun á atlögu Ole Gunnars og liðsins hans að fjórða sætinu. Manchester City kemur í heimsókn. Það er ekki hægt að segja að það sé hægt að líta hýru auga á heimavallarforskot þegar kemur að því að taka á móti bláu grönnunum. Frá tapinu stóra 1-6 í október 2011 hefur City unnið fimm leiki til viðbótar á Old Trafford í deildinni, gert tvö jafntefli og United hefur aðeins unnið einn deildarleik gegn þeim á þessum rúmu níu árum, í frábærum 4-2 sigri árið 2015 sem lofaði góðu um framtíðina en eins og svo oft áður var það fölsk von.
Að auki hafa liðin unnið sinn leikinn hvort í deildarbikarnum, núna síðast auðvitað 1-3 tapið í upphafi árs. City er búið að vera á fínu skriði síðan þá, United vann auðvitað seinni leiknum þó það dygði ekki til samanlagt, í næsta leik á eftir tapaði liðið fyrir Spurs en síðan hafa komið fimm sigurleikir í röð, sá fræknasti gegn Real á Santiago Bernabéu.
City er nær fullskipað, Aymeric Laporte er enn sem fyrr frá en það lítur út fyrir að Kevin de Bruyne verði orðinn heill til að taka þátt. Þá er bara spurningin hvort Pep leikur sama leik og í deildarbikarnum og stillir upp sóknarmannalausu liði. Það verður að teljast næsta ólíklegt, og liðið kannske verður einhvern veginn svona
Það er spurning hvernig þetta stillist upp og hvort Riyad Mahrez kemur inn en það þarf enginn að efast um að þetta verður gríðarerfitt lið að taka á móti.
Manchester United
Það eru aðeins meiri meiðslavandræði hjá United. Harry Maguire verður vonandi með eftir smávægileg ökklameiðsli en Aaron Wan-Bissaka og Daniel James hafa ekki æft í vikunni.
Það kæmi ekkert á óvart ef Solskjær reyndi aftur að nota alla fjóra topp miðjumennina, nema í þetta skiptið getum við ekki búist við tveimur framherjum eins og á móti Everton.
Það þarf að taka vel á móti miðju City og spurning hvort þetta sé besta leiðin. Það gekki ekki alveg nógu vel móti Everton en má reyna aftur. Stærsta spurningamerkið við þessa uppstillingu er hvort Juan Mata ræður við tvo byrjunarleiki á fjórum dögum.
En leikurinn á morgun er klukkan 16:30, í kjölfarið á leik Chelsea og Everton og úrslitin úr þeim leik gætu verið enn hvatning fyrir United að hrista af sér slyðruorðið sem þeir hafa haft á sér þegar City kemur í heimsókn.
Skildu eftir svar