Það eru 99 dagar frá því að lið Manchester United steig síðast á stokk í keppni og burstaði LASK Linz 5-0 fyrir luktum dyrum. Heimurinn hefur breyst, en Ísland er að mestu komið í gamla gírinn, og þá líklega sirka 2004, túristalaust.
En í Englandi er enn ekki séð fyrir endann á fyrstu bylgjunni þó létt hafi verið á mörgum takmörkunum og til að létta lund er knattspyrnan dregin fram. Hvers vegna óhætt er að spila fótbolta í efstu deild en ekki fimmtu er ég ekki nógu skarpgreindur til að átta mig á en það gæti haft eitthvað með peninga að gera. Síðan þarf að létta lund lýðsins! Panem et circenses! Brauð og leikir!
Það gerist ýmislegt á 99 dögum en eitt er óbreytanlegt, Phil Jones er meiddur.
Annað sem gerist er að Marcus Rashford verður þjóðhetja, nógu mikil til að ráðherra Íhaldsflokkins þarf að kalla hann röngu nafni til að sýna að hann sé of góður til að fylgjast með þjóðmálum hvað þá heldur plebbalegum fótbolta.
Nú og það þriðja er að bæði Marcus Rashford og Paul Pogba sem leit út fyrir að væru búnir að meiðast út tímabilið eru orðnir heilir heilsu. United fer því inni í þetta hraðmót af fullum krafti, að Phil Jones reyndar frátöldum og svo er Axel Tuanzebe því miður enn að glíma við meiðsli.
Fyrstu tveir mótherjarnir gætu varla verið mikilvægari. Í kvöld fer United á hinn nýja og glæsilega leikvang Tottenham sem heitir því hljómfagra nafni Tottenham Hotspur Stadium. En í stað þess að upplifa stærstu stúku Englands bergmála köll leikmanna um tóm sæti. Nema auðvitað í sjónvarp þar sem FIFA tæknin gefur okkur alla spennu tölvuleikjanna í stæðunum. Úrslit í Þýskalandi hafa verið mögnuð, útisigrar eru algengustu úrslit og heimaleikjaforskot horfið. Það er eitthvað til að taka með inn í leikinn í kvöld.
Baráttan um Evrópusætin er hörð en fer ekki bara fram á vellinum. Í júli verður kveðinn upp dómur í bannmáli Manchester City og ef bannið verður staðfest fer fimmta sætið í Meistaradeildina. Þá myndi United standa enn betur að vígi. En fyrst er að hrista Tottenham af sér og síðan Sheffield United næsta miðvikudag en Sheffield Unitedhrasaði gegn Villa í fyrsta leiknum á miðvikudag þökk sé marklínutækni sem virkaði ekki. Eftir þessa tvo taka við leikir auðveldari á pappírnum og síðan Leicester í lokaleiknum.
Spurs hafa að sjálfsögðu líka fengið menn úr langtímameiðslum og þar er enginn annar en Harry Kane. Reyndar tókst Dele Alli að vera fáviti á samfélagsmiðlum og fá fyrir það eins leiks bann sem hentuglega fyrir okkur er í kvöld.
En það er erfitt að spá fyrir um leikinn í kvöld. Það hafa engir opinberir æfingaleikir farið fram, liðin eru ryðguð og munu koma misvel undan kófinu. United var á blússandi siglingu með Bruno Fernandes í broddi fylkingar en Spurs var höktandi. Það er ekkert að marka það lengur. Það má skipta inn fimm varamönnum og það verður að nýta það vel, það hefur verið þó nokkuð um tognanir og önnur slík meiðsli í öðrum deildum, þó ekki eins mikið og sum óttuðust eftir að leikmenn hafa ekki getað þjálfað af fullum þunga
Paul Pogba byrjar að öllum líkindum ekki en það er lykilatriði upp á framhaldið hvort hann og Bruno nái saman, enda lítur ekki út fyrir að nokkuð lið í Evrópu hafi efni á að kaupa hann þó hann vilji fara. Það er samt allt í lagi að henda upp mögulegu byrjunarliði en það er samt alls óvíst hvernig þetta spilast. Ole er þekktur fyrir að skipuleggja langt fram í tímann en í kvöld er einn mikilvægasti leikur þessa hraðmóts, sigur er ómetanlegur.
En í kvöld byrjar þetta allt aftur og þetta skrýtnasta sumar í sögu knattspyrnunnar heldur áfram.
Arnar says
Þetta verður spennandi og „must win“ leikur en ekki auðveldur. Vona að greenwood byrji á kosnað James, og ef ekki þá að Williams komi inn og hann noti þriggja manna varnalínu með bakverðina hátt uppi og þá líka á kostnað James :)