Nú eru það sólstrandargæjarnir í Bournemouth koma á Old Trafford til að taka á óstöðvandi, því sem næst, og ef þetta er jinx þá biðst ég afsökunar, liði Manchester United.
Það er komið fram í júlí og einhverra hluta vegna er enn verið að spila deildarfótbolta. Venjulega værum við á þessum tímapunkti að velta fyrir okkur nýjum leikmönnum, eða það sem líklegra er, velta fyrir okkur hvers vegna engir nýir leikmenn eru komnir. Fyrir sjö árum var þetta þriðji dagur David Moyes í starfi og venjulega væru leikmenn búnir að taka þrjár æfingar.
En nei, á þjóðhátíðardegi Bandaríkjamanna mæta leikmenn, en engir áhorfendur, á Old Trafford og spila af fullri alvöru. Það er óhætt að segja að lífið hafi breyst á þessu ári. Þann 22. janúar féllu þessi ummæli m.a.
Fullkomlega andlaus og áafsakanleg spilamennska og kandídat í versta leik tímabilsins en því miður er úr ansi mörgum leikjum þar úr að velja.
Ég hef séð 3. flokks lið á klakanum sem standa okkur framar í útfærslu á föstum leikatriðum á báðum endum
Það kemur ekkert annað til greina en að reka hann eftir þennan leik
Núna hlýtur helvítið hann Ole að vera látinn fjúka
Alversta Manchester united lið sem ég man eftir
United er á mjög mjög mjög vondum stað og það er ekkert útlit fyrir að það sé að lagast
Enginn leikmaður á leiðinni í glugganum
Vika er langur tími í pólitík og sex mánuðir heil eilífð í fótbolta. Ekkert af þessu átti ekki rétt á sér og ég er til í að verja hvað sem er af þessum ummælum. Ég hef reyndar aldrei verið alveg á Ole out vagninum en ansi nálægt því og skil þetta allt.
Svona leit liðið út
Það sem fyrst og fremst ræður hér úrslitum að James, Mata og Andreas saman er uppskrift að vandræðum. Hópurinn er ekki djúpur.
En næsti leikur á eftir var 6-0 sigur á Tranmere í bikarnum, akkúrat leikurinn sem þurfti til að létta lundina, og svo 1-0 sigur á Manchester City í seinni leiknum í undanúrslitum deildarbikarsins, viðureign sem vonlaust var fyrirfram að vinna samanlagt en solid úrslit.
Og svo… og svo… og svo…
Kom Bruno
Lífið breyttist til muna um leið. Liðið hefur unnið fimm leiki í deild og gert þrjú jafntefli, unnið tvo bikarleiki og tvo Evrópudeildarleiki og gert eitt jafntefli í Evrópudeildinni. 31 mark í 13 leikjum, 22 í næstu þrettán þar á undan, þar af tíu í leikjum gegn Tranmere og Norwich.
Það sem meira er, liðið hefur fengið á sig fjögur mörk í þessum þrettán leikjum en var með 12 í þrettán leikjum á undan. Þar leikur Bruno ekki stærsta hlutverkið þó sókn sé besta vörnin heldur verður að minnast á þetta tröll hér
Nemanja Matić hefur gengið í endurnýjun lífdaga og er að eiga hvern stórleikinn á fætur öðrum. Hann er akkerið sem leyfir fremstu fimm að leika sér að vild, og bætir svo við með að eiga flottustu sendingum sem við höfum séð í áraraðir.
https://twitter.com/ManUtd/status/1278660441695109120
En að Bournemouth. Sagan hér er ekki glæsileg. Í nóvember hélt liðið á Vitality Stadium og leit svona út
James, Andreas og Lingard. Rojo og Jones. Það verða vonandi ekki margir af þessum eftir í hópnum eftir næsta sumar, nema ég er ekki hættur að vona að James bæti sig, til þess hefur hann möguleika.
Úrslitin voru auðvitað 1-0 tap.
En liðið sem tekur á móti Bournemouth á morgun verður vonandi eitthvað á þessa leið
Þetta er nákvæmlega sama lið og á móti Brighton og það gætu verið gerðar breytingar en við sáum móti Brighton að þegar varamenn komu inná dapraðist leikur United. Það er því að velja á milli að byrja sterkir og stefna á að keyra yfir Bournemouth og hvíla svo með skiptingum, eða að setja óþreytta bestu menn inn á í seinni hálfleik. Ég vona Ole velji fyrri kostinn. Ef svo verður þá yrði það í fyrsta skipti síðan í október/nóvember 2006 sem United stillir upp óbreyttu liði þrjá deildarleiki í röð! Það lið var hugsanlega aðeins betra en þetta:
Van der Sar; Neville, Evra, Vidić, Ferdinand; Ronaldo, Carrick, Scholes, Giggs; Rooney, Saha!
Bournemouth
Það er óhætt að segja að Bournemouth sé í slæmum málum. Síðan liðið vann United hafa þeir unnið þrjá leiki. Chelsea á Stamford Bridge af öllum liðum og svo Brighton og Aston Villa í röð í lok janúar og 1. febrúar. Síðan þá hefur liðið gert eitt jafntefli (gegn Chelsea!) og tapað sex. Næstu leikir þeirra eru svo gegn Spurs, Leicester og Manchester City. Þeir eru í fallsæti og draugurinn er ágengur. Joshua King er kominn til baka eftir meiðsli en Bournemouth náði ekki samningum við Jordon Ibe, Ryan Fraser eða Jermain Defoe um að klára tímabilið, samningar þeirra runnu út um mánaðamóti. Fyrirliðinn Simon Francis verður þó áfram.
Liðinu er spáð svona
Það reyndar vekur smá ugg hvað þeim hefur gengið vel gegn Chelsea og ágætt að leikmenn United verði minntir á það. En allt annað segir okkur að þessi leikur eigi að vinnast. Bournemouth fékk á sig fjögur mörk gegn Newcastle í síðasta leik og það á að vera hægt að keyra á þessa vörn, þó búast megi við að þeir sitji eins djúpt og hægt er
Fyrir Bruno og endurkomu Pogba og án Rashford átti United í stökustu vandræðum með að brjóta á bak minni liðin. Síðustu leikir hafa að mestu afsannað það og á morgun verður það að halda áfram.
Bjarni Ellertsson says
Fínn pistill en skv nýjustu fréttum verða PP og BF ekki með , þá reynir fyrst á þunna hópinn. Verður þetta ströggl eða nýta menn tækifærið og blómstra þegar sköpunarmátturinn hverfur með fjarveru þessara tveggja. Verður fróðlegt að sjá.
GGMU