Ole Gunnar Solskjær stillti upp óbreyttu liði fjórða leikinn í röð. Okkar sterkasta byrjunarlið og sami bekkur og gegn Bournemouth. Gríðarlega mikilvægur leikur gegn liði í botnbaráttunni og ekkert svigrúm til að misstíga sig í baráttunni um Meistaradeildarsæti.
Á bekknum voru þeir Andreas Pereira, Brandon Williams (’66), Daniel James(’79), Eric Bailly, Fred(’71), Odion Ighalo(’79), Juan Mata, Scott McTominay(’66) og Sergio Romero.
Dean Smith stillti upp í 4-2-3-1 með tansaníjumanninn Samatta fremstan. Pepe Reina kom aftur inn í stað Nyland sem hefur ekki verið að heilla.
Bekkurinn: El Mohamady, Hourihane, Guilbert, Lansbury, Jota, Davis, Nakamba og Nyland.
Aston Villa byrjaði á að pressa vel. Fengu fyrstu færi leiksins með aukaspyrnum fyrir utan teig sem ekkert varð úr. Fyrsta dauðafærið kom á 18. mínútu þegar fyrirgjöf heimamanna flaug yfir allan varnarmenn United og rataði beint fyrir Jack nokkurn Grealish sem gerði öllum stuðningsmönnum United greiða með því að þruma viðstöðulaust yfir markið. Villa menn voru mun sterkari fram að vatnspásunni.
Þeir fóru líka vel af stað strax eftir hana þegar Pogba missti boltann á hættulegum stað og Treezeguet komst í ágætis færi en setti sem betur fer boltann í stöngina. En hinu megin á vellinum gerðust hlutirnir eftir að Greenwood lék sér að heimamönnum á hægri kantinum. Ágætis sókn sem endaði með því að Bruno fékk boltann á vítateigslínunni og reyndi að snúa með boltann en Ezri Konsa mætti honum og eftir smávægilegt samstuð benti dómarinn á punktinn.
Hreinlega gjöf þar sem bæði má færa rök fyrir því að þetta hafi verið á mörkum þess að vera í teignum og kannski frekar aukaspyrna og þá eflaust frekar aukaspyrna á Bruno sem lendir bara hreinlega á Konsa.
Martial átti síðan laflaust skot sem Pepe Reina varði auðveldlega en sá spænski þurfti að hafa aðeins meira fyrir hlutunum þegar Greenwood lét vaða skömmu síðar.
Ekkert gerðist áhugavert á næstu mínútum, United sigldi í öðrum gír þar til á 45. mínútu þegar þeir áttu laglegt samspil á vinstri vængnum sem endaði með því að Luke Shaw komst upp að endalínu og átti fyrirgjöf sem endaði á enninu á Bruno Fernandes. Sá portúgalski átti ágætis skalla sem fór hárfínt yfir slánna.
En United áttu síðasta orðið í hálfleiknum, eftir klunnalegan varnarleik tókst þeim að hreinsa boltann út þar sem Martial vann boltann af Villa en lenti í vandræðum með manninn í bakinu og lá flatur en tókst með herkjum að halda boltanum, standa upp og koma honum áfram á Bruno.
Bruno leit upp og sá Greenwood á fleygiferð upp kantinn og kom boltanum á hann. Sá ungi hinkraði fyrir framan teiginn, renndi honum á Martial sem skilaði honum undir eins og Greenwood lagði boltann fyrir sig og hamraði hann í netmöskvann bakvið Reina. 2-0 í hálfleik þar sem United var alls ekki að sýna sitt rétta andlit. Þar fyrr utan hefði þessi vítaspyrna eflaust ekki átt að standa og ákveðinn heppnisbragur yfir forskotinu.
Síðari hálfleikur
Fyrsta færið kom fljótlega eftir að flautað var til leiks eftir hálfleik þegar Luke Shaw stakk boltanum inn fyrir vörn heimamanna þar sem Rashford fékk að leika á varnarmann Villa og senda fyrir markið. Þar komst enginn annar en Aaron Wan-Bissaka fyrstur á boltann með smá flugskalla en boltinn fór öfugu megin við stöngina.
Rashford skoraði reyndar gullfallegt mark sem fékk ekki að standa á 56. mínútu þegar hann hamraði boltann í afturendann á Pogba sem var kol-kol-kolrangstæður. Engu að síður skemmtilegt ekki-mark. Næsta færi United kom eftir skamma stund. Martial komst einn á móti markmanni en Tyron Mings átti framúrskarandi tæklingu og bjargaði í horn.
Bruno tók hornið sjálfur og lagði boltann út rétt fyrir utan d-bogann þar sem Pogba tók á móti boltanum, lagði hann fyrir sig og smellti honum í hægra hornið framhjá hreyfingalausum Reina í markinu. Beint af æfingasvæðinu. 3-0.
Fjórða markið leit næstum því ljós örfáum mínútum síðar þegar Martial átti þrumufleyg í þverslánna eftir laglegt samspil eftir að sá franski hafði sjálfur gert vel og unnið boltann hátt á vellinum.
Fyrstu skiptingarnar í leiknum komu svo eftir rúmlega klukkustundarleik þar sem Scott McTominay og Brandon Williams gerðu sig klára til að koma inn á fyrir þá Nemanja Matic og Aron Wan-Bissaka sem báðir voru á gulu eftir fyrri hálfleikinn. Reyndar kom þreföld skipting hjá heimamönnum rétt áður þar sem Samatta, El-Ghazi og McGinn fóru útaf fyrir þá Conor Hourihane, Keinan Davis og Marvelous Nakamba.
Bruno fékk síðan kærkomna hvíld um leið og síðari vatnspásan var tekin og inn á í hans stað kom Fred.
Áfram hélt United að rúlla í öðrum gír og Odion Ighalo og Daniel James fengu að stíga inn á völlinn í þessar síðustu mínútur í stað Martial og Greenwood. Litli knái walesverjinn setti strax mark sigg á leikinn með góðu skoti og krækti síðan í ágætis aukaspyrnu sem Rashford þrumaði hátt yfir.
Á 91. mínútu vann Pogba boltann á miðjum vellinum og brunaði í átt að markinu og stakk boltanum inn í vítateiginn þar sem Marcus Rashford komst í álitlegt færi en Reina gerði sig risastóran og varði vel frá honum og kom í veg fyrir algjöra niðurlægingu heimamanna.
Engu að síður 3-0 lokaniðurstaðan en með sigrinum fer United í 58 stig, einu stigi á eftir Leicester City í fjórða sætinu og tveimur stigum á eftir Chelsea í því þriðja. Bilið niður í 6. sætið er aftur komið í sex stig sem veitir nokkra ró. Það virðist eitthvað vera að smella hjá Solskjær því núna hefur liðið spilað 17 leiki í röð án þess að tapa og er á mikilli siglingu.
Með þessum sigri tók United að setja met en liðið er það fyrsta í sögu Úrvalsdeildarinnar sem vinnur fjóra leiki í röð þar sem liðið vinnur með a.m.k. þriggja marka mun. Hugsanlega er lykillinn að þessari velgengni sú að United er að spila fyrir framan tóman völl. En það sem er virkilega gaman að sjá er að United getur rúllað yfir minni liðin þrátt fyrir að vera einungis á 70% tempói.
https://twitter.com/optajoe/status/1281334868958482437?s=21
Maður leiksins er Mason Greenwood. Sá hefur rækilega gripið tækifærið eftir að Solskjær treysti honum á hægri vængnum. Táningurinn, sem verður 19 ára í október, hefur nú skorað 16 mörk (9 í deild) og virðist vera með ómælda hæfileika. Nú eru einungis fjórir leikir eftir af deildinni og einungis 2 stig upp í þriðja sætið. Meistaradeildin virðist vera innan seilingar fyrir Ed Woodward og Glazerana en betur má ef duga skal, United hefur kannski fundið sína sterkustu XI en þar fyrir utan eru gæði hópsins ekki í sama standard.
https://twitter.com/espnfc/status/1279731763351302145?s=21
Næsti leikur liðsins er gegn Southampton á mánudaginn kl 19.00 en dýrlingarnir gerðu sér lítið fyrir og skelltu litla Manchester liðinu í síðustu umferð. Þrátt fyrir það eru það 3 stig og ekkert annað sem kemur til greina.
Karl Garðars says
Víti? Nei. En í ljósi aðstæðna hef ég tekið sameiginlega ákvörðun um leggja blessun mína yfir þetta framferði hjá Moss og okkar manni Stock Ley Park.
Bjarni Ellertsson says
Gullmark hjá guttanum, þvílíkur talent sem við eigum.
Cantona no 7 says
Snillingar
G G M U
sigurvald says
„…þar sem Martial vann boltann af Villa en lenti í vandræðum með manninn í bakinu og lá flatur en tókst með herkjum að halda boltanum, standa upp og koma honum áfram á Bruno.“ – Þetta var einfaldlega frábærlega gert hjá Martial… Já og svo gleymdist að segja frá því að Bruno skoraði úr vítinu.
Tuði lokið.
GGMU