Undir venjulegum kringumstæðum værum við þessa dagana helst í því að fylgjast með Manchester United taka þátt í einhverju æsispennandi æfingamóti í fjarlægum heimsálfum til að undirbúa sig fyrir komandi tímabil, sem væri rétt handan við hornið, inn á milli þess sem við þjösnuðumst á F5 takkanum í von um frekari tíðindi af leikmannamarkaðnum og tuðuðum yfir Ed Woodward.
Seinni hlutinn af þessu á reyndar alveg jafn vel við í dag en þar sem þetta er fordæmalaust ár þá er liðið núna ekki að taka þátt í einhverju sponsor-bikar-móti í Ameríku/Asíu/Langtíburtistan heldur á leið að taka þátt í endasprettinum á Evrópudeildinni fyrir hið gríðarlanga tímabil 2019-20. Evrópudeildin slúttast á skyndimótastemningu en áður en sú stemning byrjar almennilega þarf að klára einn leik úr 16-liða úrslitum fyrst, leik sem í raun er algjört formsatriði eftir slátrunina í fyrri leiknum. United ætti að geta hent þjálfarateyminu, Sir Bobby Charlton, Sir Alex Ferguson og Fred the Red í liðið, smellt Ed Woodward í markið og ætti samt að ná að klára þennan seinni leik.
En mikið verður nú gaman að geta fylgst með liðinu í þessari keppni án þess að hafa áhyggjur af því að allt sé undir. Meistaradeildin er komin í hús, nú er bara hægt að hafa gaman af þessari keppni þótt auðvitað sé krafan sigur í öllum leikjum og titlalyfting í lokin. Manchester United setur stefnuna á úrslitaleik Evrópudeildarinnar, föstudaginn 21. ágúst nk.
Fyrst þessi leikur, seinni leikurinn gegn LASK Linz frá Austurríki. Manchester United leiðir einvígið 5-0 eftir fyrri leikinn og á seinni leikinn á heimavelli annað kvöld, klukkan 19:00. Dómarateymið kemur frá Grikklandi en maðurinn með flautuna verður Tasos Sidiropoulos. Þegar leikur okkar manna hefst verður nýlokið í Kaupmannahöfn leik FCK gegn İstanbul Başakşehir en sá leikur hefst klukkan 16:55 að íslenskum tíma. Gestirnir frá Istanbul leiða með einu marki, sigurvegarinn úr þessu einvígi mætir Manchester United í 8-liða úrslitum mánudaginn 10. ágúst.
Leikurinn
Eins og fyrr segir er þessi leikur algjört formsatriði. United vann fyrri leikinn í Austurríki með 5 mörkum gegn engu auk þess sem LASK er búið að tapa síðustu 4 leikjum sínum (3 í deild og 1 vináttuleikur).
Þetta verður því fínt tækifæri til að gefa leikmönnum mínútur, bæði reynslumeiri leikmönnum sem hafa þurft að sitja á bekknum sem og kjúklingum sem gætu sýnt eitthvað. Þetta gæti verið fínn gluggi fyrir leikmenn sem vilja komast frá félaginu eða tækifæri fyrir leikmenn til að sýna að þeir vilji vera áfram og berjast fyrir sínu hlutverki hjá félaginu.
Luke Shaw og Axel Tuanzebe eru dottnir út úr Evrópudeildarhópnum vegna meiðsla en í þeirra stað eru hinir efnilegu Teden Mengi, Ethan Laird og Ethan Galbaith mættir í hópinn og líklegt að einhver þeirra fái í það minnsta mínútur ef ekki byrjunarliðspláss.
LASK liðið skiptir engu máli, þeir eru ekki að fara að gera neitt í þessum leik.
Einhver sérstakur sem þið viljið setja inn í þetta lið á morgun?
Aðalmálið í dag
En aðalmálið þessa dagana er ekki þessi leikur. Það er ekki einu sinni nýju aðaltreyjurnar sem voru kynntar í dag.
https://twitter.com/ManUtd/status/1290558256910405639?s=20
Nei, aðalmálið þessa dagana er að bráðum kemur betri tíð með blóm í haga og Jadon Sancho til Manchester United!
Það er ekki komið staðfest á það en slúðrið er orðið það traustvekjandi að við getum reiknað með að gengið verði frá þessu hvað úr hverju. Það er búið að ná samkomulagi við leikmanninn um laun og lengd á samningi, nú þurfa félögin bara að koma sér saman um hvernig greiðsludreifingin verður.
Og á móti virðist Alexis Sanchez ætla að yfirgefa félagið og fara til Inter. Sagan segir að Inter þurfi ekkert að greiða til Manchester United en United muni þá á móti ekki þurfa að borga launin sem félagið skuldar Alexis. Blóðugt að hafa hent þessum pening í tilraun sem gekk ekki upp en gott fyrir alla aðila að fá lausn á þessu. Sjöan losnar þá í kjölfarið svo Jadon Sancho getur valið á milli þess að fara í sjöuna eða ellefuna.
Hvernig líst lesendum síðunnar á þessi væntanlegu kaup og „sölu“?
Bjarni Ellertsson says
Kaupi það ekki að Sancho „Panza“ sé að koma til okkar fyrr en staðfest standi fyrir aftan fyrirsögnina. Hef áður látið draga mig á asnaeyrunum af misgáfuðum blaðasnápum sem hugsa um það eitt að fá salt í grautinn sinn með endalausum getgátum og spekúlasjónum, lítið innihaldsríkt. Ef hann kemur þá kemur hann og bætist við góðan og sterkan hóp frammá við en ef ekki þá þýðir ekkert að gráta Björn bónda heldur halda áfram að safna liði. Það þarf bara að kasta út nóg af sardínum og þá flykkjast mávarnir að.
Annars finnst mér engu máli skipti hvernig búningurinn lítur út rauður, blár eða bleikur svo framarlega sem logoið sé til staðar til að smella kossi á fyrir leik.
GGMU
Cantona no 7 says
Við eigum og verðum að vinna þennan bikar.
Við gerum þá kröfu á okkar menn.
Við höfum allt t.þ.a. klára þessa keppni með stæl.
G G M U
Rúnar P. says
Afhverju er nánast allstaðar talað eins og þessi leikur sé þegar unnin og liðið komið áfram? ManU er alveg þekkt fyrir það að tapa gegn litlu liðunum!
Held að það verði ekkert úr þessum Sancho kaupum og United hefur staðfest að hvorki sé búið að semja kjör við leikmann eða hans talsmen né setja fram tilboð til Dortmund.
Halldór Marteins says
Manchester United er ekki þekkt fyrir að tapa með 5+ mörkum gegn litlu liðunum á heimavelli, nei. Það má alveg stressa sig yfir þessum leik ef maður vill það en það er samt algjör óþarfi. Leikurinn er formsatriði. Hann gæti jafnvel tapast, það er ekki útilokað þegar United mætir með ungt lið og leikmenn með fáar mínútur síðustu vikur gegn liði sem gæti verið peppað og til í að bæta fyrir síðasta leik. En United er aldrei að fara að tapa þessu einvígi.
Varðandi Sancho þá var Woodward greinilega að leka út „fréttatilkynningu“ í gær um að United þætti verðið á Sancho of hátt og gæti dregið sig út úr viðræðum ef Dortmund lækkar ekki prísinn. Það er fyrirsjáanleg taktík, nákvæmlega sams konar fréttir sáust nokkrum dögum áður en bæði Harry Maguire og Bruno Fernandes komu til United.
Þetta er ekki bara eitthvað slúður úr lausu lofti, það er mjög augljóst að það er innistæða fyrir því. Manchester United vill leikmanninn, Dortmund er til í að selja hann. Sancho er til í að mæta aftur til Manchester (og velja rétt lið í þetta skiptið). Það þarf bara að finna út úr þessu með verðið og greiðslufyrirkomulag.
Auðvitað gæti það alveg klikkað eða United ákveðið að reyna frekar að taka Sancho í janúar eða næsta sumar. En maður hefði haldið að þeir félagar á innkaupadeild United hefðu lært eitthvað af Bruno-fjörinu. United græddi aldeilis ekki mikið á því að fresta þeim innkaupum, hefði verið miklu betra að hafa meistara Bruno hjá United allt tímabilið. Vonandi fáum við allavega að njóta þess með Jadon Sancho.