Formsatriði, það er það sem þessi leikur var alltaf og það er það sem spilamennskan endurspeglaði að mjög miklu leyti. Bæði lið vissu að þetta einvígi var löngu, löngu búið. Manchester United gerði það sem þurfti til að sigla þessu og verður með í 8-liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Lengi framan af var fullmikil deyfð yfir þessum leik en það lifnaði yfir þessu í lokin og United sigldi sigrinum heim.
Fyrirliðinn Harry Maguire fékk ekki frí í þessum leik, frekar en flestum öðrum. Hann fagnaði í því í dag að eitt ár er síðan hann gekk til liðs við Manchester United og hélt upp á það með sínum 59. leik í byrjunarliði United á tímabilinu. Seigla í kallinum.
Byrjunarlið Manchester United í leiknum var svona:
Bekkur: Grant, Pogba (64′), Martial (84′), Rashford, Pereira (64′), Bruno, Greenwood, Wan-Bissaka, Matic, Garner, Chong (72′), Mengi (84′).
LASK stillti upp þessu byrjunarliði:
Bekkur: Ramsebner, Wostry, Sabitzer (73′), Müller, Haudum, Reiter (68′), Gebauer, Filipovic (80′), Lawal, Celic.
Leikurinn sjálfur
Manchester United fékk fyrsta ákjósanlega tækifærið í leiknum. Þá náði liðið að spila sig vel út úr pressu LASKara og fundu Mata á hægri kantinum sem brunaði inn í teig gestanna. Hann sá Odion Ighalo frían á fjærstönginni en náði ekki að koma boltanum framhjá varnarmanni LASK. Illa farið með gott tækifæri því Ighalo hefði líklega ekki farið að klúðra þessu færi. United fékk þó horn en Maguire skallaði yfir úr ágætis færi.
Stuttu síðar áttu gestirnir mjög bjartsýna tilraun til að vippa yfir Romero af löngu færi en sendu boltann vel framhjá markinu.
Á 10. mínútu áttu gestirnir betri tilraun þegar þeir fengu hornspyrnu. Eftir klafs í teignum náðu þeir skalla sem sveif í slána og svo ágætis skottilraun í framhaldinu sem fór rétt framhjá markinu. Romero fylgdi þeim bolta þó eftir og var með hann allan tímann.
Eftir það var leikurinn nokkuð í jafnvægi næstu mínúturnar. Liðin reyndu að spila bolta og skapa eitthvað en gekk misvel með það. LASK reyndi dálítið af langskotum og áttu nokkur næstum-því-móment en ekkert meira en það. Það sást á spili United að þarna voru margir leikmenn sem höfðu ekki spilað mikið síðustu vikur og ekki náð að spila mikið saman.
Á 29. mínútu náði United upp fínni sókn. Lingard bar boltann upp völlinn og fann svo frábæra stungusendingu á Scott McTominay sem sendi hann í gegn. Scott var hins vegar ekki alveg með á nótunum, kannski hélt hann að hann væri rangstæður eða eitthvað, og þvældi boltanum um sjálfan sig nógu lengi til að varnarmaður LASK náði að bjarga þessu í horn. Úr horninu átti Harry Maguire annan skalla en aftur yfir.
Hinum megin átti LASK ágætis skot fyrir utan teig en Romero henti sér niður og varði örugglega. Stuttu eftir það var hann fljótur að hugsa þegar LASK átti stungusendingu og náði henni á undan sóknarmanni gestanna.
Á 37. mínútu náði United fínni skyndisókn. Ighalo og Lingard spiluðu sig þá upp völlinn og Lingard kom með flotta stungu upp vinstri kantinn á Daniel James. Lingard hélt hlaupinu svo áfram inn í teig en James náði ekki að koma með fyrirgjöf sem náði framhjá varnarmanninum. Aftur synd að nýta ekki svona gott tækifæri.
McTominay náði sér svo í gult spjald í kjölfarið. Hann átti ekkert sérstaklega öfluga byrjun á þessum leik. Virkaði ryðgaður, sérstaklega þegar hann var á boltanum. Fred við hlið hans átti meira af álitlegum sendingum fram að þessu en samherjar hann ollu vonbrigðum í hvernig þeir höndluðu sendingarnar. Það var 0-0 í hálfleik. Einvígið var aldrei í hættu og það virtist hafa áhrif á bæði lið og spilamennsku þeirra.
Gestirnir höfðu átt 7 marktilraunir í fyrri hálfleik gegn aðeins 2 hjá heimamönnum. Aðeins ein af þessum 9 tilraunum beggja liða hafði hitt á rammann, það var skotið sem Romero varði nokkuð auðveldlega. Helsta sem truflaði United, og raunar að einhverju leyti LASK líka, var skortur á gæðum í lokasendingu fyrir færi. Það var of auðvelt fyrir varnarmennina að eiga við það. Að einhverju leyti hægt að kenna skort á leikformi um það, það vantaði að vera beittari í þessu.
Lingard minnti á sig í byrju seinni hálfleiks. Fékk þá boltann á miðjunni, sneri og bar hann upp. Hunsaði Ighalo í rangstöðu og fann þess í stað Dan James með flottri stungu upp hægra megin. En aftur náði James ekki að nýta frábæran undirbúning og klúðraði fyrirgjöfinni. Saga leiksins fram að þessu. Stuttu síðar náðu Lingard og Mata að spila sig saman og Mata fann Ighalo við D-bogann. Ighalo gerði vel í að koma sér í ágætis skotfæri en markmaður LASK varði frekar auðveldlega. Allavega komið tækifæri á rammann!
Á 52. mínútu átti United aðra frábæra skyndisókn. Eftir fínt spil fékk Williams boltann á vinstri kantinum. Hann kom með fyrirgjöf sem rataði framhjá varnarmönnum og fyrir markið en því miður líka framhjá tveimur leikmönnum United og sigldi aftur fyrir. Virkilega gott tækifæri og ágætis fyrirgjöf en vantaði aðeins upp á. Lingard var næstur því að komast í þennan bolta, vantaði ekki mikið upp á.
Á 55. mínútu ákvað LASK að skemma daginn fyrir Sergio Clean Sheet Romero með því að skora mark. Reyndar stórglæsilegt mark, þeir mega eiga það. Eftir horn barst boltinn út fyrir teiginn þar sem varnarmaðurinn Philipp Wiesinger fékk boltann. Í stað þess að Rojo-lúðra boltanum af krafti tók hann boltann innanfótar í fyrsta og krullaði hann upp í skeytin fjær. Enginn séns fyrir Romero að verja þennan. Stuttu síðar átti Wiesinger annað langskot en þetta skiptið framhjá.
Það tók United þó innan við 2 mínútur að jafna. Mata sendi Jesse Lingard þá í gegn og Jesse bar boltann upp að markteig og skoraði í öðrum leiknum í röð. Flott svar hjá Lingard.
Lingard og Mata héldu áfram að ná vel saman, spiluðu sig upp vinstri kantinn og í þetta skiptið bjó Lingard til færi fyrir Mata. Mata skaut en í vörnina, þaðan barst boltinn yfir á hægri kantinn þar sem Timothy Fosu-Mensah náði boltanum en átti afar slaka skottilraun yfir og framhjá markinu.
Þegar tæpur hálftími var eftir af leiknum gerði Solskjær skiptingu. Lingard var tekinn af velli, hann virkaði ekki sáttur við það, ásamt Fred og inn á komu Pogba og Pereira. Skiljanlegt að Lingard hafi verið ósáttur þarna, bæði voru þetta langþráðar mínútur hjá honum og svo var hann búinn að vera sennilega besti leikmaður United í leiknum fram að þessu. Sérstaklega þetta korter í seinni hálfleik, þar var hann virkilega flottur.
Pogba kom með greinilega gæðaaukningu inn á miðjuna hjá Manchester United. United tók gírskiptingu upp á við og virtust ætla að láta kné fylgja kviði. Það var þó LASK sem átti næsta hættulega færi, þegar Romero var næstum búinn að missa skot undir sig frá vinstri kantmanni LASK en náði þó að bægja hættunni frá.
Á 72. mínútu fór hinn ungi og efnilegi Brandon Williams af velli fyrir hinn unga og efnilega Tahith Chong. Chong virtist fara í vinstri bakvörðinn í staðinn fyrir Williams. Stuttu eftir að hann kom inná tók hann þátt í mjög flottri sókn United upp völlinn þar sem á endanum skapaðist skotfæri fyrir Mata en Spánverjinn geðþekki fór illa með það færi.
Á 84. mínútu kom önnur tvöföld skipting. Daniel James, sem hafði verið mjög mistækur í leiknum, fór af velli ásamt Timothy Fosu-Mensah. Inn í þeirra stað komu Anthony Martial og Teden Mengi, í sínum fyrsta leik fyrir Manchester United.
Þetta var góð skipting því á 88. mínútu skoraði Anthony Martial og kom Manchester United yfir í leiknum. Þá spilaði hann og Mata sig í gegnum vörn LASK þannig að hann náði að komast einn gegn markmanni og slúttaði vel. United hafði verið líklegra fram að því og þetta var vel gert hjá Martial. Skiptingarnar á Martial og Pogba sýndu svo sannarlega hvers konar munur er á besta byrjunarliði Manchester United og því sem hóf þennan leik.
LASK fékk lokafæri leiksins þegar framherji þeirra náði að hæla boltann á markið af stuttu færi eftir fína fyrirgjöf en Romero varði vel. 2-1 sigur staðreynd.
Leikurinn sýndi ágætlega að það væri fín hugmynd að auka breiddina í hópnum. Þótt maður gefi þessum leikmönnum það að það vanti upp á leikform þá hefðu þeir samt getað sýnt meira, ekki síst þegar kom að ákefðinni í spilamennskunni.
Jesse Lingard var heilt yfir fínn, svona miðað við. Hann var sérstaklega flottur í upphafi seinni hálfleiks og flest af því sem United gerði af viti fyrsta klukkutímann kom í gegnum hann. Juan Mata var hit and miss, náði oft að minna á sín gæði og lagði vissulega upp bæði mörkin en var líka oft alltof slakur í að klára aðgerðir. Fred var ágætur en Scott McTominay mikil vonbrigði. Það munaði miklu að fá Pogba inn á og svo Martial og það var gaman að sjá Chong og Mendi fá sénsinn. Kafteinn Maguire var öflugur og solid eins og alltaf. Fleira þarf ekki að segja um þennan leik.
Framhaldið
Tíu mínútum áður en United hóf leik gegn LASK var flautað til leiksloka í Kaupmannahöfn þar sem FCK tryggði sig áfram í keppninni með 3-0 sigri á Istanbul.
Manchester United fer því til Kölnar og spilar alla leiki sem eftir eru í mótinu, og í raun tímabilinu, á RheinEnergieStadion í Köln. Manchester United á 1 til 3 leiki eftir af tímabilinu. Sá næsti þeirra er mánudaginn 10. ágúst, klukkan 19:00 að íslenskum tíma.
Fari United áfram í undanúrslit þá verður sá leikur sunnudaginn 16. ágúst, líka klukkan 19:00. Úrslitaleikurinn verður svo spilaður á góðum partýtíma, föstudaginn 21. ágúst. Sömuleiðis klukkan 19:00.
Sancho og Sanchez
Stóra Jadon Sancho málið virðist ætla að verða langdregnara en bjartsýnustu menn (þ.e. undirritaður) höfðu vonast eftir. Það er augljóst að það er eitthvað í gangi en bæði í gær og í dag hafa komið skilaboð frá Manchester United og Dortmund um að eitthvað beri enn í milli. Bæði Woodward hjá United og Zorc hjá Dortmund hafa þó beitt nákvæmlega sömu taktík á síðustu árum þegar kom að leikmannaviðskiptum sem svo enduðu á að fara í gegn. Við vonum að það sama eigi við í þetta skiptið. Auðvitað væri skemmtilegast að það gerðist sem fyrst en aðalmálið er að hann komi áður en næsta tímabil hefst, það væri fulllangdregið að þurfa að bíða fram í janúar eða næsta sumar eftir þessu.
Rétt fyrir leik komu hins vegar fréttir um að Beppe Marotta hjá Inter hefði staðfest að félagið ætlaði að semja við Alexis Sánchez. Fínt að sú saga sé allavega frá og verði ekki langdregnari en þegar var orðið.
https://twitter.com/FabrizioRomano/status/1291084175324454914?s=20
gummi says
Flestir af þessum leikmönnum sem eru inná núna meiga bara fara verða aldrei nógu góðir fyrir okkur
Helgi P says
Kvennalið er betra en þetta lið sem er inná núna
Cantona no 7 says
Gott
GGMU
Scaltastic says
Mér finnst óskiljanlegt að Solskjær hafi spilað Maguire í kvöld. Ef við förum alla leið í þessari keppni þá fær hann viku í hvíld áður en næsta tímabil byrjar. Það er að mínu mati í algjörum forgang að hann nái 100% endurheimt.
Bestu fréttir kvöldsins er að hafa losnað við 400.000 punda Billy Joel, ekki í mínum villtustu draumum hefði ég grunað fyrir ári síðan að félagið myndi ná að losna undan versta samning í PL (fyrir utan Özil).
Nú er bara að bíða og vona að Woodward, Matt Judge og co átti sig á því að það er ekkert annað félag í Sancho kapphlaupinu. Það er ekkert gefið að félagið sé í jafn sterkri stöðu á næsta ári og því mikilvægt að hamra járnið meðan það er heitt.
Ef þeir ætla að gugna á þessu þá legg ég til að þeir horfi á frammistöðu Daniel James í kvöld, þá munu þeir sjá ljósið.
Hjöri says
Já það er með þennan Sancho, engin furða að ekkert félag beri víjurnar í hann þegar settar eru á hann 120 millur í evrum. Á einhverjum miðli sá ég það svo að Utd hefði ekkert haft samband við Dortmund, svo þeir eru og verða í rassgati með kaup á leikmönnum. En að öðru getur einhver frætt mig á því hver sér um félagsgjöldin?
Halldór Marteins says
Rauðu djöflarnir eru lausir við öll félagsgjöld. Ef þú ert að tala um fyrir Stuðningsmannaklúbb Manchester United á Íslandi þá er það alveg ótengt okkur, bendi á heimasíðuna þeirra: https://www.manutd.is/
Björn Friðgeir says
Þiggjum samt alveg frjáls framlög!