Eftir að United slefaði inn í undanúrslitin með torsóttum 1-0 sigri gegn baráttuglöðu liði FC Kaupmannahafnar er ljós að við tekur næsta skref og jafnframt það síðasta í áttina að úrslitaleik Evrópudeildarinnar. Það verður gífurlega erfið viðureign við Sevilla sem upp á síðkastið má segja að hafi verið konungar Evrópudeildarinnar enda hafa þeir unnið keppnina fimm sinnum frá því 2006 og þrjú ár í röð einokuðu þeir titilinn (2014-2016).
Í hinum undanúrslitaleiknum mætast hins vegar Inter Milan og Shaktar Donesk. Einhverjir eru eflaust farnir að vonast til að sjá United mæta Inter Milan í úrslitaleiknum þar sem Solskjær og strákarnir hans myndu mæta sínum fyrri félögum, Alexis Sanchéz, Romelu Lukaku og Ashley Young. En slíkar pælingar eru ótímabærar því sem stendur er spænsk hindrun í leið okkar United manna og þær hafa oft reynst okkur torveldar en auk þess skildi aldrei afskrifa Shaktar í hinni viðureigninni en höldum okkur við okkar leik.
Sevilla
Sevilla eru sem fyrr segir ekki ókunnugir Evrópudeildinni enda hefur ekkert lið unnið titilinn jafnoft og Sevilla. Í fyrra datt liðið út gegn Slavia Prague í 16-liða úrslitum, tímabilið þar áður datt liðið út í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnn (gegn Bayern 1-2) en þrjú ár í röð þar á undan vann liðið Evrópudeildina. Það má því slá því föstu að Sevilla er hörkugott lið sem hefur átt góðu gengi að fagna í Evrópukeppnum á undanförnum árum.
Sevilla var í riðli með APOEL, Quarabag og Dudelange og átti ekki í teljandi vandræðum með því að komast í gegnum riðilinn enda vann liðið fyrstu fimm leikina sína og tapaði bara í síðustu umferðinni og voru þá þegar öruggir með efsta sætið. Í 32-liða úrslitum rétt mörðu þeir CFR Cluj frá Rúmeníu á útivallarmarki en hafa síðan lagt Roma (2-0) og Wolves (1-0) en spænska liðið var mun sterkari aðilinn í báðum viðureignunum og eiga það fyllilega verðskuldað að vera komnir í undanúrslitin.
Í La Liga enduðu þeir í fjórða sæti, með jafnmörg stig og Atletico Madrid (en verri markatölu) og tíu stigum ofar en næsta lið á eftir. Liðið hefur á undanförnum árum gengið í gegnum miklar og örar breytingar hvað varðar leikmenn og því má segja að gengi liðsins í deild og öðrum keppnum sé hreint út sagt magnað. Unai Emery stýrði þeim frá 2013-2016 en síðan hefur liðinu verið stýrt af sex mismunandi knattspyrnustjórum. Julen Lopetegui tók við liðinu fyrir rétt um ári síðan og hefur nánast undantekningalaust stillt liðinu upp í 4-3-3, bæði í spænsku deildinni og Evrópudeildinni svo gera má ráð fyrir að á morgun sjáum við liðið á þann veg:
Lopetegui hefur notast við þá Ever Banega (32), Fernando (33), Juan Jordán (26) og Nemanja Gudelj (28) á miðjunni en þeir eru allir frekar svipaðir leikmenn, eru góðir með bolta og halda honum vel en enginn þeirra hefur sprengikraftinn eða tæknina til að taka leikmenn á og brjóta upp spilið og þar af leiðandi verður uppbygging spilsins nokkuð fyrirsjáanleg. Þeir reyna hvað mest að finna bakverðina Jesús Navas og Sergio Reguilón, sem verða einskonar vængbakverðir þegar Sevilla er með boltann á meðan einn miðjumanna þeirra dregur sig neðar á völlinn milli miðvarðanna og breytir leikkerfinu í 3-4-3, ekki ósvipað og Matic gerir til að hleypa bakvörðum okkar ofar á völlinn.
Gudelj, sem er reyndar meiddur, er yfirleitt sá sem fellur aftar á völlinn og stjórnar spilinu aftast á vellinum en leikstíll Sevilla snýst að miklu leyti um að halda boltanum mikið og stjórna leiknum, stuttar sendingar og byggja upp langar sóknir frekar en að beita skyndisóknum. Mikill sóknarþungi þeirra fer þó í gegnum hinn öskufljóta Jesús Navas sem vafalaust mun valda Brandom Williams einhverjum vandræðum á vinstri vængnum á morgun og mun líklegast þurfa á aðstoð frá Marcus Rashford að halda.
Hins vegar er það ljóst að þetta leikkerfi Sevilla býður hættunni heim, sérstaklega á móti liði sem er jafn hættulegt og United í skyndisóknum. Þegar bakverðirnir færa sig svo ofarlega á völlinn til að hleypa mönnum eins og Suso og Ocampos innar á völlinn á milli varnar og miðju andstæðinganna, myndast mikið pláss á köntunum sem er kjörið að nýta í skyndisóknir. Bæði Suso og Ocampos spila sem inverted wingers, það er að þeir leita inn á völlinn og geta skotið með betri löppinni eða fundið bakverðina i overlap.
Sem betur fer fyrir vörn United og okkur stuðningsmennina þá eru framherjar Sevilla ekki þekktir fyrir hraðann sinn en Ocampos, Suso og Luuk de Jong vilja allir fá boltann í lappirnar frekar en að stinga sér bakvið vörnina. Maguire og Lindelöf ættu því að henta vel í hjarta varnarinnar hjá okkur á morgun.
Þegar Sevilla er ekki með boltann liggja þeir frekar aftarlega og pressa ekki mikið. Þá hafa þeir átt í erfiðleikum með lið sem stilla upp í 4-2-3-1 og nota hápressu eins og sást í leiknum á móti CFR Cluj í Evrópudeildinni, fyrr á þessu ári þar sem þeim tókst einungis að skora eitt mark þrátt fyrir urmull af færum. Þá eiga þeir einnig erfitt með að klára færin þegar þau gefast og reiða sig helst til of mikið á vængbakverðina þegar kemur að því að skapa þau.
Manchester United
Ole Gunnar Solskjær sagði á fréttamannafundinum fyrir leik að United væri búið að komast núna þrívegis í undanúrslitaleik og nú væri tími til að klára dæmið, við komumst í undanúrslit í bikarnum og deildarbikarnum en misstum það frá okkur og það væri mikilvægt að klára leiktíðina á jákvæðum nótum. Ef United tapar á morgun, þriðja undanúrslitaleiknum í röð, myndi það varpa skugga á annars viðunandi enda á tvískiptri leiktíð.
Nú er ekkert rými fyrir afsakanir eða áhugaleysi, Evrópudollan blasir við okkur og gæti orðið fyrsti titillinn sem United tekur síðan liðið vann Ajax í úrslitum Evrópudeildarinnar 2017. Það myndi skipta töluverðu máli í stóra samhenginu að klára titil með þessari leiktíð og setja þannig stóran punkt yfir I-i fyrir Solskjær. Það yrði líka fínt að fá smjörþefinn af málminum fyrir komandi ár, við erum með mjög ungt lið og það þarf að venja þá við að berjast um titla. Eftir að liðið kláraði þriðja sætið í deildinni og bókaði farseðilinn í Meistaradeildina á næstu leiktíð ætti liðið að vera laust við a.m.k. hluta þeirrar pressu sem því fylgir að spila í Evrópudeildinni. Það hlýtur líka að skipta Ole Gunnar Solskjær miklu máli að fá fyrsta titilinn sem stjóri United og því fæ ég ekki séð annað en að hann muni stilla upp sínu allra sterkasta liði á morgun:
Sergio Romero á ekki skilið að vera settur á bekkinn og mun að öllum líkindum fá að verja búrið. Á meðan Luke Shaw er frá mun Brandon Williams taka við keflinu tímabundið en hann mun hafa nóg að gera þar sem hans hlutverk verður að takast á við Jesus Navas sem er allt í öllu í sóknarleik þeirra spænsku. Þá geri ég ráð fyrir að Lindelöf verði kallaður inn í liðið aftur en hann var mjög sterkur eftir að hann kom inn fyrir Bailly í síðasta leik og ég tel að Maguire/Lindelöf henti mun betur í leik sem þennan. Aðrar stöður ættu ekki að koma neinum á óvart. Hugsanlega gæti Solskjær reynt að krydda þetta með einhverjum breytingum en vonandi heldur hann sig frá því og treystir bara sínu sterkasta liði.
Fred kom inn í liðið í síðasta leik en þrátt fyrir að sá brasilíski hafi átt gott tímabili er ekki nokkur spurning að Solskjær gerði mistök í að hafa ekki Nemanja Matic í síðasta leik. Serbinn veitir Pogba og Bruno meira frelsi til að leika listir sínar framar á vellinum og virðist liðið ná aukinni yfirvegun með hann í liðinu.
Framlínan segir sig sjálf og miðjan í rauninni líka en Brandon Williams og Sergio Romero verða líklegast í stað Shaw og De Gea.
Síðast þegar þessi lið áttust við í keppnisleik var í Meistaradeildinni árið 2018 þegar José Mourinho stýrði United en eftir 0-0 úti á Spáni kom hrikalegur leikur á Old Trafford þar sem Sevilla vann 1-2. En síðan hefur margt vatn runnið til sjávar og þeir einu sem byrjuðu leikinn fyrir Sevilla sem eru ennþá í dag í liðinu eru þeir Ever Banega og Jesus Navas. Sömuleiðis eru ansi margir farnir frá United sem byrjuðu þann leik, Lukaku, Sanchez, Valencia, Young, Fellaini og Smalling á lán. Það ætti því ekki að lesa of mikið inn í þau úrslit en hitt er svo annað mál að Sevilla er alltaf að fara gefa okkur hörkuleik.
Þetta verða þriðju undanúrslitin sem United tekur þátt í á þessari leiktíð og vonandi tekst liðinu að sigra núna og komast í úrslitaleikinn. Eins og vitur maður sagði eitt sinn, allt er þegar þrennt er. Leikurinn fer fram á Stadion Koln í Cologne en leikar hefjast kl 19:00 að íslenskum tíma en á flautunni verður Felix Brynch. Ef United tekst að leggja Sevilla af velli lengist leiktíðin enn meira en úrslitaleikurinn fer fram á næstkomandi föstudag kl 19:00 þar sem sigurvegarinn úr viðureign Inter og Shaktar (sem fer fram á morgun) bíður.
Skildu eftir svar