Alex Telles er einn af þeim fjórum leikmönnum sem United samdi við á gluggadeginum. Hann verður nýjasta viðbótin við varnarlínu United en hún hefur legið undir mikilli gagnrýni að undanförnu. En hvernig leikmaður er Telles, hvað hefur hann upp á að bjóða og mun hann labba beint inn í byrjunarliðið?
https://twitter.com/ManUtd/status/1313165610239565825
Alex Telles fæddist þann 15. desember 1992 og verður því 28 ára á árinu en hann samdi við United til ársins 2024 með möguleikanum á framlengingu til 2025. Telles var samningsbundinn FC Porto í Portúgal en átti einungis ár eftir af samningnum sínum og fékk því að fara fyrir um 15 millj. evra samkvæmt Transfermarkt.com. Leikmaðurinn er á besta aldri og hefur komið við víða á ferlinum sínum.
En Telles er fæddur og uppalinn í Brasilíu og hóf sinn tuðruspraksferil hjá yngri liðum Juventude í heimalandinu og komst að lokum í aðalliðið um tvítugt. En þegar liðið tók upp samstarf við Grêmio fluttist Alex Telles yfir til brasilíska stórveldisins. Eftir um tvö ár og tæpa 40 leiki var bakvörðurinn seldur til Galatasary í Tyrklandi fyrir um 5,5 millj. punda árið 2014. Eftir ár hjá tyrkneska stórliðinu var Telles sendur á lán til Inter Milan í eitt ár en á Ítalíu kom hann við sögu í 21 leik áður en hann fékk tilboð frá Porto um mitt ár 2016.
Á þessum fjórum árum sem Telles hefur verið í Portúgal hefur hann spila 129 leiki og skorað í þeim 21 mark. Ef litið er á tölfræði síðustu leiktíðar þá var bakvörðurinn með 11 mörk og 8 stoðsendingar í deildinni verður að teljast vel ásættanlegt. Leikstíll brasilíumannsins svipar mjög til bakvarðar á borð við Joshua Kimmich og Trent Alexander-Arnold, með frábærar fyrirgjafir en einnig stórhættulegur úr föstum leikatriðum.
https://twitter.com/StatmanDave/status/1313426273579003904
Með Telles mun því fylgja aukinn sóknarþungi úr bakvarðarstöðu, nokkuð sem Luke Shaw, Brandon Williams, Aaron Wan-Bissaka og Timothy Fosu-Mensah hafa ekki náð að tileinka sér fyllilega. Nú auðvitað er talsverður munur á Liga NOS og Premier League en stuðningsmenn United eru góðu vanir þegar kemur að nýjum leikmönnum sem koma úr portúgölsku deildinni.
https://twitter.com/StatmanDave/status/1311625657734983681
Á síðustu þremur leiktíðum með Porto hefur Alex Telles átt fleiri fyrirgjafir en nokkur annar leikmaður í deildinni en þær hafa skilað sér í fjölda stoðsendingar. Frá því að Telles kom til Porto hefur hann lagt upp 57 mörk og ef við tökum mörk með í reikning þá kom hann að marki, annað hvort skoraði sjálfur eða lagði upp á 210 mín. fresti í öllum keppnum í Portúgal. Það er hreint magnaður árangur fyrir bakvörð.
En Alex Telles hefur fleiri kosti sem Ole Gunnar Solskjær hefur vafalítið heillast af. Í nýlegri blaðagrein eftir Jack Lang í The Athletic er Telles lýst af nokkrum einstaklingum sem allir tengjast ferlinum hans. Þar er honum lýst sem teknískum, orkumiklum leikmanni sem þyrstir sífellt í að bæta sig sem leikmann. Þá skilur hann leikinn mjög vel og því var hann meðal annars notaður í hinum ýmsu stöðum á meðan hann var yngri.
Hann var hins vegar frekar lítill og ekki mjög sterklega vaxinn í æsku en vann það upp með því að vera gríðarlega sterkur andlega. Hann er jarðbundinn og metnaðarfullur og það þarf mikið til að koma honum úr jafnvægi og segja má að hann þrífst á pressunni. Sem dæmi um það má nefna að þegar hann tók skrefið frá Juventude til Grêmio var hann ekkert látinn ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Fyrstir leikurinn hans fyrir liðið var í útsláttarkeppni í beinni útsendingu í sjónvarpinu (Copa Libertadores), dágott stökk fyrir einhvern sem var að spila í fjórðu deildinni tveimur mánuðum á undan, í leik sem endaði í vítaspyrnukeppni. Okkar maður steig á punktinn í fimmtu og síðustu spyrnu Grêmio og skoraði af miklu öryggi, þá rétt um tvítugt. Gífurlega mikið var undir í þessum leik, rétt eins og oft vill verða á lokastigum útsláttarkeppninnar í Suður-Ameríku en í ofan á lag var Grêmio að spila í fyrsta sinn á nýjum velli.
Jonas da Rosa, sem vann með Telles á meðan hann var hjá Juventude, segir að hann hafi alla tíð haft það á tilfinningunni að Telles yrði toppleikmaður og þótt hann hafi farið hægt af stað hjá Porto þá hafi honum tekist að þróa sóknarþáttinn í sínum leik svo vel að hann sé orðinn svokallaður game-changer og jafnfram besti bakvörðurinn þar í landi.
Varnarhlutverk stöðunnar var þó lengi framan af viss veikleiki hjá honum en þegar hann fór frá Grêmio til Galatasaray var þar við völdin Roberto Mancini sem tók verulegan þátt í að móta hann sem velslípaðan bakvörð, sem er bæði traustur og öruggur í varnarhlutverki sínu en jafnframt beinskeyttur og ógnandi í sóknarleik sínum. Reyndar áttu leiðir þeirra eftir að liggja saman á nýjan leik þegar Telles fór til Inter og hefur hann tileinkað Mancini stóran þátt í velgengni sinni og þroska sem leikmanni. Sú velgengni hefur nú skilað honum inn í landslið Brasilíu þar sem hann hefur verið að keppa um sæti við ekki minni spámenn en Marcelo og Renan Lodi.
Koma Telles mun einnig veita Solskjær aukið frelsi þegar kemur að vali á leikkerfum þar sem t.a.m. 3-5-2, sem sá norski hefur nokkrum sinnum stuðst við í stóru viðureignunum, myndi hentar mun betur með Telles í vængbakverði og Luke Shaw sem miðvörður í þriggja miðvarðakerfinu en nokkrir af hans langbestu leikjum á síðasta tímabili komu í 3-5-2 kerfinu. Gallinn við það kerfið, hingað til, hefur einmitt verið að lítið hefur komið úr bakvörðunum, wan-Bissaka og Williams sóknarlega og því hefur notkun kerfisins fallið í nokkuð grýttan jarðveg þótt úrslitin hafi oft skilað sér.
Solskjær lét hafa eftir sér að United hefði fyglst með Telles um tíma og þeir heilluðust af þeim gæðum sem hann býður upp á, sérstaklega þá sóknarlega. „Hann er baráttumikill sigurvegari sem mun koma með ákveðni og keppni inn í liðið. Það verður því áhugavert að fylgjast með Alex Telles á komandi mánuðum, hvernig honum tekst að koma sér fyrir í Manchesterborg og hvort Solskjær treysti honum beint inn í byrjunarliðið. Miðað við frammistöðu Luke Shaw í síðustu viðureign United fyrir landsleikjahlé, þá væri ekki úr vegi að Telles fengi að spreyta sig og Shaw yrði hvíldur. Fyrsti leikurinn hans gæti því orðið viðureignin gegn Newcastle 17. okt. Þess má til gamans geta að Alex Telles mun klæðast treyju númer 27 fyrir United á þessu tímabili en síðast var það Marouane Fellaini sem bar það treyjunúmer og á undan honum Frederico Macheda.
Skildu eftir svar