Gestgjafarnir í París pöntuðu Manchesterborgar rigningu fyrir Meistaradeildarkvöldið í kvöld til að gestunum frá United liði eins og heima hjá sér. Þar að auki klæddist United hinni umdeildu þriðju treyju liðsins, sem minnir óneitanlega á zebrahesta, í fyrsta skiptið í keppnisleik og það var eins og það væri skrifað í skýin að kvöldið yrði á einhvern hátt eftirminnilegt.
Thomas Tuchel gerði fimm breytingar á sínu liði frá því um helgina en mikið hefur verið rætt um meiðsli í herbúðum frönsku meistaranna. Engu að síður stillti hann upp sterku liði með tvo dýrustu sóknarmenn sögunnar í þeim Kylian Mbappé og Neymar Jr. Auk þeirra voru Dí María og Ander Herrera í byrjunarliðinu en þeir áttu eins og frægt er orðið, mjög mismunandi feril hjá United.
Ole Gunnar Solskjær hefur legið undir mikilli gagnrýni eftir dapra byrjun á tímabilinu. Hann tók sig hins vegar til og gerði róttækar breytingar fyrir síðasta leik og áfram hélt hann að hrista upp í liðinu. Að þessu sinni kom Alex Tuanzebe inn í liðið en hann spilaði síðast mótsleik fyrir 10 mánuðum síðan ogþað var gegn Colchester í d-deildinni. Þá kom Alex Telles inn í liðið í fyrsta sinn og spila sem vængbakvörður meðan Luke Shaw var settur vinstra megin við Victor Lindelöf í þriggja miðvarða kerfi. Annars leit liðið út svona:
Á tréverkinu sátu þeir Dean Henderson, Juan Mata, Donny van de Beek, Odion Ighalo, Brandon Williams, Daniel James, Facundo Pelistri, Timothy Fosu-Mensah og Paul Pogba.
Lið PSG var still upp í 4-3-3 og var þannig skipað:
Leikurinn byrjaði sem óttalegt miðjumoð og greinilegt að leikmenn voru örlítinn tíma að venjast vellinum í þessari bleytu. Heimamenn voru ívið meira með boltann og sóttu en varnarlína United hélt vel aftur af þeim. Neymar var einna sprækastur heimamanna til að byrja með og var mikið í boltanum en fyrsta hálffærið féll okkur í vil.
Bruno Fernandes átti þá laglega fyrirgjöf inn í boxið en rétt í þann mund er Marcus Rashford gerði sig líklegan til að pota boltanum inn náði Diallo til hans, í raun fékk boltann í sig og þaðan í hendurnar á Navas í markinu.
Á tólftu mínútu áttu heimamenn svo stórhættulegt færi þegar Neymar kom boltanum á Dí María sem reyndi að snúa boltann fram hjá De Gea sem henti í eina sjónvarpsmarkvörslu og bjargaði í horn. Úr hornspyrnunni kom síðan annað tækifæri þegar Mbappé átti flotta fyrirgjöf og bakvörðurinn Kurzawa komst fyrstur í boltann en aftur varði De Gea meistaralega, í þetta sinn með fótunum eins og honum einum er lagið.
Þegar um tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum kom fyrsta hættulega færið hjá United þegar Luke Shaw stakk boltanum inn fyrir vörnina á Anthony Martial en Diallo braut á honum áður en hann náði að láta skotið ríða af. Víti dæmt og Bruno steig á punktinn, sem kannski kom örlítið á óvart þar sem hann klúðraði vítaspyrnu um helgina og Rashford á nú góðar Meistaradeildarminningar frá vítapunktinum á þessum velli.
En sá portúgalski tók upp boltann og tók sitt einkennilega valhoppandi tilhaup og þeir sem segja að eldingu slái aldrei niður á sama stað hefðu átt að horfa á þennan leik því Keylor Navas gerði sér lítið fyrir og varði boltann. En þegar betur var að gáð þá hafði Navas stigið af línunni og eins og United menn muna þá má það ekki og því var vítaspyrnan endurtekin.
Bruno tók aftur boltann, tók aftur valhoppandi tilhlaup og setti boltann aftur í hægra hornið, ískaldur og skoraði þar með fyrsta mark leiksins og United komið í forystu 1-0. Leikmenn PSG voru gríðarlega ósáttir einsog gefur að skilja og pirringurinn virtist fara í þá.
Eftir hálftíma leik fengu PSG færi þegar Dí María komst einn inn fyrir en de Gea stóð sig aftur í stykkinu og var fljótur út og náði að blaka boltanum frá. Áfram héldu heimamenn að sækja á vinstri kantinum en Aaron Wan-Bissaka og Alex Tuanzebe voru fyllilega vandanum vaxnir og voru ekkert með stjörnur í augunum yfir mótherjunum.
Þeir reyndu t.d. að fá vítaspyrnu þegar Mbappé fór niður í grasið eftir baráttu við Tuanzebe en ekkert dæmt nema Neymar uppskar gult spjald fyrir kjaftbrúk.
United átti nokkur færi undir lok hálfleiksins, McTominay hefði geta stýrt skallanum sínum að marki og Bruno átti þrælfínt skot sem Navas varði í horn og þá komst Rashford í gráupplagt færi en Diallo náði að bjarga í horn á ögurstundu. Stuttu síðar blés dómari leiksins til lekhlés.
Síðari hálfleikur
Tuchel ákvað að gera breytingu í hálfleik og tók Idrissa Gueye útaf og í hans stað kom Moise Kean, framherji fyrir varnartengilið. Skilaboðin voru augljós, taka meiri áhættu og reyna að sækja til sigurs. Fyrsta færi hálfleiksins féll þó fyrir United menn enda skapaðist mikið pláss þegar PSG ýtti liðinu svo hátt upp völlinn.
Rashford var einn á auðum sjó með Martial á ferðinni af hinni hlið vallarins og einungis Kimpembe til varnar en Rashford var of bráður á sér og reyndi að setja boltann yfir á Martial en klúðraði sendingunni.
Skömmu síðar komust heimamenn í gott færi þegar Mbappé snéri af sér hvern varnarmanninn á fætur öðrum og skrúfaði boltann í átt að rammanum en de Gea blakaði boltanum í horn og hélt sínum mönnum í forystu eins og hann fengi borgað fyrir það. PSG virtust ansi hugmyndasnauðir og boltinn virtist ekki eiga neina leið í gegnum þykkan varnarmúr United manna en áttu þó skot í slánna og úr sókninni kom áhrifamikil hornspyrna.
Hana tók Neymar en í stað þess að hitta á samherja reis Martial manna hæst í eigin teig og skallaði boltann framhjá de Gea og jafnaði fyrir franska liðið. 1-1 og 35 mínútur eftir af leiknum. Nú virtist sem heimamenn ætluðu að keyra upp tempó leiksins og valta yfir United og ná fram hefndum.
En United pökkuðu ekki í vörn heldur áttu þeir sínar sóknir og ein sú hættulegasta kom þegar Shaw átti fyrirgjöf á Martial sem hefði átt að gera betur en skalli hans fór himinhátt yfir markið. Leikurinn var algjörlega í járnum og bæði lið sáu stigin þrjú í hyllingum. Heimamenn voru þó líklegri þó United var langt því frá komið ofan í skotgrafirnar.
Fyrsta skipting United kom ef til vill nokkuð á óvart en þá fór Alex Telles útaf og í hans stað kom Paul Pogba og Ole Gunnar virtist vera að stilla upp í sitt hefðbundna 4-2-3-1 kerfi. Fljótlega eftir skiptinguna mátti sjá afrakstur hennar, Pogba fann Bruno í lappirnar og sá portúgalski átti skot sem fór hátt yfir og skömmu síðar náði Rashford að skapa sér pláss en skot hans var varið af Navas.
Þegar um tíu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma kom Rashford boltanum á Bruno í hlaupinu en fékk boltann strax tilbaka í góðu skotfæri en Navas var kominn langt út úr markinu en engu að síður tókst Rashford ekki að koma boltanum í markið.
Hvorugt liðið hafði beint góð tök á leiknum, liðin skiptust á að sækja en flest færin runnu út í sandinn annað hvort voru skotin framhjá markinu eða í varnarmenn. Þar til á 87. mínútu þegar stefndi í jafntefli, barst boltinn til Rashford sem stóð fyrir utan teiginn, nokkurn veginn hægra megin við vítateigsbogann. Hann fékk dágóðan tíma á boltanum, nægan tíma til velta fyrir sér þeim færum sem höfðu farið forgörðum í leiknum fram til þessa, þar sem hann var óeigingjarn og reyndi að finna samherja sína. En í staðinn fyrir að gera það aftur setti hann undir sig hausinn og snéri af sér Sarabia sem kom inn á sem varamaður og setti boltann í fjærhornið og boltinn small í stönginni og þaðan söng hann í netinu.
Þá hafði feita konan lokið sínum söng. Því Donny van de Beek og Daniel James komu inn á í stað þeirra Bruno og Martial til að klára leikinn sem þeir og gerðu og United fer heim með þrjú stig frá París og fá næst í heimsókn orkudrykkjarliðið RB leipzig frá Þýskalandi í baráttu um efsta sæti riðlsins.
Fyrir þennan leik voru ekki margir sem trúðu því að United færi yfir höfuð upp í riðlinum eins og sést hér:
https://twitter.com/euroclubindex/status/1318597855108542466?s=21
En nú eru án efa fleiri sem hafa trú á United í þessum riðli enda PSG í efsta styrkleikaflokk riðilsins og því um gríðarlega sterkan útisigur að ræða. Þar fyrir utan er þetta tíundi sigurinn í röð á útivelli hjá United og er þetta í fyrsta sinn í sögunni hjá United.
Það er erfitt að velja mann leiksins en David de Gea átti stórleik í markinu og á skilið hrós fyrir frammistöðu sína. Alex Tuanzebe var að spila sinn fyrsta leik í 10 mánuði og hafði leikmenn eins og Neymar og Mbappé í vasanum og var óhræddur við að nálgast þá í teignum þrátt fyrir að þeir væru meira og minna í grasinu. Síðan var Wan-Bissaka eins og við best þekkjum hann, með hárnákvæmar og grjótharðar tæklingar og þeir tveir virtust ekki í neinum vandræðum með framherja PSG enda sáu United menn um að skora öll mörk kvöldsins.
Næsti leikur er gegn Chelsea á laugardaginn kl 16:30 en það verður áhugavert að sjá hvort Ole Gunnar Solskjær fari loksins að treysta Donny van de Beek í deildarleiki og síðan væri ekki leiðinlegt að sjá meira af nýju leikmönnunum frá S-Ameríku. Glory, glory!
Scaltastic says
Það gladdi mig óendanlega mikið að sjá Di Maria niðurlútinn fyrir 18 mánuðum síðan. Myndi ekki hata það ef við myndum vinna hann aftur.
Rúnar P says
Hvað hélt Marshal að hann væri að sækja?
Turninn Pallister says
Búnir með heppnis kvótann, en afhverju er Rashford ekki að skjóta á markið þegar hann er kominn í þessi upplögðu færi?
Tekur alltaf snertingu og mikið og allt rennur í sandinn.
Egill says
Ég veit að Rashford er fan favorite og allt það, en hann þarf að fara í u21 liðið í nokkrar vikur og læra ákvörðunartöku, hann mà ekki fá tækifæri til að hugsa því þá tekur hann rangar ákvarðanir í 99% tilvika
Bjarni Ellertsson says
Það er verið að þreyta okkur smám saman og við ekki að nýta okkur opnu möguleikana nógu vel enn sem komið er.
Egill says
Hvar er edit takkinn??
Turninn Pallister says
Þarna, þetta var allt annað frá stráknum!
guðmundurhelgi says
Ekkert væl þeir unnu afram ole og man utd.
Theodór says
Þvílíkur leikur hjá okkur! Auðvitað fá PSG hættuleg færi, með sína framlínu, en við áttum sigurinn skilið. Og Rashford…. hann er bara 22 ára, og tók amk tvær slæmar ákvarðanir, en hélt haus og skoraði sigurmarkið. Þessi strákur er einn besti afrakstur akademíunnar í langan tíma, þó víða væri leitað!
Bjarni Ellertsson says
Þetta var ljúft og hlaut að detta inn að lokum. PSG voru opnir og við náðum að nýta okkur það með Tunzabe á tánum hinum meginn. Allir fá góða einkunn frá mér Fred og Tommi uxu ásmeginn. Þegar við förum að nýta færin betur þá kemur þetta.
Scaltastic says
Hversu ljúft var þetta?!
Tvær góðar frammistöður í röð. De Gea steig virkilega upp í kvöld, Axel mjög öruggur í sínum aðgerðum og Fred domineraði miðjuna löngum köflum. Rashford með alvöru stáltaugar í lokin eftir heilaþoku á 47 mín.
Nú er bara að hætta þessari minnimáttarkennd á Old Trafford og áfram með smjörið.
Karl Garðars says
Verðskuldað!
Eðlilegar smá taugar á köflum á móti svona framlínu eins og Theodór bendir réttilega á. En það var ekki að sjá hjá okkar mönnum. Allir að eiga frábæran leik og Ole ekki síðri. Meira svona takk.
Turninn Pallister says
Góður sigur og gaman að horfa á liðið í kvöld. Vörnin stóð sig bara merkilega vel gegn sterkri sóknarlínu. Mikið hrós til Fred og McTominay á miðjunni í dag. Kannski ekki allt alltaf fallegt hjá þeim félögum, en mikil vinnusemi og dugnaður. Verð líka að hrósa De Gea í markinu, átti alveg ljómandi dag og bjargaði okkur nokkrum sinnum. Vonandi blæs þetta sjálfstrausti í strákana fyrir erfiða leiki á næstunni.
Að öðru, horfði með öðru auga á Lazio – Dortmund og verð að segja að mér fannst ekki koma mikið frá Sancho í þeim leik. Miðað við frammistöðu í þeim leik er hann ekki 120 milljón€ virði.
Þorsteinn says
Frábær leikur, vonandi er liðið komið í gang – síðustu tveir lofa góðu. Gæðin eru þarna maður sá það alveg í fyrra, margir leikmenn frábærir í kvöld en vantar enn að koma Pogba í gang.
Georg says
Þessi leikur var fín skemmtun. Maður var einhvernveginn ekki stressaður yfir þessum leik.
Martial ískaldur á vellinum. Það gekk ekkert upp hjá karlgreyinu…
PS græt ekki að horfa upp á DiMaria að tapa leikum sínum á móti okkur :)
Cantona no 7 says
Flottur sigur.
Vonandi eru menn ad komast i gang,
Allir ad spila vel og enn geta sumir enn meira,
G G M U
guðmundurhelgi says
Lindelof var flottur i kvold likt og aðrir leikmenn, Alex Tuanzebe mjog sterkur og de Gea með goðan leik. Allt liðið vann sem ein heild, eg ætla nu samt ekki að missa mig yfir þessu en goð urslit. Goðar stundir.
Helgi P says
Þvīlik innkoma hjá Tuanzebe klárlega maðurleiksinns og gaman þegar maður sér gamla góða De Gea í markinu
Gísli G. says
Þetta gera ekki mörg lið – vinna PSG – verandi í náttfötum :-)