Stórleikirnir koma í röðum þessar vikurnar, Tveir fræknir meistaradeildarsigrar komu sitt hvor megin við jafnteflið við Chelsea og á morgun verður aftur slagur tveggja stjóra sem mikið er talað um, Mikel Arteta mætir með sína menn á Old Trafford. Mikel Arteta tók við Arsenal rétt fyrir jól í fyrra eftir að Unai Emery var sparkað og náði að setja mark sitt á liðið. Það fer tvennum sögum af því hversu vel, Arsenal tók vissulega enn einn Englandsbikar en gengið hefur verið upp og ofan. Stuðningsmenn eru hæstánægðir virðist vera og nokkrir leikmenn hafa stigið upp og sýnt gott spil. Arsenal er hins vegar einungis með tveimur stigum meira en United og hefur leikið leik meira. Þeir hafa vissulega unnið þrjá leiki, en tapað hinum þremur. Það hljómar illa en töpin komu gegn Manchester City, Liverpool og síðan Leicester City um síðustu helgi. Tveir af sigrunum hafa síðan komið gegn Fulham og Sheffield United, liðum sem hafa virst heillum horfin.
Það verður því ágæt prófraun á þessi tvö lið þegar þau mætast á morgun, og virðist afskaplega nauðsynlegt að fara með þrjú stig úr leiknum. Arsenal er auðvitað í Evrópudeildinni í vetur sem bikarmeistarar og unnu Dundalk auðveldlega á fimmtudaginn. Rúnar Alex Rúnarsson fékk að spreyta sig, en það eru engar líkur til að Arteta fari að taka hann fram fyrir Bernd Leno á morgun. Liðið gegn Dundalk var á svipuðum nótum, aðallega aukaleikarar.
Arteta hefur verið að spila með þrjá aftast en nú er David Luiz meiddur til að bæta ofan á varnarvandræðin, en þeir Rob Holding, Pablo Marí og Calum Chambers eru þegar frá. Því er líklegra að það verði fjögurra manna vörn.
Framar eru Willian og Dani Ceballos að koma til baka og verður fróðlegt að sjá hvort Willian fer beint í liðið. Hver sem er þeirra Lacazette, Aubameyang eða Saka gætu misst sætið og svo er Nicolas Pepe að gera tilkall, var víst góður gegn Dundalk. Auba hefur ekki skorað nema eitt mark í deild og þarf að fara að komast í gang til að réttlæta nýja fína samninginn sinn. Lacazette hefur skorað þrjú og því mætti búast við að hann væri þarna áfram en það virðist ekki álit sérfræðinganna.
United hefur verið að stilla upp með tvo sóknarmenn, og væri vissulega gaman að sjá það móti fjögurra manna vörn á morgun. Tígulmiðjan tókst vel gegn Leipzig og allt í lagi að reyna hana aftur. Ef svo verður er mun líklegra að það verði Nemanja Matić sem verði aftastur.
Það vantar Anthony Martial sem er auðvitað enn í banni og væri spennandi að sjá uppöldu mennina tvo frammi, en það er alveg víst að Edinson Cavani mun koma við sögu í leiknum, frekar fyrr en síðar.
Spái því að Pogba byrji eftir góðan leik gegn Leipzig og Bruno Fernandes verður á sínum stað. Við sáum á miðvikudaginn að vörnin er farin að þéttast og hún verður óbreytt.
Mike Dean verður á flautunni og blístrar leikinn á kl 16:30
Valdimar says
Fín samantekt:)
Bjarni Ellertsson says
Úti sólin skín, litlu fuglarnir flögra um í garðinum, vöfflur í kaffinu, sigurleikur, sunnudagssteikin, Einstein og Ráðherran (línulegir) í kvöldsjónvarpinu, kvöldkaffi, leggst síðan glaður á koddann. Hvað er hægt að hafa það betra?
GGMU