Það eru nokkrir hlutir í þessu lífi sem eru eins öruggir og sólarupprásin sem boðar nýjan dag. Skattaskýrslan á hverju ári, dauðinn, Sjálfstæðisflokkurinn er spilltur, jólin mæta til leiks seint í desember og jú, Manchester United lendir undir á útivelli í deildinni en snýr því í sigur. Þannig fóru leikar einmitt í kvöld, United lenti undir, komst 1-3 yfir eftir þrjú algjörlega frábær mörk en gerði leikinn svo óþarflega spennandi í restina eftir klaufalegan varnarleik í hornspyrnu. Hvað annað er nýtt að frétta?
Við tökum þessu þó með glöðu geði og staðan á töflunni er ansi vænleg áður en jólatörnin fer fyrir alvöru á flug. 2 stig í 2. sætið með leik til góða á öll liðin fyrir ofan okkur. Hvað sem segja má um spilamennsku liðsins að undanförnu þá er það ansi góð staða.
Næsti leikur verður svo gegn erkifjendunum í Leeds United á sunnudaginn, klukkan 16:30. Það er spurning hvort það hamli Manchester United eitthvað að sá leikur sé á heimavelli en við vonum ekki. Spennandi tímar framundan.
Staðan í deild og punktar eftir leikinn
Staðan í deildinni er mjög álitleg, eins og sjá má hér til hliðar. Gengið á útivöllum er frábært. Liðið hefur skorað 19 mörk á útivöllum í vetur, 4 meira en næsta lið. Liðið hefur unnið 10 deildarleiki í röð á útivöllum og skorað 2 eða fleiri mörk í þeim öllum. Liðið hefur unnið alla sex útileikina á tímabilinu eftir að hafa lent undir í þeim öllum. Það er fáránlegt met. Fáránlegt og skemmtilegt!
Getur þetta samt haldið endalaust áfram? Þarf ekki að fara að finna leið til að byrja leiki vel frekar en að þurfa að treysta á galdra til að snúa leikjum endalaust?
Marcus Rashford var frábær í kvöld. Manni finnst hann enn eiga ýmislegt inni en hann er enn ungur og getur náð ansi langt ef hann heldur áfram á sömu braut.
Það var gott að sjá Martial skora eftir næstum 700 mínútur spilaðar án marks.
Bruno er galdramaður en það er alltaf betra þegar hann þarf ekki að gera allt einn og hefur einhvern með sér á miðjunni sem er skapandi og góður í sendingum sem skera línur og skapa usla. Pogba er frábær í því en það er spurning hversu lengi við höfum hann. Í það minnsta væri betra að hafa meira jafnvægi en felst í t.d. Fred og McTominay fyrir aftan Bruno, með fullri virðingu fyrir þeim báðum.
Dean Henderson var ekki beint að gera de Gea mjög stressaðan með þessari frammistöðu. Hann þarf að bæta sig í stutta spilinu og verða öruggari í því. Hann hefur margt við sig og getur vonandi bætt það sem þarf að bæta.
Þrátt fyrir að andstæðingurinn væri í slakari kantinum (samt ekki eins slakur og taflan gefur til kynna) þá átti Manchester United erfitt með að skapa eitthvað í beinu spili. Það virtist alltaf þurfa skyndisóknir til. Það er vissulega baneitrað vopn hjá okkar mönnum en það hlýtur að þurfa að skerpa líka á spilinu þegar andstæðingurinn er búinn að koma sér í stöður. Við hljótum að vera með mannskap í að geta gert góða hluti þar líka.
Grunnupplýsingarnar úr leiknum
Solskjær ákvað að gefa Dean Henderson sénsinn gegn sínum gömlu félögum, eins og skýrsluhöfundur óskaði eftir í upphitun fyrir leikinn. Ánægjulegt að sjá það, svona fyrirfram allavega. Byrjunarlið United var á þessa leið:
Bekkur: De Gea, Shaw, Fred, Mata (74′), McTominay (90′), van de Beek (80′), James.
Heimamenn stilltu upp þessu byrjunarliði:
Bekkur: Verrips, Sharp, Brewster (74′), Jagielka (inn 12′, út 63′), Mousset (63′), Norwood, Osborn.
Dómari leiksins var Michael Oliver. VAR-herbergið hafði hægt um sig í þessum leik, aldrei þessu vant.
Leikurinn sjálfur
Það hefði líklega ekki átt að koma neinum á óvart en Sheffield United byrjaði þennan leik betur en okkar menn. Þeir lögðu upp með að pressa hátt á okkar menn og enn einu sinni voru okkar menn ekki alveg tilbúnir í byrjun leiks. Eitt sinn sem oftar kostaði það mark.
Á fimmtu mínútu leiksins var aftasta lína Manchester United, sérstaklega Harry Maguire og Dean Henderson, ekki alveg á tánum þegar Oliver Burke og David McGoldrick settu pressu. Henderson gaf boltann á Maguire sem gaf aftur til baka á Henderson. Henderson var þá kominn með Burke í andlitið, missti boltann frá sér, Burke náði að klóra boltann á McGoldrick sem skoraði framhjá gamla félaga sínum í markinu. Virkilega klaufalegt mark okkar megin, góð harðfylgni hjá heimamönnum. Henderson hefur líklega viljað sjá betri byrjun á þessum leik eftir að hafa fengið sénsinn. Maguire hefði líka átt að gera betur þarna, bæði í sinni staðsetningu og sendingunni til baka. Þeir deila sök þarna en þetta náði þó að vekja þá þannig að báðir áttu góðan leik eftir þetta. Þar til kannski undir lokin, en meira um það síðar.
Sheffield United er alls ekki galið lið. Það að þeir séu bara með 1 stig eftir 13 leiki er grimmilega ósanngjarnt miðað við að þeir eru með góðan og skemmtilegan stjóra, áhugaverða nálgun á leikinn og bara fínasta lið. Fyrsta hálftímann eða svo voru þeir líka flottir í þessum leik. Manchester United var meira með boltann en Sheffield United vann pressuna sína vel, leyfði gestunum lítið að komast áleiðis með boltann og færðu svo pressuna sína ofar á völlinn þegar þeir sáu færi á því. Okkar United komst almennt ekki langt inn á þeirra vallarhelming með boltann.
Á 16. mínútu voru þeir Sheffield-menn næstum búnir að njóta góðs af því þegar þeir bjuggu sér til fínasta færi á D-boganum eftir laglegt spil um vinstri kantinn. John Fleck, einn markaskorara Sheffield frá sömu viðureign í fyrra, fékk þá alltof langan tíma til að leggja boltann fyrir sig og skjóta. Sennilega of langan tíma fyrir sig líka því hann lagði boltann rétt framhjá stönginni. Hefði svo sannarlega átt að gera betur þarna.
Fyrstu 25 mínúturnar voru Sheffield United betri aðilinn í leiknum. Helstu tilraunir Manchester United komu eftir stungusendingar þar sem Rashford og Martial voru hárfínt rangstæðir. En svo náðu þeir að tímasetja þetta vel. Lindelöf fékk boltann aftast í vörninni. Varnarlína Sheffield leit á það sem tækifæri til að stíga enn lengra upp. En Dr. Marcus Rashford OBE sá þetta einmitt sem tækfæri til að stinga sér inn fyrir, vitandi það að Lindelöf getur svo sannarlega hent í góðar langsendingar. Svíinn sá hlaupið, smellti boltanum óaðfinnanlega beint í hlaupaleið Rashford. Rashford tók fyrstu snertingu sem var beint úr Móttökuháskóla Dimitar Berbatov áður en hann afgreiddi boltann strax í næstu snertingu í netið. Frábært mark og staðan orðin jöfn.
Hér í denn gátum við alltaf séð það þegar bæði liðin vissu að það var gjörsamlega óhjákvæmilegt að Manchester United myndi vinna leikinn. Það var skrifað í skýin, meitlað í steininn, handskrifað í Íslandssögurnar, nú falla öll vötn til Dýrafjarðar stemningin. Örlögin og forlögin voru skrifuð, skjalfest og þinglýst.
Kannski er sú stemning að myndast aftur í kringum Manchester United. Á útivöllum. Í deildinni. Getur Manchester United skorað? Þeir skora ALLTAF!
Það liðu allavega ekki margar mínútur þangað til Manchester United var komið yfir. Þótt hann hafi hvorki fengið mark né stoðsendingu skráð á sig þá átti Paul Pogba þetta mark. Bruno hafði dregið sig út á hægri kantinn og fékk boltann þangað. Hann sá Pogba hlaupa í fínt pláss á miðjuni og gaf á Frakkann. Pogba henti þá blindandi í geggjaða stungusendingu í fyrstu snertingu sem fann Martial í hlaupinu. Ramsdale í marki Sheffield United kom spriklandi út úr markinu, fékk boltann í sig og eyðilagði þar með stoðsendingarskráningu Pogba, Martial fylgdi því svo eftir og skoraði. Frábært mark og Manchester United komið yfir!
Eftir það var vindurinn dálítið úr Sheffield United. Pressan þeirra var ekki jafn markviss og Manchester United fékk meira að nýta possessionið í að loka leiknum. Henderson varði þó reyndar tvisvar vel í fyrri hálfleik en í bæði skiptin úr þröngum færum. 1-2 í hálfleik.
Marcus Rashford var sprækasti maður vallarins þegar seinni hálfleikurinn byrjaði. Hann átti frábæran sprett upp vinstri kantinn þar sem hann klobbaði einn og spændi sig framúr tæklingum á alla bóga áður en hann bjó til færi fyrir Greenwood. Það nýttist ekki en maður minn sem þessi sprettur var fallegur.
Stuttu síðar var Rashford þó búinn að auka forystuna og skora markið sem hefði í raun átt að klára þennan leik. Pogba bar þá boltann upp úr vörninni, Zidane-snéri á einn ólukkans Sheffield-mann áður en hann gaf boltann á Bruno. Bruno átti fágaða utanfótarsnertingu sem sendi boltann í hlaupaleiðina hjá Mason Greenwood. Greenwood litli náði því miður ekki að snerta boltann því fautinn Jakielka straujaði okkar mann niður, pjúra aukaspyrna. En Michael Oliver gerði vel í að láta leikinn fljóta því hann sá að Rashford var í séns að ná til boltans og halda sókninni áfram. Og það gerði hann! Rashford sendi boltann í fyrsta á Bruno sem fann Martial sem átti snertingu aftur á Rashford. Rashford lét þá vaða í fyrsta, í D-boganum, á sama stað og Fleck fékk færi í fyrri hálfleik, nema nú söng boltinn í netinu. Ekki endilega frábærasta tilraun markvarðar til að verja bolta hjá Ramsdale en gjörsamlega húrrandi flott sókn í alla staði hjá Manchester United og staðan orðin 1-3.
Eftir þetta þá datt tempóið pínu úr leiknum. Manchester United var með boltann en skapaði ekki mikið í gegnum beint spil, það var frekar að næðist eitthvað álitlegt upp úr skyndisóknum. Sheffield United var ekki með sömu ákefð og til að byrja með og vörnin hjá Manchester United átti yfirleitt ekki í miklum vandræðum með sóknartilburði heimamanna.
Mata kom inn á fyrir Mason Greenwood á 74. mínútu, sá síðarnefndi hafði haft frekar hægt um sig í þessum leik. Mata var rétt kominn inn á þegar hann bjó til dauðafæri fyrir Martial eftir frábæra sendingu frá Bruno. Martial skaut þá á markið eftir að markmaðurinn var farinn úr því til að reyna að blokka Mata en tveir varnarmenn Sheffield United hentu sér fyrir skotið og náðu að blokka það.
Annars var pínu eins og leikmenn væru að reyna að spara orku. Skiljanlegt að einhverju leyti þar sem það er jú að detta í grimma jólatörn. Donny van de Beek kom þó ekki inn á fyrr en á 80. mínútu. Það er spurning hvort hann hefði ekki mátt koma fyrr inn á.
Á 87. mínútu fengu Sheffield United hornspyrnu sem þeir hefðu aldrei átt að fá. Það er spurning hversu langt VAR á að teygja sig til að finna afsakanir til að dæma mörk af en ég held nú að ekki nokkur einasti knattspyrnuáhugamaður vilji sjá VAR notað til að ákvarða hvort það eigi að dæma hornspyrnu eða ekki, burtséð frá niðurstöðum hornspyrnunnar.
Við getum samt gefið dómaranum og aðstoðardómaranum það að það var ekki auðvelt að sjá að boltinn fór vissulega ekki síðast af Telles áður en hann fór aftur fyrir. Og svo sannarlega var það ekki dómarinn sem átti sök á klaufaskap í vörn Manchester United í þessari hornspyrnu. Hornið var tekið á fjær þar sem David McGoldrick stökk manna hæst. Hann náði þó ekki að skalla boltann en náði að blokka skalla Victor Lindelöf sem ætlaði að hreinsa frá. Lindelöf skallaði því boltann í hnakkann á McGoldrick og í markið. Okkar besti skallamaður, Harry Maguire, var þarna nálægt líka. Setja má spurningamerki við báða miðverðina í þessu og svo var Dean Henderson ekki að gera neitt aukalega þarna, þótt það væri alltof grimmt að kenna honum um markið. 2-3 staðan og lokamínúturnar óþarflega spennandi.
Henderson náði þó að sýna sig í lokin þegar hann varði þrususkot frá Lys Mousset. Mjög vel varið og innsiglaði það að United fór með stigin þrjú til Manchester. Öruggari sigur en lokamínúturnar gáfu til kynna.
Athugið. Ummæli um Sjálfstæðisflokkinn eru alfarið á ábyrgð skýrsluhöfundar og endurspegla ekki endilega skoðun allra sem skrifa á Rauðu djöflunum.
Helgi P says
Hvað þarf Van de Beek að gera til að komast í þetta lið hann á alltaf að byrja inná fyrir Pogba
Turninn Pallister says
Er með slæma tilfinningu fyrir þessum leik. Æjjiii :(
Egill says
Hversu lélegur þarf Maguire að vera til að missa sæti sitt í liðinu?
Settu Henderson undir óþarfa pressu og lét hann ekki vita að það væri maður á leiðinni, what a captain.
Ekki það skelfileg mistök hjá Henderson, ég get rét ímyndað mér skellinn sem De Gea hefði fengið fyrir svona rugl.
Egill says
Vantaði kommu á eftir “ekki það”, þetta voru s.s. skelfileg mistök ;)
Rúnar P says
Ole reiður á kantinum, ánægður með hann, hefur klárlega verið í kaffi hjá Fergi 😉
SHS says
Bara benda ykkur haters á að ef við vinnum næsta leik erum við í öðru sæti. Ekki Óla að kenna að þessir gæjar geta ekki byrjað leik öðruvísi en á afturfótunum
Atli+Þór says
Enn einn endurkomu útisigurinn. Flott leikskýrsla, gaman að þessu :)
Cantona no 7 says
Frábær sigur.
Gott að Martial náði að skora og vonandi kemst hann á skrið.
Erfiður leikur á móti Leeds næst en við eigum vel að geta
unnið þá.
G G M U
Tómas says
Þessi Leeds leikur gæti orðið skemmtilegur. 5 mörk eða meira í þeim leik kæmi mér ekki á óvart. Vonandi skorum við megnið af þeim.
Annars var þetta fín spilamennska á köflum í kvöld. Staðan í deildinni er bara furðugóð en það þurfa hlutir að breyttast í þessu liði ef þeir eiga vera að sækja einhverja titla.
Pogba leik vel heilt yfir, en lék sér líka nokkrum sinnum að eldinum og tapaði boltanum á hættulegum stað þegar hann ætlaði hanga á boltanum. Rashford góður, Greenwood smá vonbrigði en ég er viss um að hann fari að sýna meira fljótlega.
Thorleifur says
Góð 3 stig og enn betri leikskýrsla hjá þér Halldór takk fyrir það 🎅🎅🎅
Karl Garðars says
Það sem stendur upp úr þessum leik er frammistaða Halldórs og Rashford. Pogba og Bruno voru ágætir líka.
Maður leiksins er samt tvímælalaust Halldór. Sjálfstæðisflokks disclaimerinn toppaði allt.
Ég kvíði Leeds leiknum aðeins en þá mun koma betur í ljós hverjir hafa United DNA í sér og spila fyrir merkið. Það var að vísu ekki að finna marga af þeim skólanum á móti city um daginn. Too many bluffers eins og gladiatörinn okkar gamli orðaði það.
Vonum það besta samt.