Það hefur liðið talsvert langur tími síðan að Manchester United og Leeds United leiddu saman hesta sína í deildarleik. En á morgun – 20. desember, kl. 16:30 gerist það loks á ný! Liðin gerðu 1-1 jafntefli á Old Trafford, þann 24. febrúar 2004. Paul Scholes kom okkar mönnum yfir en Alan Smith jafnaði stuttu síðar og nokkrum mánuðum seinna gekk hann til liðs við okkur og hafa margir Leeds stuðningsmenn enn ekki fyrirgefið honum þau svik. Manchester United og Leeds líkar nefnilega bara alls ekkert vel við hvort annað.
Fjandskapur liðanna og aðdáenda á rætur sínar að rekja alla leið aftur til Rósastríðanna sem áttu sér stað með hléum á árunum 1455-1485. Í þeirri blóðugu baráttu áttust við tvær greinar ensku konungsættarinnar, York og Lancaster. Báðar ættir höfðu rós í skjaldarmerki sínu, Lancaster-ættin rauða og York hvíta. Stríðinu lauk með því að ættirnar sameinuðust, sem er ólíkleg niðurstaða í fjandskap Man Utd og Leeds. Iðnbyltingin átti svo seinna meir eftir að spila hlutverk í þessari miklu samkeppni sem ríkti milli borganna.
Inni á knattspyrnuvellinum átti Man Utd betra gengi að fagna og hafði fagnað Englandsmeistaratitlinum tvisvar áður en liðin mættust fyrst undir núverandi merkjum og nöfnum, í maí árið 1920. Rauða liðið frá Manchester vann þann daginn og raunar tók það Leeds 5 ár að næla í fyrsta sigurinn gegn verðandi erkifjendunum. Liðin áttu þá ekki góðu gengi að fagna í kringum þetta tímabil og það var ekki fyrr en eftir seinni heimsstyrjöldina sem að Manchester United, undir stjórn Matt Busby, varð eitt af bestu liðum Englands. Þá hafði Man Utd unnið efstu deild þrisvar sinnum áður en Don Revie tók við Leeds og gerði þá að frábæru fótboltaliði. Þar með voru hvítklæddir Leedsarar ekki bara sögulegir og landfræðilegir fjendur Man Utd, heldur voru þeir líka skrambi góðir í fótbolta, þó að sumum þætti þeir kannski full grófir og harðir í horn að taka.
Busby og Revie hurfu á braut og aftur kom þurrkatíð hjá liðunum. Það var svo þegar rauða liðið frá Manchester eygði loks betri tíma undir stjórn Sir Alex Ferguson að Leeds komst aftur í deild þeirra bestu árið 1990 með Howard Wilkinson við stýrið. Tímabilið 1991-92 voru það gömlu óvinirnir sem kepptust um að vinna fyrsta deildartitilinn í háa herrans tíð og í deild sem kallaðist í síðasta sinn Fyrsta deildin. Þar reyndust Leeds sterkari á lokasprettinum og unnu fjóra af síðustu fimm leikjum sínum á meðan að Man Utd brotnaði undir pressunni. Snemma á næsta tímabili varð svo ákveðinn vendipunktur þegar að Manchester United keypti kónginn Eric Cantona frá Leeds fyrir 1.2 milljónir punda. King Eric leiddi Manchester United til fjölda titla og Leeds voru… samkeppnishæfir, greyin.
Í kringum aldamótin voru Manchester United enn stærsta og besta lið Bretlandseyja en það var spennandi lið að verða til í Vestur-Jórvíkurskíri. Í liðinu spiluðu margir góðir leikmenn á borð við Mark Viduka, Alan Smith, Harry Kewell og síðastur en ekki sístur, Rio Ferdinand. Þetta lið komst alla leið í undanúrslit Meistaradeildarinnar árið 2001. Þetta var þó í raun allt byggt á sandi þar sem að ævintýralegum upphæðum hafði verið eytt í leikmenn og þegar liðinu mistókst að tryggja Meistaradeildarsæti árið 2002 að þá greindi Peter Ridsdale, stjórnarformaður Leeds frá því að félagið væri í miklum mínus og skuldaði himinháar upphæðir.
Við United stuðningsfólk getum þó ávallt verið Leeds þakklát fyrir endalok 2002-03 tímabilsins. Þá mætti liðið Arsenal í næst síðustu umferð Úrvalsdeildarinnar og staða liðanna gjörólík. Leeds þurfti sárlega á stigum að halda til að halda sér í deildinni en Arsenal varð að vinna til þess að eiga möguleika á að halda titlinum í Lundúnum eftir að United hafði farið á skrið og hirt toppsætið sem hafði svo lengi verið í eigu Arsenal það tímabil. Skemmst er frá því að segja að Mark Viduka kom stuðningsmönnum Arsenal til að skæla og leikmenn Man Utd syntu í kampavíni á Carrington æfingasvæðinu!
Ári síðar var Leeds fallið, flakkaði í kjölfarið á milli neðri deilda, í ömurlegum fjárhagsvandræðum og liðin hafa einungis mæst tvívegis síðan þá. Jermaine Beckford skoraði mark á Old Trafford sem allir stuðningsmenn Man Utd vilja helst gleyma, þegar Leeds sló okkur út í 3. umferð FA bikarsins árið 2010 með 0-1 sigri. Man Utd vann svo 3-0 sigur á Elland Road árið 2011, þar sem að Paul Pogba spilaði í fyrsta sinn fyrir félagið.
Nú er öldin önnur og Leeds aftur í deild þeirra bestu, með skemmtilega spilandi lið sem sækir á öllum mönnum! Ég sé fyrir mér fjandi erfiðan leik þar sem að það er eins gott að okkar menn mæti með hausinn rétt skrúfaðan á frá fyrstu mínútu. Í liði Leeds ber helst að varast Patrick Bamford, sem meira að segja hörðustu Leedsarar höfðu enga trú á að gæti leitt framlínu liðsins í Úrvalsdeildinni. Þjálfari liðsins, Marcelo Bielsa, er einstakur í einu orði sagt. Lið hans spila hápressubolta, sækja á mörgum leikmönnum og hlaupa úr sér lungun. Við fengum að kenna á hans meðali árið 2012 þegar að Athletic Bilbao hreinlega hló að okkur og við virtumst aldrei líklegir til afreka í því einvígi.
Ég spái 3-1 sigri okkar manna og ég yrði steinhissa ef að Bruno Fernandes færi tvo leiki í röð án þess að leggja upp eða skora.
Líkleg byrjunarlið:
Man Utd:
Leeds Utd:
Skildu eftir svar