Þá er komið að síðasta leik Manchester United á þessu fordæmalausa ári 2020. Leikur númer 56 í öllum keppnum og 33. leikur í ensku úrvalsdeildinni. Við ljúkum árinu á Old Trafford gegn Wolves. Lið sem okkar mönnum hefur gengið illa með að leggja að velli. Síðan að Wolves snéri aftur í deild þeirra bestu á Englandi haustið 2018 hafa liðin mæst sjö sinnum bæði í deild og bikar. Af þeim leikjum vann United einn leik sem var endurtekinn bikarleikur sem spilaður var í janúar á þessu ári. Annars hafa úlfarnir sigrað tvo leiki og hinir fjórir leikirnir endað með jafntefli. Því má búast við erfiðum leik fyrir okkar menn gegn mjög svo óárennilegum úlfum.
Wolverhampton Wanderers
Árangur Wolves á þessu tímabili hefur ekki verið alveg í takti við síðustu tvö ár þar sem þeir börðust um Evrópudeildarsæti og jafnvel Meistaradeildarsæti um tíma og enduðu í bæði skiptin í sjöunda sæti. Þeir sitja núna í ellefta sæti deildarinnar en með sigri á okkar mönnum mætti segja að þeir væru að komast á par miðað við fyrri tímabil. Þeim gekk þokkalega vel framan af á tímabilinu en það má segja að ákveðin kaflaskil hafi orðið í sigurleik þeirra gegn Arsenal í lok nóvember. Þá lenti Raúl Jiménez í hræðilegu samstuði sem olli því að höfuðkúpa hans brotnaði. Það þýddi að einn áreiðanlegasti senter deildarinnar og markahæsti leikmaður Wolves síðustu tvö tímabil yrði frá í langann tíma. Í kjölfarið hafa þrír leikir tapast, eitt jafntefli og einn sigur. Í stað hans kom inn í liðið 18 ára portúgali, Fabio Silva sem keyptur var frá Porto í sumar. Ótrúlegt en satt þá er hann ekki með Jorge Mendes sem umboðsmann eins og hinir sjö landar hans í liðinu og þjálfarinn. Fabio er ekki sami storm senterinn og Jiménez og hefur því liðið sett meiri ábyrgð á aðra leikmenn liðsins í sóknini. Þar eru landar hans Pedro Neto og Daniel Podence fremstir í flokki. Smáir, snaggaralegir og flinkir er það sem einkennir þessa tvo leikmenn sem hafa stigið upp, bæði eftir brotthvarf Diogo Jota til Liverpool og meiðsli Jiménez. Einnig búa úlfarnir yfir einum kraftmesta leikmanni deildarinnar, fljóti og sterki Adama Traoré. Þrátt fyrir alla sína hæfileika er Traoré iðulega notaður sem varamaður til að brjóta upp leiki og herja á þreyttar varnarlínur í seinni hálfleikjum leikja. Hann hefur aðeins byrjað átta leiki á tímabilinu og komið inn á í hinum sjö. Ásamt Jiménez eru Jonny, Leander Dendoncker og Willy Boly á meiðslalistanum.
Nuno Santo þjálfari þeirra hefur iðulega látið liðið leika í 3-4-3 kerfi síðustu ár með góðum árangri en virðist nú byrjaður að prufa önnur kerfi. Hann hefur verið að hringla með 4-3-3 og 4-2-3-1 kerfin ásamt þriggja varnarmannakerfinu á þessu tímabili. Tvær ástæður liggja þar að baki helst. Meiðsli á miðvörðum og að vera ekki eins fyrirsjáanlegur, brjóta aðeins upp leik síns liðs sem önnur lið voru byrjuð að lesa í. Ég spái að Wolves spili þó með sitt 3-4-3 kerfi. Ástæðan fyrir því er sú að okkar mönnum hefur gengið oft á tíðum bölvanlega gegn liðum sem spila þetta kerfi og hafa mikil gæði fram á við. Þar má nefna leikinn gegn Arsenal, RB Leipzig út í Þýskalandi og gegn PSG á Old Trafford þar sem ný rekinn stjóri þeirra Thomas Tuchel skipti yfir í þetta kerfi sem á endanum færði þeim sigurinn.
Líklegt byrjunarlið:
Manchester United
Þá að okkar mönnum. Súrt jafntefli gegn góðu liði Leicester um helgina var spark í rassinn á okkar mönnum, allavegana samkvæmt aðal manni liðsins Bruno Fernandes. Hann kom í viðtal eftir leik á MUTV og sagði frá sinni upplifun í klefanum eftir leik. Hann sagðist vera ánægður að sjá hversu margir voru vonsviknir eftir leikinn og að menn töluðu um að gera ákveðna hluti betur. Þetta sýnir fram á það sigur hugarfar sem Ole er að reyna byggja upp og er hinn kröfuharði Bruno fullkomið púsl inn í þá uppbyggingu. Menn hlusta á portúgalann, enda síðan að kappinn lék sinn fyrsta leik sem var einmitt gegn Wolves fyrir 11 mánuðum hefur hann verið svo gott sem bæði potturinn og pannan í leik liðsins. Sem dæmi má nefna hefur hann komið að beinum hætti að 31 marki í deildinni af 60 mörkum hjá okkar mönnum. Galið!
Í leiknum um helgina fór Lindelöf meiddur af velli og Rashford kveinkaði sér undir lok leiks í öxlinni sem hefur verið að plaga hann á tímabilinu. Því má búast við að hvorugur þeirra verði með annað kvöld. Ole mun áreiðanlega breyta aðeins til á miðjunni frá síðasta leik og einnig ósennilegt að Shaw spili tvo leiki með svona skömmu millibili. Vonandi verður Wan-Bissaka klár fyrir leikinn svo við losnum undann því að nota miðvörð í bakverðinum.
Líklegt byrjunarlið:
Leikurinn annað kvöld er gullið tækifæri í að sýna hinum liðunum í deildinni og stuðningsmönnum að United ætlar að stefna á þann stóra í vor. Liverpool gerði jafntefli um helgina og Leicester og Chelsea gerðu jafntefli í sínum leikjum í dag. Það þýðir að þrjú stig væru hrikalega dýrmæt. Wolves fékk rúmum einum sólarhring minni hvíld fyrir leikinn sem er hellingur í miðri jólatörn. Hinsvegar er þetta Wolves lið hrikalega vel þjálfað sem má sjá með því hvenær þeir hafa skorað sín mörk í síðustu þrem leikjum. Í tveim leikjum á síðustu fimm mínútunum og svo eitt á sjöttu mínútu uppbótartíma gegn Chelsea.
Jon Moss flautar leikinn á kl. 20:00
Skildu eftir svar