Nýtt ár handan við hornið. Okkar menn hefja árið 2021 aðeins 20 tíma inn í nýja árið. Þá mætir Dean Smith með grallarana sína í Aston Villa á Old Trafford. Þetta er síðasta prófraunin í deildinni fyrir sennilega stærsta leik tímabilsins hingað til gegn Liverpool á Anfield. Með sigri gegn Villa og að leggja Liverpool síðar í janúar af velli verðum við í efsta sæti deildarinnar. Það þegar mótið verður svo gott sem hálfnað. Nú er ég hættur að prjóna yfir mig í þessum framtíðar pælingum. Snúum okkur að mótherjum morgundagsins.
*Eftir að þetta var skrifað staðfesti enska úrvaldeildin að frestaður leikur gegn Burnley úr fyrstu umferð verður spilaður þann 12. janúar.*
Aston Villa
Glaumgosarnir frá Birmingham eru ekki búnir að tapa leik í síðustu fimm leikjum og þar af unnið þrjá þeirra. Það er í takt við það ótrúlega tímabili sem þeir eru að ganga í gegnum. Dean Smith hefur náð að skapa hrikalega sterka hryggjarsúlu í liðinu frá síðasta tímabili þar sem Aston Villa forðaðist fall með naumindum. Þeir mega þakka að í fyrsta skipti í 9.000 leikjum klikaði marklínutæknin gegn Sheffield United og það tryggði þeim það stig sem hélt þeim að lokum uppi.
Þeir keyptu Ollie Watkins frá framherja framleiðandanum Brentford úr næstefstu deild fyrir þetta tímabil. Hann er kominn með 6 mörk í 14 leikjum og helmingur markana kom í hinum ótrúlega 7-2 sigri þeirra á Liverpool fyrr á tímabilinu. Einnig náðu þeir í Emiliano Martinez frá Arsenal sem spratt fram á sjónarsviðið í sumar eftir að Leno meiddist hjá Arsenal. Átta sinnum búinn að halda hreinu sem af er tímabils sem er biluð tölfræði fyrir lið sem fékk næst flest mörk á sig í fyrra. Kóngurinn í þessu liði en jafnframt sennilega hirðfíflið líka, er Jack Grealish. Ég get bókað það að ef hann væri spænskur og héti Juan Gracia væri hann að spila með Real, Barcelona eða Pep væri búinn að næla í hann til Manchester. En Grealish er enskur Birmingham strákur sem spilar á laugardögum og djammar á kvöldin. Frábær leikmaður með hjarta fyrir sínum klúpp. Ég gæti talað lengi um svægi hans sem leikmanns, en læt þetta duga. Fyrir utan þessa þrjá hafa allir leikmenn Aston Villa á þessu tímabili verið að spila hrikalega vel. Enda ekki annað hægt fyrri lið af þeirra styrkleika, þar sem liðið situr í fimmta sæti deildarinnar með tvo leiki til góða.
Eini á meiðslalista Aston Villa er kantmaðurinn Trézéguet. Fyrir leikinn mun Ross Barkley sennilega snúa til baka úr meiðslum. Tyron Mings mun svo koma aftur inn í liðið eftir að hafa tekið út leikbann í síðustu umferð.
Líklegt byrjunarlið:
Manchester United
Okkar menn koma inn í síðasta leik hátíðartarnarinnar ósigraðir með markatöluna 14-8 í fimm leikjum. Það er greinilegt að sóknarleikurinn nær alltaf að tikka áfram hjá okkur með Bruno fremstan í flokki. Hvort sem það eru Leedsarar með víðáttubrjálæði eða varnarsinnaðir úlfar, við finnum alltaf leið til að skora. Sama er ekki hægt að segja um varnarleikinn. Hann virðist oft vera í ökkla eða eyra. Tvö mörk fenginn á sig gegn Sheffield United sem fyrir þann leik hafði í mesta falli skorað eitt mark í leik. Á hinn bogin náði vörnin að slökkva á sjóðandi heitum Calvert-Lewin og Gylfa hjá Everton. Vonandi ná okkar menn að halda aftur að hrikalega skemmtilegum sóknarleik Villa manna.
Lindelöf er en meiddur eftir að hafa spilað hægri bakvörðinn gegn refunum og svo er Rojo á sjúkra bekknum bíðandi eftir því að komast í annað lið. Annars eru allir klárir fyrir leikinn. Það er í takt við það sem Ole Gunnar kom inn á í viðtal eftir síðasta leik. Þar sagði hann að liðið væri í framúrskarandi líkamlegu og andlegu formi um þessar mundir. Ég spái því að Ole stillir upp í svipað lið og gegn Wolves með örfáum breytingum.
* Eftir að þetta var skrifað staðfesti enska knattspyrnusambandið að Cavani væri kominn í þriggja leikja bann eftir ummæli á Instagram. Tekur það gildi um leið og verður hann því ekki tiltækur gegn Aston Villa. Hann mun einnig vera í banni gegn Manchester City í deildarbikarnum og Watford í FA bikarnum.*
Líklegt byrjunarlið:
Búast má við töluvert líflegri leik heldur en Wolves leiknum. Vonum að árið byrji með sigur hvelli á heimavelli! Michael Oliver fær það skemmtilega verkefni að dæma þennan leik á nýársdag. Leikurinn hefst kl. 20:00
Við í Djöflavarpinu fórum yfir síðustu þrjá leiki fyrir komandi leik gegn Aston Villa. Þar veltum við okkur upp úr ýmsum atriðum og punktum sem komið hafa fram í leik liðsins að undanförnu. Einnig ræddum við það sem framtíðin gæti borið í skauti sér á nýju ári.
https://open.spotify.com/episode/11aKV1yItKMn7qcmWy1RaT?go=1&utm_source=embed_v3&si=ojk4EgHbRDWQm0GDmA2B9Q&t=0&nd=1
Skildu eftir svar