Manchester United kláraði verkefnið þægilega og sýndi enn einu sinni að ein af grunnstoðum félagsins er unglingastarfið. Shola Shoretire varð yngsti leikmaður í sögu félagsins til að spila í Evrópu og Amad Diallo kom inn á. Dregið verður í 16-liða úrslitin á morgun.
Þetta helsta
Solskjær ákvað að hvíla fyrirliðann í þessum leik. Hins vegar var Bruno varafyrirliði félagsins ekki hvíldur svo hann bar bandið þegar leikur hófst. Juan Mata var ekki í hóp, ekki heldur Donny van de Beek, McTominay eða Cavani. Byrjunarlið United var svona:
Bekkur: De Gea, Grant, Bishop, Maguire, Tuanzebe (45′ fyrir Fred), Shaw, Williams (45′ fyrir Wan-Bissaka), Galbraith, Amad (59′ fyrir James), Rashford (45′ fyrir Bruno), Shoretire (76′ fyrir Greenwood).
Gestirnir stilltu upp þessu byrjunarliði:
Bekkur: Marrero, Ruiz Zeberio, Monreal, Zárate, Guridi (72′), Portu (’45), Merquelanz (66′), Barrentxea (45′), Bautista, López.
Mörkin: Ekkert löglegt mark skorað í leiknum.
Spjöld: Fred 40′ fyrir að brjóta á Januzaj. Stöðvaði álitlega skyndisókn. Var líklega að reyna að ná boltanum en átti ekki séns. Hárrétt spjald. Brandon Williams 49′ fyrir að brjóta af sér rétt eftir að hann kom inná. Líklega rétt samt. Lindelöf 65′ fyrir að stökkva með hnéð í hausinn á varnarmanni. Óviljaverk, var að reyna að skalla boltann en rétt samt.
Annað: Oyarzabal klúðraði víti 13′. Tuanzebe skoraði mark á 65′ en það VAR dæmt af, réttilega, vegna brots frá Lindelöf.
Góður dagur: Þrátt fyrir brotið í marki Tuanzebe þá fannst mér Lindelöf besti maður vallarins. Leiðtogi í vörninni, bjargaði öruggu marki í byrjun leiks og var flottur í sínum aðgerðum. Þá fannst mér Axel Tuanzebe eiga góða innkomu í seinni hálfleikinn. Gerði miðjuna öruggari og skoraði frábært mark sem fékk því miður ekki að standa.
Dregið á morgun
Það verður dregið í 16-liða úrslit í hádeginu á morgun. Athöfnin hefst klukkan 12:00 að íslenskum tíma. Öll liðin sem eftir eru í keppninni geta mætt hvert öðru. Leikirnir fara fram 11. og 18. mars.
Liðin sem verða í pottinum með Manchester United á morgun eru:
- Tottenham Hotspur
- Ajax
- Arsenal
- Molde
- Rangers
- Granada
- Shakhtar Donetsk
- Villareal
- AC Milan
- Young Boys
- Dynamo Kyiv
- Dinamo Zagreb
- Slavia Prague
- Olympiacos
- Roma
Meira um leikinn
United byrjaði leikinn á því að halda boltanum vel. Það var engin sérstök ákefð í leiknum, leikmenn United voru sáttir við að halda boltanum og leikmenn Real Sociedad lögðu mun meiri áherslu á að passa að United kæmist ekki aftur fyrir varnarlínuna þeirra. Ólíkt upplegginu þeirra í fyrri leiknum.
Það kom því svona nánast upp úr engu þegar Real Sociedad fékk víti á 12. mínútu leiksins. Sociedad sótti upp hægri kantinn, áttu sendingu inn í teiginn þar sem Dan James var fullákafur og fór í kjánalega tæklingu sem hann átti enga séns í og braut á Gorozabel. Víti dæmt og fyrirliðinn Oyarzabal fór á punktinn. Hann reyndi valhopp að hætti Bruno en hvort sem sú staðreynd að Henderson stóð lengi í stað þess að stökkva af stað í annað hornið truflaði Oyarzabel eða ekki þá sendi hann boltann vel framhjá markinu. Gefum Henderson bara þetta, hann gerði vel í að standa lengi og gefa Spánverjanum ekki auðvelt mark.
Eftir þetta áttu gestirnir ansi góðar mínútur þar sem þeir náðu ákveðinni yfirhönd á leiknum.
15. mínútu átti Januzan góðan sprett upp vinstri kantinn og sendi mjög hættulega fyrirgjöf meðfram jörðinni. Victor Lindelöf gerði frábærlega í að tækla boltann afturfyrir endamörk. Þurfti að ná þessu hárnákvæmu til að passa að skora ekki sjálfsmark eða gefa andstæðingnum sem var tilbúinn á fjærstönginni sénsinn.
Eftir um 20 mínútna leik náði United fínum kafla. Fyrst átti Bruno ágætis tilraun sem markmaðurinn þurfti að verja í horn. Stuttu síðar lét Martial reyna á markmanninn með fínu skoti en Remiro varði vel. Ágætis tilraunir sem báðar voru rétt við vítateiginn. Dan James lét klaufaskapinn sinn í vítinu ekki hafa of mikil áhrif á sig heldur tók líflegan þátt í sóknaruppbyggingunni á þessum tíma.
Á 23. mínútu náði United næstum að komast yfir með því sem hefði orðið stórkostlegt mark. Fred stakk sér þá af miðjunni upp völlinn og fékk góða stungusendingu inn fyrir vörnina frá Greenwood. Fred náði boltanum á undan markmanninum, kom sér framhjá honum en náði ekki skotfæri. Þess í stað gaf hann boltann til baka út í teiginn þar sem Bruno kom á ferðinni og átti bylmingsskot yfir markmanninn en því miður í slána. Hækkum slána, segi ég nú bara! #hækkumslána
Eftir þetta var rólegt um stund. United miklu meira með boltann. Dan James poppaði þó upp með hættulegan skalla á 36. mínútu þegar hann tók sprettinn inn í teig og Bruno fann hann með fallegri fyrirgjöf sem flaut yfir vörnina. James skallaði boltann að marki af stuttu færi en Remiro í marki Sociedad þurfti ekki að hafa mikið fyrir því að verja.
Svipuð rólegheit eftir það. United spilaði boltanum á milli sín, á löngum köflum eins og um æfingu væri að ræða. Sociedad reyndu að gera áhlaup við og við en voru heilt yfir miklu meira passífir en ég bjóst við. Adnan Januzaj var einna líflegastur hjá þeim í fyrri hálfleiknum.
Einn mesti hasar leiksins átti sér stað þegar seinni hálfleikur var að byrja því þá gerðu stjórar liðanna hvorki fleiri né færri en fimm skiptingar. Solskjær henti í þrefalda skiptingu þar sem Rashford, Tuanzebe og Williams komu inn á fyrir Bruno, Fred og Wan-Bissaka. Fínt að geta hvílt þessa leikmenn. Í dag eru einmitt 5 ár síðan Marcus Rashford spilaði sinn fyrsta leik fyrir félagið og hann fékk að bera fyrirliðabandið í seinni hálfleiknum.
Marcus Rashford var næstum búinn að halda upp á daginn strax í byrjun seinni hálfleiks þegar hann tók aukaspyrnu af góðu skotfæri. Hann náði einhvern veginn að senda markmanninn í vitlaust horn en boltinn fór rétt framhjá stöngina hinum megin.
Stuttu eftir það braut Williams af sér og Real Sociedad átti hættulega aukaspyrnu sem endaði í þverslánni hjá Manchester United. Tek til baka fyrri tillögu um að hækka slána. #lækkumslána
Á 59. mínútu kom svo önnur skipting hjá United þegar Amad Diallo kom inn á fyrir Dan James. James hafði verið þokkalega sprækur í leiknum fyrir utan vítið sem hann gaf.
Eftir rúman klukkutíma náði Manchester United að skora glæsilegt mark. Axel Tuanzebe náði þá frábærum skalla með Real Sociedad leikmann hangandi á sér. En því miður fyrir hann var Victor Lindelöf brotlegur þegar hann stökk upp og reyndi við skallann svo dómarinn hafði um lítið annað að velja en dæma markið af. Réttur dómur en mjög svekkjandi fyrir Axel. Hann hefur fengið yfir sig leiðinlega mikið af óþarfa skít að undanförnu og hefði alveg mátt fá þetta tækifæri til að þagga niður í rasistafávitum. En brot var þetta og leikurinn hélt áfram.
Á 76. mínútu gerðist sögulegur atburður þegar Shola Shoretire kom inn á fyrir Mason Greenwood. Shoretire varð þar með yngsti leikmaður í sögu Manchester United til að spila í Evrópukeppni fyrir félagið.
https://twitter.com/mrmujac/status/1365052536747655176?s=20
Shoretire var aðeins 14 ára þegar hann spilaði með u19-liði Manchester United í Evrópu svo hann er líka yngsti leikmaður í sögu Manchester United til að spila í UEFA Youth League. Greinilega gríðarlegt efni þar á ferð. Hann datt í holuna með Rashford og Amad sitt hvorum megin við sig og Martial fyrir framan sig.
Þrátt fyrir að hafa klúðrað víti og átt tilraun í slá þá átti Real Sociedad ekki tilraun á rammann fyrr en á 85. mínútu. Þá átti varamaðurinn Merquelanz langskot sem Henderson varði, missti aðeins frá sér en náði að stökkva á áður en það varð að einhvernu veseni.
Leikurinn var samt heilt yfir þægilegur eftir það eins og hann hafði að mestu leyti verið. Hann spilaðist eins og ætla mætti þegar bæði lið vissu að annað liðið væri komið áfram. Ákefðin var lítil og með öllum skiptingunum þá hefði frekar verið hægt að halda að um undirbúningstímabilsleik væri að ræða en seinni leik í útsláttarkeppni í Evrópu. En þetta var fagmannlega gert hjá strákunum, það mega þeir eiga. 0-0 og United verður í hattinum á morgun.
https://twitter.com/ManUtdSnapshot/status/1365063017377980416?s=20
Helgi P says
Hvað er Solskjær að gera með 3 varamarkmen á bekknum
Robbi Mich says
Ég er svo hissa að Bruno fái ekki frí í kvöld. Hefði alveg mátt gefa greyinu smá frí. Mata er ekki einu sinni í hóp.
Karl Garðars says
Ég hugsa að Bruno hafi fengið að vita byrjunarliðið og ekki tekið það í màl.
Atli says
Flott leikskýrsla. Skemmtilegur leikur, vantaði bara mörk.