Það er sannarlega skammt stórra högga á milli hjá Manchester United. Á fimmtudaginn gerði liðið afar svekkjandi 1-1 jafntefli við AC Milan og þremur dögum síðar tekur við annað stórt verkefni. David Moyes og spútniklið West Ham koma í heimsókn á sunnudaginn. Leikurinn hefst kl. 19:15 og má búast við hörkuleik.
Lítið hefur verið um glansfótbolta af okkar hálfu undanfarið, en það má segja um fleiri lið. West Ham hafa verið á ágætis skriði undanfarið og eina tap þeirra í síðustu fimm deildarleikjum kom gegn meistaraefnum Manchester City.
Liðsfréttir
Meiðslalisti United líkist óskalista Jólasveinsins æ meir, þrátt fyrir að alheimi hafi verið tjáð að Liverpool væri eina liðið sem glímdi við meiðsli. Helstu nöfn eru Paul Pogba, sem nálgast endurkomu en Ole segir ekki mögulegt að hann verði með á morgun. Donny van de Beek er einnig fjarverandi – en það þyrfti ýmislegt að ganga á til þess að Hollendingurinn fengi byrjunarliðssæti hvort eð er. Svo var Ole ekkert of bjartsýnn á þáttöku Marcus Rashford, Edinson Cavani og Anthony Martial. Þá er David de Gea tæpur svo að Dean Henderson ver búrið á morgun, en hann hefði mátt gera betur í jöfnunarmarki AC Milan á fimmtudaginn. Til að súmmera þessi skemmtilegheit upp, þá höfum við oft staðið betur að vígi hvað mannafla varðar.
Fílbeinsstrendingurinn Amad Diallo skoraði sitt fyrsta mark fyrir félagið gegn AC Milan og gæti fengið tækifæri í byrjunarliðinu. Það gæti þó verið að of snemmt sé að láta hann byrja. Solskjær hefur gert vel í að hlífa honum við mikilli umfjöllun og talað mikið um væntingastjórnun hvað ungstirnið varðar. Það er hárrétt nálgun í knattspyrnuheimi þar sem að allt snýst um að hífa menn upp, einungis til að rífa þá niður – à la Mason Greenwood.
Mason hefur átt erfitt uppdráttar í vetur og ekki fundið formið sem hann sýndi á seinni hluta síðasta tímabils. Lítið hefur gengið fyrir framan markið og hann virkar oft hugmyndasnauður úti hægra megin. Ef Diallo byrjar úti hægra megin, þá má gera að því skóna að Greenwood leiði sóknarlínuna. Hann hefur oftast nær tekið sér þá stöðu í miðjum leik eftir skiptingar og róteringar, fremur en byrjað leikinn sem framherji. Mögulega fer hann með kýrskýr fyrirmæli um að spila sem hreinræktaður framherji í þessum leik.
Varnarlínan hefur sloppið tiltölulega vel við meiðslavesen en Victor Lindelöf er tæpur í baki og Solskjær var óviss um þáttöku hans – hann er þó ekki útilokaður. Svipaða sögu er að segja af Eric Bailly sem varð fyrir hnjaski seint í leiknum gegn Milan, en mun líklega vera klár í slaginn. Luke Shaw kom inná sem varamaður gegn Milan og er klár eftir að hafa meiðst lítillega í grannaslagnum um síðustu helgi.
Líklegt byrjunarlið Man Utd:
Mótherjinn
Það er ekki sama meiðslabras á Hömrunum en þeir sakna varnarmannanna Ryan Fredericks, Arthur Masuaku og Angelo Ogbonna. Sömuleiðis könnumst við ágætlega við lánsmann West Ham, Jesse Lingard. Hann hefur farið frábærlega af stað með liðinu og við getum í raun prísað okkur sæla að hann hafi ekki leyfi til að taka þátt í þessum leik. Lingard hefur skorað fjögur mörk í 6 deildarleikjum og gengið í gegnum endurnýjun lífdaga undir Moyes.
Eins og fram hefur komið verður verkefnið ærið og mikilvægt að liðið sé á tánum, frá fremsta manni til þess aftasta. Framherjinn Michail Antonio mun fara fyrir sókn liðsins og á honum þarf að hafa góðar gætur. Hann er snöggur, sterkur og ofboðslega duglegur. Hann er hundleiðinlegur við að eiga.
Á miðjunni ráða þeir Declan Rice og Thomas Soucek ríkjum. Rice tengir miðju og vörn frábærlega saman og dreifir spili vel. Hann hefur verið orðaður við United og ekki af ástæðulausu. Verðmiðinn á honum hækkar með hverjum leiknum og ef að West Ham mistekst að komast í Evrópukeppni, þá gæti Rice hugsað sér til hreyfings. Hinn hávaxni Rice brýtur upp sóknir og les leikinn með miklum ágætum.
Soucek kom til West Ham á láni í lok janúar 2020 og var svo keyptur um sumarið. Hann skoraði gegn okkar mönnum í fyrri leik liðanna og er stöðug ógn í föstum leikatriðum. Tékkinn hefur skorað 8 mörk í 27 leikjum og reynst liðinu afar drjúgur. Það má segja að Moyes hafi fundið í honum sinn Fellaini hjá West Ham.
Moyes gæti breytt um taktík úr því að Lingard er ekki til staðar, en hann hefur þó Said Benrahma og Pablo Fornals sem geta dottið í þessa tíu-stöðu sem Lingard spilar. Það kæmi mér mjög á óvart ef að Moyes myndi mæta með gung-ho leikkerfi þar sem að hann ætlaði að sækja á 10 mönnum. Þegar liðin mættust í bikarnum var lítið um opin marktækifæri og ekkert galið að búast við svipuðum leik á morgun.
Líklegt byrjunarlið West Ham:
Spá
Eftir jafntefli Chelsea gegn Leeds væri afar vel þegið að næla í þrjú stig. Það verður engin markaveisla á morgun, býst ég við. Vörnin þarf að standa vel og menn þurfa að sýna gæði fyrir framan markið þegar tækifærið býðst. West Ham liðið er ólseigt og því ætla ég að spá erfiðum 1-0 sigri okkar manna. Bruno Fernandes skorar úr aukaspyrnu korteri fyrir leikslok. Eftir það lætur liðið okkur fá hjartastopp nokkrum sinnum en tekst að sigla þessu heim.
Áfram Manchester United!
Skildu eftir svar