Á morgun getur United minnkað bilið í verðandi meistara Manchester City í átta stig. Ég segi verðandi meistara því það er ekkert okkar að vona neitt. Er það nokkuð? Ekkert mikið?
Þau ykkar sem hafði gaman af öðrum íþróttum mega eyða fimm mínútum í að lesa Wikipedia færsluna um hrossið Devon Loch og ég læt ykkur um að gera samanburð.
En þessi færsla, eins og aðrar hér á þessari síðu, snýst um fótbolta þannig það er tómt mál að tala um hrossaveðhlaup árið 1956 og í staðinn einbeitum við okkur að leik Manchester United og Burnley sem fer fram á morgun kl 15:00 að íslenskum tíma.
United mætti með nær fullsterkt lið á Old Trafford á fimmtudaginn og vann Granada auðveldlega. Þetta ætti ekki að sitja of mikið í okkar mönnum og Harry Maguire, Luke Shaw og Scott McTominay mæta að auki hvíldir því þeir sátu út leikbann á fimmtudaginn. Við vitum nú orðið að það er lítil rótering á liðinu og eina stóra spurningin fyrir leikinn er hvort Marcus Rashford verður orðinn góður af fótarmeiðslum sem hafa verið að hrjá hann. Ef hann verður ekki tilbúinn er það kannske lán í óláni að axlarmeiðslin sem hann hefur verið að spila með lengst af tímabilinu fá smá hvíld líka. En það kemur engum á óvart ef hann verður mættur til leiks
Eric Bailly er kominn til Englands eftir Covid-19 veikindin heima á Fílabeinsströndinni, en Daniel James er líklega enn meiddur.
Jóhann Berg og félagar
Burnley á í meiðslavandræðum, landsliðsmarkvörðurinn Nick Pope missti af síðasta leik og óvíst er hvort hann verður góður á morgun og sömuleiðis er óvíst með vinstri kantinn Dwight McNeil, sem varð fyrir hnjaski á æfingu á miðvikudaginn.
Ef frá er talinn góður sigur á Everton og auðvitað sigurinn á Anfield í janúar og á Villa viku síðar, hefur Burnley átt erfitt uppdráttar eftir áramót. Fimm jafntefli og fjögur töp gegn misgóðum liðum og nú síðast tap gegn Newcastle um síðustu helgi. Burnley er þó sjö stigum frá Fulham í fallsæti og með leik til góða, en mega ekkert sérstaklega við því að tapa leikjum, eiga erfiða leiki framundan og Fulham á útivelli þannig að falldraugurinn er ekkert sérlega fjarri þeim.
Síðustu fjórir leikir þessara liða á Old Trafford hljóta að gefa Burnley smá von, þrjú jafntefli og svo auðvitað 0-2 sigur þeirra á United í erfiðum janúarleik í fyrra, leikur sem nú er litið á sem vendipunkt, enda síðasti leikur f.B. (fyrir Bruno). Þau ykkar sem vilja rifja upp hversu mjög stemmingin í kringum liðið hefur breyst lesa skýrsluna úr þeim leik.
Núna er allt betra og við hljótum að búast við sigri á morgun, þó auðvitað myndi það koma frekar á óvart ef United væri yfir í hálfleik. Í vikunni var dregin fram tölfræðin sem sýndi að frammistaða United í fyrri hálfleik dygði ekki í miðja deild. En knattspyrnuleikir eru 90 mínútur og ekki spurt um stöðu í hálfleik nema í erfiðustu barspurningum.
Sem fyrr segir er leikurinn kl 3 á morgun!
Skildu eftir svar