Þá er komið að því að boltinn fari aftur að rúlla hjá okkar mönnum í Manchester United. Eftir sumarfrí með alls konar veðri, alls konar Covid-ástandi og EM alls staðar er komið að því að sjá alvöru fótbolta aftur. Ná okkar menn að byggja ofan á árangurinn á síðasta tímabili? Er ekki kominn tími til að koma loksins aftur með alvöru titil á Old Trafford? Hvernig detta nýju leikmennirnir inn í þetta?
Við væntum þess að þið séuð að verða jafn peppuð í þetta tímabil og við. Hér er spá okkar og spekúleringar fyrir komandi tímabil. Allt hárnákvæmt og vísindalega unnið, að sjálfsögðu.
Spáin fyrir tímabilið
Við í ritsjórn Rauðu djöflanna settumst niður og reiknuðum út hvernig komandi tímabil fer í ensku úrvalsdeildinni hjá körlunum. Út frá okkar útreikningum þá mun þetta enda svona, talan hægra megin er meðaltal yfir sæti sem viðkomandi liði var spáð innan ritstjórnar:
Auðvitað værum við alveg til í að hafa rangt fyrir okkur að því leyti að fá United ofar á kostnað City. Restin ætti samt að vera nokkuð nærri lagi.
Flestir úr ritstjórninni voru mjög sammála um fyrstu 5 sætin. Einn hafði reyndar ekki trú á Leicester í fimmta sætinu og svo var það einn ritstjórnarmeðlimur sem hafði ekki trú á að Manchester United myndi enda í 2. sæti.
Sá ritstjórnarmeðlimur telur að það sé að myndast ákveðin gjá á þessu tímabili á milli topp 4 klúbbanna og restarinnar. Að sama skapi telur viðkomandi að kaup Chelsea á Lukaku og möguleg kaup Manchester City á Kane muni setja þau félög stall fyrir ofan Manchester United og Liverpool. Eins og sú svartsýni sé ekki nóg að þá telur viðkomandi að Liverpool endi líka fyrir ofan Manchester United og United endi í 4. sætinu. Við þurfum eitthvað að ræða við þennan mann en leyfum honum að njóta nafnleyndar í bili.
Hinir í ritstjórninni eru allir á því að 2. sætið verði aftur okkar þetta tímabilið.
Nýtt tímabil, nýjar áskoranir, nýir leikmenn
Það hefur sitt hvað gerst í þessum sumarglugga hjá Manchester United.
Við fengum loksins Jadon Sancho!
Margfaldi raðsigurvegarinn Raphaël Varane gekk, nokkuð óvænt, til liðs við Manchester United í sumar.
Þá má ekki gleyma sannkölluðu top 3 signing gluggans í Eric Ramsay sem ráðinn var inn til félagsins til að þjálfa það almennilega upp í föstum leikatriðum. Eitthvað sem gæti haft gríðarlega mikil og góð áhrif, vonandi á báðum endum vallarins.
Að auki kom Tom gamli Heaton aftur til félagsins eftir langa pásu. Hann spilaði á sínum tíma marga leiki með yngri liðum og varaliði Manchester United en fékk aldrei að komast lengra en á bekkinn með aðalliðinu.
Það hefur ekki gengið eins vel að selja leikmenn og vonir stóðu líklega til. Jesse Lingard er ennþá hjá United. Andreas Pereira er ennþá leikmaður Manchester United. Phil Jones og Diogo Dalot eru ennþá leikmenn Manchester United. Paul Pogba fer væntanlega ekkert úr þessu. Það munu líklega ekki koma fleiri leikmenn inn í þessum glugga nema einhverjir fari út og það er ekki auðvelt að selja leikmenn í þessu ástandi.
Rauðu djöflarnir eru heilt yfir sáttir með þennan sumarglugga.
Bjössi: Ef ég hefði fengið tvö kaup að eigin vali í sumar er erfitt að sjá eitthvað mikið betra en Sancho og Varane, nema við förum í eitthvað óraunverulegt draumaland.
Zunderman: Covid-faraldurinn og tekjufall vegna hans birtist í að mörg lið halda að sér höndum. Í ljósi þess fagna ég því að við höfum náð tveimur lykilmönnum snemma. Sum önnur lið hafa varla hreyft sig.
Maggi: Er mjög sáttur við að viðskiptin voru kláruð mjög snemma og keyptir voru leikmenn sem koma beint í byrjunarliðið.
Þorsteinn: Mér líst hrikalega vel á sumargluggann. Það er verið að gefa alvöru skilaboð til liðana í deildinni að United ætlar að gera alvöru atlögu að titlinum í ár.
Friðrik er þó ekki alveg jafn peppaður í þennan glugga og hinir í ritstjórninni. Hann er töluvert kröfuharðari.
Frikki: Sancho, Varane (og Heaton) hljómar einsog frábær viðbót og er það í raun en þegar við lítum á þetta út frá því sem við nú vitum (að Rashford er frá í 3 mánuði, Varane er loksins núna að skrifa undir og Sancho hefði átt að koma fyrir ári síðan og ekki er búið að selja neinn leikmann og hópurinn er því orðinn gríðarstór)? Þá er erfitt að gefa glugganum meira en 6/10. Skortur á varnarsinnuðum miðjumanni til að taka við af Matic og að því er virðist óyfirstíganleg vanhæfni við að selja/losa leikmenn þrátt fyrir að þeir séu eftirsóttir, dregur niður einkunnina. Vonandi er nægur tími fyrir einn leikmann í viðbót (Eduardo Camavinga?).
Daníel Smári heldur þessu þó hressu í sínum pælingum.
Danni: Ef að einhver hefði sagt mér fyrir gluggann að við myndum ná í Jadon Sancho og Raphael Varane og sagt það svo gott, þá væri ég sennilega bara glimrandi sáttur. Að því sögðu að þá er öskrandi þörf á alvöru akkeri á miðjuna, en mér finnst líklegt að Ole bíði með þau kaup þangað til næsta sumar. Allt eftir stórkaupin tvö er bónus. Svo kom Tom Heaton heim – félagsskipti sumarsins (Messi meðtalinn)!
Solskjær og nýi samningurinn
Það voru ekki bara nýju leikmennirnir okkar (og fastleikatriðaþjálfarinn) sem skrifuðu undir samning í sumar, það gerði líka stjóri liðsins. Solskjær skrifaði undir nýjan þriggja ára samning í júlí. Það er ákveðið skref og stuðningsyfirlýsing frá stjórn félagsins.
Hvað finnst ritstjórninni um það?
Danni: Ég tel Solskjær vera á réttri leið. Það hefur ekki verið mikil hreyfing á félagsskiptum burt frá Old Trafford í sumar, en hann hefur gert vel í að losa sig við leikmenn sem að voru komnir á endastöð hjá félaginu og hirtu launaseðil í hverri viku – ef frá er talinn Lord Phil Jones. Með kaupum sumarsins færumst við nær því að sjá hugrakkara og aðgangsharðara United lið, tel ég. Varane gerir okkur kleift að spila ofar og Sancho mun hjálpa mikið við að brjóta niður þéttar varnir.
Steini: Ég hef fulla trú á að Ole komi titli í hús þetta tímabilið og hef mikla trú á því að hann geti þróað liðið enn lengra. Hann er ekki kominn á neina endastöð með liðið að mínu mati. Ef liðið verður samt neðar en fimmta sæti um jól þá tel ég sætið verði orðið ansi heitt undir okkar manni.
Gunnar: Solskjær er á réttri leið, bæði með aðalliðið og að því er virðist allt umhverfið í félaginu. Á meðan svo er þá á að styðja hann. Þurfum að vera tilbúin að standa með honum ef t.d. meiðsli verða til þess að úrslit verða ekki góð.
Frikki: Vissulega á réttri leið en mér finnst vagninn hreyfast fullhægt. En hann er á réttri leið en núna er svo komið að því að hann þarf að fara skila titlum/dollum. Búinn að sigrast á undanúrslitagrýlunni og eftir EM held ég að margir úr liðinu mæti með ákveðnar hugmyndir um hvað þeir ætla sér í vetur eftir vonbrigði sumarsins. Ole er á nýjum samning og ég efast um að hann klári hann nema einhver stórvægileg breyting verði á. Hann þarf að sýna það í verki að hann er ekki Poch hjá Tottenham („næstum-því-gaurinn“) og það gerir hann með árangri.
Maggi: Leikmenn liðsins virðast elska hann og hann er heldur ekki uppá kant við stjórn félagsins. Á meðan liðið heldur áfram að bæta sig ár frá ári þá hef ekki miklar áhyggjur af starfi hans.
Okkar væntingar fyrir tímabilið
Þegar kemur að væntingum Rauðu djöflanna fyrir tímabilinu þá eru flestir á svipaðri línu og Bjössi.
Bjössi: Þetta United lið á að sækja annað sætið og gera City lífið leitt amk fram á vorið þó ekki komi titill. Svo þarf að taka bikar. Mér líst sem sé bara þokkalega vel á þetta. Varane á að vera púslið í vörninni og ég hef trú á að þangað til Rashford komi til baka verði Sancho vinstra megin, Greenwood hægra megin og þá á Sancho að sýna hvað hann getur.
Danni gengur lengra í bikarpeppinu.
Danni: Bikar. Bikar. Bikar. Ole Gunnar Solskjær verður að vinna bikar á þessu tímabili. Ég er orðinn glorsoltinn og sakna þess ólýsanlega að sjá liðið okkar lyfta bikar og ganga af göflunum í fagnaðarlátunum.
Zunderman segir að væntingarnar séu álíka og í fyrra og snúist fyrst og fremst um að halda áfram að ná stöðugleika.
Zunderman: Við vorum á pari við Chelsea og Liverpool í fyrra. Ég býst við að lítið skilji milli þessara þriggja liða. Síðan eru lið eins og Arsenal að styrkja sig þannig það má ekki mikið út af bregða í Meistaradeildarbaráttunni. Æskilegt væri þó að halda öðru sætinu og þokast nær City.
Annað sætið, langt í Meistaradeildinni og vinna bikar, þetta virðist vera það sem flestir stuðningsmenn Manchester United setja stefnuna á þetta tímabilið.
Hvað einstaka leikmenn varðar þá er almenn skoðun hjá Rauðu djöflunum að Bruno Fernandes og Harry Maguire muni halda áfram að verða leiðtogar og bestu leikmenn liðsins. En þegar umræðan snýr að leikmönnum sem gætu bætt sig þá fara minnast margir á Donny van de Beek.
Danni: Ég vona að tímabilið verði gott hjá Donny van de Beek. Hann fékk ekki mörg tækifæri í byrjunarliðinu á síðasta tímabili, en í stað þess að leggjast niður og grenja í fjölmiðlum þá hefur hann bara unnið í sjálfum sér og æft eins og skepna.
Zunderman: Væntingar til þess að van de Beek fá tækifærið sem hann varla fékk í fyrra. Eins að við fáum að sjá hvers vegna við borguðum tugi milljóna fyrir Amad. Bind vonir við Sancho og að Varane þétti vörnina þannig við þurfum ekki að treysta á tvo djúpa miðjumenn. Pogba verði áfram lykilmaður. Held að de Gea jarði markvarðasamkeppnina.
Steini: Ég vona að Wan-Bissaka verði enn sterkari sóknarlega heldur en hann var á síðasta tímabili. Svo vona ég innilega að van de Beek muni sína sínar bestu hliðar á tímabilinu. Hann er búinn að nýta sumarið víst vel í að byggja sig upp fyrir komandi átök eftir vonbrigði síðasta tímabils og verður því gaman að sjá árangur þess erfiðis. Að lokum verður Henderson að stíga en meira upp ef hann ætlar að verða númer eitt hjá United á komandi árum og hef ég fulla trú á því.
Frikki: Þegar kemur að akademíu leikmönnum vil ég sjá Anthony Elanga fá fleiri tækifæri og eins Amad Diallo ef þeir fara ekki á lán í vetur. Ég held að Varane muni hjálpa öðrum í kringum sig að stíga upp og held að hann muni bæta leikmenn einsog Aaron Wan-Bissaka, Fred, McTominay og Maguire og hjálpa De Gea að ná sínu gamla formi. En áhrifin sem kunna að fylgja svona leikmanni geta verið gríðarleg (Díaz og van Dijk) en hann verður fullkomin fyrirmynd (ásamt Maguire) fyrir leikmenn eins og Teden Mengi og aðra sem eru að reyna að brjótast inn í aðalliðið. Vonandi snýr líka James Garner til baka og verður tilbúinn í slaginn í Úrvalsdeildinni. Eins ætla ég að vona að Donny van de Beek verði orðinn fastamaður hjá okkur að ári af einskærri rómantík.
Maggi: Ég held að Diogo Dalot muni koma á óvart í vetur og væri einnig til í að sjá James Garner og Anthony Elanga fá einhverjar mínútur og jafnvel einhverja leiki.
Bjössi: Stóru spurningarnar fyrir mér eru hvort Cavani, Bruno og Pogba sýni sín réttu andlit. Fer Cavani á síðasta snúning, nær Bruno að halda standard og síðast en ekki síst, nær Pogba að spila eins og maður til að vinna sér inn stóra samninginn hjá PSG þegar hann fer frítt næsta sumar? Ég er alveg kominn á þá skoðun að standi hann sig vel þá sé það þess virði að láta hann ekki fara núna.
Þegar kemur að neikvæðu væntingunum þá eru ekki allir sem hafa trú á að Anthony Martial geti náð sér eftir tímabilið í fyrra. Sömuleiðis minnast einhverjir á Phil Jones í vonbrigðadálkinum.
Frikki: Ég hugsa að ákveðnir leikmenn munu falla í skugga nýju leikmannanna. Daniel James kann að vera einn þeirra, eins Lindelöf og þá tel ég líklegt að markvarðaróvissan (hver verður nr 1) muni hafa slæm áhrif á bæði Henderson og De Gea.
Zunderman: Ég óttast um að liðin fari að finna svör gegn Bruno og hann þreytist. Hef áhyggjur af framherjastöðunni, Martial óstöðugur og Cavani of hætt við meiðslum til að geta leitt framlínuna heilt tímabil. Kannski við sjáum Greenwood stíga upp sem framherji.
Frikki fann þó bjartsýnina þegar kemur að Martial.
Frikki: Ég stend fastur á þeirri skoðun að Martial komi tilbaka með látum. Hann fær eflaust nokkra leiki í upphafi leiktíðar vegna utanaðkomandi aðstæðna og mun grípa gæsina glóðvolga. Ef Cavani, Sancho eða Greenwood meiðast þá er ekki slæmt að eiga einn Martial á bekknum og ef það gerist þá splæsir minn maður í 17-20 mörk á tímabilinu.
Þegar kemur að því að giska á hver verði markakóngur liðsins í vetur þá eru flestir með Bruno Fernandes sem valkost. Maggi er hins vegar á því að það verði einn af Sancho, Cavani og Rashford.
Kvennaliðið
Kvennalið Manchester United hóf tímabilið í fyrra af miklum krafti og var um tíma í harðri titilbaráttu eftir góða, og nokkuð óvænta, sigra á toppliðum. En það fjaraði undan þessum árangri, Casey Stoney tilkynnti að hún væri hætt áður en tímabilið kláraðist og í sumar hefur hver lykilleikmaðurinn á fætur öðrum yfirgefið liðið.
Einhverjir hafa komið inn í staðinn og nú er kominn nýr stjóri en það er alls ekki sama yfirbragð yfir liðinu og hefur verið.
Bjössi: Kvennaliðið er eitt stórt spurningamerki. Hræringarnar í sumar hafa verið svakalegar og liðið stendur uppi gjörbreytt og með nýjan þjálfara. Litið hefur frést af breytingum til hins betra í umgjörðinni sem Casey Stoney kvartaði undan og það gæti jafnvel verið fallbarátta framundan ef nýju liðskonurnar eru ekki jafn sterkar og þær sem fóru. Allt í hönk þar sem sé.
Maggi: Hef þó nokkrar áhyggjur af stöðunni hjá kvennaliði félagsins. Margar frábærar knattspyrnukonur farnar og liðið komið með nýjan þjálfara. Liðið hefur þó fengið inn leikmenn og óskandi að þær komi á óvart í vetur.
Leeds United í fyrsta leik
Andstæðingurinn í fyrsta leik Manchester United á tímabilinu er okkar gamli erkifjandi frá Leeds. Strákarnir hans Bielsa eru harðduglegir og geta spilað ansi öflugan fótbolta þegar sá gállinn er á þeim. Ýmsir hafa talað um að þetta sé ekki besti andstæðingurinn að mæta í fyrstu umferð, þegar kjarninn af aðalleikmönnum Manchester United eru svo til nýkomnir úr sumarfríi eftir EM (eða enn í fríi eins og Cavani) á meðan Leeds hefur getað æft á nokkurn veginn öllu sínu liði.
Þetta verður hörku viðureign og þarna er strax tækifæri fyrir ákveðna leikmenn að sýna fram á það að þeir geti spilað stærri rullu í vetur en væntingar stóðu til fyrir fram. Leikmenn eins og Martial, van de Beek, Lingard og fleiri.
Þetta verður í öllu falli hörku viðureign og vonandi skemmtilegur leikur. Ekki síst fyrir okkur United-menn.
Leikurinn hefst klukkan 11:30 og verður spilaður, fyrir framan vel peppaða áhorfendur, á Old Trafford.
Sprengisandur says
Svo má bæta við að með komu Sancho sem mun sennilega spila H meginn fyrir framan AWB mest allt tímabilið gætu þeir 2 myndað öflugt teymi eins og Shaw og Dr. MBE. Rashford gerðu svo fínt og flott síðasta tímabil. Bissaka hefur verið með helv rót þarna fyrir framan sig alltof lengi James Greenwood Rashford til skiptis. En annars bara spenntur fyrir þessu tímabili og væri geggjað að fá regluleg update um kvennaliðið hef miklar áhyggjur af þeim og umgjörðinni þar.
Scaltastic says
Hann ástkæri Ole okkar verður seint sakaður um að vera ekki samkvæmur sjálfum sér… Matic og Donny voru mjög góðir saman á móti Everton, ég klóra mér í hausnum yfir þessari ákvörðun.
Hvað varðar tímabilið þá væri í mínum huga 80 stig ásættanleg niðurstaða, spái okkur hins vegar fjórða sætinu. Samkeppnisaðilarnir eru því miður jafn vel eða betur mönnuð, ásamt því að vera betur þjálfuð.
Það myndi fátt gleðja mig meir ef Ole myndi láta mig éta þessi orð.
Skál fyrir nýju tímabili og takk fyrir ykkar framlag ritstjórn… GGMU!