Eftir að því er virtist endalausan landsleikjaglugga þá er loksins, loksins komið að enska boltanum aftur. Vúbb, vúbb! Við höldum aftur á Old Trafford og fáum heimaleik hjá okkar mönnum í Manchester United. Reyndar var landsleikjaglugginn bara þokkalega góður fyrir ansi marga leikmenn hjá Manchester United, þó nokkur rauð mörk litu dagsins ljós. Vonandi að markaskórnir (og marka-ennið hjá sumum) hafi ekki orðið eftir hjá landsliðunum.
Andstæðingurinn í þessum leik verða norðlendingarnar í Newcastle United. Leikurinn hefst klukkan 14:00 á morgun, laugardaginn 11. september, og dómari leiksins verður Anthony Taylor.
Pælingar um byrjunarlið
Það eru nokkrir leikmenn frá í báðum liðum og einhverjir tæpir sem gæti haft áhrif á liðsvalið.
Helsti hausverkurinn hjá Solskjær er líklega miðjan. Scott McTominay er kominn aftur til æfinga eftir aðgerð en það er spurning hvort hann nái þessum leik samt. Þá mun Fred líklega missa af leiknum vegna þess að Manchester United meinaði honum að spila með Brasilíu í landsleikjaglugganum. Nemanja Matic er því nokkuð sjálfvalinn á miðjuna hjá liðinu en það er spurning hvort Solskjær vilji nota Pogba við hliðina á honum eða hvort Donny van der Beek fái loksins tækifæri til að spila.
Önnur spurning er hvernig fremstu menn raðast. Mun nýi leikmaðurinn okkar mæta beint í byrjunarliðið eða verður Cavani þarna? Jadon Sancho yfirgaf landsliðshóp Englands í glugganum vegna meiðsla, er hann frá eða tæpur eða mun hann spila?
Ég ætla að spá þessu byrjunarliði:
Ertu sammála þessu? Myndirðu vilja sjá annað byrjunarlið hjá United í leiknum?
Newcastle United er líka með þó nokkuð langan lista af leikmönnum sem eru frá eða tæpir fyrir þennan leik.
Martin Dubravka, Jonjo Shelvey og Ryan Fraser eru allir meiddir. Callum Wilson, Paul Dummett og Isaac Hayden eru tæpir.
Framan af síðasta tímabili var Steve Bruce að hringla með uppstillinguna á liðinu og skiptast á að nota 4 eða 5 manna varnarlínur. Hins vegar kom ákveðinn stöðugleiki á uppstillingavalið síðasta fjórðung mótsins og 5-3-2 varð niðurstaðan. Liðið hefur svo haldið áfram að nota þá uppstillingu á þessu tímabili, bæði í deild og deildarbikar. Það verður því að teljast líklegt að Newcastle stilli þannig upp á morgun.
Miðað við þá sem vantar þá má er þetta ágætis skot á byrjunarlið gestanna:
Mikilvægur leikur
Tottenham Hotspur er eina liðið sem hefur byrjað leiktíðina á 3 sigrum. Lærisveinar Nuno Espirito Santo hafa lokað öllum leikjum til þessa með 1-0 sigrum og stefnir í að þeir verði vel seigir í vetur. Á eftir þeim kemur góður pakki af liðum með 7 stig, þar á meðal bæði Chelsea og Liverpool auk okkar liðs. Þar rétt á eftir koma svo Manchester City með 6 stig.
Það skiptir því máli að vera ekkert að henda stigum út um gluggann að óþörfu. Það skiptir líka máli að halda heimavellinum sem ákveðnu vígi. Það gekk ekkert sérstaklega vel á síðasta tímabili en þá kom á móti að útivallaárangur liðsins var framúrskarandi. Ef liðið nær að halda útivallaárangrinum nálægt þeim sem náðist í fyrra og bæta árangurinn á heimavelli þá er þar kominn lykill að mögulegri titilbaráttu í vetur.
Hvort sem um titilbaráttu verður að ræða eða ekki þá má liðið í öllu falli ekki við því að tapa stigum í mörgum svona leikjum. Við viljum toppbaráttuna og við viljum alls ekki að liðið fari að koma sér í vandræði við að hanga inni í topp 4. Þetta lið er líka einfaldlega það gott að það á að taka svona leik.
Newcastle United
Newcastle United sigldi lygnan sjó að mestu á síðasta tímabili. Liðið gældi aðeins við fallbaráttu upp úr miðju móti en reif sig vel upp úr því með 3 sigrum í síðustu 4 umferðunum og kláraði mótið í 12. sæti. Klassískt Newcastle United sæti.
Newcastle var ekki virkasta félagið í sumarglugganum og stærstu kaup félagsins voru að fá Joe Willock frá Arsenal. Willock hafði hins vegar verið á láni hjá Newcastle á síðasta tímabili svo það eru kaup sem í raun breyta ekki miklu fyrir liðið.
Fyrsti leikur gestanna á tímabilinu var ansi skrautlegur. Newcastle náði þá tvisvar að komast yfir gegn Moyes og félögum í West Ham en tapaði leiknum samt á endanum 2-4. Callum Wilson og Jacob Murphy skoruðu mörk Newcastle í leiknum. Í annarri umferð tapaði liðið á útivelli gegn Aston Villa, þá kom tap í vító gegn Burnley í deildarbikarnum. Í síðustu umferð kom fyrsta stig Newcastle þegar liðið gerði jafntefli við Southampton. Aftur komst Newcastle tvisvar yfir í leiknum en aftur fengu þeir jöfnunarmörk í andlitið jafnharðan.
Callum Wilson skoraði líka í þeim leik svo hann er markahæstur í liðinu með 2 mörk. Allan Saint-Maximin, sem hafði gefið stoðsendingu í leikum gegn West Ham skoraði svo seinna mark Newcastle í leiknum.
Það eru áhugaverðir sóknarkostir í þessu Newcastle-liði. Callum Wilson er sem fyrr segir tæpur en ef hann nær leiknum þá er hann alltaf hættulegur. Allan Saint-Maximin er gríðarlega spennandi leikmaður og þegar hann nær sér á flug er erfitt að hemja hann. Newcastle virðist þó vera viðkvæmt til baka og eiga erfitt með að verja forystu. Gegn Southampton þá kom seinna mark Newcastle í uppbótartíma en það var samt ekki nóg til að þeir gætu haldið því til loka leiksins.
Þessi lið hafa mæst 171 sinni áður í fótbolta. Manchester United er með 89 sigra, Newcastle hefur unnið 43 sinnum og 39 sinnum hafa leikar endað með jafntefli. Markatalan er 338 gegn 241.
Ef við tökum bara heimaleiki Manchester United þá eru þeir 84 til þessa. Í 53 skipti sigraði Manchester United, 21 leikur endaði með jafntefli og 10 enduðu með sigri gestanna frá Newcastle. Heimavallarmarkatalan er 197-92. Þetta er fínasta tölfræði en við viljum sjá okkar menn bæta hana enn meira.
Þess má geta að síðasti leikmaður Manchester United til að skora þrennu gegn Newcastle United var Cristiano Ronaldo sem náði því í 6-0 sigri í deildarleik 12. janúar 2008. Merkilegt nokk var þetta eina þrenna Ronaldo í treyju Manchester United.
Cristiano Ronaldo
Talandi um Cristiano Ronaldo. Hann er aftur orðinn leikmaður Manchester United. Eftir 12 ára fjarveru er hann bara aftur kominn í rauðu treyjuna og m.a.s. aftur kominn með sjöuna á bakið. Dan James var seldur og enska úrvalsdeildin veitti undanþágu frá reglum sínum til að leyfa Manchester United að færa Cavani úr sjöunni í 21 og skrá Ronaldo inn sem sjöu.
https://twitter.com/ManUtd/status/1435996625865003020?s=20
Hvaða áhrif mun þetta hafa á liðið? Hann mun væntanlega koma með mörk, hann kann það ennþá. Við sáum það síðast í landsleikjaglugganum þar sem Ronaldo skoraði tvö mörk, tryggði Portúgal sigur og varð um leið markahæsti karlkyns landsliðsmaður í fótbolta frá upphafi. Hann sýndi það líka með Juventus að hann kann enn að skora mörk. En verður þetta eins og þegar Zlatan kom, að þrátt fyrir að mörkin komi þá muni nærvera hans inni á vellinum ekki alltaf hafa góð áhrif á spilamennsku liðsins?
Svo er auðvitað fíll í herberginu.
Það ætti flest stuðningsfólk Manchester United, og áhugamanneskjur um knattspyrnu yfir höfuð, að vita af ásökunum um að Ronaldo hafi nauðgað konu á hóteli í Las Vegas árið 2009. Þýska tímaritið Der Spiegel, sem er þekkt fyrir vandaða rannsóknarblaðamennsku, fjallaði ítarlega um málið árið 2018. Umfjöllunin lítur, vægast sagt, ekki vel út fyrir Ronaldo.
Við í ritstjórn Rauðu djöflanna erum vel meðvitaðir um þessar ásakanir og að Kathryn Mayorga hefur höfðað einkamál á hendur Ronaldo í Bandaríkjunum sem enn er opið. Við vitum hreinlega ekki hvernig er best að tækla þetta í umfjöllunum okkar hér á síðunni um leiki hjá Manchester United. Þetta hefur sannarlega haft áhrif á okkur.
Það er ekki hægt að sleppa því að minnast á þetta núna. Að sama skapi munum við taka það fyrir þegar eitthvað nýtt gerist í málinu. En að öðru leyti erum við hér til að fjalla um fótbolta og Manchester United. Hver og einn af okkur sem skrifum hér á síðuna mun áfram sem hingað til hafa frjálsar hendur með hvernig það er gert.
Þorsteinn says
Ég er búinn að taka eftir umræðu hér og þar sem að fjallar um að Victor Lindelöf taki stöðuna hans Fred sem mér finnst eiginlega frábær hugmynd. Hann spilaði víst þessa stöðu í gamla daga og hefur sýnt takta bæði með okkur og sænska landsliðinu sem gera það miklu meira spennandi að henda honum inn en að setja Matic inn á.
Gylfi says
Nokkuð sammála Þorsteini þarna, gefa Victor Lindelöf tækifæri í stöðunni sem Fred hefur gert.
Því Lindelöf og Maguire hafa ekki haft þetta traust á hvorn annan, sem miðvarðapar þarf að hafa.
Maguire og Varane viðrast virka betur saman.
Og vs. Newcastle. Myndi ég vilja sjá Donny Van De Beek í stað Matic.
-Donny þarf nokkra leiki, ekki hægt að dæma hann eftir 1 leik, 20-30-45min leik hér og þar.
Cavani / Ronaldo sem fremsti maður í starting 11 ?? !!??.
– Cavani mun vinna vel bæði í sókn og vörn. Hvort hann sé betri að byrja eða koma inná í seinni hálfleik og djöflast í varnamönnunum. Erfitt að segja.
– Ronaldo byrjar, allt verður vitlaust á Old Trafford. Vinnur ekki varnarvinnu (frekar en fyrri daginn). En ávalt hætturlegur sóknarlega. Kemur inná kringum 50-60min. Og ALLT VERÐUR VITLAUST á Old Trafford. Og allir varnarmennirnar beina athyggli á Ronaldo.
Og Bruno/Pogba skorar sigurmarkið :)
Egill says
Ronaldo byrjar!!! Þvílíka stemningin!