Leikjatörnin sem nú stendur yfir er erfið, það var vitað og á morgun er risaleikur. Liverpool kemur á Old Trafford þar sem Orrustan um Ísland verður háð.
Umræðan undanfarið hefur ekki farið framhjá neinum en góður sigur á miðvikudaginn hefur aðeins dregið úr henni og í dag einbeitum við okkur að því að hugsa umleikinn á morgun. Leikurinn á miðvikudaginn sýndi að umfram allt er United lið Ole Gunnars Solskjær stemmingslið. Þegar gefur á bátinn og þarf að rífa upp stemminguna í alvöruleik þá gerist eitthvað sérstakt.
En á morgun kemur eitthvað skæðasta lið deildarinnar síðustu ára, lið sem vann fyrsta sigur Liverpool á Old Trafford í sjö ár í arfaslökum leik United í maí síðastliðnum. Það var samt fyrir tómum velli og Unitedliði sem var bara að bíða eftir úrslitaleik Evrópudeildarinnar. Við vonum að það hafi verið ástæður frekar en afsakanir.
Einn bjartasti punktur leiksins á miðvikudaginn var frammistaða Marcus Rashford. Hann er kominn til baka og í fyrsta skipti í langan tíma verkjalaus. Að auki vann Ronaldo meira til baka í leiknum en hann hefur gert hingað til. Sóknin hjá United er minnsta vandamálið ef eitthvað þá verður erfitt að velja sóknina því það eru of margir góðir um of fáar stöður.
Stóra vandamálið er eins og við vitum sama og lengi. Miðjan. McFred er besti kosturinn á tveggja manna miðju ef spila á gegn sterku liði og ekkert breytir því. Við viljum öll sjá betri miðjumann en Fred í þessari stöðu en hann er bara ekki til í hópnum hjá United. Þetta er og verður vandamál en leysist ekki nema keyptur sé nýr maður. Í millitíðinni þarf að velja það sem til er. Nú gæti svo farið að við höfum ekki einu sinni þennan kost á morgun þar sem Fred meiddist lítillega gegn Atalanta og ekki er ljóst hvort hann spilar á morgun.
Ef hann er heill er langlíklegast að liðið verði eins og gegn Atalanta
Í betri heimi væri Frábær Varnarmiðjumaður þarna í liðinu og þá væri auðveldara að velja Pogba. En, svona er þetta. Bruno Fernandes er líka tæpur og það yrði mjög fróðlegt, en ekki endilega gaman að sjá hvað yrði reynt til að skipa í það skarð. Einhver vilja örugglega sjá Donny van de Beek þar, en ofanritaður er ansi hræddur um að það yrði endanlegur punktur á ferli hans hjá United, sem hvort heldur er á ekki nema rúma tvo mánuði eftir.
Liverpoolvélin hikstaði aðeins þegar þeir gerðu jafntefli við Brentford og Manchester City en um síðustu helgi slátruðu þeir Watford 5-0 og unnu síðan Atlético í Madrid í Meistaradeildinni 3-2 í hörkuleik síðasta þriðjudag. Þeir hafa því að einu leyti verið að gera sama og United, fá á sig mörk samhliða því að skora mörkin. Það má því líta þannig á leikinn á morgun að það lið sem nái að þétta vörnina nægilega vel vinni leikinn.
Lið Liverpool er næsta öruggt:
Liverpool er í öðru sæti sem stendur, stigi á eftir Chelsea, United er fjórum stigum aftar. Það er hægt að segja að nóg sé eftir af deildinni en tap á morgun gerir bilið í toppliðin ansi langt. Að sama skapi myndi sigur á morgun breyta ansi miklu. Á meðan á reyndar Chelsea þrjú stig örugg gegn Norwich þó það séu meiðslavandræði þar á bæ, þannig að Liverpool þarf á þremur stigum að halda.
Þetta verður baráttuleikur á því er enginn vafi, en það er algerlega nauðsynlegt fyrir United að spila skynsamlega og gefa ekki færi á sér. Það hefur reynst þrautin þyngri undanfarið og stendur á þjálfarateyminu að sjá til þessa. Umræðan mun ella hefjast upp úr fimm á morgun enda byrjar leikurinn klukkan 15:30 að íslenskum tíma
Alli says
jæja þá er komið að því ekkert nema sigur kemur til greina annað ekki boðlegt.
Scaltastic says
E.t.v. óraunhæf tillaga, en ég myndi vilja sjá Pogba í tíunni í staðinn fyrir Bruno. Vissulega spilar þar inn í að Bruno er tæpur með meiðsli. Held líka að það væri tilvalið að nýta Pogba hærra upp á vellinum með bakið í markið. Svo er lágmarkskrafa að nautabaninn fái að djöflast í hálftíma a.m.k.
Alli says
hef verið að velta fyrir mér íþrótta spekingum á englandi graham gamli sounes var með pogba á heilanum á síðustu leiktíð núna er carra með ronaldo á heilanum hvað er í gangi með þessa gômlu púllara ég spyr.