Ole Gunnar Solskjær stóðst fyrsta prófið af þeim þremur sem að pressan hafði lagt fyrir hann. Sterkur sigur vannst á glötuðu Tottenham liði sem að tóku í gikkinn í dag – Nuno Espirito Santo rekinn. Arftaki hans verður að öllum líkindum Antonio Conte, en sá var þrálátlega orðaður við United í vikunni. Okkar ástkæri Norðmaður vonast til þess að fara ekki sömu leið og það væri sannarlega skref í rétta átt að ná í jákvæð úrslit gegn Atalanta, sem að er einmitt næsti andstæðingur Manchester United. Liðin mætast á morgun, 2. nóvember og hefst leikurinn kl. 20:00. Leikurinn fer fram á heimavelli Atalanta, Stadio di Bergamo (Gewiss Stadium).
Liðsfréttir
Það er óhætt að fullyrða að nýliðin vika hafi verið stormasöm fyrir klúbbinn. Kallað var eftir höfði Solskjær og á mánudaginn síðasta benti ekkert til þess að hann stýrði liðinu til sigurs gegn Tottenham. En talið er að réttur arftaki sé ekki á lausu sem stendur og því vilji stjórnin frekar halda Solskjær en að breyta til á miðju tímabili. Það er sjónarmið sem að auðvelt er að skilja, þó að það sé sannarlega stór hluti fólks sem ekki samþykkir það. Í öllu falli að þá var himinn og haf á milli vinnuframlags og skipulags liðsins á Tottenham Hotspur velli og þeim hörmungum sem að við urðum vitni að gegn Liverpool.
Í raun eru allir til taks hjá okkar mönnum ef frá er talinn Anthony Martial. Leikbann Paul Pogba er í Úrvalsdeildinni og hann er því klár í slaginn. Líklega stillir Solskjær þó upp keimlíku liði og byrjaði gegn Spurs. Þar fann hann stöðugleika varnarlega og þó að liðið hafi ekki vaðið í færum að þá átti liðið góðar skyndisóknir og pressaði á réttum augnablikum. Leikstíll Atalanta er líka opinn og beinskeyttur og því mikilvægt að skilja ekki eftir stór auð svæði á vellinum.
Fyrri hálfleikurinn gegn Atalanta var afleitur, en liðið kvittaði fyrir það í seinni hálfleik og vann 3-2 sigur. Paul Scholes átti svo dómsdagsspá eftir leik og sagði að liðinu yrði refsað gegn alvöru liði á borð við Liverpool eða City – það kom svo á daginn! Solskjær mun halda liðinu þéttu og sækja svo hratt þegar möguleikinn býðst. Spái því að Marcus Rashford komi inn fyrir Edinson Cavani, en Úrúgvæinn var frábær gegn Spurs um helgina og það væri gott að hann væri með ferska fætur gegn Manchester City.
Eins og áður segir að þá mun Solskjær spila þeim sem að hann treystir, svo að Donny van de Beek fær líklega fyrirliðabandið og Jadon Sancho tekur innköst, víti, aukaspyrnur og horn… eða ekki.
Uppfært: Victor Lindelöf ferðaðist ekki með liðinu til Ítalíu vegna meiðsla sem að hann hlaut á æfingu.
Líklegt byrjunarlið Manchester United:
Atalanta situr í 5. sæti Serie A deildarinnar með 19 stig eftir 11 leiki – jafn mörg stig og hinn geðgóði Jose Mourinho og lærisveinar hans hjá Roma hafa nælt í. Markahæsti leikmaður liðsins er kólumbíski framherjinn Duvan Zapata, en hann hefur skorað 6 mörk í öllum keppnum. Hjá Atalanta vantar til að mynda þýska landsliðsmanninn Robin Gosens, hægri bakvörðinn Hans Hateboer og sóknartengiliðinn Matteo Pessina.
Gosens og Hateboer skilja eftir sig stór skörð en báða vantaði í fyrri leik liðanna. Jafntefli eru ekki afleit úrslit á útivelli í Meistaradeildinni, en þetta er vængbrotið Atalanta lið sem að gefur færi á sér og United myndi fara langleiðina með að komast í útsláttarkeppnina ef að sigur ynnist á morgun. Stjóri liðsins er Gian Piero Gasperini.
Líklegt byrjunarlið Atalanta:
Áfram Manchester United!
Arni says
Að tottenham sé með meiri metnað en united er sorglegt við erum orðinn miðlungs klúbbur með eingan metnað