Þá er komið að því. Hádegisleikur á laugardegi og mótherjinn er býsna sterkur. Boðflennur morgundagsins eru nefnilega háværu nágrannarnir í Manchester City og Pep Guardiola. Leikurinn hefst kl. 12:30.
Það væri haugalygi að segja að bjartsýnin sé mikil hjá undirrituðum, en Ole Gunnar Solskjær hefur átt ágætu gengi að fagna gegn City síðan að hann tók við stjórnartaumunum árið 2018. Í þeim átta leikjum sem að Solskjær og Guardiola hafa mæst þá hefur Solskjær unnið fjórum sinnum, gert eitt jafntefli og tapað þrisvar.
Heimaleikur United gegn City á síðasta tímabili var drepleiðinlegt 0-0 jafntefli, þar sem að City lágu vel við höggi, en United nýtti sér það ekki og því fór sem fór. Stuttu síðar fóru lærisveinar Guardiola á mikið flug og pökkuðu að lokum deildinni saman.
Liðsfréttir og pælingar
Paul Pogba er í banni. Ekki mikill missir, ef mið er tekið af frammistöðunni gegn Atalanta. Hann hefði hvort eð er ekki byrjað þennan leik, þar sem að Solskjær mun 100% nota Fred og Scott McTominay. Fred hefur sér í lagi blómstrað í leikjum gegn Manchester City og vonandi verður engin breyting þar á. Brasilíumaðurinn átti magnaðan leik á Etihad á síðasta tímabili, þegar að við unnum góðan 0-2 sigur með mörkum frá Bruno Fernandes og Luke Shaw. Þá er Edinson Cavani einnig meiddur. Það er vont.
Verra er að Raphael Varane sé úr leik. Ole Gunnar Solskjær greindi frá því eftir leikinn gegn Atalanta að miðvörðurinn sterki yrði frá í 3-4 vikur. Það hefur sennilega ekki hjálpað Varane að vera ýtt inn í byrjunarliðið gegn Tottenham þegar hann var ekki búinn að ná sér að fullu. Þá sagði Solskjær á blaðamannafundi í dag að Victor Lindelöf væri tæpur, en útilokaði ekki þáttöku hans á morgun. Við masókistarnir hefðum þrælgaman að því að sjá Phil Jones og Eric Bailly byrja leikinn!
Ég talaði um það eftir leikinn í miðri viku að álíka spilamennska myndi skila okkur flengingu og ég stend við þá staðhæfingu. Eftir að hafa dottið úr leik í elsku Deildarbikarnum sínum og tapa svo 0-2 heima gegn Crystal Palace mun Guardiola leggja allt púður í jákvæð úrslit gegn okkur. Gegn City er okkur óhætt að stilla upp eins og gegn Spurs. Þéttir til baka, velja rétt augnablik til þess að pressa og sækja hratt á þá. Tölfræðin verður líklega í svipuðum dúr og í sigrinum gegn þeim á Etihad fyrir nokkrum mánuðum.
Það er líka bara í góðu lagi. Það er eitt að eiga í vandræðum með að stjórna leikjum og halda í boltann gegn Aston Villa og Everton, en svolítið annað að gefa eftir tíma á boltanum og þétta raðirnar gegn frábæru City liði. Taktíkin er líka þrautreynd og eins og áður segir – hefur gefið nokkuð góða raun gegn Guardiola. Vinstri bakvörðurinn Luke Shaw gæti dottið inn í þriggja manna miðvarðateymi með Harry Maguire og Alex Telles, ef að Lindelöf nær sér ekki fyrir leikinn á morgun. Shaw og Maguire hafa átt afar erfitt uppdráttar undanfarið, en ef einhverntímann var tilefni til þess að rífa sig upp af rassgatinu og mæta klárir, þá er það á morgun.
Þá myndi Alex Telles koma inn í vinstri vængbakvörð. Koma Telles gaf Shaw gott spark í afturendann á síðasta tímabili, þar liggur kannski stærsta framlag Brassans þar sem að Telles sjálfur hefur ekki sýnt mikið. Hann skoraði glæsilegt mark gegn Villarreal, en varnarlega er hann ekki frábær. Honum er vorkunn að fá kannski ekki mikinn spiltíma, en hefur ekki beinlínis gripið tækifærið með báðum höndum þegar hann fær að byrja. Á móti honum í hægri vængbakverði verður Aaron Wan-Bissaka. Hann hefur smellt Raheem Sterling í vasann sinn þegar þeir hafa mæst og vonandi heldur það bara áfram.
Það verður að teljast ansi líklegt að McFred kombóið verði djúpir á miðjunni. Fyrir framan þá verður svo Bruno Fernandes en Portúgalinn hefur verið gagnrýndur fyrir að skora ekki nóg að undanförnu. Líklega hefur koma Cristiano Ronaldo aðeins breytt áherslum Bruno, en ég tel það aðeins tímaspursmál hvenær hann finnur markaskóna að nýju.
Öruggastur með sæti sitt er Cristiano Ronaldo. Hann bjargaði okkur á Ítalíu og ef að United nær að skora mark eða mörk á morgun, þá er líklegt að sjöan eigi heiðurinn. Ég er nokkuð viss um að Edinson Cavani hefði verið félagi Ronaldo uppi á topp, en hann er meiddur og því skýt ég á að Marcus Rashford fái traustið.
Líklegt byrjunarlið Man Utd:
Andstæðingurinn
Hjá Manchester City er miðvörðurinn Aymeric Laporte í banni eftir að hafa fengið reisupassann í tapleiknum gegn Crystal Palace. Þá er Kyle Walker tæpur, en Guardiola vonast þó til þess að geta notað hann á morgun. Spænski vængmaðurinn Ferran Torres er svo frá fram yfir áramót.
Gengi City að undanförnu er ágætt, en þeir eru særðir eftir að hafa dottið úr Deildarbikarnum, sem hafði verið í eigu liðsins síðastliðin fjögur tímabil. Svo stráðu Patrick Vieira og Crystal Palace salti í sárin með fræknum sigri á Etihad um síðustu helgi. Þar fyrir utan hafa vandræðin verið lítil eftir síðasta landsleikjahlé.
Guardiola er oft óútreiknanlegur hvað byrjunarlið varðar, sem að er Fantasy spilurum til mikils ama. Hann mun þó að öllum líkindum byrja með 11 leikmenn inná og allavega einn í markinu. Phil Foden hefur farið vel af stað á tímabilinu og byrjaði síðasta leik sem framherji, eða fölsk nía. Ég tel nær 100% að hann byrji þennan leik, en hann hefur ekki komist á blað hingað til gegn okkur. Líkt og Bruno, hefur Kevin de Bruyne verið gagnrýndur nokkuð undanfarið en Belginn hefur oft spilað betur. Hann er þó ávallt stórhættulegt vopn að eiga, þar sem að fyrirgjafir hans og yfirsýn eru í heimsklassa.
Ef að Pep vill ekki sjá Wan-Bissaka stöðva Raheem Sterling, þá getur hann leitað til Jack Grealish. Hann hefur ekki farið neitt sérstaklega vel af stað með City eftir frábær tímabil með Aston Villa, en líkt og með de Bruyne þá er kantmaðurinn með ofurkálfana stórhættulegur þegar hann kemst á ferðina.
Líklegt byrjunarlið Man City:
Spá
Pressan er gríðarleg á Ole Gunnar Solskjær. Umræðan er á þann veg að ef að leikurinn fer illa fyrir United, þá kveður Norðmaðurinn Old Trafford. Hann finnur fyrir þessari pressu, þó að hann gefi lítið fyrir hana á blaðamannafundum og í viðtölum. Með bakið upp við vegg hefur Ole fundið taktinn áður og ég spái því að United vinni þennan leik 2-1. Ronaldo og Bruno Fernandes skora okkar mörk, en Eric Bailly skorar sjálfsmark fyrir gestina.
Áfram Manchester United!
Skildu eftir svar